Markaðsstjórinn okkar, Þóranna K. Jónsdóttir, var í viðtali í hlaðvarpinu hjá Óla Jóns nýverið þar sem hún talar m.a. um starfið hjá SVÞ, stafrænu málin, hugarfar og fleira áhugavert.
Hlustaðu á hlaðvarpið hér á vefnum jons.is eða í spilaranum hér fyrir neðan:
Félagsmönnum í SVÞ, SAF og SI bjóðast nú sérkjör, 50% afsláttur af námsbraut Markaðsakademíunnar sem kennd er á netinu: Stafræn hraðbraut – viðskipti á netinu.
Þekking og færni í stafrænni markaðssetningu er lykilatriði í að ná árangri í verslun og þjónustu. Covid-19 mun auka veltu netverslana geysilega mikið sem mun að jafnframt hafa mikil áhrif á kauphegðun að loknum hamförunum.
Öll fyrirtæki verða því að koma sér upp þekkingu og færni í sölu og markaðssetningu á netinu, tíminn til að byrja er núna!
Stafræn hraðbraut fyrir viðskipti á netinu samanstendur af sex áföngum í fjarnámi sem þátttakendur hafa 12 mánuði til að klára. Þátttakendur læra í gegnum netið og þeir geta lært hvar og hvenær sem þeim hentar.
Áfangarnir eru:
Markaðsstarf í Kreppu: Grunnatriði í markaðsstarfi á óvissutímum. Námskeiðið kennir greiningu, stefnumótun og samsetningu aðgerðaráætlunar. Þátttakendur læra að bregðast við breytingum á markaði með réttu boði, fyrir réttan hóp, á réttum tíma og á réttu verði.
Vefverslun & Shopify: Á námskeiðinu læra þátttakendur að hanna og setja upp vefverslun með vinsælasta vefverslunarkerfi heims, Shopify. Farið er skref fyrir skref yfir það hvernig vefverslun er uppsett, og hvernig kerfið virkar.
Auglýsingakerfi Facebook og Instagram: Þátttakendur öðlast hagnýta þekkingu á að beita tæknilegum auglýsingaaðferðum og djúpan skilning á öllum þeim eiginleikum og kostum sem auglýsingakerfi Facebook býður uppá.
Auglýsingakerfi Google og Youtube: Námskeiðið kennir þátttakendum að ná góðum tökum á auglýsingakerfi Google: leitarorðum, vefborðum og myndbandsauglýsingum á Youtube. Ennfremur að skilja og nýta tölfræðina sem auglýsingakerfið býður uppá svo ná megi hámarks árangri.
Myndvinnsla með Photoshop: Námskeiðið kennir þátttakendum að vinna myndir og myndvinnslu. Sérstök áhersla er á að hjálpa starfsfólki fyrirtækja að verða sjálfbært í einfaldari hönnunarverkefnum eins og fyrir vefi, samfélagsmiðla og Google og Facebook auglýsingar. Slík þekking og færni getur sparað fyrirtækjum háar fjárhæðir á ári og gert fyrirtækjum kleift að setja meiri kraft í markaðssókn með fjölbreyttara markaðsefni. Þetta sparar fyrirtækjum háar fjárhæðir með því að geta gert einfalda myndvinnslu án aðkomu hönnuða.
Tölvupóstar í markaðsstarfi: Lærðu að ná hámarksárangri í samskiptum við neytendur með tölvupóstum. Ennfremur að ná tökum á sjálfvirknivæddum tölvupóstsamskiptum til að auka sölu.
Jón Ólafur Halldórsson var gestur Jóns G. á Hringbraut þann 18. mars þar sem hann ræddi ástandið í atvinnulífinu á tímum COVID19, aðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans, stöðuna í versluninni, mikilvægi stafrænnar þróunar – ekki síst í þessu samhengi, olíuverð og sameiningarkraft þjóðarinnar. Hér fyrir neðan má lesa viðtalið (ath. ekki alveg orðrétt) og horfa á viðtalið sem hefst ca. 8 mínútur og 45 sekúndur inn í þáttinn:
Mig langar að byrja á því að koma á framfæri þökkum til Samhæfingarnefndar almannavarna fyrir fumlaus og frábær viðbrögð við þessari aðstöðu sem er komin upp og við glímum við. Manni er mikið þakklæti í huga því þetta færir manni ákveðna ró og okkur öllum vonandi í samfélaginu.
Það er mjög mikilvægt [að allir standi saman] og mér hefur sýnst á flestu sem ég hef séð að það hafi verið samstillt og góð viðbrögð allra í atvinnulífinu þannig að menn eru með sínar aðgerðaáætlanir en fyrst og fremst er að fara að tilmælum samhæfingarnefndarinnar sem mér sýnist meira og minna allir vera að gera. Huga að sjálfum sér og að hvort öðru.
Það blasir við verkefnaskortur [hjá fyrirtækjum]. Ég er líka mjög ánægður með hvernig ríkisstjórnin stígur fram með sitt aðgerðaplan. Vissulega á eftir að útfæra mikið af því, en stóra málið er að þetta séu heildstæðar aðgerðir sem snúa að öllu atvinnulífinu. Vissulega hefur ferðaþjónustan fengið fyrsta höggið en það eru margar aðra greinar sem eru samofnar ferðaþjónustunni og þurfa svo sannarlega, og munu svo sannarlega þurfa á stuðningi að halda þegar fram í sækir og þess vegna verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta mun spilast En aðalmálið núna er að það þarf að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi, verja störfin í landinu, og það er það sem er lykilatriði núna. Forðast mikið atvinnuleysi.
[Það þarf einhvern veginn að skoða greiðslustöðu einstaklinga og fyrirtækja] Já, ríkisstjórnin er líka að leggja sitt af mörkum í þessu með því t.d. að blása lífi í bankana, að gera þeim auðveldara fyrir að fylgja eftir fyrirtækjum og einstaklingum og ég held að það sé einmitt mikil þörf á að það verði samhæfðar aðgerðir. Fyrirtæki geti búist við því að það verði skilningur á aðstæðum og mögulega lengt í lánum eða hvernig sem það nú er. Og ríkið kemur þá líka að þessu með sínar aðgerðir sem gætu verið að fresta skattgreiðslum eða með einhverju slíku. Þannig að það skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum sjó núna næstu mánuði. Við vitum ekki nákvæmlega hvað þetta tekur langan tíma, en það að koma í veg fyrir atvinnuleysi, að fyrirtækin nái að lifa þessa erfiðu tíma, skiptir bara öllu máli um þessar mundir.
[Að segja upp fólki tekur þrjá mánuði og þá kannski er kúfurinn, eða skaflinn, að baki] Já, það leysir kannski ekki málin nema einhvern stuttan tíma að ráðast í slíkar aðgerðir en mér finnst almennt séð fyrirtæki vera að sýna mikla ábyrgð, reyna að verja störfin, og síðan þetta útspil ríkisstjórnarinnar og atvinnulífsins, og reyndar verkalýðsforystunnar, um það hvernig við ætlum að taka á málum núna, annars vegar þegar fólk situr í sóttkví, og síðan í framhaldinu hvernig atvinnutryggingasjóður mun koma að málum með atvinnulífinu, að fólk haldi launum. Því það versta sem gæti komið fyrir okkur núna er ef einkaneyslan dregst mikið saman, því það er ekki margt sem er að knýja hagvöxtinn áfram í dag eins og við þekkjum.
[Hvernig er staðan í versluninni, er nóg til af birgðum og vörum í landinu?] Já, það er nóg til af öllu og það er ástæða til að hvetja til varkárni í öllu og ég held að það sé ekki nein ástæða fyrir fólk að fara í þetta hamstur eins og við sáum í síðustu viku. Það er nóg til, hvort sem það eru matvæli eða lyf, það er tryggt. Þannig að ég held að ef við bara sýnum smá hyggjuvit í þessu, förum okkur hægt, og gerum okkur grein fyrir því að þegar við erum að hamstra þá erum við að taka eitthvað frá öðrum og ganga bara hægt um í þessu, af skynsemi. Og það er líka mikið álag sem fylgir þessu í verslunum og ég held að með því að sýna bara ró og skynsemi þá eigum við að geta farið í gegnum þetta.
Það sem er hinsvegar alvarlegt núna er að við sjáum það að verslunin er að dragast saman almennt. Við vitum af því að t.d. inni í verslunarmiðstöðvum er u.þ.b. 40% minna af traffík nú þegar og við höfum heyrt af því að samdráttur í fataverslun sé allt að 80%. Þannig að þetta eru vissulega erfiðir tímar og það eru þrengingar í verslun og þjónustu núna. Og ég hef líka velt fyrir mér, þegar maður hugsar um veikingu á krónunni, sem dæmi, að þetta getur þýtt það að verðlagið muni hækka og þá kemur þrýstingur á þetta sem náðist þó að koma böndum á í lífskjarasamningnum, að halda aftur af verðbólgunni, lækka vexti og hafa kaupmáttinn.
[Vefverslun hefur blómstrað sem aldrei fyrr] Já, vefverslunin hefur verið að styrkjast hér á landi undanfarin misseri sérstaklega og við sjáum það að þau fyrirtæki sem riðu á vaðið með matvöruna, þau eru sjálfsagt að uppskera akkúra núna í þessum töluðu orðum. Og ég held að hefðbundin verslun þurfi að sjálfsögðu, bara almennt séð, að finna út þetta samspil hefðbundinnar verslunar og vefverslunar því að það er það sem er að koma, og þess vegna þessi ráðstefna okkar um daginn um stafræna þróun og og framtíð, þar einmitt kristallast svo vel hver áskorunin er í rauninni.
[Erum við eitthvað aðeins á eftir í upplýsingatækni?] Já, rannsóknir, bæði innlendar og það sem við höfum séð erlendis, á því sem hér er að gerast benda til þess að við höfum dregist heldur aftur úr þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við og það þarf að taka á þessu. Mér finnst nú ráðamenn þjóðarinnar, sem koma að málum með okkur, þeir hafa alveg góðan skilning á þessu. Það er búið að, t.d. að ráða stafrænan leiðtoga inn í stjórnarráðið sem dæmi, þannig að það er vel og stjórnarráðið sjálft er að stíga fram, og það er vel. Og ef að þeirra aðgerðir næstu 3-5 árin ganga eftir þá mun kostnaður ríkisins lækka um 10 milljarða bara af því að menn fara þessa stafrænu vegferð. Og það er þetta sem við erum að segja að atvinnulífið, stjórnvöld og háskólasamfélagið þurfi að gera, við þurfum svolítið að ráðast í það saman að móta einhverja stefnu, eins og nágrannaþjóðirnar hafa gert, finna einhvern vettvang, þar sem við munum búa til stefnuna og eftir það er miklu auðveldara fyrir okkur að vinna okkur í haginn fyrir framtíðina.
[Hráolía hefur verið að lækka á heimsmörkuðum. Færri ferðalög þýðir minni tekjur á bensínstöðvum. Hvernig sérðu það högg fyrir þér?] Við finnum fyrir þessu, eins og bara öll fyrirtæki í landinu. Við erum nátengd ferðaþjónustunni, þannig að við merkjum þetta mjög vel. Og það er allt rétt sem þú segir. Auðvitað er þó jákvætt í þessu að olíuverð lækkar, það minnkar verðbólguþrýstinginn sem við erum kannski að horfast í augu við að einhverju leyti í dag. En það er alveg rétt, það er keyrt minna, það eru færri á ferðinni í dag, og við sjáum það alveg klárlega að þetta mun rífa í hjá okkur sem og annarri verslun í landinu. Þannig að ég er ekki að segja að ég sé kvíðinn, einhvern tímann rís þetta nú allt aftur, og ég geri nú ráð fyrir því að olíuverð muni nú hækka sosum aftur, þetta er takmörkuð auðlind sem hefur þá tilhneigingu að hækka.
[Það er svolítill sameiningarkraftur í þjóðinni þessa dagana, er það ekki?] Jú, ég tek undir þetta. Mér finnst ég finna fyrir mikilli samkennd. Mér finnst alveg til fyrirmyndar að sjá hvernig starfsfólk tekur þessu almennt af ró og yfirvegun. Það skiptir gríðarlega miklu máli, að sýna einmitt þessa miklu yfirvegun þegar kemur að þessu ástandi. Ég get vel skilið að fólk beri kvíða í brjósti fyrir ástandinu og þetta er mikill vágestur sem er í okkar samfélagi og herjar á heimsbyggðina alla en mér finnst ég samt á þessum tíma finna fyrir því að það er samstaða og að við Íslendingar erum alveg meistarar í því að fara í gegnum krísur. Við höfum séð það.
Hér fyrir neðan má horfa á ávarp ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, á ráðstefnu SVÞ, Kveikjum á okkur! – um stafræna tækni og nýtt hugarfar, sem fram fór þann 12. mars 2020.
Við erum sérstaklega ánægð með frábærar undirtektir ráðherra við tillögum samtakanna í stafrænum málum og hlökkum til að taka verkefnið áfram með Þórdís og hennar fólki, háskólasamfélaginu og fleirum á næstu vikum, mánuðum og árum.
„Forráðamenn SVÞ heimsóttu mig ekki fyrir löngu og lögðu fram vel útfærða hvatningu til stjórnvalda, hvatningu um stefnumótun og aðgerðir í stafrænum málum. Og það þurfti ekki langar samræður til að leiða í ljós að kjarninn í þeirri hvatningu fer fullkomlega saman við þær áherslur sem að nýsköpunarstefnan byggir á.“
„Ég hlakka til að taka höndum saman með SVÞ til að nýta þau tækifæri sem felast í nýrri tækni. Tillögur ykkar og áherslur liggja fyrir og ég er bæði jákvæð fyrir þeim, og ég þakka fyrir þá vinnu sem þið hafið lagt af mörkum við að móta þær, og ég mun gera mitt til þess að hrinda þeim í framkvæmd. Ég held að við getum lagst á eitt til að tryggja að íslensk verslun og þjónusta standist þær áskoranir sem framtíðin leggur fyrir okkur.“
Hér fyrir neðan má horfa á og lesa ávarp Jóns Ólafs Halldórssonar, forstjóra Olíuverzlunar Íslands og formanns SVÞ á ráðstefnu SVÞ, Kveikjum á okkur! – um stafræna tækni og nýtt hugarfar sem fram fór þann 12. mars 2020.
Kæru áhorfendur!
Samtök verslunar og þjónustu hafa hamrað á nauðsyn þess að allir kveiki á því að framundan sé stafræn umbreyting sem fyrirtæki þurfi að ná tökum á ætli þau sér framhaldslíf. Það er því við hæfi í sjálfu sér að ráðstefna um stafræna tækni og nýtt hugarfar sé send út á netinu. Sú staðreynd að það skuli gert án ráðstefnugesta, eins og knattspyrnuleikur á Ítalíu án stuðningsmanna, er sannarlega dapurleg. En stjórnendur íslenskra fyrirtækja vilja leggja sitt að mörkum til þess að takmarka útbreiðslu kórónaveirunnar og kæra sig ekki um að tefla heilsu starfsfólks síns í tvísýnu.
Ég tel að heilbrigðisyfirvöld séu að standa sig vel í sóttvörnum. Við gerum réttast í að fylgja fyrirmælum þeirra. Faraldur af því tagi sem nú geisar mun ganga yfir en taka verður á málum af raunsæi og yfirvegun. Jafnvel þótt takist að hefta útbreiðsluna í byrjun er alltaf hætta á að pestin blossi upp að nýju. Þessvegna er framlag Íslenskrar erfðagreiningar til þess fallið að auka þekkingu á því við hvað er að fást. Virk þátttaka hvers og eins okkar í sóttvörnum, hvar á vettvangi sem við stöndum, er besta tryggingin fyrir því að vel fari.
Ég hef verið að hugsa um það uppá síðkastið að kannski hafi landsmenn aldrei verið jafn vel í stakk búnir til þess að mæta vetrarhörkum, efnahagslægð, áföllum og pest eins og nú. Staðan var að minnsta kosti önnur á tímum Íslandsklukkunnar: Þegar bólan mikla kom í landið voru þrjátíu ár síðan síðasta bóla hafði geisað og fimmtíu síðan næst næsta bóla var. „Bólan sigldi í kjölfar sultarins“, segir Arnas Arnæus í bókinni: „Landið var illa tygjað að mæta pest“.
Nú er öldin önnur. Auðvitað reynir á þegar hvert hretið eltir annað og veikleikar í viðbúnaði og innviðum verða augljósir. En þekkingin og úrræðin eru fyrir hendi og staða þjóðarbús, ríkissjóðs, fyrirtækja og samtaka til viðbragða er þrátt fyrir allt sterk.
Þegar sóttkví og einangrun, takmörkun á samskiptum og snertingum, appelsínugular viðvaranir á veðurkortum og tafir og lokanir í samgöngum eru orðnar okkar daglega brauð finnum við strax fyrir hömlum og innilokun. En um leið vaknar frelsisþráin og feginleikinn verður allsráðandi þegar aftur kemur vor í dal og frelsi til að faðmast og snertast. Á tímum sem þessum verður okkur ljóst í einni sjónhending hve frelsi til samgangna, samskipta og viðskipta landa í milli er dýrmætt. Fyrir eylandið Ísland og Íslendinga er viðskiptafrelsi lífshagsmunamál eins og Íslandsklukka Laxness minnir okkur sannarlega á.
Í vetrarlægðunum sem gengið hafa yfir frá því fyrir síðustu áramót höfum við sem fylgjumst með veðurfréttum lært hvað áhlaðandi er: Sterkir vindar þrýsta á yfirborð sjávar á lágþrýstisvæði. Öldurnar hrannast því upp fyrir venjulega sjávarhæð og geta valdið flóðum. Þetta er eins og lýsing á þeirri efnahagslægð sem nú er við að glíma. Hver áhlaðandinn af öðrum tekur við, stórviðri, snjóflóð, vandræði í flugrekstri, samdráttur í ferðaþjónustu, loðnubrestur, veirusýking frá Kína og verðfall í kauphöllum. Efnahagslægðin gæti verið að snúast í alþjóðlega kreppu á við þá sem við upplifðum 2008.
Við getum fagnað því að þjóðarbúið stendur vel og hefur burði til að mæta áföllum. Eignir þess eru meiri en erlendar skuldir, ríkið er lítið skuldsett og gjaldeyrisforði er ríkulegur.
Stjórnun á erfiðleikatímum felst ekki í að velja milli góðs og ills, heldur að koma í veg fyrir að hið vonda verði verra. Ríkisstjórnin hefur þegar kynnt áform um aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir greiðsluþrot í atvinnulífinu á næstu mánuðum og vinna gegn undirliggjandi efnhagslægð með örvun atvinnulífs og fjárfestingu í innviðum til lengri tíma.
Svigrúm til þess að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum; tímabundið afnám gistináttagjalds; ráðstafanir til þess að auka eftirspurn með skattabreytingum og félagslegum millifærslum; þriðjungsaukning á framkvæmdum hins opinbera og markaðsátak innanlands og utan í ferðaþjónustu – allt er þetta jákvætt og til bóta. Þessi upphafsskref stjórnvalda sýna vel alvöru málsins enda blasir tekjufall og stöðvun fjárstreymis víða við fyrirtækjum í þjónustugeiranum, sérstaklega í ferðaþjónustu. En ástæða er til þess að vekja athygli á því að flestar af þessum aðgerðum eru óútfærðar og aðrar kalla á lagabreytingar. Miklu skiptir því að markvisst sé unnið í framhaldinu og lífvænlegum fyrirtækjum í lausafjárvanda verði fleytt áfram gegnum erfiða tíma í samvinnu við fjármálastofnanir.
Seðlabankinn hefur brugðist við kólnun hagkerfisins með myndarlegri vaxtalækkun. Boðaðar breytingar hans á bindiskyldu stuðla að því að rýmka lausafjárstöðu viðskiptabankanna. Vonandi munu áframhaldandi vaxtalækkanir, sem góðu heilli er enn svigrúm fyrir, og aðgerðir Seðlabanka og ríkisstjórnar til þess að slaka á taumhaldi peningamálastefnunnar skila einhverjum árangri. Svo gripið sé til orðfæris úr hestamennsku þá er „slaktaumatölt“ af hálfu Seðlabankans þó ekki einhlítt. Ástæða er til þess að vara við snarpri gengislækkun að undanförnu í kjölfar minnkandi eftirspurnar. Hún gæti leitt til verðbólguþrýstings komi ekki til inngripa. Veiking krónunnar leiðir til hækkunar verðlags og er ávísun á erfiðleika í verslun og þjónustu.
Því má svo heldur ekki gleyma að bankar eru enn heftir með sérstökum bankasköttum og eiginfjárkröfum sem eiga alls ekki við lengur. Við ríkjandi aðstæður virka þær viðjar eins og einn áhlaðandinn enn sem dýpkar efnahagslægðina og ætti að vera stjórnvöldum appelsínugul viðvörun og hvatning til að hugsa málin upp á nýtt.
Hér þarf að hugsa stórt og láta ekki telja úr sér kjarkinn við að beita ríkisfjármálum og peningastefnu af krafti. Nú þarf verulega innspýtingu í efnahagslífið til þess að koma í veg fyrir að efnahagslægðin breytist í langvarandi kreppu. Hugsa þarf málin út frá atvinnulífinu í heild og þar gæti tímabundin eða helst af öllu varanleg lækkun tryggingargjalds reynst traust viðspyrna til nýrrar uppsveiflu.
Það vakti bjartsýni um að hægt yrði að treysta góða stöðu þjóðarbúsins til næstu ára að lífskjarasamningar í fyrravor gáfu fyrirheit um skynsamlega launaþróun. Meginlínurnar sem þar voru dregnar verða að halda. Samningurinn styður við það sameiginlega markmið þjóðfélagsins að lyfta tekjulágum upp á við. Við vonum enn að niðurstaða kjarasamninga verði sú að ekki komi til svokallaðs höfrungahlaups upp alla launastiga eins og við þekkjum frá verðbólgutímum fyrri tíðar og ævinlega komu launafólki illa.
En í þessu sambandi er vert að minna á það höfrungahlaup sem hefur verið í gangi með víxlhækkun fasteignaskatta og fasteignamats. Fasteignaskattar á fyrirtæki hafa tvöfaldast frá því 2016 þegar Þjóðskrá breytti grundvelli útreikninga með einu pennastriki. Íslensk fyrirtæki greiða tvöfalt hærri fasteignaskatta en tíðkast annarsstaðar á Norðurlöndum. Og vísbendingar eru um að síhækkandi tekjur af fasteignasköttum séu orðnar hluti af útgjaldaforsendum sveitarstjórna. Þetta sérstaka höfrungahlaup endar hvergi nema hjá almenningi með húsnæðiskostnaði sem aftur er ein helsta ástæðan fyrir vanda láglaunafólks. Reykjavíkurborg veit upp á sig skömmina í þessum efnum en þykjist enga ábyrgð bera. Þarna þarf nauðsynlega að stíga inn og leiðrétta fasteignaskatta á fyrirtæki með varanlegum hætti til þess að treysta kjarasamninga og stöðugleika.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, sem flytur ávarp hér á eftir, er sá ráðherra sem í skrifum sínum og verkum hefur hvað mest hugann við framtíðina með athyglisverðum hætti. Einföldun og fækkun reglugerða í stjórnkerfinu sem hún hefur staðið fyrir er þarfaverk enda taka stjórnvöld alltof mikinn tíma frá stjórnendum í atvinnulífinu með íþyngjandi regluverki og álögum. Orka stjórnenda og starfsmanna fer í auknum mæli í að takast á við skrifræðið sem því fylgir og það kemur niður á fókus og framleiðni. Það er mikilvægt að minnka stjórnsýslubyrði íslenskra fyrirtækja. Stjórnsýslan ætti að einbeita sér að stefnumótun og gera sér far um að styðja við verðmætasköpun og athafnasvigrúm atvinnulífsins með þjónustu og leiðbeiningum í stað boða og banna.
Við vörum sérstaklega við því að sú innspýting sem nú er boðuð í efnahagslífið verði til þess að auka ríkisumsvif. Nýlega var frá því sagt að opinberum störfum hefði fjölgað um 6000 á sama tíma og þeim hefur fækkað um 5000 í almennu atvinnulífi. Það er orðið verulegt umhugsunarefni hvort hið opinbera sé ekki farið að færast of mikið í fang. Reglulega heyrast dæmi af starfsmönnum sem opinberar stofnanir sækja til einkageirans. Jafnvel svo að það minnir á bankana fyrir hrun. Slík ruðningsáhrif ættu síst af öllu að vera keppikefli hins opinbera. Úrlausn fjölmargra verkefna í samfélaginu á heima á vettvangi atvinnulífins og þarf ekki að vera á borði stjórnsýslunnar. Það hlýtur að vera stefnan að almennt atvinnulíf sé leiðandi í atvinnusköpun, sem þróun launa og lífskjara.
Hér á árum áður var gengið fellt þegar efnahagsleg áföll riðu yfir og samkeppnishæfni landsins leiðrétt með þeim hætti. Nú sjáum við að þessi leiðrétting á sér aðallega stað í gegnum vinnumarkaðinn með auknu atvinnuleysi og fækkun starfa. Fyrirtæki lækka rekstrarkostnað með innleiðingu nýrrar tækni og minna húsnæði. Og þau flytja til útlanda störf sem hægt er að vinna annarsstaðar. Það sem við blasir er vaxandi atvinnuleysi.
Erlent vinnuafl hefur reynst atvinnulífi og hagvexti á Íslandi afar mikilvægt. Nú þegar harðnar á dalnum er erlent starfsfólk oft á tíðum fyrst til þess að missa vinnuna. Það er afar mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulífið vinni saman að því að treysta stöðu þessa fólks, efla það og styrkja. Menntakerfið og við sem hér búum þurfum að taka utan um hópinn og virkja hann. Á sama tíma og við ætlumst til þess að erlendir íbúar aðlagist íslenskri menningu, þurfum við, sem eigum rætur á Íslandi, að laga okkur að þeirri staðreynd að við þurfum á þeim að halda.
Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust í síðasta lagi árið 2040. Þar með er ekki öll saga sögð en að dómi okkar í stjórn SVÞ er það nóg til þess að segja: Ekki er eftir neinu að bíða. Samtök okkar hafa sjálf sett sér umhverfisstefnu um innra og ytra starf og hafa metnað til að framfylgja henni og hvetja aðildarfélög til dáða. Um leið á atvinnulífið sjálft að stuðla með eigin frumkvæði að nýsköpun, sjálfbærri framþróun og grænum lausnum. Í nýsköpuninni felst einmitt lykillinn að lausnum í umhverfismálum sem að miklu leyti finnst á hönnunarstiginu.
Við sem fáumst við verslun og þjónustu tölum þessa dagana oft um viðfangsefni okkar sem ferðalag. Við tölum mikið um stafrænt ferðalag eða vegferð og prédikum nauðsyn þess að kveikja strax á perunni svo við sitjum ekki eftir í vetrarmyrkrinu. Og nú nýverið var á vegum SVÞ fjallað um skráningu notendaupplifunar sem skoðunarferð. Þetta er ekki slæmt líkingamál því ferðalagi tengjast yfirleitt jákvæðar væntingar en einnig spenna og jafnvel kvíði frammi fyrir hinu óvænta og óþekkta.
Nú þegar tilvera okkar er fyrst og fremst stafrænt ferðalag er það happafengur fyrir samtökin að fá Nick Jankel sem fyrirlesara. Hann kennir að með því að stilla saman hug, hönd og hjarta getum við óhrædd gengið til móts við mestu breytingatíma okkar sögu og slegið í gegn. Hann leitar í lífs- og heimsspeki, ekki síður en í raunvísindi og sálarfræði, að leið til þess að geta verið með æðrulausu hugarfari sem er í senn skapandi og upplífgandi frammi fyrir breytingum. Ég veit að hann mun kveikja á okkur í fyrirlestri sínum hér á eftir sem hann flytur frá London.
Viðskiptaumhverfi er í auknum mæli alþjóðlegt og möguleikar íslenskra neytenda til að leita bestu kjara hverju sinni hafa aldrei verið meiri. Alþjóðlegir verslunarrisar á borð við Amazon, AliExpress, Asos o.fl. hafa í því ljósi nær takmarkalausan aðgang að íslensku verslunarsvæði án þess að setja nokkru sinni upp starfsstöð á landinu eða gefa markaðnum í raun mikinn gaum út af fyrir sig. Alþjóðlegu risarnir njóta ekki einvörðungu mikillar stærðarhagkvæmni í rekstri heldur leiða þeir þróun viðskiptahátta á netinu.
Fyrirtæki sem teljast stór á íslenskan mælikvarða eiga erfitt með að keppa við slíka risa og hvað þá lítil og meðalstór fyrirtæki. Birtingarmynd netvæðingar er m.a. sú að lítil íslensk verslunarfyrirtæki á innanlandsmarkaði standa í harðri samkeppni við alþjóðlega verslunarrisa sem hafa yfir að búa starfsmannafjölda sem nemur næstum tvöföldum fjölda íbúa á Íslandi og starfsfólki sem býr yfir bestu mögulegu tækniþekkingu og þekkingu á neytendahegðun.
Þegar veraldarvefurinn var í þróun þótti hann einstakt dæmi um aukið upplýsingafrelsi og takmarkalausa þekkingarleit. Nú höfum við með almennri þátttöku okkar á vefnum – og í gegnum snjalltækin – veitt alþjóðlegum risafyrirtækjum aðgang að persónulegum upplýsingum okkar sem þau selja og nýta í markaðssetningu og söluaðgerðum. Mótað hefur verið nýtt fræðihugtak, „Eftirlitskapítalismi“, um þetta fyrirbæri þar sem risarnir vita allt um þig og mig en þú og ég vitum lítið sem ekkert hvernig verið er að höndla með persónuupplýsingar okkar. Þarna er á ferðinni misvægi sem er ógeðfellt og sætir æ meiri gagnrýni.
Í raun eru öll íslensk fyrirtæki, hvort sem þau teljast stór eða lítil á íslenskan mælikvarða, að keppa við Amazon, Aliexpress og Azos. „Þau verða að finna leið til að keppa við alþjóðlegu risana“, sagði Andrés, framkvæmdastóri okkar, í grein nýlega.
Risar hafa fyrr ógnað í veraldarsögunni og sagan af Davíð og Golíat, sem við fengum að kynnast í skóla, er lærdómsrík í því sambandi. Þótt enginn í her Sáls hefði í 40 daga þorað að mæta Golíat gekk drengurinn Davíð óhræddur til móts við hann án herklæða eða venjulegs vopnabúnaðar. Þótt ólíklegt væri þá bjó hann að þekkingu, færni og reynslu af því að fást við ljón og úlfa þar sem hann gætti hjarðar föður síns. Með einfaldri slöngvu sem hann tók úr smalatösku sinni sendi hann stein mitt í enni Golíats, þannig að risinn féll í fyrsta kasti.
Í þessari klassísku dæmisögu felst sá lærdómur að þegar bregðast þarf við utanaðkomandi ógn er þekking, færni og reynsla það sem helst dugar.
Stafræn þróun er líklega stærsta umbreytingaverkefni sem íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir. Um leið og ör tækniþróun skapar gríðarleg tækifæri leiðir hún til kapphlaups sem fyrirtæki einfaldlega verða að taka þátt í. Vísbendingar eru um að íslensk fyrirtæki séu að dragast aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur almennt saman við þegar kemur að hagnýtingu stafrænnar tækni. Að mati SVÞ er veruleg þörf á skjótum, öflugum og markvissum aðgerðum til að efla stafræna færni í íslensku atvinnulífi og samfélagi í heild.
Stjórn SVÞ hefur lagt höfuðáherslu á að greina þessa stöðu og benda á leiðir til þess að snúa vörn í sókn. Stjórnin gekk á fund ráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu 19. febrúar sl. og hvatti stjórnvöld til stefnumótunar og aðgerða í stafrænum málum. Við leggjum til að komið verði á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda, atvinnulífs og háskólasamfélags um stuðning við stafræna þróun íslenskra fyrirtækja. Stafrænt þekkingarsetur verði þungmiðja í þessu samstarfi líkt og þekkt er í Danmörku og Svíþjóð.
Við teljum að það sé ekki síst mikilvægt að styrkja íslenska verslun og þjónustu í harðri samkeppni greinarinnar við erlenda risa. Og hingað til hafa stjórnvöld ekki mótað stefnu í stafrænum málum fyrir íslenskt atvinnulíf í heild sinn Þau gera sér þó að sjálfsögðu grein fyrir mikilvægi stafrænnar þróunar Ráðning Andra Heiðars Kristinssonar í nýja stöðu stafræns leiðtoga í stjórnarráðinu er meðal annars til vitnis um það. Við erum svo heppin að Andri Heiðar kemur að málum hér í dag.
Ég tel að íslensk verslun og þjónusta hafi staðið sig vel á undanförnum árum og skilað sínu í samstarfi við stjórnvöld. Það kom best fram í afnámi innflutningstolla og vörugjalda þar sem verslunin hefur skilað ábatanum til neytenda refjalaust. Af því erum við stolt sem atvinnugrein. Ég er sannfærður um að stafræn þróun er þjóðhagslegt samkeppnismál þar sem stjórnvöld og atvinnulífið eiga samleið.
Eftirfarandi færsla var birt á Facebook síðu SVÞ eftir að ráðstefnunni Kveikjum á okkur! – ráðstefna um stafræna tækni og nýtt hugarfar, lauk þann 12. mars.
TAKK!
Á þessum fordæmalausu tímum sem við lifum á skiptir hugarfarið öllu máli. Hvort sem það er til að láta vírusa og efnahagsáhrif ekki stöðva okkur í að lifa lífinu, eða að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum, eða að taka áskorunum fagnandi sem spennandi verkefnum og leysa þau eftir bestu getu – nú eða að nýta stafræna tækni til að gera okkur kleift að gera hluti sem aldrei hefði verið hægt að gera nema með tilkomu hennar.
Með svo til engum fyrirvara ákváðum við, til að sýna ábyrgð á tímum COVD-19, að í stað þess að aflýsa árlegu ráðstefnunni okkar myndum við færa hana á netið. Það er meira en að segja það að gera svoleiðis nokkuð á innan við þremur sólarhringum. En þegar allir leggjast á árarnar og búa yfir rétta hugarfarinu þá er allt hægt!
Við viljum koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem hafa gert þetta mögulegt:
Ræðumennirnir okkar sem tóku því með æðruleysi að birtast fremur á skjánum en á sviðinu:
Formaðurinn okkar, Jon Olafur Halldorsson, sem var eins og hann hefði aldrei gert annað en að halda sjónvarpsræðu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar – Atvinnuvegaráðuneyti: Iðnaður / viðskipti / ferðaþjónusta / orka – sem ekki bara talar um að við þurfum að tileinka okkur rétta hugarfarið heldur sýndi það í verki með því að aðlaga sig auðveldlega að breyttum aðstæðum – og Kristín, ritarinn hennar, sem kippti sér ekkert upp við að gera ráðstafanir fyrir allar þessar breytingar.
Þær þrjár kjarnorkukonur sem, með engum fyrirvara, tóku því af æðruleysi að stytta og aðlaga erindi sín að skjánum, eftir að hafa í marga mánuði undirbúið sig fyrir lengri erindi á sviði við annan mann – þið stóðuð ykkur frábærlega: Dagný Laxdal, Edda Blumenstein og Sesselía Birgisdóttir.
Aðalfyrirlesarinn okkar, Nick Seneca Jankel. Það þurfi einn tölvupóst og þá var hann klár í slaginn. Talandi um að láta verk fylgja orði!
Andri Heiðar Kristinsson, sem sýndi stafræna leiðtogahæfileika í verki þegar hann fór úr því að segja já við að stýra umræðum á sviði í það að verða spjallþáttastjórnandi í sjónvarpi 😊 – “watch out Gísli Marteinn!”
Teymið okkar hjá Sahara, sem vann þrekvirki við að koma þessu öllu saman á koppinn á engum tíma (og í samskiptum við markaðsstjóra sem var í sóttkví og gat því ekki verið almennilega til taks): Eva, Katla, Ágúst, Gunnar og Ísleifur hjá Sonik – og það er pottþétt einhver að gleymast. Þið fyrirgefið – takk xo – þið eruð snillingar!
ENNEMM fólkið okkar: Elvar, sem breytti og bætti við efni á núll einni, Guðrún og Jón – og Örn Úlfar fyrir upphafsinnblásturinn 😉
Starfsfólk Hilton Reykjavík Nordica sem gerði okkur kleift að breyta staðsetningu með svo til engum fyrirvara.
Stjórn SVÞ, sem greip hugmyndina strax á lofti og hvatti okkur starfsfólkið til að kýla á þetta. Það eru forréttindi að fá að vinna fyrir fólk með slíka framfarahugsun!
Fyrirtækin sem ætluðu að kynna þá spennandi hluti sem þau eru að gera í stafrænu málunum fyrir að sýna því skilning að við þurftum að aflýsa þeim hluta – en við ætlum klárlega að gera eitthvað slíkt síðar! Já hf., Pósturinn, Kringlan, KPMG á Íslandi, beomni.is, Koikoi, Intellecta – Ráðgjöf, ráðningar, rannsóknir, aha.is, Gerum betur ehf, www.gerumbetur.is, Akademias, Capacent á Íslandi, CoreMotif og TVG Xpress
Og síðast en ekki síst þátttakendur á ráðstefnunni, sem tóku þátt í þessu ævintýri með okkur og horfðu og hlustuðu á ráðstefnuna á netinu. Það er gaman að segja frá því að við rækilega slógum met fyrri ára með yfir 550 skráða þátttakendur! “Viva la digital revolution!” 😊