Formaðurinn í Markaðnum: Drögumst aftur úr í stafrænni þróun

Formaðurinn í Markaðnum: Drögumst aftur úr í stafrænni þróun

Þann 11. mars sl. birtist áhugavert viðtal við Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, í Markaðnum í Fréttablaðinu.

Í viðtalinu ræðir Jón Ólafur sterkar vísbendingar um að íslenskt atvinnulíf sé að dragast aftur úr þegar kemur að stafrænni þróun og þar með að missa samkeppnishæfni sína á alþjóðlegum vettvangi. Hann ræðir einnig tillögur SVÞ í málunum.

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA VIÐTALIÐ

>> Smelltu hér til að lesa tillögur SVÞ sem kynntar voru fyrir ráðherra í febrúar

 

Stafræn tækni og nýtt hugarfar er einmitt umfjöllunarefni ráðstefnu SVÞ sem haldin verður þann 12. mars kl. 14:00 og hefur verið færð á netið vegna kórónavírussins. Allt um hana á www.svth.is/radstefna-2020

Markaðsstjórinn í sóttkví og ráðstefnan færð á stafrænt form

Markaðsstjórinn í sóttkví og ráðstefnan færð á stafrænt form

Í Fréttablaðinu þann 11. mars birtist viðtal við markaðsstjóra SVÞ, Þórönnu K. Jónsdóttur, um ráðstefnu SVÞ þann 12. mars. Eins og fram hefur komið hefur ráðstefnan verið flutt á netið vegna COVID-19 en markaðsstjórinn er sjálf í sóttkví og hefur því umsjón með ráðstefnunni frá heimili sínu. Það er við hæfi að ráðstefna um stafræna tækni og nýtt hugarfar sé bæði haldin á netinu og að umsjón með henni í sé í fjarvinnu með hjálp stafrænnar tækni.

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA VIÐTALIÐ

Hin stafræna umbreyting

Hin stafræna umbreyting

Eftirfarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu þann 28. febrúar 2020:

Hin stafræna umbreyting, sem mætti allt eins kalla hina stafrænu byltingu, er án vafa eitt mikilvægsta verkefni sem íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir. Hér er um að ræða umbreytingu sem hafa mun áhrif á allt samfélagið, heimili jafnt sem fyrirtæki. Áhrifin sem af þessu verða innan atvinnulífsins skapar gríðarleg tækifæri, en leiðir jafnframt til harðrar samkeppni sem fyrirtækin, bæði stór og smá, verða einfaldlega að taka þátt í. Hin mikla umbreyting sem hér um ræðir hefur í för með sér hraðari og meiri breytingar í rekstri fyrirtækja en áður hafa þekkst. Þar er engin atvinnugrein undanskilin. Samkeppni milli fyrirtækja verður fyrst og fremst alþjóðleg, þar sem landamæri í hefðbundnum skilningi þess orðs hverfa.

Sterkar vísbendingar eru um að íslensk fyrirtæki séu þegar farin að dragast aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur oftast saman við, þegar kemur að innleiðingu á stafrænni tækni. Frændþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum hafa þegar tekið afgerandi skref í þessum efnum. Þar hafa stjórnvöld jafnt sem atvinnulíf gert sér grein fyrir að slíkar aðgerðir séu beinlínis nauðsynlegar til að tryggja stöðu einstakra ríkja í þeirri samkeppni sem verður sífellt alþjóðlegri.

Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki mótað sér stefnu í stafrænum málum fyrir íslenskt atvinnulíf eða íslenskt samfélag í heild sinni. Að mati Samtaka verslunar og þjónustu er aðkallandi þar verði breyting á. Þörf er á skjótum, öflugum og markvissum aðgerðum til að efla stafræna færni í íslensku atvinnulífi, eigi Ísland að komast hjá því að dragast aftur úr helstu samanburðarlöndum. Þar eru breytingar á menntakerfinu forgangsmál. Framtíðarhagsmunir þeirra sem munu byggja þetta land eru í húfi.

Samtök verslunar og þjónustu hafa nú lagt fyrir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tillögur sínar um aðgerðir sem stutt geta íslenskt atvinnulíf til að geta sem best nýtt stafræna þróun sér til framdráttar og til aukinnar samkeppnishæfni. Tillögurnar taka mjög mið af því sem gert hefur verið í þessum málum í nágrannalöndum okkar, ekki síst Danmörku. Þar í landi hefur verið sett á laggirnar samstarfsvettvangur atvinnulífs, háskólasamfélags og stjórnvalda um hvernig styrkja megi atvinnulíf og þar með vinnumarkað, vegna þeirra miklu breytinga sem stafræn þróun leiðir af sér.

Nú verðum við Íslendingar einfaldlega að bretta upp ermar. Samtök verslunar og þjónustu er eindregið þeirrar skoðunar að öflugt samstarf stórnvalda, atvinnulífs og menntastofnanna sé lykillinn að farsælli leið okkar til móts við hina stafrænu framtíð.