15/04/2021 | Fræðsla, Fréttir, Stjórnvöld, Umhverfismál, Upptaka, Verslun, Þjónusta
3. júli 2021 tekur í gildi bann við að setja hinar ýmsu einnota plastvörur á markað ásamt nýjum ákvæðum um endurgjaldsskyldu, merkingarskyldu og samsetningarskyldu. Ákvæði laganna hafa víðtæk áhrif á birgja, verslanir og matsölustaði og því mikilvægt að byrja nú þegar að skipuleggja starfssemi sína í samræmi við lögin. Dr. Gró Einarssdóttir, sérfræðingur Umhverfisstofnunnar, fór í veffyrirlestri yfir hvað felst í lögunum, hvað verði leyfilegt og hvað ekki og hvaða lausna er hægt að leita. Fjallað var um hvað plast er, hvað einnota er, hvað er bannað að setja á markað, hvað er bannað að afhenda án endurgjalds og hvernig beri að merkja einnota plastvörur. Umhverfisstofnun sér um upplýsingagjöf og eftirlit með ákvæðunum við banninu um einnota plastvörur á markað.
Mikil þátttaka var á fundinum og fjölmargar spurningar kviknuðu í kjölfar fyrirlestursins sem sést best á því að það sem átti að vera klukkustundarlangur veffundur varð 20 mínútum lengri. Ljóst er að ýmsu er að huga í þessum málum.
Hér má hlaða niður glærum Dr. Gró úr fyrirlestrinum: Einnota plastvörur kynning fyrir SVÞ 14 april 2021
Hér á vefnum SamanGegnSoun.is má sjá leiðbeiningar um einnota plastvörur fyrir fyrirtæki: https://samangegnsoun.is/einnota-plastvorur/
Félagsfólk í SVÞ getur nú séð upptöku af fundinum á félagasvæðinu á innri vefnum. Ef þú ert ekki þegar komin/n með aðgang, þá finnurðu upplýsingar um hann hér: svth.is/fa-adgang
Dr. Gró verður aftur með okkur í næstu viku til að ræða bann við afhendingu á burðarpokum úr plasti. Ljóst er af fyrri fyrirlestrinum að þar kann að þurfa að huga að fleiri atriðum ef fólk hefur áður gert sér grein fyrir. Frekari upplýsingar og skráning á þann viðburð má finna hér.
10/04/2021 | Fréttir, Stafræna umbreytingin, Stjórnvöld
Það er óhætt að segja að við hjá SVÞ og samstarfsfólk okkar hjá VR og Háskólanum í Reykjavík höfum ástæðu til að fagna nýrri gervigreindarstefnu stjórnvalda.
Stefnan er algjörlega í samræmi við hvatningu og tillögur SVÞ og VR í stafrænum málum og í samræmi við vinnu SVÞ, VR og HR að sameiginlegum vettvangi fyrir aðgerðir til að efla vitund og skilning almennt á stafrænni tækni og umbreytingu og til að efla stafræna hæfni í atvinnulífi og á vinnumarkaði. Tillagan hefur verið formgerð í tillögu að stofnun stafræns ofurklasa með aðkomu sem allra flestra, þ.m.t. atvinnulífs, vinnumarkaðar, stjórnvalda og háskólasamfélags.
Við hjá SVÞ hlökkum mikið til framhaldsins!
Hér má lesa stefnuna.
23/03/2021 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Eftifarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 20. mars:
Þegar allt í kringum okkur er gengið hröðum skrefum og stórum til framtíðar, verða stuttu skrefin þannig að engu er líkara en að um kyrrstöðu eða afturför sé að ræða. Þetta má segja um frumvarp dómsmálaráðherra sem kemur til móts við umtalsverða grósku smærri brugghúsa er sprottið hafa upp um land allt. Verði það að lögum fá brugghúsin leyfi til þess að selja sitt fjölbreytta úrval af handverksbjór á framleiðslustað. Sú nýbreytni er til þess fallin að auka tilbreytingu í verslun og vera eftirsótt viðbót í ferðaþjónustu.
Jafnræði í nýjum veruleika
Veruleikinn hefur þó farið mörgum skrefum frammúr okkur með tilkomu alþjóðlegrar vefverslunar. Í vaxandi mæli fá Íslendingar vín og bjór sendan heim til sín eftir þeim leiðum. Umfang netverslunar vex með ógnarhraða og auglýsingar frá vín- og bjórframleiðendum erlendis eru áberandi á samfélagsmiðlum, þeim miðlum sem er orðin hin almenna leið til að afla sér upplýsinga og þekkingar. Í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) um það takmarkaða afnám einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er einmitt lögð höfuðáhersla á jafnræði til vefverslunar.
Óboðlegt viðskiptaumhverfi
Það hreinlega gengur ekki upp að erlendum vefverslunum sé heimilt að höndla án takmarkana með bjór og léttvín á íslenskum markaði á sama tíma og innlendar vefverslanir eru útilokaðar. Veruleikinn er einfaldlega sá að innlendir bjórframleiðendur flytja nú þegar afurðir sínar frá Íslandi í þeim eina tilgangi að senda þær aftur til landsins í gegnum erlendar vefverslanir, t.d. verslun Amazon í Bretlandi. Svona viðskiptahættir eru ekki boðlegir í dag, hvort sem litið er til jafnræðissjónarmiða eða kolefnisfótspors.
Hverjir réðu afturförinni?
Á undirbúningsstigi umrædds frumvarps voru drög að því birt í tvígang á samráðsgátt stjórnvalda, www.Island.is. Í bæði skiptin var gert ráð fyrir að heimilaður yrði rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda með vissum takmörkunum. Til grundvallar lágu þau rök að æskilegt væri að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar í ljósi þess að almenningi væri heimilt að kaupa áfengi í gegnum netverslun frá útlöndum og flytja til landsins til einkaneyslu á meðan slík verslun væri ekki heimil í vefverslun sem starfrækt væri hér á landi. Með því að heimila innlenda vefverslun með áfengi væri lagaleg staða innlendrar og erlendrar vefverslunar með áfengi jöfnuð. Vandséð er hvernig hægt er að réttlæta bann við atvinnurekstri sem snýst um sölu á vöru sem almenningur getur flutt inn að vild til einkaneyslu. Fróðlegt væri að fá upplýst hversvegna þessu sjálfsagða jafnræðissjónarmiði var kippt út úr frumvarpinu. Hverjir knúðu fram þá afturför?
Skref sem myndu bæta stöðuna
SVÞ hafa ávallt hafa lagt ríka áherslu á viðskiptafrelsi. Afstaða samtakanna er sú að stefna beri að því í markvissum skrefum að aflétta einokun ríkisins á viðskiptum með bjór og vín. Mikilvægt er að framkvæmdin sé skýr og afmörkuð þannig að engin óvissa skapist og vel sé um alla umgjörð búið. Reynsluna af hverju skrefi í afnámi einokunar á verslun með áfengi þarf að meta og hafa til hliðsjónar við töku næsta skrefs. Að sjálfsögðu þarf að gæta að lýðheilsusjónarmiðum og vönduðum vinnubrögðum í hvívetna, eins og gildir um alla þróun verslunar og þjónustu. Það er afstaða SVÞ að ekki sé hægt að styðja afgreiðslu frumvarpsins, sem hér er til umræðu, þótt það sé jákvætt í eðli sínu, nema því verði breytt á þann hátt að innlend netverslun með bjór og léttvín verði heimiluð samhliða því að innlendum framleiðendum verði heimiluð smásala á framleiðslustað. Það væru skref sem um munaði og myndu stuðla að jafnræði í verslun og jafnfætisstöðu í samkeppni, bæði íslenskra vefverslana og framleiðenda á Íslandi.
18/03/2021 | Fræðsla, Fréttir, Menntun, Netglæpir, Stafræna umbreytingin, Stjórnvöld, Upptaka
Í tilefni af aðalfundi SVÞ var frumsýndur þátturinn Uppfærum Ísland – stafræn umbreyting eða dauði, fimmtudaginn 18. mars kl. 10:00.
Stafræn þróun, ásamt þróun til aukinnar sjálfbærni, er stærsta umbreytingaverkefni sem íslenskt atvinnulíf og vinnumarkaður standa frammi fyrir. Nauðsynlegt er að íslenskt samfélag í heild taki sig saman til að styðja þá umbreytingu, þar sem samkeppnishæfni þjóðarinnar og lífsgæði okkar allra eru undir. Í þættinum var fjallað um áhrif stafrænnar umbreytingar, þau tækifæri og áskoranir sem í henni felast, stöðu íslensks atvinnulífs á því sviði og það verkefni sem við eigum fyrir höndum að uppfæra Ísland.
Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar um áhrif stafrænnar umbreytingar fyrir íslenskt atvinnulíf, vinnumarkað og samfélag, hlutverk stjórnvalda í stuðningi við atvinnulífið á þessari vegferð og hvað íslensk stjórnvöld hyggjast gera á því sviði. Einnig var rætt við Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ og forstjóra Olís um stöðu íslensks atvinnulífs í stafrænni umbreytingu og nauðsynlegar aðgerðir.
Frændfólk okkar á Norðurlöndunum eru undantekningarlaust í topp 10 sætunum í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stafrænni umbreytingu. Í þættinum skyggndumst við inn í hvernig hlutirnir eru gerðir þar og ræddum við fulltrúa Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um mikilvægi stuðnings stjórnvalda við atvinnulífið, hvað verið er að gera í viðkomandi landi o.fl. Viðmælendur okkar frá Norðurlöndunum voru: Hanna Marttinen-Deakins, Senior Director, Digitalisation, Business Finland Jan Damsgaard, Professor við stafrænu deildina í Copenhagen Business School, fulltrúi í danska Disruption ráðinu á vegum stjórnvalda og stjórnarmaður í SMV:Digital Lena Carlsson, Deputy Director General, Regeringskansliet, Infrastrukturdepartmentet (innviðaráðuneytið), Digital Society Division í Svíþjóð. Lena fer fyrir stafrænum stefnumálum sænsku ríkisstjórnarinnar. Paul Chaffey, Statssekretær, Kommunal- og moderniseringsdepartmentet, helsti ráðgjafi ráðherra stafrænna mála í Noregi