Rífandi gangur í húsgagna- og byggingavöruverslun

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar koma aukin umsvif í byggingaframkvæmdum greinilega fram í sölutölum byggingavöruverslana í marsmánuði. Þetta á bæði við um almennar byggingavörur svo og sérhæfðar verslanir sem selja gólfefni. Sömuleiðis var umtalsverð veltuaukning hjá húsgagnaverslunum og verslunum sem selja stór heimilistæki.  Velta húsgagnaverslana jókst um 21,2% frá mars í fyrra og verð á húsgögnum lækkaði um 8,9% á þessu tímabili og velta byggingavöruverslana jókst um 13,3% en verð á byggingaefni hélst óbreytt frá mars í fyrra. Velta stórra raftækja jókst um 9,5%  og verð þeirra var 5,9% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Athyglisvert er að velta í dagvöruverslun var nokkru meiri í mars síðastliðnum heldur en í sama mánuði í fyrra. Þetta þrátt fyrir að páskarnir hafi verið í mars í fyrra en mánuði síðar ár, – en páskamánuðurinn er jafnan mun söluhærri en næstu mánuðir á undan og eftir.  Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum árstíðamun nam veltuaukning dagvöruverslana 5,1%. Verð á dagvöru fer lækkandi, eins og á flestum öðrum vörutegundum, og var 2,2% lægra en fyrir ári síðan.

Velta fataverslunar í mars var 6,4% minni en í sama mánuði í fyrra. Kemur þar annars vegar til að hætt var rekstri nokkurra stórra fataverslana í byrjun þessa árs og hins vegar að staðið hefur yfir endurskipulagning á öðrum fataverslunum að undanförnu. Þar að auki má ætla að töluverður hluti fataverslunar Íslendinga fari fram erlendis þar sem  mikil aukning hefur orðið í ferðum landsmanna til útlanda.  Fatakaupmenn sem RSV hefur rætt við eru almennt sammála um að þó dregið hafi úr fatasölu á heildina litið sé aukning í sölu á dýrari merkjavöru, sem sé mjög samkeppnisfær við sambærilegar vörur í erlendum verslunum. Þannig virðist sem mestur samdráttur sé í sölu ódýrari fatnaði.

Óvenjulegt er að merkja samdrátt í sölu snjallsíma, eins og reyndin var í mars. En sala þeirra dróst saman um 16,9% frá sama mánuði í fyrra. Líklegasta skýringin er að í mars fyrir ári var nýkomin á markað ný útgáfa af vinsælum snjallsímum en sú var ekki raunin í ár.

Velta í dagvöruverslun jókst um 0,1% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 2,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í mars um 5,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 2,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í mars 0,8% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 7,1% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum dróst velta áfengisverslana í mars saman um 100% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,2% hærra í mars síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun dróst saman um 6,4% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 2,6% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,9% lægra í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar jókst um 5% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 4,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 6,3% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í mars um 0,1% frá mars í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 21,2% meiri í mars en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 32,8% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 11,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 8,9% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í mars um 13,3% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 13,2% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 15,1% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta í sölu á tölvum minnkaði í mars um 4,5% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 16,9%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 7,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 9,5% á milli ára.

Fréttatilkynning RSV.

 

 

Frá vinnustofu SVÞ um „Omni Channel“ – innleiðing stafrænnar tækni í verslun

Í framhaldi af ársfundi SVÞ þann 23. mars sl. þar sem fjallað var um byltingu og breytingu í þjónustu og verslun stóð SVÞ fyrir vinnustofu í samvinnu við Eddu BlumensteiEBn, doktorsnema við Viðskiptaháskólann í Leeds á Englandi. Á vinnustofunni var farið yfir næstu skref hvað varðar innleiðingu stafrænnar tækni í verslun. Fór Edda m.a. yfir hvernig kauphegðun notenda hefur breyst með tilkomu stafrænnar tækni, netsins, samfélagsmiðla og fleira, og í raun hvernig smásalar, verslunar- og þjónustuaðilar eru að bregðast við þeirri þróun.

Fjallað var um hvernig við höfum þróast frá „single channel“ fyrirkomulagi þar sem kaupmaðurinn á horninu veitti persónulega þjónustu til viðskiptavina, út í það að vera með margar aðkomuleiðir að viðskiptavininum. Í því samhengi var sérstaklega farið yfir Omni Channel, eða samruna stafrænnar tækni og hefðundinnar verslunar.

Til að skýra Omni Channel hugmyndafræðina nefndi Edda verslunina Mothercare í Bretlandi, en sú verslun er mjög gott dæmi, að hennar sögn, um leiðandi Omni Channel fyrirtæki.  Þ.e., verslunin er með allt samtengt, tækni og verslun. Starfsfólkið er til dæmis með spjaldtölvur og aðstoðar þig á alla lund. Það eina sem þarf að gera við þjónustuborðið er að borga.

Glærur Eddu Blumenstein: Viðbrögð verslunar- og þjónustufyrirtækja við áhrifum stafrænnar tækni á verslun og þjónustu.

Samantekt frá SVÞ – Samkeppnishæfni íslenskrar verslunar

Samantekt

Segja má að verslun standi á tímamótum hvað framtíðina varðar og  því er engin tilviljun hversu áberandi umræða er í samfélaginu um netverslun og önnur málefni verslunar. Verslunin mun breytast meira á næstu 5 árum en hún hefur gert síðustu 50 ár. Í því tilliti má nefna að Svensk Handel, systursamtök SVÞ í Svíþjóð, spá að verslunum í Svíþjóð muni fækka um allt að 5 þúsund til og með árinu 2025 sökum aukinnar samkeppni við netverslanir. Gera má ráð fyrir að nokkur straumhvörf séu að verða í viðhorfi fólks þar sem neytendur eru nú sífellt kröfuharðari; þeir vilja fjölbreytni og að vörurnar séu afhentar með þeim hætti sem best samræmist daglegu lífi þeirra. Ljóst er að tækniþróunin hefur í för með sér að neytendur eru betur upplýstir bæði hvað varðar verð og gæði og hafa meira val vegna netverslunar sem leiðir til aukinnar samkeppni. Þessi þróun hvetur verslanir til að auka framleiðni og minnka kostnað sem leiðir til lægri verðbólgu í stað þess að hækka verð.  Alþjóðavæðingin nær ekki síður til verslunarinnar vegna aukinnar samkeppni milli staðbundinna verslana hér á landi þar sem fyrirhugað er að stórir erlendir aðilar komi inn á markaðinn. Þessi aukna samkeppni mun að óbreyttu leysa úr læðingi krafta sem koma samfélaginu til góða, t.d. með hagkvæmari rekstri sem síðar geta stuðlað að lægra verði til neytenda. Þó þarf að halda vel á spilunum svo að það gangi eftir. Þróun kaupmáttar launa undanfarin  misseri, fjölgun ferðamanna og afnám tolla og vörugjalda hafa ýtt undir vöxt innlendra verslana. Það er hins vegar margt sem skekkir þessa mynd og nægir þar að nefna þá ofurtolla sem enn eru lagðir á algengar tegundir innfluttra landbúnaðarvara og það háa vaxtastig sem fyrirtæki og almenningur býr við.  Þá verður íslenska krónan seint talin stöðugur gjaldmiðill og vegna legu landsins mun flutningskostnaður alltaf hafa meiri áhrif á verð vöru hér á landi en í samanburðarlöndunum.

Skýrsluna má nálgast hér.

Námslínan Stjórnendur í verslun og þjónustu

Námslínan Stjórnendur í verslun og þjónustu mun hefja göngu sína í annað sinn í september 2017.

Námslínan er samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Samtaka verslunar og þjónustu og er ætluð stjórnendum. Áherslan í náminu verður á hagnýta færni og þekkingu. Jafnframt verður áhersla lögð á raunhæf verkefni til að tengja við vinnuumhverfi og áskoranir í starfi þátttakenda.

Námið samanstendur af sjö efnisþáttum,

  • Stjórnun og leiðtogahæfni
  • Mannauðsstjórnun
  • Framsögn og framkoma
  • Tímastjórnun og skipulag
  • Sölutækni og þjónustustjórnun
  • Markaðsmál – Uppstilling og framsetning
  • Rekstur og fjármál

Námslínan hefst 5. september og lýkur 5. desember.

Kennt verður á þriðjudögum frá kl. 13.00-17.00.

Frekari upplýsingar á vef Opna háskólans.

Aukin kaupgleði en minni umsvif fataverslunar

Aukinn kaupmáttur og vaxandi væntingar er jafnan ávísun á aukna kaupgleði. Þess sjást meðal annars merki í neyslu á mat og drykk. Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar eykst velta í dagvöruverslunum jafnt og þétt. Í febrúar var velta dagvöruverslana 3% meiri en í sama mánuði í fyrra og að jafnaði hefur velta dagvöruverslana aukist um 6% síðustu 12 mánuði. Þar sem verð á matvælum fer lækkandi er magn þess sem keypt meira en velta í krónum gefur til kynna. Velta áfengisverslunar vex einnig og var 8% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra.
Athygli vekur að í hinum mikla hagvexti, sem að nokkru er drifinn áfram af aukinni neyslu, skuli velta í fataverslun dragast saman. Velta fataverslana var 12,4% minni í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Á þessu tólf mánaða tímabili lækkaði samt verð á fötum um 7,3%.  Þess ber að geta að fataverslunum hér á landi hefur farið fækkandi frá áramótum, en það er mikilvægur hluti skýringarinnar. Veltutölurnar byggja á upplýsingum frá öllum stærstu verslunarkeðjum, sem selja föt hér á landi. Sumar þeirra hafa lokað hluta af fataverslunum sínum.
Ætla má að hluti skýringar á minnkandi verslun með fatnað sé aukin netverslun frá útlöndum auk þess sem sterkar vísbendingar eru um að landsmenn kaupi stóran hluta fata þegar þeir ferðast til útlanda. Þetta á hins vegar ekki við um skóverslun því hún jókst um 23,7% í febrúar. Verð á skóm í síðasta mánuði var 6,1% lægra en í sama mánuði í fyrra.
Hraður vöxtur er jafnframt í húsgagnaverslun, sem jókst um 13,9% á tólf mánaða tímabili, og byggingavöruverslun, sem jókst um 14,2% frá febrúar í fyrra. Verð á húsgögnum fer lækkandi en verð á byggingavörum hækkaði lítillega í árssamanburði.
Eftir langt tímabil vaxtar í raftækjaverslunum og verslunum með skyldar vörur, virðist sem heldur hafi dragið úr vextinum. Sala á minni raftækjum, svokölluðum brúnum vörum, jókst vissulega um 10,3% í febrúar frá febrúar í fyrra en velta stærri heimilistækja var svipuð og í fyrra.
Greiðslukortavelta heimilanna innanlands var 57,2 milljarðar kr. í febrúar. Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var 16,8 milljarðar kr. sem er næstum 30% af innlendu veltunni. Tölur um einstaka útgjaldaliði erlendar kortaveltu hér á landi sýnir að langstærstu upphæðir sem fara til verslana er til kaupa í dagvöruverslunum. Hins vegar virðist sem dragi úr vexti veltu á kaupum útlendinga á útivistarfatnaði, sem e.t.v. má rekja til styrkingar krónunnar að undanförnu. Athygli vekur að debetkortavelta Íslendinga í útlöndum jókst um 54% frá febrúar í fyrra, samkvæmt tölum Seðlabankans.

Velta í dagvöruverslun jókst um 3% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í febrúar um 5,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í febrúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 8% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í febrúar um 8,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í febrúar síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra og óbreytt frá mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 12,4% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 5,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 7,3% lægra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 23,7% í febrúar á breytilegu verðlagi og jókst um 31,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 25% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í febrúar um 6,1% frá febrúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 13,9% meiri í febrúar en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 19,6% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 28,1% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 12,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 4,8% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í febrúar um 14,2% í febrúar á breytilegu verðlagi og jókst um 14% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,1% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá minnkaði velta gólfefnaverslana um 1,5% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í febrúar um 2,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 13,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 10,3% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 0,7% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.

Orr skartgripaverslun hlýtur Njarðarskjöldinn fyrir árið 2016

Orr skartgripaverslun hlýtur Njarðarskjöldinn og er ferðamannaverslun ársins 2016. Verðlaunaafhendingin fór fram í Hafnarhúsi, Listasafns Reykjavíkur þann 16. febrúar en þetta er í 21. skipti sem verðlaunin eru veitt.

Alls voru 11 verslanir tilnefndar til Njarðarskjaldarins í ár; Epal í Hörpu, Eymundsson í Austurstræti og á Laugavegi, Gilbert úrsmiður á Laugavegi, Gjóska á Skólavörðustíg,  GÞ skartgripir og úr í Bankastræti, Handprjónasambandið á Skólavörðustíg, Islandia í Bankastræti, Nordic Store í Lækjargötu, Upplifun í Hörpu og Orr gullsmiðir á Laugavegi.
Njarðarskjöldurinn er viðurkenning og hvatningarverðlaun sem veitt eru árlega til verslana eða verslunareigenda fyrir góða þjónustu og ferskan andblæ í ferðaþjónustu. Við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefs og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, opnunartími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsing, tungumálakunnátta starfsfólks og þekking á söluvörunum.

Í dómnefnd Njarðarskjaldarins sitja fulltrúar frá Höfuðborgarstofu fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Miðborginni okkar, Félagi atvinnurekanda, Samtökum verslunar og þjónustu, Kaupmannasamtökum Íslands, Global Blue á Íslandi og Premier Tax Free  á Íslandi.  Í rökstuðningi tilnefningarinnar kemur eftirfarandi fram:

,,Orr gullsmiðir er afsprengi Kjartans Kjartanssonar. Verslunin sem er jafnframt gullsmíðaverkstæði hefur frá fyrstu tíð verið staðsett í miðborg Reykjavíkur. Lengi vel var hún staðsett neðarlega við Laugaveginn en fluttist nýlega um set og hefur haldið sínum takti. Hönnun Orr hefur frá fyrstu tíð verið feikilega vinsæl á meðal erlendra ferðamanna enda er hún einstök og efnisval og frágangur fyrsta flokks. Gullsmíðaverkstæðið er staðsett í sama húsi og verslunin sem gefur henni aukna dýpt. Þjónustustig og tungumálakunnátta starfsfólks er til fyrirmyndar sem og aðgengi að versluninni. Orr skartgripaverslun er björt og stílhrein með góða lýsingu þannig að vörurnar njóta sín til fulls. Stílhreint útlit, glæsileg hönnun, hæft starfsfólk ,sem hefur hvort í senn gaman af vinnunni og faglega þekkingu á vörunni gerir Orr að ákjósanlegum stað til verslunar fyrir erlenda ferðamenn.“

Viðtal við Kjartan Kjartansson í sjónvarpi mbl.is