Kortavelta ferðamanna 20 milljarðar í maí

Samkvæmt frétt Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta tæpum 20 milljörðum króna í maí síðastliðnumsamanborið við rúmlega 13 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða 51,4% aukningu á milli ára.
Kortavelta pr. ferðamann 05 2016
Kortavelta ferðamanna jókst á milli ára í öllum útgjaldaliðum í maí. Erlendir ferðamenn greiddu tæpar 600 milljónir með kortum sínum til dagvöruverslana í maí, um 81% meira en í maí í fyrra en erlend kortavelta í dagvöruverslun hefur fjórfaldast á síðustu fjórum árum. Kortavelta erlendra ferðamanna í verslun jókst um tæp 41% á milli ára en það sem af er árinu hafa erlendir ferðamenn greitt 8,2 milljarða í verslun með kortum sínum.

Eins og síðustu mánuði var mestur vöxtur á milli ára í flugferðum, um 146%. Er maí sjöundi mánuðurinn í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári. Rétt er að nefna að hluti þeirrar greiðslukortaveltu sem fellur undir þennan lið er greiðsla fyrir þjónustu sem innt er af hendi utan landsteinanna.

Töluverð aukning var í kortaveltu ferðamanna til bílaleiga og greiddu ferðamann í maí rúmlega 1,8 milljarða, um 43% meira en í sama mánuði í fyrra fyrir bílaleigubíla. Það sem af er ári hafa ferðamenn eytt um 6 milljörðum í bílaleigubíla og sé eldsneyti, viðgerðir og viðhald bifreiða tekið með í reikninginn nam erlend kortavelta ferðamanna það sem af er ári til þessara flokka rúmum 8 milljörðum. Kortaveltan í flokki bílaleiga hefur fjórfaldast frá árinu 2012.
Í maí komu um 124 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 37% fleiri en í sama mánuði í fyrra.
   
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir 160 þús. kr. í maí. Það er um 11% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam aukningin um 10% á milli ára.

Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 306 þús. kr. á hvern ferðamann, sem að er um 7% hærri upphæð en í apríl.  Bandaríkjamenn eru í öðru sæti með 204 þús. kr. á hvern ferðamann sem að er heldur lægri upphæð en í apríl eða um 12%. Spánverjar koma þar næst með 199 þús. kr. Athygli vekur að eyðsla á hvern Kanadamann dregst saman um þriðjung á milli mánaða en þess ber að geta að fjöldi þeirra tæplega tvöfaldaðist á milli mánaða.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

www.rsv.is

Blómleg verslun með dagvöru í maí

Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknasetri verslunarinnar jókst velta öllum flokkum Smásöluvísitölunnar í maí mælt á föstu verðlagi. Dagvöruverslun í maí var 4,1% meiri en í sama mánuði í fyrra en einnig var töluverður veltuvöxtur í flokkum varanlegra neysluvara. Sem dæmi jókst húsgagnaverslun um 18% og byggingavöruverslun um 22%, verslun með raftæki jókst einnig nokkuð.

Þó dagvöruverslun sveiflist jafnan ekki mikið hefur velta hennar verið nokkuð lífleg undanfarin misseri. Eins og áður kom fram jókst velta flokksins um 4,1% á föstu verðlagi frá fyrra ári en í maí 2016 voru fjórir föstudagar og laugardagar samanborið við fimm í sama mánuði í fyrra. Ef tekið er tilllit til árstíðabundinna þátta og vikudagaáhrifa jókst velta dagvöruverslunar því meira, eða um 5,9% frá maí 2015 á föstu verðlagi.

Mikil verslun var með byggingavörur í maí og hefur vísitala byggingavöruverslunar ekki staðið hærra frá því flokknum var bætt inn í Smásöluvísitöluna, gildir þá einu hvort mælt er á föstu eða breytilegu verðlagi. Þannig var velta byggingavöruverslunar í maí 6,6% hærri en í fyrra hámarki sínu í júlí 2015 á breytilegu verðlagi. Verslun með byggingavörur var 22% meiri en í maí í fyrra á föstu verðlagi en 23,7% meiri á breytilegu verðlagi. Verðlag byggingavara hefur á sama tíma hækkað um 1,6%.

Þó verslun með fatnað og skó hafi aukist lítillega frá maí 2015 á föstu verðlagi dregst velta flokkanna saman á breytilegu verðlagi. Velta fataverslana dróst saman um hálft prósent á breytilegu verðlagi frá maí í fyrra en jókst um 2,9% á föstu verðlagi. Skóverslun minnkaði um 7,2% frá maí í fyrra en jókst um 0,6% á föstu verðlagi. Samkvæmt verðlagsmælingu Hagstofunnar var verðlag fatnaðar í maí síðastliðnum 3,1% lægra en í maí 2015 og verðlag skófatnaðar 7,6% lægra en á sama tíma í fyrra.

Verslun með húsgögn jókst um 18,9% í maí á breytilegu verðlagi frá sama mánuði í fyrra en um 18,3% á föstu verðlagi. Húsgagnaverslun hefur verið lífleg undanfarna mánuði en ef síðustu sex mánuðir eru bornir saman við sama tímabil ári áður er aukningin um 27%. Á sama tímabili hefur verðlag nær staðið í stað.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 5,7% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í maí um 5,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,6% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í maí 0,3% hærra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 16,8% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 15,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í maí um 24,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í maí síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun dróst saman um 0,5% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 2,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,1% lægra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 7,2% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 0,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 0,2% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í maí um 7,6% frá maí í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 18,9% meiri í maí en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 18,3% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 9,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 19,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 0,5% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í maí um 23,7% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 22% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst í maí um 10,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 11,3%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 9,8% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 8,3% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.

Verslunin lækkar vöruverð í samræmi við niðurfellingu tolla – Auðvitað

Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 25.5.2016
Höfundur: Margrét Sanders, formaður stjórnar SVÞ

Um síðustu áramót var tekið stórt skref til eflingar verslunar á Íslandi þegar tollar á fötum og skóm voru afnumdir og ber að þakka stjórnvöldum fyrir framsýnina.
Versl. lækkar vöruverð - úrdr.
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) fögnuðu auðvitað þessari ákvörðun og var strax farið af stað með verslunum innan samtakanna að undirbúa þessa miklu aðgerð. Gerð var greining á því hversu hátt hlutfall af fötum og skóm bæru nú þegar ekki tolla, s.s. vegna fríverslunarsamninga og annarra milliríkjasamninga, og kom í ljós að um 35% af þessum vörum báru engan toll, þ.e. voru þá þegar tollfrjálsar. Fundað var með verslunareigendum og var mikill hugur í mönnum að sýna og sanna að þessi leið væri hagstæð fyrir neytendur og myndi skila sér í lækkuðu verði á þeim vörum sem enn báru tolla.

Strax fór að bera á því að ákveðnir aðilar voru mjög svo gagnrýnir á þessa ákvörðun stjórnvalda og sögðu beinlínis að verslunin myndi „stela“ þessari niðurfellingu og bar þar hæst skoðun Bændasamtakanna, örfárra þingmanna og einnig heyrðust gagnrýnisraddir frá ASÍ. Þetta kom verulega á óvart þar sem gerðar höfðu verið kannanir sem sýndu að fata- og skóverslun á Íslandi var stöðugt að færast til útlanda og að þessar breytingar myndu einna helst koma tekjulægri einstaklingum til hagsbóta sem kaupa þessar vörur á Íslandi.

Margar verslanir lögðu mikla vinnu í að upplýsa neytendur um verðlækkun og það mátti sjá í fjölda áberandi merkinga verslana þar sem kom fram verð fyrir niðurfellingu tolla og verð eftir niðurfellingu. Þetta framtak er til fyrirmyndar.

Þegar rýnt er í síðustu mælingar Hagstofu Íslands kemur í ljós að um 4% lækkun hefur verið á þessum vörum. Samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra sem tollalækkunin grundvallast á var búist við að um 10-13% lækkun yrði á fötum og skóm sem þá báru tolla, það ítrekast að ekki var um að ræða allar vörur því eins og að framan segir þá bar hluti þeirra ekki tolla. Hafa skal hugfast að 4% lækkun er örlítið meiri lækkun en efnahagssvið SA gerði ráð fyrir á þessum tímapunkti sem áhrif af þessum tollalækkunum þar sem litið var m.a. til kostnaðarsamra kjarasamninga og veltuhraða á þessum vörum, eitthvað sem gagnrýnisraddir í garð verslunarinnar hafa einhverra hluta vegna ekki tekið tillit til í sínum útreikningum.

Við hjá SVÞ erum sannfærð um að verðlækkun á fötum og skóm verður meiri. Samkeppnin á þessum markaði er ekki einungis á Íslandi heldur er hún alþjóðleg og því skiptir það okkur öll máli að verð og framboð verði sambærilegt við þau lönd sem við berum okkur saman við. Á móti kemur að aðhald með verslun verður að byggjast á réttum upplýsingum og málefnalegum rökum og ekki sett fram gegn betri vitund enda skaðar slíkt ekki eingöngu innlenda verslun heldur einnig þá aðila sem treysta á þá starfsemi, s.s. starfsfólk. Því vonumst við eftir, með allri auðmýkt, að neytendur og þau samtök sem bera hag þeirra fyrir brjósti treysti okkur þegar við segjum: Verslunin lækkar vörur í samræmi við niðurfellingu tolla – auðvitað.

Blaðagreinin í Fréttablaðinu 25.5.2016 – Verslunin lækkar vöruverð í samræmi við niðurfellingu tolla – Auðvitað

Niðurfelling tolla og verðþróun á fötum og skóm

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 19.5.2016
Um 64% af innfluttum fatnaði og skóm báru 15% tolla fram að síðustu áramót þegar tollurinn var feldur niður. Þessi aðgerð leiddi af sér töluverða kostnaðarlækkun fyrir innflytjendur og niðurfelling tollana ætti því, að öðru óbreyttu, að leiða til ríflega 8% verðlækkunar á þessum vöruflokkum.

Þegar skoðað er hvort tollaniðurfellingin hafi skilað verðlækkun til neytenda þarf að skoða fleiri þætti en opinberar álaglögur. Innkaupsverð varanna, gengi gjaldmiðla, laun og annar innlendur kostnaður eru meðal þess sem hefur áhrif á rekstur þessara fyrirtækja og þar af leiðandi á þróun verðs á innlendum markaði.

Við mat á því hvort tollalækkanirnar hafi skilað sér með fullnægjandi hætti til neytenda þarf að skoða þróun annarra kostnaðarliða frá því að tollaniðurfellingin tók gildi. Því hefur efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins reiknað vísitölu sem vegur saman þessa kostnaðarliði og ber hana saman við verðþróunina eins og hún hefur verið skv. verðvísitölu Hagstofunnar.

Eins og sést á myndinni hér að ofan hafa verðlækkanir á fötum og skóm í innlendum fataverslunum verið svipaðar og við mátti búast samkvæmt reiknuðu vísitölunni. Frá desember í fyrra fram í apríl s.l. lækkaði verð að meðaltali um 3,9% en reiknaða vísitalan gerir ráð fyrir 3,7% verðlækkun.

Helsta ástæða þess að verðlag hefur ekki lækkað eins mikið og tollabreytingarnar einar og sér gæfu tilefni til,  er mikil hækkun innlendra kostnaðarliða. Hæst bera miklar launahækkanir en á tímabilinu hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 4,8% og annar innlendur kostnaður um 0,7%. Þetta dregur úr áhrifum tollaniðurfellingarinnar og hagstæðrar gengisþróunar. En eftir stendur að niðurfelling tolla hefur skilað íslenskum neytendum um 4% lægra verði á fötum og skóm.

Verðbreytingar koma ekki fram strax og ný lög taka gildi, það þarf að hafa í huga í umræðu um skattkerfisbreytingar. Í fataverslun á meðalkaupmaðurinn um 120 daga vörubirgðir og því getur það því tekið 4 – 5 mánuði að sjá áhrif slíkra breytinga koma endanlega fram í verði vöru. Engu að síður sýna kannanir að verulegar lækkanir eru þegar komnar fram í einstaka vöruflokkum, s.s. kvenskóm, sem hafa lækkað um 17%.

SVÞ er ekki í minnsta vafa um að niðurfelling tolla af fötum og skóm muni skila sér til neytenda á sama hátt og skattkerfisbreytingar fyrri ára hafa gert það. Nýjasta dæmið í því sambandi er afnám vörugjalda um áramótin 2014-2015, en allar mælingar sýna að afnám þeirra gjalda skilaði sér í fullu til neytenda.

Fréttatilkynning 19.5.2016- Niðurfelling tolla og verðþróun á fötum og skóm

Frá ráðstefnu SVÞ – Hvað hefur örvandi áhrif á kauphegðun?

Frá ráðstefnu SVÞ – Hvað hefur örvandi áhrif á kauphegðun?

Húsfyllir var á ráðstefnu SVÞ sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 17. mars sl. Ari Eldjárn kynnti fyrirlesara og kitlaði hláturtaugar ráðstefnugesta eins og honum einum er lagið.

Í ávarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra gætti bjartsýni gagnvart íslenskri verslun sem hann taldi að ætti að geta staðið verslun í nágrannalöndum jafnfætis á samkeppnisgrundvelli í kjölfar afnáms tolla og vörugjalda. Kom einnig fram í máli ráðherra að vísitölur sýndu að verslunin væri að skila þessum ávinningi til neytenda. Þá sagðist ráðherra vera ósáttur við tilboðsauglýsingar Fríhafnarinnar og taldi að ríkið ætti að draga úr umsvifum sínum á þessum markaði.

Margrét Sanders formaður SVÞ lagði áherslu á útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkageirans í erindi sínu undir yfirskriftinni „Einkarekstur eða opinber rekstur? – Hugarfarsbreytingar er þörf“. Kom fram í máli formanns að ríkið ætti að huga betur að fjármálum sínum og þyrfti að greina betur hvort það borgi sig alltaf að ráða starfsmann frekar en að úthýsa fleiri verkefnum og kaupa þjónustu frá utanaðkomandi sérfræðingum.

Ken Hughes, sérfræðingur í neytenda- og kauphegðun,  sló síðan botninn í ráðstefnuna með frábæru erindi undir yfirskriftinni“Shopper Marketing & Shopper Centricity“. Í erindi sínu sýndi Ken ráðstefnugestum hvað það er sem fær neytendur til að kaupa og hvernig er hægt að fá þá til að kaupa meira.

Kynning Margrétar Sanders, formanns SVÞ
Myndir frá ráðstefnu

Myndband – nokkrar staðreyndir um mikilvægi verslunar og þjónustu

Mikil velta í byggingavörum í febrúar

Mikil velta í byggingavörum í febrúar

Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var velta í byggingavöruverslun 16,7% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra eða rúmlega 20% meiri á föstu verðlagi. Vetrarmánuðirnir eru jafnan rólegir í byggingavöruverslun en veltan í febrúar var sambærileg veltu aprílmánaðar undanfarin tvö ár á föstu verðlagi. Má því segja að vorið í byggingavöruverslun komi nú tveimur mánuðum á undan áætlun. Verð byggingavara var nokkuð lægra í liðnum mánuði en í febrúar í fyrra og hafa sem dæmi verkfæri lækkað í verði um ríflega 7% frá fyrra ári en efni til viðhalds hækkað um tæpt prósent.

Töluverð veltuaukning hefur verið í húsgagnaverslun undanfarna mánuði og var veltan í febrúar 38,7% meiri en á sama mánuði í fyrra. Séu síðustu tólf mánuðir bornir saman við tólf mánaða tímabilið þar á undan hefur vöxtur í sölu húsgagna verið 17,4% en 19,2% á föstu verðlagi. Verðlag húsgagna hækkaði nokkuð í febrúar frá fyrra ári, eða um 4,3%. Má þó geta þess að verðlag síðustu tólf mánaða er um 1,4% lægra að meðaltali en verðlag á því tólf mánaða tímabili sem á undan kom.
Febrúar var degi lengri í ár en venjulega og sáust þess merki í dagvöruverslun, sem var 8,7% meiri í febrúar í ár en í fyrra. Árstíðarleiðrétt velta á föstu verðlagi var 3,9% meiri en í fyrra en verðlag dagvöru var 1,4% hærra en í febrúar í fyrra. Velta dagvöruverslana á milli ára er nokkuð viðkvæm fyrir hlaupárum enda velta flokksins jafnan nokkuð stöðug við hefðbundinn samanburð jafn langra mánaða. Svo fjölgun daga sé sett í samhengi við áðurnefndan veltuvöxt voru 3,6% fleiri dagar í febrúar árið 2016 en árið 2015 og því er rétt að miða við árstíðaleiðréttu töluna. Telst sú veltuaukning þó nokkur jafnvel þegar gert hefur verið ráð fyrir þessu.

Velta áfengisverslunar fyrir virðisaukaskatt var 18,7% meiri og fjöldi seldra lítra áfengis 4,8% meiri í febrúar nú en fyrir ári síðan. Skýrist mismunurinn að mestu leyti af breytingum á skattheimtu áfengis um áramótin þegar VSK var lækkaður en áfengisgjöld, sem innheimt eru á framleiðslu- eða innflutningsstigi, voru hækkuð á móti. Verð áfengis var 1% hærra í febrúar í ár samanborið við sama mánuð í fyrra.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,7% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 7,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í febrúar um 3,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,4% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í febrúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 18,7% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 17,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis á föstu verðlagi í febrúar um 13% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Fataverslun jókst um 5,9% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og um 5,1% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 1% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 10,9% í febrúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 10,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 9,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í febrúar um 0,3% frá febrúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 38,7% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 30,1% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 47,5% á breytilegu verðlagi.

Verð á húsgögnum hefur lækkað um 4,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í febrúar um 16,7% á breytilegu verðlagi og um 20,2% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,9% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum stóð í stað í febrúar á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 9,6%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,1% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 3,3% á milli ára. Verð á raftækjum fer almennt lækkandi. Þannig var verð á stórum raftækjum sem dæmi 5,9% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.