20/09/2018 | Fréttir, Greining
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar jókst kortavelta Íslendinga í innlendri fataverslun um 13,1% í ágúst síðastliðnum og nam tæpum 2,2 milljörðum í ágúst nú samanborið við rúman 1,9 milljarða í ágúst í fyrra. Raunar hefur fataverslun einnig vaxið undanfarna mánuði og hefur kortavelta í flokknum aukist um 17% ef tímabilið apríl til ágúst 2018 er borið saman við sama tímabil í fyrra, eða sem nemur 1,6 milljörðum yfir tímabilið. Er þetta til marks um ágætan kaupmátt landsmanna þessi misserin og þá kann opnun H&M hérlendis í lok ágúst í fyrra að skýra vöxtinn að hluta.
Netverslun Íslendinga hjá innlendum netverslunum með föt jókst á sama tímabili um 29% og nam 379 milljónum í samanburði við ríflega 11 milljarða í búðum og nam netverslunin því 3,4% af kortaveltu flokksins.
Raftækjaverslun var ágæt fyrir HM í fótbolta
Maí- og júnímánuðir standa nokkuð upp úr þegar kortavelta í raf- og heimilistækjum er skoðuð í samanburði við mánuðina í kring. Þannig jókst velta raftækja um 11,5% í júní og júlí, frá sömu mánuðum í fyrra, samanborið við hóflegri vöxt mánuðina áður og nokkurn samdrátt í júlí. Ekki er ólíklegt að heimsmeistaramótið í fótbolta sem hófst í júní hafi átt sinn þátt í aukningunni og margir hafi ákveðið að endurnýja sjónvarpstækin fyrir keppnina.
Raf- og heimilistækjaverslun er sú gerð verslunar sem er hvað lengst komin í netverslun en 7,8% þeirrar verslunar fór í gegn um netið í ágúst síðastliðnum. Hlutfallið sveiflast þó nokkuð milli mánaða en sem dæmi fór það hæst í 12,2% í nóvember 2017 í tengslum við Svartan föstudag (Black friday) og netmánudag (Cyber Monday).
17/09/2018 | Fréttir, Stjórnvöld
SVÞ hafa undanfarin ár gætt hagsmuna aðildarfyrirtækis samtakanna í samskiptum við stjórnvöld vegna kaupa á rafrænum sjúkraskrám. Að mati SVÞ hafa þau kaup á þjónustu í gegnum tíðina, frá einum og sama aðila, orkað tvímælis hvað varðar eftirfylgni með kröfum um opinber innkaup. Þá hafa þau kaup utan útboðs einnig haft skaðleg áhrif á samkeppni á markað með rafrænar sjúkraskrár.
Nú síðast kom til skoðunar álitamál er varða kaup Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á tölvukerfi vegna Veru – heilsuvef, þ.e. www.heilsuvera.is. Óskuðu SVÞ þá þegar eftir upplýsingum um þau kaup og fjárhæðir sem lágu þar að baki. Hins vegar var neitað um afhendingu á þeim gögnum en þeirri synjun var síðar snúið við af úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þá þegar og umbeðin gögn voru afhent lá fyrir að mati SVÞ og aðildarfyrirtækis þess, þ.e. Skræðu ehf., að ríkið hafi virt að vettugi útboðsskyldu sína vegna þeirra kaupa enda kostnaður við kaupin yfir útboðsskyldu.
Í kjölfarið sendu SVÞ, f.h. Skræðu ehf., kæru á kærunefnd útboðsmála þar sem þess var óskað að nefndin tæki máli til skoðunar sem og hún gerði. Efir yfirgripsmikla rannsókn á málinu, þar sem aðilar málsins voru m.a. boðaðir á fund nefndarinnar, komst kærunefndin að skýrri niðurstöðu að samkvæmt þeim kostnaði sem kaup á kerfinu og viðhald á því kallaði á bar Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að bjóða út gerð þess á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við þau innkaupaferli með lög um opinber innkaup kveða á um. Þar sem það var ekki gert brutu þessir aðilar gegn ákvæðum laga um opinber innkaup. Þar að auki var Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins gert að greiða málskostnað, alls að upphæð 900.000 kr.
Að mati SVÞ er mikilvægt að hið opinbera virði af fullum hug reglur um opinber innkaup og raski um leið ekki samkeppni á einstökum mörkuðum með því að skjóta sér undan þeirri skyldu sinni. Munu samtökin áfram fylgjast með framkvæmd þessara mála og grípa til aðgerða gerist þess þörf.
14/09/2018 | Fréttir, Greining, Skýrslur, Stafræn viðskipti, Verslun
Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur gefið út skýrsluna „Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni“, en útgáfa skýrslunnar var styrkt af Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og VR. Höfundur er Emil B. Karlsson.
Skýrslan sem greinist í þrjá kafla og fjallar á greinargóðan hátt um miklu breytingar sem verslun sem atvinnugrein stendur nú frammi fyrir, vegna þeirra stórstígu breytinga sem eru að verða í verslun og verslunarháttum hvar sem er í heiminum.
Í fyrsta kafla skýrslunnar er farið yfir áhrif og afleiðingar stafrænnar tækni á verslun almennt, með sérstakri áherslu á þau áhrif sem líklegt er að slíkt hafi á íslenska verslun. Í öðrum hluta skýrslunnar eru birtar niðurstöður þriggja rannsókna á íslenskri verslun, þar sem m.a. er birt ítarleg samantekt á umfangi netverslunar hér á landi og netverslunar frá útlöndum, upplýsingar sem ekki hafa birst áður. Einnig er þar að finna niðurstöður úr viðamikilli skoðanakönnun á netverslunarhegðun Íslendinga. Í þriðja kafla skýrslunnar eru síðan settar fram ályktanir byggðar á þeim rannsóknum sem kynntar eru í skýrslunni.
SVÞ fagna útkomu skýrslunnar, en hún kemur út á hárréttum tíma og er tímabært innlegg í umræðu um stöðu greinarinnar nú þegar hún stendur frammi fyrir meiri og víðtækari breytingum á allra næstu árum, en orðið hafa marga síðustu áratugi. Eru allir hagsmunaaðilar og áhugamenn um íslenska verslun og framtíð hennar hvattir til að kynna sér efni skýrslunnar.
Skýrsluna í heild sinni má finna hér.
14/09/2018 | Fréttir, Greiningar
13/09/2018 | Fréttir, Umhverfismál
Tilnefningar fyrir Umhverfisverðlaun atvinnulífsins þurfa að berast fyrir föstudaginn næstkomandi 14. september.
Verðlaunin verða veitt á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem fram fer í Hörpu miðvikudaginn 17. október.
Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.
Það er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhendir verðlaunin.
Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.
Tilnefningar er hægt að senda með tölvupósti á sa@sa.is merkt: „Tilnefning til umhverfisverðlauna atvinnulífsins“.
Dómnefnd velur úr tilnefningum og skoðar meðal annars eftirfarandi þætti:
Umhverfisfyrirtæki ársins
- Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
- Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
- Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
- Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
- Innra umhverfi er öruggt
- Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
- Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið
Framtak ársins
- Hefur komið fram með nýjung – nýja vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif
- Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
- Gagnast í baráttu við loftslagsbreytingar
15/08/2018 | Fréttir, Greiningar
Samantekt frá SVÞ um þróun undirliða vísitölu neysluverðs í júlí 2018.