Frosin stjórnsýsla

Frosin stjórnsýsla

Frosin stjórnsýsla
Birt á visir.is 19.07.2018

Fyrir sjö árum sendu SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem samtökin tóku af skarið og kvörtuðu undan innleiðingu hérlendra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES samningsins. Var þannig í pottinn búið, og er enn, að íslenska ríkið hefur sett höft á innflutning á fersku kjöti og skal allt slíkt kjöt fryst áður en það kemur inn á borð íslenskra neytenda. Sem afleiðing þessa er íslenskum neytendum gert að velja á milli innlendrar framleiðslu, fersk eða frosin, og þíddu erlendu kjöti. Er óumdeilt að slík samkeppni er verulega einsleit og vali neytenda gefið langt nef enda felur frystiskylda á kjöti í sér verulega eftirgjöf á gæðum.Á síðastliðnu ári kvað EFTA dómstóllinn upp hin rökrétta dóm að hérlend frystiskylda fæli í sér ótvírætt brot gegn EES skuldbindingum íslenska ríkisins. var dómurinn í fullu samræmi við röksemdir SVÞ í kvörtun sinni til ESA. Þrátt fyrir veruleg fjárútlát í vörn sinni tókst íslenska ríkinu ekki að sýna fram á nein rök fyrir umræddum innflutningshöftum. Á góðri og kjarnyrti íslensku kallaðist þessi sneypuför stjórnvalda fyrir dómstólnum heimaskítsmát hvað varðar grundvöll fyrir þessum höftum á starfsumhverfi verslana og valfrelsi neytenda.

Þrátt fyrir ljúf loforð stjórnvalda gagnvart ESA um að bæta úr þessum ágöllum og aflétta umræddum höftum hafa stjórnvöld enn ekki gripið til slíkra aðgerða átta mánuðum frá því að dómur féll í málinu. Í átta mánuði hafa stjórnvöld verið meðvituð um eigin sök án þess að hafa sýnt vilja í verki til að bæta hér úr. Er svo komið að ekki eingöngu þolinmæði neytenda og verslana er á þrotum heldur einnig þolinmæði ESA. Hefur stofnunin nú gefið stjórnvöldum þrjá mánuði til þess að svara fyrir það hvers vegna ekki hafi verið gerðar viðeigandi ráðstafanir til að framfylgja dómi EFTA dómstólsins um innflutningstakmarkanir sem féll í nóvember í síðasta ári.

Nú dugar ekkert fyrir hérlend stjórnvöld að sitja aðgerðarlaus og krossleggja fingur um að þetta reddist heldur þarf að bretta upp ermar og ráðast í þær breytingar sem gera þarf til að uppfylla skyldur ríkisins. Sofandaháttur stjórnvalda í þessu máli má ekki viðgangast mikið lengur og er það skýr krafa verslunar og neytenda að stjórnvöld virði þær alþjóðlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist, hvort sem það eru samningar eða dómar.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Skráning hafin á Umhverfisdag atvinnulífsins

Skráning hafin á Umhverfisdag atvinnulífsins

Skráning er hafin á Umhverfisdag atvinnulífsins sem haldinn verður miðvikudaginn 17. október í Hörpu kl. 8.30-12.00. Að viðburðinum standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu. Sameiginleg dagskrá hefst kl. 8.30 og stendur til 10. Málstofur hefjast kl. 10.30 og standa til kl. 12. Boðið verður upp á létta hádegishressingu og netagerð að lokinni dagskrá.

DAGSKRÁ

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA

Sigsteinn Grétarsson, Arctic Green Energy
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og um langa hríð yfirmaður hjá loftslagssamningi S.þ.
Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við HÍÁ viðburðinum verða Umhverfisverðlaun atvinnulífsins afhent en hægt er að senda inn tilnefningar fram til 12. september. Það er Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem munu afhenda verðlaunin.Dagskrá tveggja málstofa verður birt þegar nær dregur, en annars vegar verður fjallað um alþjóðaviðskipti og loftslagsmál og hins vegar grænar lausnir atvinnulífsins.

Fundarstjóri er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

Notkun á gervigreind hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja

Notkun á gervigreind hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja

Samantekt

Neytendur eru í vaxandi mæli að tileinka sér stafrænan lífstíl.  Val neytenda á vörum getur að miklu leyti ákvarðast af upplýsingum og samskiptum á veraldarvefnum. Í þessu samhengi verður sífellt mikilvægara fyrir netverslanir að fylgjast með og kortleggja ferðalag viðskiptavinarins — fyrir, á meðan og eftir kaupin — til að fylgjast með neysluhegðun hans. Í eftirfarandi greiningu verður fjallað um alþjóðlega þróun netverslunar á Norðurlöndum, utan Íslands . Stafræn tækniþróun felur í sér að kaup á vörum á netinu erlendis frá fer vaxandi sem hluti af alþjóðlegri smásölu. Á árinu 2017 hafði þriðjungur kaupenda á Norðurlöndum keypt vörur erlendis frá í gegnum netið.

 

Skýrsluna má nálgast hér.

Ný persónuverndarlög taka gildi 15. júlí

Ný persónuverndarlög taka gildi 15. júlí

Að gefni tilefni benda SVÞ á að ný persónuverndarlög taka gildi hér á landi 15. júlí nk. Óvissu vegna íslenskra fyrirtækja hefur þar með verið eytt en regluverk Evrópusambandsins (GDPR) tók gildi 25. maí sl. í Evrópusambandinu. Samtök atvinnulífsins ásamt Samorku, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands sendu inn ítarlegar umsagnir um frumvarpið á meðan það var í meðförum dómsmálaráðherra og Alþingis.

Tekið var tillit til fjölmargra athugasemda samtakanna á meðan málið var til meðferðar. Má þar einkum nefna að sett var inn regla um að vinnugögn verða áfram undanþegin upplýsinga- og aðgangsskyldu, gjaldtökuheimild var þrengd og heimildir til vinnslu persónuupplýsinga um látna einstaklinga voru rýmkaðar. Íslensku lögin eru þó eftir sem áður meira íþyngjandi fyrir atvinnulífið en almennt gerist annars staðar á EES-svæðinu. Mikilvægt er því að lögin verði endurskoðuð í haust.

Í ljósi þess skamma frests sem fyrirtæki fá til að undirbúa sig fyrir hina nýju löggjöf er afar mikilvægt að Persónuvernd setji fræðslu- og leiðbeiningarhlutverk sitt í forgrunn og gæti hófs við beitingu viðurlaga. SVÞ vekja einnig athygli að Persónuvernd hefur sett á fót þjónustuborð fyrir fyrirtæki í tengslum við innleiðingu nýrrar persónuverndarlöggjafar. Þjónustuborðið er ætlað litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem óska leiðbeininga í tengslum við innleiðingu löggjafarinnar og mun Persónuvernd leitast við að svara öllum þeim erindum sem berast þjónustuborðinu innan þriggja til fimm virkra daga. Nánari upplýsingar um þessa þjónustu er að finna á heimasíðu Persóunverndar.

Fyrirtæki eru hvött til að kynna sér vel þær breytingar sem eru í vændum og vera sem best undirbúin þegar lögin taka gildi. Fyrirtæki innan SVÞ geta nýtt sér fræðsluefni á vinnumarkaðsvef Samtaka atvinnulífsins við undirbúninginn.