Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta 33,2 milljörðum króna í júlí síðastliðnum og hefur aldrei verið hærri. Verulega hefur þó dregið úr þeim mikla vexti sem hefur verið í kortaveltu erlendra ferðamanna undanfarin misseri en vöxtur kortaveltu erlendra ferðamanna var 4,7% frá júlí í fyrra. Undanfarna þrjá mánuði hefur kortaveltan vaxið að meðaltali um 5,5% borið saman við sama tímabil í fyrra. Til samanburðar var ársvöxtur tólf mánaða tímabilsins þar á undan 39%.
Mestur vöxtur kortaveltu í júlí var í flokki farþegaflutninga eða 29,5% eða 975 milljónir króna. Standa farþegaflutningar þannig að baki tveimur þriðju hlutum vaxtar erlendrar kortaveltu í mánuðinum. Hluti starfsemi innlendra flugfélaga fer fram erlendis og því óvíst að allur sá veltuvöxtur tengist ferðamönnum sem sækja Ísland heim.
Greiðslukortavelta gististaða jókst um 9,5% í júlí síðastliðnum og nam 6,9 milljörðum króna í mánuðinum, 596 milljónum meira en í sama mánuði 2016. Gistináttatölur Hagstofunnar fyrir júlí hafa ekki verið birtar þegar þetta er skrifað en ef tekið er mið af verðvísitölu gistingar í Vísitölu neysluverðs hækkaði verðlag gististaða um 3,3% og er magnbreytingin því 5,9%.
Erlendir ferðamenn greiddu 3,1% minna í verslun í júlí síðastliðnum borið saman við júlí 2016. Mestur var samdrátturinn í minjagripaverslun en hún minnkaði um 18,3% frá sama mánuði í fyrra. Þá dróst tollfrjáls verslun saman um 7,3% og önnur verslun um 11%. Aukning var í tveimur flokkum verslunar, dagvöruverslun 11% og fataverslun 2%.
Erlend kortavelta veitingastaða nam 3,7 milljörðum í júlí síðastliðum eða um 4,1% meira en í júlí í fyrra. Vöxturinn nemur 147 milljónum króna á milli ára. Greiðslukortavelta í flokknum ýmis ferðaþjónusta sem meðal annars inniheldur þjónustu ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir jókst um 4,8% á milli ára og nam 4,6 milljörðum í júlí síðastliðnum. Þá nam greiðslukortavelta bílaleiga ríflega þremur milljörðum í júlí eða 7,6% meira en í júlí í fyrra.
Kortavelta eftir þjóðerni
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 122 þús. kr. í júlí, eða um 2% minna en í júní. Það er um 9% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Ferðamenn frá Sviss greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í júlí eða 170 þús. kr. á hvern ferðamann. Bretar eru í öðru sæti með 160 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn koma þar næst með 141 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.
Við vekjum athygli ykkar á því að skráning stendur yfir í námslínuna Stjórnendur í verslun og þjónustu hjá Opna háskólanum í Háskólanum í Reykjavík. Námslínunni var ýtt úr vör haustið 2016 og gáfu nemendur náminu mjög góða umsögn.
Og þetta hafði Sófús Árni Hafsteinsson, verslunarstjóri ELKO um námið að segja
„Helsti styrkleiki námsins er áhersla á hagnýt atriði sem snerta stjórnendur í verslun í dag. Námið veitir nýjum stjórnendum þekkingu á faglegum vinklum starfsins og gefur reynslumiklum stjórnendum nýja sýn á starf sitt. Í náminu er samankomnir einstaklingar úr mismunandi verslunar- og þjónustustörfum sem miðla af fjölbreyttri reynslu sinni.“
Námslínan er samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Samtaka verslunar og þjónustu og er ætluð stjórnendum.
SVÞ býður aðildarfyrirtækjum SVÞ á ráðstefnu um stafræna tækniþróun í flutningageiranum þann 31. ágúst nk. kl. 8.30 – 11.30. Ráðstefnan sem verður haldin í Gullteigi á Grand Hóteli, Reykjavík er öllum opin og er aðildarfyrirtækjum að kostnaðarlausu. Þátttökugjald fyrir aðra en félagsmenn er kr. 3.000,-.
Samkeppnisumhverfið er að breytast, neytendahegðun sömuleiðis og tæknin hefur hrist upp í rótgrónum atvinnuvegum líkt og fraktflutningum. Flutningageirinn leitar nú þegar að bestu nýtingu á snjalltækni m.a. með tæknilausnum á sviði fjármálaþjónustu (e. fintech solution) og fyrir aðfangastjórnun frá upprunastað til áfangastaðar á sem stystum tíma.
Neytendur vilja lágt vöruverð, hraða og áreiðanlega þjónustu. Hvernig stjórnun aðfanga er háttað getur skipt sköpum fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Í þessu samhengi vill SVÞ horfa fram á við og skoða hvað flutningafyrirtæki geti lært af tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum til að gera stafræna þjónustu einfaldari og notendavænni m.a. fyrir smásala og heildsala. Við stöndum frammi fyrir fjölda tækifæra og áskorana.
Morgunverður í boði frá kl. 8.00
Dagskrá:
8.30 Setning ráðstefnu
Margrét Sanders, formaður SVÞ
Ávarp
Jón Gunnarsson, samgönguráðherra
Solutions that can’t be hacked – 3 examples of real applications of blockchain that could change the world of transport and logistics
Sofia Fürstenberg, framkvæmdastjóri hjá nýsköpunarfyrirtækinu BLOC og sérfræðingur á sviði vöruferlisstjórnunar.
„The Last Mile“: 3 words becoming easier to deliver
Anne-Claire Blet, einn af framkvæmdastjórum fyrirtækisins What3words sem fékk tvær viðurkenningar; fyrir mestu framfarir og nýjar leiðir á markaði, á ráðstefnu um nýjungar í fraktflutningum í netverslun í Berlín í sumar.
Mikilvægi skilvirks flutningakerfis fyrir íslenskt efnahagslíf
Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ
11.30 Ráðstefnuslit
Fundarstjóri: Margrét Sanders
Oops! We could not locate your form.
Hvað er blockchain tækni?
„Blockchain tæknin á uppruna sinn í heimi stafrænna gjaldmiðla. Blockchain er færslukerfi sem var upphaflega þróað í kringum rafmyntina Bitcoin, en kerfið snýst um að halda utan um dreifða færsluskrá (distributed ledger technology). Með dreifðri færsluskrá eru allar færslur sem eiga sér stað skráðar og aðgengilegar öllum sem tengdir eru kerfinu. Blockchain er viðhaldið af dreifðu neti margra tölva og krefst ekki aðkomu þriðja aðila. Færslur þurfa að vera samþykktar af öllum notendum kerfisins til þess að ganga í gegn, en þannig er upplýsingaflæði milli aðila tryggt. Blockchain tækni er í raun dreifð og tímaröðuð færsluskrá sem er aðgengileg öllu sem tengjast viðkomandi kerfi og geymist ávallt áfram í heild sinni og býður þannig upp á fullkominn rekjanleika. þróuð áfram fyrir margar mismunandi tegundir kerfa og notkunargildi“. Sjá hér: https://kjarninn.is/frettir/2017-07-19-blockchain-markadur-vaentanlegur-italiu/
Nánar um efnið og fyrirlesara:
Sofia Fürstenberg er sérfræðingur á sviði vöruferlisstjórnunar innan fjölþættra flutninga. Sofia hefur m.a. unnið við rannsóknir, þróun og nýsköpun á sviði fraktflutninga. Sofia hefur fjölbreytta reynslu af því að leysa flókin verkefni og hefur t.a.m. verið yfir nýsköpun hjá Maersk Maritime Technology og starfað sem háttsettur ráðgjafi hjá DNV GL.
Sofia Fürstenberg, framkvæmdastjóri sjóflutninga hjá BLOC mun kynna nýsköpunarfyrirtækið BLOC sem er staðsett í Kaupmannahöfn og hefur m.a. fengið styrk frá Danska sjóflutningasjóðnum til þess að prófa og kanna þörfina fyrir blockchain tækni í sjóflutningum. Sofia Fürstenberg mun fjalla um samstarf BLOC við nokkra leiðandi háskóla í Danmörku þar sem lagt er mat á og leitað lausna við þeim víðtæku áhrifum sem stafræna tækniþróunin hefur í för með sér. Sofia mun gefa dæmi um áhrif blockchain tækninnar á smásala, heildsala og fraktflutninga og hvaða tækifæri eru í þeim fólgin. Þá mun Sofia fjalla um framtíðarhorfur fraktflutninga og áhrif á samgöngur gefið að blockchain tæknin verði að veruleika.
Anne–Claire Blet ein af framkvæmdastjórum What3words mun kynna nýsköpunarfyrirtækið what3words og hvernig þeirra lausn gagnast fyrirtækjum í fraktflutningum. What3words fengu tvær viðurkenningar á ráðstefnu um nýjungar í fraktflutningum í netverslun í Berlín sem að SVÞ tók þátt í; viðurkenningu fyrir mestu framfarir og nýjar leiðir á markaði. What3words er mjög einföld leið til að koma staðsetningarupplýsingum á framfæri. Það geta allir fundið út nákvæma staðsetningu og deilt því hratt með einföldum hætti. Það er hægt að nota þjónustuna með ókeypis farsímaforriti eða með korti á netinu. Það er einnig hægt að fletta því saman við önnur forrit, vettvang eða vefsíðu, með aðeins nokkrar línur af kóða.
Blaðagrein birt undir Skoðun í Viðskiptablaðinu 30.7.2017 Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ
Í Evrópu eykst netverslun jafnt og þétt og er búist við að sala á netinu muni aukast um 14% á árinu 2017, á meðan sala í hefðbundinni verslun eigi eftir að dragast saman um 1%. Smásala á netinu er því nú þegar að taka umtalsverða markaðshlutdeild frá hefðbundinni smásölu. Myndin að neðan sýnir þróun hlutdeildar af alþjóðlegri smásölu á síðastliðnum árum og spá sérfræðinga um þróunina á næstu árum.
Þróun innlendrar netverslunar er í takt við aukna netverslun sem á sér stað annars staðar í heiminum. Til að mynda kemur fram í könnun Gallup að Íslendingar séu meðal þjóða þar sem hvað flestir versla á netinu eða 79%. Ef hlutfall netviðskipta á Norðurlöndunum á síðasta ári er skoðað kemur í ljós að Svíar hafa lægsta hlutfall viðskipta við erlenda netverslun . Sænsk netverslun hefur náð að skapa sér hagstæða stöðu, aðallega á grundvelli fjölbreytts vöruúrvals, með því að bjóða upp á notendavænar vefsíður, s.s. vefsíður fyrir farsíma og einfaldar lausnir hvað varða kaupferlið.
Netverslunin skapar tækifæri
Þegar sala á vöru og þjónustu fer fram á netinu, dregur úr þörf seljanda að byggja upp eigin vörumerki til að skapa traust. Ef vörurnar eru samkvæmt loforðum og greiðsla og afhending samkvæmt samningnum, fær seljandinn góða endurgjöf sem er mikils virði vegna þess að það gefur kaupenda ákveðna ábyrgð gagnvart því að vera blekktur.
Það er þó full ástæða til að gæta varúðar og fylgjast með þróuninni. „First mover advantage“, þ.e., sá sem er fyrstur felur í sér mikinn ávinning. Viðskiptavettvangurinn sem nær til sín fyrstu fylgjendunum skapar forskot gagnvart samkeppnisaðilanum. Það er hægt að rekja til svokallaðs stafræns traust sem að eykst eftir því sem vettvangurinn fær fleiri fylgjendur. Þegar valinn er vettvangur er það oft sá sem er með mesta traustið sem verður fyrir valinu og er jafnframt sá sem er með flesta fylgjendur. Í þessu samhengi getur ákveðin einokunarstaða skapast á markaði. Þá er mikilvægt að undirstrika að engin samstaða er um hvernig regluverk eigi að vera á þeim mörkuðum sem að þessi nýi stafræni vettvangurinn hefur áhrif.
Áhrif betur upplýstra neytenda og netverslunar
Ljóst er að tækniþróunin hefur í för með sér að neytendur eru betur upplýstir bæði hvað varðar verð- og gæði og hafa meira val vegna netverslunar sem leiðir síðan til aukinnar samkeppni. Þessi þróun hvetur verslanir til að auka framleiðni og minnka kostnað sem síðar leiðir af sér minni verðbólgu í stað þess að hækka verð. Á þennan hátt er hægt að nýta stafrænu tæknina til að auka virði þeirra vara sem seldar eru í verslunum. Á sama tíma eru verðin sífellt gagnsærri, því viðskiptavinurinn getur betur borið saman við verð annars staðar svo samkeppnin eykst sífellt.
Aukin sjálfvirkni, skilvirkari flutningar og birgðastjórnun
Virðiskeðja í verslun heldur áfram að sjálfvirknivæðast. Tækniþróunin getur aukið framleiðni í fyrirtækjum með ýmsu móti; m.a. með nýrri framleiðslutækni sem eykur framleiðni vinnuaflsins. Það getur átt sér stað samfara aukinni sjálfvirkni í framleiðslu sem kemur í stað vinnuafls. Í báðum tilfellum lækkar kostnaður fyrirtækja sem síðar getur leitt til minni verðbólgu.
Þá mun gervigreind nýtast við sjálfvirka gagnaöflun og mat sem að eykur hagkvæmni og dregur úr viðskiptakostnaði. Fyrirtæki geta þannig veitt einstaklingsþjónustu með hjálp aukinnar gervigreindar, með því að áætla hvað hver viðskiptavinur kýs sér helst.
Lærum af reynslu Svía
Íslensk fyrirtæki verða að tileinka sér hina nýju tækni ef þau ætla að halda viðskiptavinum sínum því aukin netverslun leiðir af sér að viðskiptavinir geta verslað við fyrirtæki hvar sem er í heiminum í krafti aukinnar alþjóðavæðingar. Til að mynda með því að bjóða upp á stafrænan vettvang þar sem boðið er upp á sérsniðna þjónustu í rauntíma sem nýtist við að bæta upplifunina af viðskiptunum. Mjög örar breytingar eru að eiga sér stað og því er nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að nýta sér stafrænu tæknina áður en keppinautar stíga inn á markaðinn með betri tilboð.
TAKIÐ DAGINN FRÁ – SVÞ býður aðildarfyrirtækjum SVÞ á ráðstefnu um stafræna tækniþróun í flutningageiranum þann 31. ágúst nk. kl. 8.30 – 11.30. Ráðstefnan sem verður haldin á Grand Hóteli, Reykjavík er öllum opin og er aðildarfyrirtækjum að kostnaðarlausu. Opnað verður fyrir skráningu í ágúst. Nánar auglýst síðar.
Fyrirlesarar verða:
Birgit Marie Liodden, framkvæmdastjóri Nor-Shipping mun fjalla um stafræna tækniþróun í flutningageiranum og hvernig sú þróun hefur áhrif víðar, ekki síst á smásölu og heildsölu.
Anne – Claire Blet ein af framkvæmdastjórum What3words mun kynna nýsköpunarfyrirtækið what3words og hvernig þeirra lausn gagnast fyrirtækjum í fraktflutningum. What3words fengu tvær viðurkenningar á ráðstefnu um nýjungar í fraktflutningum í netverslun í Berlín sem að SVÞ tók þátt í; viðurkenningu fyrir mestu framfarir og nýjar leiðir á markaði.
Ingvar Freyr Ingvarsson hagfræðingur SVÞ mun fjalla um mikilvægi skilvirks flutningakerfis fyrir íslenskt efnahagslíf.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar dróst velta dagvöruverslana saman um 3,6% í júní frá sama mánuði í fyrra. Costco er ekki með í mælingunni heldur aðeins þær verslanir sem voru á markaði fyrir komu verslunarrisans. Costco kaus að veita ekki upplýsingar um veltu sína þegar eftir því var leitað. Síðastliðin ár hefur vöxtur í veltu dagvöruverslana verið nokkuð stöðugur og er samdrátturinn nú nokkuð úr takti við þá þróun. Líklegt er að Costco hafi klipið af markaðshlutdeild þeirra verslana sem fyrir voru á markaði og það skýri samdráttinn.
Þá er athyglisvert að verð á dagvöru lækkar í hraðari takt undanfarna tvo mánuði en sést hefur um alllangt skeið. Verð á dagvöru var 3,9% lægra í júní síðastliðnum en í júní í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Verðið í júní lækkaði um 1,1% frá mánuðinum á undan. Verðmæling Hagstofunnar nær ekki til verðlags í Costco.
Þó velta dagvöruverslana hafi dregist saman að krónutölu þá jókst hún um 0,3% að raunvirði, þ.e. þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagsbreytingum á einu ári. Þetta felur í sér að þótt veltan hafi dregist saman að nafnvirði er magn þess sem selt er nánast það sama og fyrir ári síðan í þeim dagvöruverslunum sem voru á markaði fyrir komu Costco.
Sveiflur í veltu dagvöruverslunar hefur löngum í takt og veltu áfengissölu. Sala áfengis í júní jókst um 7,8% frá sama mánuði í fyrra og er því nokkuð frábrugðin veltu á dagvöru að þessu sinni. Verð á áfengi var óbreytt frá fyrra ári.
Verð á raftækjum, farsímum og tölvum hefur lækkað umtalsvert. Í júní var t.d. verð á svokölluðum brúnum raftækjum (sjónvörpum, hljómflutningstækjum, brauðristum o.fl.) 19,6% lægra en í sama mánuði í fyrra og á farsímum lækkaði verðið á sama tímabili um 14,1%. Líklegt er að þarna gæti áhrifa frá innkomu Costco, þó aðrir þættir gætu haft áhrif, eins og lægra innkaupsverð frá framleiðendum ásamt styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Tekið skal fram að gæðabreytingar hafa áhrif á verðlagsmælingu Hagstofunnar sem hér er stuðst við.
Fataverslun
Velta fataverslunar á Íslandi heldur áfram að dragast saman og er varla svipur hjá sjón miðað við sölu á fötum fyrir áratug síðan eða fyrir hrun bankanna. Það sem af er þessu ári hefur velta stærstu fataverslana landsins dregist saman enn frekar eins og sést á meðfylgjandi skýringarmynd. Ástæða hins skarpa samdráttar á þessu ári er lokun nokkurra fataverslana og hagræðing sem átt hefur sér stað í fataverslun í byrjun árs. Enn er boðuð fækkun fataverslana. Talið er að fataverslun hafi í auknum mæli færst til útlanda, bæði með auknum ferðalögum landsmanna til annarra landa svo og vegna mikillar aukningar í netverslun með föt frá útlöndum. Verð á fötum var 2,5% lægra í júní en í sama mánuði í fyrra.
Talnaefni
Velta í dagvöruverslun dróst saman um 3,5% á breytilegu verðlagi í júní miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 0,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum dróst velta dagvöruverslana í júní saman um 0,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 3,9% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í júní 1,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 7,8% á breytilegu verðlagi í júní miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,8% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í júní um 1,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0 lægra í júní síðastliðnum og 0,3% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 18,2% í júní miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 16,1% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 2,5% lægra í júní síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 7,1% í júní á breytilegu verðlagi og jókst um 12,2% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 11,4% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í júní um 4,5% frá júní í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 12,9% meiri í júní en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 22,4% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 3,4% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 6,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 7,7% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í júní um 12,2% í júní á breytilegu verðlagi og jókst um 13,7% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,3% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 2,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum jókst í júní um 29,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 8,2%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 19,9% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 15,3% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341