Verslunin er miðpunktur í grænum skiptum

Viðskiptin sjálf hafa ekki mikil bein áhrif á losun gróðurhúsaloftegunda, en hafa áhrif á birgja, umhverfisval neytenda og heildarlosun. Við verðum að hafa áhrif.
Heild- og smásala greiðir um 9,4% af launum og launatengdum gjöldum á Íslandi og um 14% vinnuafls starfar í heild- eða smásölu og er þetta því sú atvinnugrein sem veitir flestum atvinnu hér á landi.  Rúmlega 8% af landsframleiðslu á Íslandi árið 2016 átti rætur að rekja til heild- og smásöluverslunar og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi.

Við teljum að viðræður, samvinna og breið þátttaka á vinnustað um umhverfismál styðji og styrki átak  á sviði umhverfismála.  Það eru einkum þrjú svið þar sem verslun getur haft áhrif í grænu skiptum:

• Með eigin aðgerðum (orkunýtni, draga úr notkun jarðefnaeldsneytistegunda í samgöngum, flokkun og  meðhöndlun úrgangs)
• Vera leiðandi fyrir birgja og framleiðendur
• Hvetja til grænnar neyslu

Naumur tími
Áætlað er að heildareftirspurn eftir auðlindum árið 2050 verði 140 milljarðar tonna en eftirspurnin var um 50 milljarðar árið 2014. Það er 400% meira en jörðin ræður við .  Við notum nú þegar meira en jörðin nær að endurnýja á hverju ári. Aukin eftirspurn og minna aðgengi er ekki sjálfbært. Árið 2050 verður skortur á ýmsum mikilvægum málmum og ný úrræði verða mjög dýr.

Mikilvægi hringhagkerfisins
Hringhagkerfi styður við sjálfbæran vöxt og störf í verslun og þjónustustörfum á Íslandi. Hringhagkerfi snýst í meginatriðum um að halda auðlindunum í umferð. Framleiðendur bera ekki aðeins ábyrgð á vörum allan líftíma þeirra, þeir hafa einnig efnahagslegan ábata af því að fá vörur og efni til baka eftir notkun.

Allt þetta skapar ný störf, með nýjum verkefnum og nýjum hugsunarhætti. Fyrirhugaðri sýn verður að ná, m.a. með atvinnuskapandi nýsköpun og alhliða þjálfun fyrir alla starfsmenn.  Fyrirtæki verða í miklu meira mæli að hafa virka nálgun til umhverfis- og loftslagsmála í virðiskeðjunni.  Verslanir verða t.a.m. að kortleggja virðiskeðju matvæla til að ná árangi við að sporna gegn matarsóun.

Nauðsynleg aðkoma stjórnvalda
Leiðarvísir að breyttu umhverfi getur komið úr ólíkum áttum – bæði með því að huga að verslunarviðskiptunum sjálfum sem stjórnvöld geta komið að. T.a.m.  getur verslun boðið upp á grænna vöruúrval sem er bæði aðlaðandi og aðgengilegt.  Þetta er hægt með því að samtvinna sjálfbærni og undirstöður hringhagkerfisins í hönnun verslana, innkaupum, svæðisskipulagi og öðrum þáttum sem verslunin notar til að auglýsa sig.  Umhverfisvottun verslana, umhverfisstaðlar á flutninga, þátttaka í mótun umhverfis og þróunarverkefnum í nærumhverfi verslunarinnar eru þættir sem verslunin gæti  nýtt til að skapa samkeppnisforskot.  Samhliða þessu ættu stjórnmálamenn að tryggja umhverfi sem gerir það einnig hagkvæmt fyrir verslunina að taka þátt í grænum skiptum.

Að endingu
Smásalar gegna lykilhlutverki í að  hringhagkerfið virki þar sem neytendur versla í búðunum þeirra á hverjum einasta degi og eru í auknum mæli að sýna áhuga á umhverfisáhrifum neytendavara. Auk þess hafa Íslendingar tækifæri til að stuðla að samkeppnishæfu hagkerfi sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun með vali þeirra. Smásalar eru nú þegar virkir að upplýsa og hafa áhrif á val neytenda með því að bjóða þeim ábyrgar afurðir, pökkun með minni umhverfisáhrifum og veita ábendingar um hvernig á að geyma mat og elda með afgöngum til að draga úr  matarsóun og skipuleggja upplýsingaherferðir til neytenda um orkusparandi vörur.

Á næstu vikum munu samtökin birta fleiri og ítarlegri samantektir um einstaka þætti í hringhagkerfinu.

Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ.

Enn dregur úr vexti kortaveltu ferðamanna

Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta 21,3 milljörðum króna í maí síðasliðnum samanborið við 19,9 milljarða í maí í fyrra. Hlutfallsvöxtur frá fyrra ári er því um 7,1% og hefur ekki verið minni frá því RSV hóf söfnun hagtalna um kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2012. Í krónum jókst kortaveltan um 1,4 milljarða frá maí í fyrra. Meginástæðan fyrir minni vexti kortaveltu nú er vafalítið sterkt gengi krónunnar.

Í maí var samdráttur í nokkrum flokkum erlendrar kortaveltu. Ber þar helst að nefna verslun en í heild dróst greiðslukortavelta verslunar saman um 4,7% frá fyrra ári, úr 2,3 milljörðum króna í maí 2016 í 2,2 milljarða króna í maí síðastliðnum. Kortavelta í gjafa- og minjagripaverslun dróst saman um 18,9%, fataverslun dróst saman um 5,9%, tollfrjáls verslun um 7,4% og önnur verslun um 10,9%. Dagvöruverslun var eini flokkur verslunar þar sem erlend kortavelta jókst í mánuðinum, um 12,8% frá sama mánuði í fyrra. Meðal annarra flokka kortaveltunnar sem drógust saman frá fyrra ári eru bílaleigur en erlend greiðslukortavelta þeirra var 0,6% lægri í maí samanborið við sama mánuð í fyrra og var 1,7 milljarðar í maí síðastliðnum.
Kortavelta e. flokkum 05 2017
Mest jókst kortavelta í maí í flokki farþegaflutninga, um 22,7% eða um 852 milljónir frá sama mánuði í fyrra. Sem fyrr er vakin athygli á því að hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er meðtalin, en farþegaflug er langstærsti einstaki hluti farþegaflutninga í erlendri greiðslukortaveltu. Næst mestur var vöxtur kortaveltunnar í flokki ýmissar ferðaþjónustu en undir flokkinn fellur þjónusta ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir. Velta þess flokks jókst um 13,2% frá maí 2016 og nam 3,5 milljörðum króna í maí síðastliðnum.

Erlend greiðslukortavelta í gistiþjónustu jókst um 8,7% í maí síðastliðnum og nam 3,9 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða í sama mánuði fyrir ári. Vöxtur kortaveltu veitingastaða var heldur minni eða 0,9% frá fyrra ári og nam í maí  síðastliðnum 2.044 milljónum króna, 18 milljónum króna meira en í sama mánuði í fyrra.

Gengi og verðlag
Gengi krónunnar hefur styrkst mjög hressilega síðasta árið og var 23% hærra í maí síðastliðnum borið saman við sama mánuð í fyrra ef miðað er við viðskiptavog SÍ. Gengi krónunnar hefur styrkst mis-mikið gagnvart viðskiptagjaldmiðlum á tímabilinu en sem dæmi var krónan 35% sterkari gagnvart sterlingspundi en 20% sterkari gagnvart Bandaríkjadal samanborið við maí í fyrra. Í mars greindi RSV frá því að ofan á þá gengistyrkingu sem þá hafði raungerst hefði verðlag ýmissa ferðaþjónustuafurða hækkað í undangengnum febrúarmánuði samanborið við febrúar í fyrra. Í maí er verðhækkun frá fyrra ári töluvert hóflegri en þá. Sem dæmi hækkaði verð gistiþjónustu um 1% í íslenskum krónum frá maí í fyrra, verðlag veitingahúsa um 4% og verð pakkaferða innanlands um 3% samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Þrátt fyrir að verðhækkanir frá fyrra ári séu hóflegar bætast þær engu að síður við styrkingu krónunnar og endurspeglast í minni kaupmætti erlendra ferðamanna hérlendis.

Kortavelta eftir þjóðerni
Töf verður á birtingu talna Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna og því ekki hægt að birta kortaveltu á mann eftir þjóðerni. Í töflunni hér til hliðar má sjá greiðslukortaveltu eftir helstu þjóðernum í maí síðastliðnum samanborið við maí í fyrra.

kortavelti e. þjóðerni 05 2017Töflunni er raðað eftir breytingu í milljónum króna í dálknum lengst til hægri. Í töflunni sést að mestu munar um auknar tekjur Bandaríkjamanna frá maí í fyrra en kortavelta þeirra jókst um 1,5 milljarð frá fyrra ári eða um 22,5%. Mest minnkar greiðslukortavelta Norðmanna, um 200 mkr. og Kanadabúa, um 194 mkr. frá fyrra ári.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

Aukin velta þrátt fyrir innkomu Costco

Í fréttatilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar kemur fram að innkoma Costco hefur sannarlega hreyft við verslunarmynstrinu hér á landi og viðbrögð neytenda hafa ekki látið á sér standa. Of snemmt er hins vegar að segja til um hver áhrifin verða, bæði hvað varðar markaðshlutdeild Costco á smásölu- og heildsölumarkaði og hins vegar áhrif á verðlag. Verslunin opnaði 23. maí sl. og var því aðeins starfrækt í rúma viku af þeim mánuði. Veltutölur þær sem Rannsóknasetur verslunarinnar birta hér ná ekki til veltu Costco. Af þeim tölum sem fyrirliggjandi eru um veltu frá verslunum sem fyrir voru á markaði í maí jókst heildarumfang þeirra frá sama mánuði í fyrra. Þetta á bæði við um dagvöruverslun og raftækjaverslun en samkeppni Costco við verslanir á þessum sviðum hafa verið í kastljósi fjölmiðlanna undanfarið.

Sjá nánar um markaðshlutdeild lágvöruverðsverslana á Norðurlöndunum hér að neðan.
Verð á dagvöru var 3,2% lægra í maí síðastliðinn en í sama mánuði í fyrra og jókst velta þeirra dagvöruverslana sem fyrir voru á markaði um 1,2% að nafnvirði eða 4,6% á raunvirði á sama tímabili. Ætla má að sú verðlækkun stafi annars vegar af styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og hins vegar af aukinni samkeppni með innkomu Costco. Verðlag dagvöru hefur lækkað hvern mánuð frá ágúst 2016, þó minnst í maí síðastliðnum.

Verðlagsmæling Hagstofunnar, sem hér er stuðst við, var síðast gerð um miðjan maímánuð, eins og venja er. Þó mælingin hafi verið gerð áður en Costco opnaði hafa verðlagsáhrif þegar verið farin að koma í ljós þegar ljóst var að samkeppnin ykist. Verðmælingar Hagstofunnar ná ekki til verðlags í Costco en endurspegla verðlagsáhrifin eins og þau koma fram í þeim verslunum sem fyrir voru á markaði.

Verð nær allra vöruflokka sem Smásöluvísitalan nær til lækkaði í árssamanburði í maí en einungis skófatnaður hækkaði í verði, um 3,5% frá maí í fyrra.
Raftækjaverslun jókst í maí síðastliðnum en velta svokallaðra hvítra raftækja (þvottavélar, ísskápar og o.s.fr.) var 13,7% meiri í maí síðastliðnum samanborið við maí 2016 á breytilegu verðlagi. Á sama mælikvarða jókst velta með tölvur og jaðarbúnað um 18,7%, velta brúnvara (sjónvörp o.fl.) um 3,8% og velta farsíma um 2,8% samanborið við sama mánuð í fyrra. Líkt og í dagvöruverslun miðar mælingin við þær verslanir sem fyrir voru og tekur ekki til veltu Costco.

Velta í byggingavöruverslun jókst um 10,6% í maí síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi, þá jókst velta sérverslana með gólfefni um 17,9% á sama tímabili. Verð byggingavara hefur lækkað um 1,2% frá sama mánuði í fyrra en verð gólfefna hefur lækkað um 1%

Markaðshlutdeild lágvöruverðsverslana á Norðurlöndunum
Ef horft er til áhrifa á markaðshlutdeild fjölþjóðlegra lágvöruverðsverslana, sem hafa haslað sér völl í hinum Norðurlöndunum, sést að markaðshlutdeild þeirra er á bilinu fjRSV Smásöluvísitalan 05 2017ögur til átta prósent af smásölumarkaði með dagvöru. Hvort það hlutfall hefur forspárgildi hér á landi vegna komu Coscto er nokkurri óvissu háð, en gætu þó gefið vísbendingar.
Þær lágvöruverðsverslanir sem hér er vísað til á hinum Norðurlöndunum eru einkum Lidl og Aldi, sem hafa takmarkað vöruúrval, selja gjarna í stórum einingum og leggja áherslu á lægra vöruverð en í þeim verslunum sem bjóða breiðara vöruval og hafa meiri þjónustu. Costco er að nokkur leyti líkt ofangreinum lágvöruverðsverslunum en hafa einnig önnur einkenni því þar er að finna ýmislegt fleira en matvörur og viðskiptamódelið byggir á áskriftargjaldi viðskiptavina. Þá er Costo frábrugðið lávöruverðskeðjunum í Skandinavíu að því leyti að hér er aðeins ein verslun en á Norðurlöndunum eru útsölustaðirnir mun fleiri.

Eins og sjá má af meðfylgjandi skýringarmyndum hefur lágvöruverðskeðjan Lidl um 4% markaðshlutdeild í Svíþjóð og liðlega 8% í Finnlandi. Samsetning þeirra verslana sem skilgreina má sem lágvöruverðsverslanir er nokkuð mismunandi á milli landa, en heildarmyndin sýnir að innlendu dagvöruverslunarkeðjurnar hafa yfirburðastöðu í öllum löndunum.
Athyglisvert er einnig að á öllum Norðurlöndunum eru tvær til þrjár verslunarkeðjur sem ráða langstærstum hluta markaðarins. Þetta á jafnt við um Ísland sem og hin Norðurlöndin.

Velta smásöluverslana í maí
Velta í dagvöruverslun jókst um 1,2% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í maí um 3% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 3,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í maí 0% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 7,7% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í maí um 4,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í maí síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun dróst saman um 17,7% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 11,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 6,5% lægra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 2,5% í maí á breytilegu verðlagi og minnkaði um 5,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -3,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í maí um 3,5% frá maí í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 14,2% meiri í maí en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 23,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 7,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 13,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 7,3% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í maí um 10,6% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 11,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,2% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 17,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta í sölu á tölvum jókst í maí um 18,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 2,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 3,8% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 13,7% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

Námskeið SVÞ og Rauða krossins auka tækifæri flóttamanna

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 12.6.2017 Viðtal við Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðing SVÞ

Samtök verslunar og þjónustu ásamt Rauða krossinum á Íslandi stóðu nýlega fyrir örnámskeiði fyrir flóttafólk á Íslandi um störf í íslenskri verslun og við þjónustustörf.
Á örnámskeiðinu var farið yfir hvernig væri best að gera ferilskrá, hvernig flóttafólk geti sótt um vinnu á Íslandi, hvaða tækifæri séu í boði, hvernig íslensk vinnustaðamenning sé og hvernig þessum hópi gangi almennt. Guðríður Hjördís Baldursdóttir, mannauðsstjóri og ráðgjafi frá Festi, og Guðjón Sveinsson, ráðgjafi frá Hagvangi, voru með erindi á námskeiðinu auk þess sem fulltrúar SVÞ og Rauða krossins komu með innlegg.

Tenging við íslenskt atvinnulíf
Að sögn Ingvars Freys Ingvarssonar, aðalhagfræðings hjá SVÞ, kviknaði hugmyndin að námskeiðinu þegar horft var til þess hvernig hægt væri að tengja flóttamenn við íslenskt atvinnulíf og auka tækifæri þessa hóps hér á landi. „Við ákváðum í framhaldinu að tala við Rauða krossinn sem tók strax mjög vel í hugmyndina en þar er mjög mikil þekking og reynsla á málefnum flóttafólks,“ segir Ingvar Freyr.

Ágætisþátttaka var á námskeiðinu og voru flestir frá Mið- Austurlöndum. Að sögn Ingvars Freys höfðu þátttakendur mjög mismunandi bakgrunn og reynslu. „Til dæmis var einn með masterspróf í verkfræði sem hafði starfað í Kína. Það er því mjög mikilvægt að við horfum til þeirrar þekkingar sem er í hópnum og veitum þeim ólík tækifæri. Þessi hópur skiptir íslenskt atvinnulíf máli.“

Hópurinn heimsótti Eimskip þar sem vinnustaðurinn var kynntur og starfsemi hans.

Ingvar Freyr segir að SVÞ sjái fram á áframhaldandi samstarf við Rauða krossinn. „Þetta heppnaðist alveg rosalega vel, mikil ánægja var í hópnum og það sköpuðust miklar umræður.“

Frá vinnustofu um nýjustu tækni við markaðssetningu á netinu

Í framhaldi af ársfundi SVÞ þann 23. mars sl. þar sem fjallað var um byltingu og breytingu í þjónustu ætlar SVÞ að vera leiðandi við innleiðingu stafrænnar tækniþróunar hjá fyrirtækjum í verslun og þjónustu. Strax í kjölfar aðalfundar stóð SVÞ fyrir vinnustofu fyrir félagsmenn þar sem farið var yfir hvernig kauphegðun viðskiptavina hefur breyst og hvernig hefðbundin Markús Sigurbjörnsson 1verslun og stafræn verslun hafa runnið saman í eitt (s.k. „Omni Channel“ þjónusta).

Þann 29. maí stóð SVÞ síðan  fyrir vinnustofu í samvinnu við Magnús Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóra Papaya, þar sem fjallað var um nýjustu tækni við markaðssetningu á netinu.

Á vinnustofunni var kafað dýpra ofan í samfélagsmiðlana og sýnt öll þau tól og tæki sem að fyrirtæki geta nýtt sér betur. Sýnileiki fyrirtækja á samfélagsmiðlum er orðinn mjög mikilvægur, sama í hvaða geira fyrirtækið er í. Markaðstólin og tækifærin á samfélagsmiðlum er orðin svo mörg að við höfum ekki tölu á þeim lengur.  Magnús fjallaði m.a. um Facebook Pixelinn og hvernig best sé að nota hann, dýpri pælingar um markhópa á samfélagsmiðlum ásamt því að tala um nýjustu tæknimöguleikana á netinu.  Magnús lagði áherslu á að nýta auglýsingafjármagn sem best með sem skilvirkustum hætti. Í því samhengi benti hann á mikilvægi markhópagreininga.

Hafa þessar vinnustofur mælst mjög vel fyrir hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna og er ætlunin að bjóða upp á fleiri vinnustofur á þessu sviði á komandi hausti.

 

Brotalamir í burðarvirki matvælaeftirlits

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 27.5.2017
Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ

Hver gætir varðmannanna?
Nýlega féll dómur í Hæstarétti þar sem viðurkennd er skaðabótaskylda Matvælastofnunar (MAST) í svokölluðu kjötbökumáli og fer dómurinn engum silkihönskum um málsmeðferð stofnunarinnar í umræddu máli. Hæstiréttur gagnrýnir MAST fyrir framgöngu sína í málinu sem hafi verið slíkum annmörkum háð af hálfu starfsmanna stofnunarinnar að skilyrði um saknæmi hafi verið fullnægt. Dómur þessi er enn einn álitshnekkur hvað varðar starfsemi MAST sem eftirlitsaðila og vísast hér einnig til fréttaumfjöllunar um eftirlit stofnunarinnar með tilteknum eggjaframleiðanda sem stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirrar starfsemi s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar.

Í báðum þessum málum brást MAST þeim skyldum sem á stofnunina eru lagðar, annars vegar með þögn sinni um ófullnægjandi aðbúnað dýra í matvælaframleiðslu og hins vegar með gildishlöðnum yfirlýsingum um tiltekna matvælaframleiðslu. Málin eru til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um starfshætti MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar.

Glöggt er gests augað
SVÞ vekja athygli á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi MAST frá árinu 2013 þar sem segir m.a. að fjölgun verkefna samhliða hagræðingarkröfu hafi hamlað því að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum með ásættanlegum hætti. Það hefur m.a. átt þátt í að draga úr trausti eftirlitsskyldra aðila og annarra hagsmunaaðila til MAST og skapað styr um starfsemina. Þá segir einnig að MAST eigi nokkuð ógert í því að bæta starfsemi sína og verklag. Ráða má af umfjöllun um starfsemi MAST að gagnrýni á starfshætti stofnunarinnar megi m.a. rekja til álags sem á henni hvílir sökum umfangs verkefna sem henni ber að hafa umsjón með. Því telja SVÞ mikilvægt að taka til skoðunar hvort aðkoma einkarekinna og/eða faggiltra fyrirtækja að þeim verkefnum sem MAST hafa verið falin falin að annast geti leitt til þess að hún hafi svigrúm til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum sínum með ásættanlegum hætti.

Útvistun verkefna er ekkert feimnismál
SVÞ benda á samkvæmt nýlegri skýrslu um starfsemi MAST sem unnin var fyrir stjórnvöld þá eru þess dæmi í nágrannaríkjum að matavælaeftirliti hafi verið falið til þess bærum faggiltum aðilum og ekki er að ráða að slík framkvæmd hafi reynst illa. SVÞ ítreka að faggiltar skoðunarstofur starfa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi m.a. á sviði bifreiðaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu og hafa sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.

Með hliðsjón af gagnrýni á starfsemi MAST og umfangi verkefna hennar má velta því fram hvort MAST ætti einna helst að einbeita sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald og þróun staðla varðandi framkvæmd eftirlits, eða hvort daglegt eftirlit eigi áfram að vera stór hluti af starfsemi stofnunarinnar. Faggiltir skoðunaraðilar hafa getu og þekkingu til að starfa eftir þeim reglum sem um opinbert eftirlit gilda og því gera SVÞ þá kröfu til stjórnvalda að daglegt eftirlit stofnunarinnar verði fært til faggiltra skoðunaraðila og að MAST einbeiti sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald.

Blaðagreinin á pdf sniði.