02/09/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Grein birt á Kjarnanum 1.9.2016 – Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ
Umræða um upprunamerkingu matvæla hefur verið áberandi að undanförnu m.a. í ljósi opinberrar umfjöllunar um búvörusamninga. Í þeirri umræðu hefur verið rætt um að gera ríkari kröfur um upprunamerkingu matvæla og sú krafa m.a. gerð að samþykkt búvörusamninga og tollasamnings við ESB um inn- og útflutning á matvælum grundvallist á innleiðingu á regluverki samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um upprunamerkingu matvæla. Þannig hafa einnig formenn Svínaræktarfélags Íslands og Félags kjúklingabænda nýlega ritað grein sem beint er að ákveðnum hagsmunasamtökum og framkvæmdastjóra þeirra vegna afstöðu þeirra hagsmunasamtaka gagnvart kröfu um upprunamerkingar.
Af þessari umræðu, hvort sem hún á sér stað í þingheim eða fjölmiðlum, má ráða að það sé einbeittur vilji innflytjenda og verslana að leyna uppruna matvæla fyrir neytendum. Hér eru óneitanlega á ferðinni digurbarkalegar yfirlýsingar um meintan vilja hagsmunaaðila um að brjóta gegn trausti viðskiptavina sinna. En er það virkilega svo að neytendur eigi ekki rétt á upplýsingum um uppruna matvæla?
Í starfsemi sem grundvallast á samkeppnislegum forsendum gera verslunareigendur sér fyllilega grein fyrir því að virk samkeppni leiðir til þess að upplýstur neytandi hefur val um við hvern hann verslar. Sé þjónusta eða upplýsingagjöf ekki að skapi neytenda þá velur hann að beina viðskiptum til samkeppnisaðila. Þannig virkar samkeppni í sinni einföldustu mynd en vissulega á samkeppni ekki við í öllum atvinnugreinum enda eru tilteknar greinar undanskildar þeim lögmálum, s.s. tiltekin innlend matvælaframleiðsla.
Verslunin hefur gert sér grein fyrir mikilvægi þess að veita neytendum upplýsingar um uppruna matvæla. Óhætt er að fullyrða að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill bæta upprunamerkingar matvæla og skiptir uppruni matvæla því miklu máli við ákvörðun um kaup. Í ljósi þessa tóku SVÞ höndum saman við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin, ásamt dyggri ráðgjöf frá Matvælastofnun, og gáfu út í febrúar 2015 ítarlegar leiðbeiningar til aðildarfyrirtækja sinna um upprunamerkingar matvæla. Þar eru á mjög svo upplýsandi hátt, bæði í rit- og myndmáli, settar fram ábendingar til framleiðenda, innflytjenda og veitingastaða um upprunamerkingar á þeim vörum sem eru í boði. Eins og fram kemur í inngangi þeirra leiðbeininga þurfa neytendur að fá vitneskju á umbúðum matvæla, eða með merkingum á sölustað og við fjarsölu, um upprunaland þeirrar vöru sem þeir kaupa.
Í umræddum leiðbeiningum er ekki eingöngu tekið tillit til þeirra reglna sem gilda hér á landi um upprunamerkingar heldur er þar gengið enn lengra og settar fram tillögur um merkingar á þeim sviðum þar sem reglur um upprunamerkingar hafa enn ekki tekið gildi. Því má með sanni segja að íslensk verslun hefur axlað ábyrgð á skyldu um upprunamerkingar og í þeirri vegferð tekið á sig skyldur umfram lagaskyldu.
Hagsmunir neytenda verða ávallt að vera í forgangi þannig að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir um vörukaup og er upprunamerking þar lykilatriði. SVÞ benda á að verslun hefur, og mun ávallt, axlað sína ábyrgð varðandi upplýsingar til neytenda og því er bæði réttlátt og sanngjörn krafa að innlendir matvælaframleiðendur, þ.m.t. svína- og kjúklingaframleiðendur, opni dyrnar hjá sér varðandi aðbúnað og framleiðsluferli í sinni starfsemi til að upplýsa neytendur um sína starfsemi.
Höfundur er lögmaður hjá Samtökum verslunar og þjónustu.
Slóð inn á Kjarnann
30/08/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 30.8.2016
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt nefndarálit vegna búvörusamninga. SVÞ hafa verið gagnrýnin á umrædda samninga, t.d. varðandi fjárskuldbindingar vegna þeirra, tímalengd þeirra og að ekki eru lagðar til breytingar á öðrum tengdum málefnum s.s. framkvæmd úthlutunar á tollkvótum á landbúnaðarvörum. Í umsögn sinni um málið bentu SVÞ á að með þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist með undirritun samninganna sé vegið verulega að fjárstjórnarvaldi Alþingis, stjórnarskránni, fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál. Þá gagnrýndu SVÞ framkvæmd varðandi úthlutun á tollkvótum á landbúnaðarvörum, þ.e. þá skyldu að leggja útboðsgjöld á kvótanna sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum, og lögðu samtökin til breytingu á núverandi fyrirkomulagi.
Nú liggur fyrir að atvinnuveganefnd Alþingis hefur lagt til m.a. þær breytingar að fram fari endurskoðun á samningunum eftir 3 ár í stað 10 ára og að heimilaður verði án tolla innflutningur á tilteknu magni á svokölluðum upprunaostum, þ.e. ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi.
SVÞ telja jákvætt að loksins hafi náðst fram eitt af baráttumálum samtakanna sem er tollfrjáls innflutningur á ostum sem hingað til hafa borið háan verndartoll. Hins vegar er það magn osta lítill hluti af innlendum ostamarkaði, eða alls um 3-5%, og mun því ekki hafa áhrif á markað sem ber öll merki einokunar. Þá er einnig jákvætt að lagt er til nýtt endurskoðunarákvæði varðandi gildistíma búvörusamninga sem þó felur ekki í sér styttingu á samningum eða niðurfellingu þeirra. Þá harma SVÞ að atvinnuveganefnd Alþingis hafi ekki tekið til skoðunar breytingar á úthlutun á tollkvótum með hliðsjón af innsendum tillögum samtakanna. Er því enn viðhaldið óréttlátri og íþyngjandi skattheimtu við úthlutun tollkvóta sem óhjákvæmilega felur í sér viðbótarkostnað fyrir neytendur. Þá hefur ekki verið litið til þess að tollkvótarnir taka ekki tillit til verulegrar aukningar ferðamanna sem hefur aukið verulega á eftirspurn eftir matvælum sem innlend framleiðsla hefur á engan hátt náð að anna.
Loks átelja SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því harma SVÞ að ekki hafi verið stigið skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum. SVÞ telja að fyrirliggjandi samningar og tillögur atvinnuveganefndar um breytingar þar á sýni að lítill vilji virðist vera hjá stjórnvöldum að auka samkeppni í landbúnaði og þá trú að aukin samkeppni muni leiða af sér betri vörur, lægra verð og bættan rekstur fyrirtækja í landbúnaði. Því skora SVÞ á stjórnvöld að leggja til frekari breytingar á þessum málaflokki og þ.m.t. að taka til endurskoðunar núverandi framkvæmd við úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörum.
Fréttatilkynning á PDF sniði.
19/08/2016 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
18/08/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta í júlí síðastliðnum 31,4 milljörðum króna samanborið við 24 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða ríflega 31% aukningu milli ára. Kortavelta erlendra ferðamanna í júlí er sú mesta í einum mánuði frá upphafi en fyrra met var sett í júní síðastliðnum þegar erlendir ferðamenn greiddu vörur og þjónustu fyrir um 26 milljarða króna með kortum sínum.
Líkt og undanfarna mánuði var vöxtur í öllum útgjaldaliðum. Myndarlegur vöxtur var í dagvöruverslun í júlí en ferðamenn greiddu 1.357 milljónir til dagvöruverslana í mánuðinum eða 45,6% meira en í júlí í fyrra. Ef litið er á erlenda greiðslukortaveltu til verslunar í heild þá var hún rúmir 4,7 milljarðar í júní, 25% meiri en í júlí 2015.
Velta í ferðaþjónustu sem býður skipulegar ferðir innanlands eykst stöðugt og var 43% meiri í júlí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Er þar um að ræða ferðaþjónustu á borð við hvalaskoðun, gönguferðir, rútuferðir, hálendisferðir o.s.frv.
Enn er mikill vöxtur í farþegaflutningum með flugi en erlend kortavelta í þeim flokki jókst um 61,1% frá júlí 2015 og var rúmir þrír milljarðar í júlí síðastliðnum. Vöxtur í kortaveltu vegna kaupa erlendra ferðamanna á flugferðum nú er þó nokkuð minni en undanfarna átta mánuði en flugferðir eru jafnan keyptar nokkuð fram í tímann og nú líður senn að enda háannatíma ferðaþjónustu.
Eins og áður sagði jókst kortavelta erlendra ferðamanna í öllum flokkum í júlí en sem dæmi greiddu erlendir ferðamenn 30,8% meira fyrir gistiþjónustu samanborið við sama mánuð í fyrra, alls 6,2 milljarða, 29,5% meira á veitingastöðum eða 3,5 milljarða og 2,8 milljarða fyrir bílaleigubíla, 36% meira en í júlí 2015. Þá má nefna að menningartengd ferðaþjónusta jókst um 39% í mánuðinum miðað við júlí í fyrra.
Í júlí komu um 236 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 30,6% fleiri en í sama mánuði í fyrra.
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 133 þús. kr. í júní, eða um 4% minna en í maí. Það er álíka upphæð og í sama mánuði í fyrra.
Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum eða 191 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn eru í öðru sæti með 176 þús. kr. á hvern ferðamann. Rússar koma þar næst með 157 þús. kr. Athygli vekur að meðaleyðsla ferðamanna frá öðrum löndum er 172 þús. kr. á hvern ferðamann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.
www.rsv.is
16/08/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Vaxandi velmegun og aukinn fjöldi ferðamanna hafa afar jákvæð áhrif á verslun um þessar mundir. Mikill vöxtur hefur verið í sölu verslana með mat og drykkjarvöru það sem af er ári. Samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar fyrir júlímánuð sl. jókst veltan í dagvöruverslun um 8,6% frá sama mánuði í fyrra, sem er mikið í þessari tegund verslunar þar sem sveiflur eru alla jafna litlar. Erlendir ferðamenn sem hingað koma verja stærstum hluta þess sem þeir kaupa í verslunum í matvöruverslun. Þá telja verslunarmenn að vaxandi kaupmáttur almennings skili sér meðal annars í auknum matarinnkaupum. Sömu þróun má sjá í sölu áfengisverslana, þar sem aukning á veltu á milli ára var 17%.
Þá er athyglisvert að sala á húsgögnum var rúmlega þriðjungi meiri í júlí síðastliðnum en í júlí í fyrra. Þetta er langmesti vöxtur í húsgagnasölu það sem af er ári, þegar borin er saman velta sambærilegra mánaða milli ára. Júlí er venjulega ekki mjög veltumikill mánuður hjá húsgagnaverslunum, en nú bregður öðruvísi við.
Þegar bornar eru saman veltutölur í raf-, síma- og tölvuverslunum koma í ljós töluvert mismunandi sveiflur milli vörutegunda. Á meðan sala snjallsíma jókst í síðast mánuði um 16% frá sama mánuði í fyrra, dróst saman sala á tölvum um 18,5% á sama tímabili. Líklega myndu þó einhverjir telja snjallsíma vera tölvur og því um að ræða sölu á sömu tækjum en í mismunandi mynd. Þá var í mánuðinum mun meiri veltuaukning í sölu á stórum raftækjum til heimilisnota en hinum minni.
Ein undantekning er á hinni auknu veltu í íslenskri verslun í júlí; sem er fata- og skóverslun. En velta í þessum vöruflokkum var minni í ár en í fyrra. Verð á júlíútsölum á fötum í ár var 6,6% lægra en í sama mánuði í fyrra og 0,6% lækkun var á verði á skóm. Samdráttur í fatasölu nam 3,3% og 3,1 minni sala var í skóverslun.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,6% á breytilegu verðlagi í júlí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,2% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í júlí um 7,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í júlí 0,5% hærra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 17% á breytilegu verðlagi í júlí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 16% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í júlí um 19,3% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,9% hærra í júlí síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 3,3% í júlí miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 3,6% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 6,6% lægra í júlí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 3,1% í júlí á breytilegu verðlagi og minnkaði um 2,5% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -3,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í júlí um 0,6% frá júlí í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 34,7% meiri í júlí en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 34,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 58,3% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 59,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 0,4% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í júlí um 4,6% í júlí á breytilegu verðlagi og jókst um 4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í júlí um 18,5% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 16%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 6,2% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 9,4% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Fréttatilkynningin frá RSV.
15/08/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 13.8.2016
Höfundar: Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ og Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF
Samspil atvinnugreinanna í okkar litla íslenska hagkerfi er öllum ljóst. Þannig hefur það alltaf verið og mun trúlega alltaf verða. Uppgangur einnar atvinnugreinar hefur jákvæð áhrif fyrir allt hagkerfið og öfugt.
Sá gífurlegi vöxtur, sem ferðaþjónustan sem atvinnugrein hefur notið á undanförnum árum, sýnir okkur kannski betur en nokkru sinni fyrr hversu mjög hagsmunir atvinnugreina eru samtvinnaðir. Allt frá 2010 hefur mikilvægi ferðaþjónustu vaxið hröðum skrefum og eru fá ef nokkur dæmi um sambærilegan vöxt á jafn skömmum tíma. Á þessum tíma hefur fjöldi ferðamanna sem leggja leið sína til Íslands fjórfaldast. Á sama tíma hafa tekjur þjóðarbúsins vaxið gífurlega í formi gjaldeyristekna, VSK-tekna og annarra beinna og óbeinna skatttekna. Þá hefur atvinnusköpun aukist til muna um allt land og afleiddar tekjur vaxið samhliða. Ferðamenn eru nú í auknum mæli að kaupa hvers kyns innlenda þjónustu, versla og njóta þeirrar afþreyingar sem í boði er.
Þessi stórkostlegi vöxtur hefur sannarlega haft jákvæð áhrif á starfsemi verslunarinnar í landinu og raunar einnig á starfsemi fjölmargra þjónustufyrirtækja. Á fyrri hluta þessa árs vörðu erlendir ferðamenn 11,6 milljörðum króna í verslun á Íslandi, sé horft til kortaveltu. Það er rúmlega 3 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Menn þurfa raunar ekki að líta lengi í kring um sig til að sjá þessar breytingar með berum augum, mannlíf og yfirbragð allrar verslunar í miðborg Reykjavíkur og um allt land sýnir þetta svo ekki verður um villst. Fjöldi verslana og vöruúrval hefur aukist til muna hvert sem litið er og fjölbreytt þjónusta er nú í boði sem áður þekktist ekki. Í þessu samhengi má nefna að talið er að ferðamenn muni neyta um 22 tonna af innlendri matvöru á dag á þessu ári, setja um 54 tonn af eldsneyti á bílaleigubíla sína og kaupa íslenska hönnun sem aldrei fyrr.
Þá eru heildartekjur af hverjum ferðamanni innanlands að aukast á milli ára. Á fyrri hluta síðasta árs nam t.a.m. tekjuaukningin um 31% milli ára á meðan fjölgun ferðamanna á sama tímabili nam 27%. Vísbendingar gefa til kynna áframhaldandi aukningu í þessa átt á yfirstandandi ári. Það er okkar allra að nýta áfram þau tækifæri sem felast í fjölgun ferðamanna. Það hefur jákvæð og mikilvæg áhrif á hagkerfið allt, eykur velsæld og blómgar mannlíf. Vaxtarverkir eru óhjákvæmilegir en með yfirvegun, festu og samtakamætti okkar eru okkur allir vegir færir.
Fréttablaðið 13.8.2016 – Uppgangur ferðaþjónustu kemur öllum til góða