Löggjöf um innflutning á vörum úr eggjum og mjólk í andstöðu við EES samninginn

Eftirlitsstofnun EFTA sendi frá sér neðangreinda fréttatilkynningu í dag. Þess ber að geta að þessi niðurstaða eftirlitsstofnunarinnar kemuesa_logo_col_600r í beinu framhaldi af niðurstöðu EFTA dómstólsins um innflutningsbann á hráu kjöti, en Samtök verslunar og þjónustu áttu frumkvæði að þeim málarekstri.

Fréttatilkynningin
Innri markaður: Innflutningstakmarkanir á Íslandi á vörum úr eggjum og mjólk brjóta í bága við EES – samninginn

Íslensk löggjöf um innflutning á vörum úr eggjum og mjólk frá öðrum EES-ríkjum er ekki í samræmi við EES-samninginn. Innflutningstakmarkanirnar geta valdið innflutningsaðilum erfiðleikum við að koma vörum sínum á markað. Þetta er niðurstaða rökstudds álits sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi frá sér í dag.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á hráum eggjum og vörum úr þeim sem og ógerilsneyddri mjólk og mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar. ESA telur að þessar kröfur stangist á við tilskipun 89/662/EBE um eftirlit með dýraheilbrigði.

Vörur úr eggjum og mjólk sem viðskipti eru með innan Evrópska efnahagsvæðisins lúta nákvæmum reglum um heilbrigðiseftirlit í framleiðsluríkinu.  Eftirlit í viðtökuríki er hins vegar takmarkað við stikkprufur. Yfirgripsmikið regluverk ESB, sem er hluti af EES-samningnum, er sérstaklega hannað til að  draga úr áhættu og minnka líkur á að sjúkdómsvaldar berist milli landa. Víðtækt kerfi varúðarráðstafana er við lýði ef hætta skapast á útbreiðslu sjúkdómsfaraldurs í EES-ríkjum.

Í dómi sínum í máli E-17/15 Ferskar kjötvörur ehf v. íslenska ríkið komst EFTA dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að sambærilegar kröfur íslenska ríkisins varðandi innflutning á hráu kjöti stönguðust á við tilskipun 89/662/EBE. ESA telur hið sama gilda um innflutningstakmarkanir á vörum úr eggjum og mjólk.

ESA rekur einnig samningsbrotamál gegn Íslandi vegna innflutnings á hráu kjöti og sendi stofnunin íslenskum yfirvöldum rökstutt álit í október 2014. Þá hefur ESA einnig óskað eftir viðbrögðum íslenskra stjórnvalda í kjölfar niðurstöðu EFTA dómstólsins. Enn sem komið er hafa engar laga-eða reglubreytingar átt sér stað.

Rökstutt álit er annað skref í meðferð samningsbrotamáls. Hafi íslensk stjórnvöld ekki brugðist við innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

Til frekari upplýsinga er eftirfarandi hlekkur inn á heimasíðu ESA þar sem fjallað er um málið: http://www.eftasurv.int/press–publications/press-releases/internal-market/innri-markadur-innflutningstakmarkanir-a-islandi-a-vorum-ur-eggjum-og-mjolk-brjota-i-baga-vid-ees-samninginn

Nýjungar í starfsmenntun

Fundaröðin Menntun og mannauður hefst þriðjudaginn 20. september nk. í Húsi atvinnulífsins. Fjallað verður um nýjungar í starfsmenntun að þessu sinni og hvað er í gangi í málaflokknum þetta haustið. Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni sem mun standa til vors 2017.

Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri Landsmenntar, sem er sjóður almennra starfsmanna á landsbyggðinni, fjallar um það sem er efst á baugi hjá Landsmennt. Selma Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá SVS, starfsmenntasjóði verslunar-og skrifstofufólks og Sólveig Snæbjörnsdóttir fagstjóri hjá SVS fjalla um hvað ber hæst hjá SVS. Þá mun Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar – fræðsluseturs iðnaðarins, fjalla um nýjungar hjá Iðunni.

Að loknum erindum verður boðið upp á spurningar og spjall.

Það eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir, en nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan. Boðið verður upp á kaffi, te og með því frá kl. 8.15.

Fundirnir fara fram í salnum Kviku í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35 í Reykjavík, þriðja þriðjudag í mánuði.

Skráning á vef SA.

Samkeppnislegur ómöguleiki

Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 13.9.2016
Höfundar: Jón Björnsson, varaformaður SVÞ og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
„Verslun og þjónusta þarf eins og aðrar atvinnugreinar að búa við samkeppnishæft umhverfi.“ Þessi hástemmdu orð eru inngangur landsfundarályktunar annars af ríkisstjórnarflokkunum um verslun og þjónustu. Sannarlega lofandi yfirlýsing frá flokki sem kennir sig við frelsi í viðskiptum og ætti að vera vegvísir um virðingu fyrir viðskiptafrelsi á samkeppnislegum forsendum.

Samkeppni er hampað í hvívetna þegar kemur að vel flestum athöfnum í daglegu lífi en þegar pottur er brotinn í innlendum viðskiptum er skorti á samkeppni kennt um að ekki hafi betur farið.

Hins vegar  er það svo að samkeppni á ekki upp á pallborðið hjá stjórnmálamönnum þegar kemur að innlendri mjólkur- og kjötframleiðslu og ræktun einstakra grænmetistegunda og lúta einstaka fyrirtæki í þeim geira ekki almennum lögmálum samkeppnislaga. Laga sem ætlað er að efla samkeppni í viðskiptum og vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að innlendum markaði. Rúmur þriðjungur matarútgjalda hjá venjulegu íslensku heimili fer til kaupa á innlendum landbúnaðarvörum. Þrátt fyrir þá vernd sem greinin býr við virðast framleiðendur svínakjöts og kjúklingakjöts vera þeir einu sem hagnast á núverandi fyrirkomulagi, um það vitna ársreikningar fyrirtækja í þeim greinum. Skoðun ársreikninga fyrirtækja í almennri kjötvinnslu og mjólkurvinnslu leiðir hins vegar í ljós að það er ekki ábatasamur rekstur, þrátt fyrir samkeppnisverndina. Ekki er hagur bænda frábær. Á sama tíma og erlendir ferðamenn streyma til landsins og veitingahús landsins eru yfirfull, þarf að lækka verð til bænda fyrir lambakjöt. Og þar erum við stödd með þetta ólánskerfi sem enginn er ánægður með. Það sem verra er að það virðist alla stjórnmálaflokka skorta vilja eða þor til að gera hagsmunaaðilum ljóst að það sé þeirra að koma með raunhæfar úrbætur á kerfinu.

Með búvörusamningum er enn og aftur meitluð í stein opinber niðurgreiðsla til handa einni atvinnugrein ásamt því að undanþiggja áfram tiltekna grein ákvæðum samkeppnislaga. Þá lét Alþingi sem vind um eyru þjóta gagnrýni varðandi úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur þar sem allt samkeppnislegt hagræði til handa innlendum neytendum er afnumið með álagningu útboðsgjalda. Gjöld sem í eðli sínu eru skattur og keyra upp verð á innfluttum matvælum. Íslensk stjórnvöld höfðu tækifæri til að láta Mjólkursamsöluna og fleiri fyrirtæki vinna hylli neytenda í krafti betri vara og verðs en valdi fremur að pakka fyrirtækinu í þægilegar tollverndarumbúðir og halda áfram sömu vegferð og s.l. 20 ár.

Það er mikið til af hreinni og góðri íslenskri landbúnaðarvöru sem íslenskir framleiðendur ættu að gera meira af að segja frá. Séríslenskar vörur eins og skyr og lambakjöt ættu að vera á óskalista hvers ferðamanns  og við ættum að vera leiðandi  í dýravelferð og lífrænni ræktun. Við höfum allt til þess nema hinn samkeppnislega hvata.

Þrátt fyrir hávær mótmæli úr ýmsum áttum um ágalla á landbúnaðarkerfinu þá á það kerfi sér marga stuðningsmenn á Alþingi. Skiptir hér engu hvort um er að ræða rótgróinn flokk sem viðheldur íhaldssömum gildum í landbúnaði eða flokk sem hefur að stefnu að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Samtök verslunar og þjónustu eru einfaldlega þeirrar skoðunar að nýgerðir búvörusamningar komi ekki til með að skila bændum neitt fram á veginn, miklu fremur að verið sé að festa í sessi óbreytt ástand til næstu ára. Hins vegar er hægt að fullyrða að þeir muni ekki skila íslenskum neytendum neinum ávinningi.. Binda verður vonir við að það þing sem kosið verður í næsta mánuði verði þannig samansett að hægt verði að gera sér raunhæfar vonir um breytingu á þessu kerfi sem verði bæði bændum og neytendum til framdráttar.

Greinin í Fréttablaðinu.

Árbók verslunarinnar 2016

Rannsóknasetur verslunarinnar og Kaupmannasamtök Íslands hafa gefið út Árbók verslunarinnar 2016 þar sem farið er yfir þróun og stöðu íslenskrar verslunar í tölum og texta. Þetta er níunda árið í röð sem Árbók verslunarinnar er gefin út.  Að þessu sinni er sérstakur kafli helgaður verslun í Reykjavík, en auk þess er farið yfir umfang smásölumarkaðarins á síðasta ári og þróun hans á undanförnum árum.

Árbók verslunarinnar 2016

Árbók verslunarinnar er ætlað að veita þeim sem reka verslun nytsamlegar upplýsingar sem nýtast við stjórnun og ákvarðanatöku. Bókin nýtist einnig þeim sem stunda hagrannsóknir, stjórnvöldum og öðrum þeim sem þurfa á að halda upplýsingum um stöðu og þróun verslunar.

Í Árbók verslunarinnar 2016 kemur fram að:
•    á árinu 2015 var heildarvelta smásöluverslunar án virðisaukaskatts tæpir 400 milljarðar króna samanborið við 376 milljarða árið áður. Vöxtur í veltu frá fyrra ári var því 5,8% og hefur ekki verið meiri á milli ára frá hruni.
•    stærsti einstaki vöruflokkur smásöluverslunar 2015 var í flokknum „dagvara og stórmarkaðir“. Velta í þeim flokki nam um 208 milljörðum kr.
•    ytri skilyrði verslunar hafa sjaldan verið betri. Kaupmáttur launa Íslendinga var í lok 2015 í sögulegu hámarki og hafði aukist um 8% á einu ári. Einkaneysla jókst um 5% á milli ára. Skuldir heimilanna dragast saman.
•    fjöldi skráðra smásöluverslana í landinu voru 2.258 í lok ársins 2015, sem er nánast sami fjöldi og árið áður. Af þessum verslunum voru flestar í flokki fataverslana. Mest fjölgun var hins vegar í flokki netverslana, eða um 6%.
•    hlutur verslunar í landsframleiðslu var 9,6% árið 2015 og hefur lítið breyst á milli ára. Framlag verslunar í landsframleiðslu er svipað og sjávarútvegs annars vegar og hefðbundins iðnaðar hins vegar.
•    erlendir ferðamenn greiddu með greiðslukortum sínum fyrir vörur í íslenskum verslunum árið 2015 fyrir 22,7 milljarða kr. sem er um 6% af heildarveltu íslenskra smásöluverslana. Erlend kortavelta í verslunum jókst um 23% frá árinu áður. Mest keyptu ferðamennirnir í dagvöruverslunum.
•    alls störfuðu 23.800 manns við verslun árið 2015 sem er um 13% af heildarvinnuafli landsins. Starfsmönnum í verslun fjölgaði um 600 frá árinu áður. Karlar sem störfuðu við verslun voru 2.700 fleiri en konur í greininni.
•    áætlað er að velta innlendrar netverslunar árið 2015 hafi verið að lágmarki um 5 milljarðar króna og aukist um 27% frá árinu áður.
Í Árbók verslunarinnar er auk þessa ítarleg greining á ýmsum lýðfræðilegum þáttum eftir landssvæðum. Þar koma meðal annars fram breytingar á fjölda íbúa eftir landssvæðum,
aldursskiptinu og kyni.

Hvað þýðir Brexit fyrir verslun í Evrópu?

Á fundi norrænna systursamtaka SVÞ sem haldinn var í Finnlandi fyrir skömmu var m.a. fjallað um mögulegar afleiðingar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu fyrir verslun í Evrópu. EuroCommerce, Evrópusamtök verslunarinnar, hafa greint stöðuna eftir því sem unnt er en ljóst er að mikið óvissutímabil fer nú í hönd, þar sem ekki liggur enn fyrir hvernig Bretar hyggjast haga aðskilnaði sínum við Evrópusambandið. Það eina sem liggur ljóst fyrir er að þeir munu yfirgefa sambandið, eða eins og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands hefur sagt „Brexit means Brexit“.

Búast má við að það taki um tvö ár að ganga frá aðskilnaðinum. Hvað gerist í kjölfarið er hins vegar að verulegu leyti óljóst.
Hvernig munu Bretar haga samskipum sínum við ESB? Munu þeir reyna að tengjast samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og Íslendingar og Norðmenn? Telja verður það ólíklega niðurstöðu. Mun líklegra er að þeir muni stefna að tvíhliða samningi við Evrópusambandið, líkt og Sviss hefur gert.

Búast má við að innfluttar vörur frá Bretlandi verði dýrari með frekari veikingu pundsins, sem flestir spá að verði. Það mun eðlilega hafa áhrif á eftirspurn eftir breskum vörum í Evrópu.

Það sem forsvarsmenn verslunarinnar í Evrópu hafa þó mestar áhyggjur af, er hin víðtækari afleiðing Brexit á viðskipti innan Evrópu. Margir óttast að sjónarmiðum verndarstefnu, þar sem tæknilegar viðskiptahindranir og mismunun einstakra aðildarríkja ESB gangvart erlendum fyrirtækjum, vaxi fiskur um hrygg. Nokkur slík dæmi hafa þegar komið upp, t.d. í Ungverjalandi og Póllandi. Það er því hið pólitíska landslag í Evrópu sem er aðaláhyggjuefnið, þar sem sjónarmiðum þjóðernisstefnu vex fiskur um hrygg. Samningaviðræður Bretlands og ESB munu fljótlega leiða í ljós hvor leiðin verður farin, leið frjálsra viðskipta eða leið verndarstefnu með tilheyrandi viðskiptahindrunum.

Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá

Grein birt á Kjarnanum 1.9.2016 – Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ
Umræða um upp­runa­merk­ingu mat­væla hefur verið áber­andi að und­an­förnu m.a. í ljósi opin­berrar umfjöll­unar um búvöru­samn­inga. Í þeirri umræðu hefur verið rætt um að gera rík­ari kröfur um upp­runa­merk­ingu mat­væla og sú krafa m.a. gerð að sam­þykkt búvöru­samn­inga og tolla­samn­ings við ESB um inn- og útflutn­ing á mat­vælum grund­vall­ist á inn­leið­ingu á reglu­verki samn­ings­ins um Evr­ópska efna­hags­svæð­is­ins um upp­runa­merk­ingu mat­væla. Þannig hafa einnig for­menn Svína­rækt­ar­fé­lags Íslands og Félags kjúklinga­bænda nýlega ritað grein sem beint er að ákveðnum hags­muna­sam­tökum og fram­kvæmda­stjóra þeirra vegna afstöðu þeirra hags­muna­sam­taka gagn­vart kröfu um upp­runa­merk­ing­ar.

Af þess­ari umræðu, hvort sem hún á sér stað í þing­heim eða fjöl­miðl­um, má ráða að það sé ein­beittur vilji inn­flytj­enda og versl­ana að leyna upp­runa mat­væla fyrir neyt­end­um. Hér eru óneit­an­lega á ferð­inni dig­ur­barka­legar yfir­lýs­ingar um mein­tan vilja hags­muna­að­ila um að brjóta gegn trausti við­skipta­vina sinna. En er það virki­lega svo að neyt­endur eigi ekki rétt á upp­lýs­ingum um upp­runa mat­væla?

Í starf­semi sem grund­vall­ast á sam­keppn­is­legum for­sendum gera versl­un­ar­eig­endur sér fylli­lega grein fyrir því að virk sam­keppni leiðir til þess að upp­lýstur neyt­andi hefur val um við hvern hann versl­ar. Sé þjón­usta eða upp­lýs­inga­gjöf ekki að skapi neyt­enda þá velur hann að beina við­skiptum til sam­keppn­is­að­ila. Þannig virkar sam­keppni í sinni ein­föld­ustu mynd en vissu­lega á sam­keppni ekki við í öllum atvinnu­greinum enda eru til­teknar greinar und­an­skildar þeim lög­mál­um, s.s. til­tekin inn­lend mat­væla­fram­leiðsla.

Versl­unin hefur gert sér grein fyrir mik­il­vægi þess að veita neyt­endum upp­lýs­ingar um upp­runa mat­væla. Óhætt er að full­yrða að yfir­gnæf­andi meiri­hluti Íslend­inga vill bæta upp­runa­merk­ingar mat­væla og skiptir upp­runi mat­væla því miklu máli við ákvörðun um kaup. Í ljósi þessa tóku SVÞ höndum saman við Sam­tök atvinnu­lífs­ins, Sam­tök iðn­að­ar­ins, Sam­tök ferða­þjón­ust­unn­ar, Bænda­sam­tök Íslands og Neyt­enda­sam­tök­in, ásamt dyggri ráð­gjöf frá Mat­væla­stofn­un, og gáfu út í febr­úar 2015 ítar­legar leið­bein­ingar til aðild­ar­fyr­ir­tækja sinna um upp­runa­merk­ingar mat­væla. Þar eru á mjög svo upp­lýsandi hátt, bæði í rit- og mynd­máli,  settar fram ábend­ingar til fram­leið­enda, inn­flytj­enda og veit­inga­staða um upp­runa­merk­ingar á þeim vörum sem eru í boði. Eins og fram kemur í inn­gangi þeirra leið­bein­inga þurfa neyt­endur að fá vit­neskju á umbúðum mat­væla, eða með merk­ingum á sölu­stað og við fjar­sölu, um upp­runa­land þeirrar vöru sem þeir kaupa.

Í umræddum leið­bein­ingum er ekki ein­göngu tekið til­lit til þeirra reglna sem gilda hér á landi um upp­runa­merk­ingar heldur er þar gengið enn lengra og settar fram til­lögur um merk­ingar á þeim sviðum þar sem reglur um upp­runa­merk­ingar hafa enn ekki tekið gildi. Því má með sanni segja að íslensk verslun hefur axlað ábyrgð á skyldu um upp­runa­merk­ingar og í þeirri veg­ferð tekið á sig skyldur umfram laga­skyld­u.

Hags­munir neyt­enda verða ávallt að vera í for­gangi þannig að þeir geti tekið upp­lýstar ákvarð­anir um vöru­kaup og er upp­runa­merk­ing þar lyk­il­at­riði. SVÞ benda á að verslun hef­ur, og mun ávallt, axlað sína ábyrgð varð­andi upp­lýs­ingar til neyt­enda og því er bæði rétt­látt og sann­gjörn krafa að inn­lendir mat­væla­fram­leið­end­ur, þ.m.t. svína- og kjúklinga­fram­leið­end­ur, opni dyrnar hjá sér varð­andi aðbúnað og fram­leiðslu­ferli í sinni starf­semi til að upp­lýsa neyt­endur um sína starf­semi.

Höf­undur er lög­maður hjá Sam­tökum versl­unar og þjón­ustu.

Slóð inn á Kjarnann