Kuðungurinn 2015

Umhverfisviðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins
Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnanir, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðugt að hljóta Kuðunginn fyrir árið 2015. Kuðungurinn verður afhentur í tengslum við dag umhverfisins 25. apríl.

Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunum. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum. Til að koma til álita við veitingu Kuðungsins þarf fyrirtækið eða stofnunin að hafa skarað fram úr á einu eða fleiri eftirtöldum sviðum: Umhverfisstjórnun, innleiðingu nýjunga í umhverfisvernd, hreinni framleiðslutækni, lágmörkun úrgangs, mengunarvörnum, umhverfisvænni vöruþróun, framlagi til umhverfismála eða vinnuumhverfi.

Tillögur skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eigi síðar en 23. mars næstkomandi, merktar ,,Kuðungurinn 2015″, á póstfangið postur@uar.is eða með pósti í umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Nánari upplýsingar er að finna á: www.uar.is/kudungurinn

Frá ráðstefnu SSSK – Ábyrgð okkar allra

SSSK hélt glæsilega ráðstefnu undir yfirskriftinni „Ábyrgð okkar allra“ fyrir fullu húsi í Gamla bíói föstudaginn 11. mars sl. undir styrkri stjórn Ólafar Kristínar Sívertsen fagstjóra Skóla ehf.

Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður samtakanna ávarpaði ráðstefnugesti og orðaði m.a. mikilvægi frelsis, fjölbreytni og fagmennsku.

Fyrirlestra fluttu Elín María Björnsdóttir, alþjóðlegur ráðgjafi hjá stofnun FranklinCovey með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Sjö venjur til árangurs“ og Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni, fyrirlestur undir yfirskriftinni „Umhverfisvitund og vald þekkingar“. Fengu báðir fyrirlesarar mjög góðar undirtektir gesta.

Milli atriða fluttu nemendur frá Landakotsskóla frumsamin tónlistaratriði og hlutu mikið lófatak fyrir.

Að lokinni ráðstefnu var boðið upp á léttar veitingar við ljúfan píanóleik.

Myndir frá ráðstefnu

Frá ráðstefnu SVÞ – Hvað hefur örvandi áhrif á kauphegðun?

Frá ráðstefnu SVÞ – Hvað hefur örvandi áhrif á kauphegðun?

Húsfyllir var á ráðstefnu SVÞ sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 17. mars sl. Ari Eldjárn kynnti fyrirlesara og kitlaði hláturtaugar ráðstefnugesta eins og honum einum er lagið.

Í ávarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra gætti bjartsýni gagnvart íslenskri verslun sem hann taldi að ætti að geta staðið verslun í nágrannalöndum jafnfætis á samkeppnisgrundvelli í kjölfar afnáms tolla og vörugjalda. Kom einnig fram í máli ráðherra að vísitölur sýndu að verslunin væri að skila þessum ávinningi til neytenda. Þá sagðist ráðherra vera ósáttur við tilboðsauglýsingar Fríhafnarinnar og taldi að ríkið ætti að draga úr umsvifum sínum á þessum markaði.

Margrét Sanders formaður SVÞ lagði áherslu á útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkageirans í erindi sínu undir yfirskriftinni „Einkarekstur eða opinber rekstur? – Hugarfarsbreytingar er þörf“. Kom fram í máli formanns að ríkið ætti að huga betur að fjármálum sínum og þyrfti að greina betur hvort það borgi sig alltaf að ráða starfsmann frekar en að úthýsa fleiri verkefnum og kaupa þjónustu frá utanaðkomandi sérfræðingum.

Ken Hughes, sérfræðingur í neytenda- og kauphegðun,  sló síðan botninn í ráðstefnuna með frábæru erindi undir yfirskriftinni“Shopper Marketing & Shopper Centricity“. Í erindi sínu sýndi Ken ráðstefnugestum hvað það er sem fær neytendur til að kaupa og hvernig er hægt að fá þá til að kaupa meira.

Kynning Margrétar Sanders, formanns SVÞ
Myndir frá ráðstefnu

Myndband – nokkrar staðreyndir um mikilvægi verslunar og þjónustu

Breytingar á stjórn  Samtaka verslunar og þjónustu

Breytingar á stjórn Samtaka verslunar og þjónustu

Á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu sem haldinn var, fimmtudaginn 17. mars, var kosið um þrjú sæti í stjórn samtakanna. Kosningu hlutu Jón Björnsson, Festi hf.,  Jón Ólafur Halldórsson, Olíuverzlun Íslands hf. og Kjartan Örn Sigurðsson, frá verslunin Kvosin ehf.

Aðrir í stjórn samtakanna eru Margrét Sanders, Deloitte ehf., sem var endurkjörin formaður samtakanna til tveggja á síðasta aðalfundi, Árni Stefánsson hjá Húsasmiðjunni, Margrét G. Flóvenz frá KPMG og Ari Edwald frá MS. Úr stjórn SVÞ gengu Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður Samtaka Sjálfstæðra skóla, Gestur Hjaltason frá ELKO og Sigríður Margrét Oddsdóttir frá Já.

Eitt af helstu baráttumálum SVÞ er að ríki og sveitarfélög úthýsi mun fleiri verkefnum til einkafyrirtækja. Það eykur skilvirkni, bætir þjónustu og sparar umtalsvert fjármagn.

Breytingar á tollakerfinu eru annað af helstu baráttumálum SVÞ og í þeim málaflokki  voru stigin mikilvæg skref á starfsárinu, þegar Alþingi samþykkti breytingar á tollalögum sem tóku gildi um síðustu áramót og fela í sér afnám tolla af fötum og skó. Einnig má nefna fyrirhugaða niðurfellingu á tollum af öllum öðrum vörum en matvöru og sem taka mun gildi um áramótin 2016-2017. Um er að ræða sigur í áralöngu baráttumáli SVÞ og samtökunum þykir ástæða til að þakka stjórnvöldum, og þá sérstaklega fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir að hafa stigið þetta skref. Þessi breyting, auk afnáms almennra vörugjalda um áramótin 2014-2015, eru veigamestu skref sem stjórnvöld hafa tekið um árabil til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar.

Mynd: Ný stjórn SVÞ, frá vinstri Jón Björnsson, Kjartan Örn Sigurðsson, Jón Ólafur Halldórsson, Margrét G. Flóvens,  Árni Stefánsson, Margrét Sanders, Ari Edwald og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.

 

Ársskýrslu SVÞ má finna hér.

Mikil velta í byggingavörum í febrúar

Mikil velta í byggingavörum í febrúar

Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var velta í byggingavöruverslun 16,7% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra eða rúmlega 20% meiri á föstu verðlagi. Vetrarmánuðirnir eru jafnan rólegir í byggingavöruverslun en veltan í febrúar var sambærileg veltu aprílmánaðar undanfarin tvö ár á föstu verðlagi. Má því segja að vorið í byggingavöruverslun komi nú tveimur mánuðum á undan áætlun. Verð byggingavara var nokkuð lægra í liðnum mánuði en í febrúar í fyrra og hafa sem dæmi verkfæri lækkað í verði um ríflega 7% frá fyrra ári en efni til viðhalds hækkað um tæpt prósent.

Töluverð veltuaukning hefur verið í húsgagnaverslun undanfarna mánuði og var veltan í febrúar 38,7% meiri en á sama mánuði í fyrra. Séu síðustu tólf mánuðir bornir saman við tólf mánaða tímabilið þar á undan hefur vöxtur í sölu húsgagna verið 17,4% en 19,2% á föstu verðlagi. Verðlag húsgagna hækkaði nokkuð í febrúar frá fyrra ári, eða um 4,3%. Má þó geta þess að verðlag síðustu tólf mánaða er um 1,4% lægra að meðaltali en verðlag á því tólf mánaða tímabili sem á undan kom.
Febrúar var degi lengri í ár en venjulega og sáust þess merki í dagvöruverslun, sem var 8,7% meiri í febrúar í ár en í fyrra. Árstíðarleiðrétt velta á föstu verðlagi var 3,9% meiri en í fyrra en verðlag dagvöru var 1,4% hærra en í febrúar í fyrra. Velta dagvöruverslana á milli ára er nokkuð viðkvæm fyrir hlaupárum enda velta flokksins jafnan nokkuð stöðug við hefðbundinn samanburð jafn langra mánaða. Svo fjölgun daga sé sett í samhengi við áðurnefndan veltuvöxt voru 3,6% fleiri dagar í febrúar árið 2016 en árið 2015 og því er rétt að miða við árstíðaleiðréttu töluna. Telst sú veltuaukning þó nokkur jafnvel þegar gert hefur verið ráð fyrir þessu.

Velta áfengisverslunar fyrir virðisaukaskatt var 18,7% meiri og fjöldi seldra lítra áfengis 4,8% meiri í febrúar nú en fyrir ári síðan. Skýrist mismunurinn að mestu leyti af breytingum á skattheimtu áfengis um áramótin þegar VSK var lækkaður en áfengisgjöld, sem innheimt eru á framleiðslu- eða innflutningsstigi, voru hækkuð á móti. Verð áfengis var 1% hærra í febrúar í ár samanborið við sama mánuð í fyrra.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,7% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 7,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í febrúar um 3,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,4% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í febrúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 18,7% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 17,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis á föstu verðlagi í febrúar um 13% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Fataverslun jókst um 5,9% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og um 5,1% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 1% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 10,9% í febrúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 10,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 9,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í febrúar um 0,3% frá febrúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 38,7% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 30,1% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 47,5% á breytilegu verðlagi.

Verð á húsgögnum hefur lækkað um 4,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í febrúar um 16,7% á breytilegu verðlagi og um 20,2% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,9% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum stóð í stað í febrúar á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 9,6%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,1% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 3,3% á milli ára. Verð á raftækjum fer almennt lækkandi. Þannig var verð á stórum raftækjum sem dæmi 5,9% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.