Ferðamenn eyddu 15 milljörðum meira á fyrsta ársfjórðungi

Erlend greiðslukortavelta í mars síðastliðnum nam tæpum 15 milljörðum króna samanborið við 9,7 milljarða í mars 2015. Um er að ræða 55% aukningu á milli ára. Sé litið á fyrsta ársfjórðung í heild nam kortavelta erlendra ferðamanna um 40 milljörðum króna, það gerir 61% aukningu á milli ára en kortaveltan var 24,7 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi árið 2015. Kortavelta á hvern erlendan ferðamann sem kom til landsins í mars jókst um rúmlega 12% miðað við sama mánuð í fyrra.
Erlend kortavelta í mars jókst í öllum útgjaldaliðum. Líkt og í febrúarmánuði var mikil aukning í farþegaflutningum, eða 131% frá sama mánuði í fyrra. Erlendir aðilar greiddu í mars með kortum sínum alls 3,2 milljarða króna fyrir farþegaflutninga, en til að setja vöxt undanfarinna missera í samhengi má nefna að kortavelta í sama flokk nam 3,7 milljörðum allt árið 2013. Jafnframt er mars fimmti mánuðurinn í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári.
Þá var í mars töluverð aukning í kortaveltu ferðamanna í verslun og versluðu ferðamenn fyrir rúmlega 1,7 milljarð, sem er 40% Kortavelta e. útgjaldaliðum 03 2016meira en í sama mánuði í fyrra. Mestur var vöxturinn í dagvöruverslun, um 85% og þar næst, 51% í fataverslun.
Kortavelta ferðamanna í bílaleigum í mars var um helmingi meiri en í sama mánuði í fyrra og hefur hún tvöfaldast frá mars 2014. Í öðrum flokkum jókst kortavelta einnig á milli ára, sem dæmi um 53% í veitingaþjónustu og 43% í gistiþjónustu.
Í mars komu um 116 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 38% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Til samanburðar eru það fleiri ferðamenn en komu í júní 2014, þriðja fjölmennasta ferðamannamánuði þess árs.

Kortavelta eftir þjóðerni
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir um 130 þús. kr. í mars, líkt og í febrúar síðastliðnum. Það er um 12% hærri upphæð en í mars í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam aukningin um 11% á milli ára.
Líkt og í febrúar keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 345 þús. kr. á hvern ferðamann. Rússar eru í öðru sæti með 245 þús. kr. á hvern ferðamann og Kanadamenn koma fast á hæla þeirra með 243 þús. kr.
Velta eftir þjóðerni ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veita Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868- 4341.

www.rsv.is

Tökum vel á móti erlendu starfsfólki

Mikilvægt er að Íslendingar taki vel á móti erlendu starfsfólki sem þjóðfélagið þarf á að halda næstu ár og áratugi. Risavaxnar áskoranir á íslenskum vinnumarkaði eru framundan vegna öldrunar þjóðarinnar og mikillar örorkubyrði, en til að standa undir góðum hagvexti og lífskjörum til framtíðar þarf Ísland á erlendu starfsfólki að halda.

Ísland er að þróast í fjölmenningarsamfélag en því er spáð að hlutfall erlendra ríkisborgara verði orðið 20% innan ekki langs tíma en hlutfallið er 8% í dag. Erlent starfsfólk er því lykill að fjölbreyttum og öflugum vinnumarkaði og nauðsynleg forsenda þess að auka samkeppnishæfni landsins.

Samtök atvinnulífsins ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Samorku og Samtökum verslunar og þjónustu stóðu fyrir vel heppnuðum fundi um erlent starfsfólk á Íslandi í Húsi atvinnulífsins í vikunni en þar voru sagðar reynslusögur fyrirtækja sem hafa ráðið erlent starfsfólk í vinnu.  Um var að ræða fund í fundaröðinni Menntun og mannauður.

Sjá nánar hér

Mikill kippur í verslun í mars

Samkvæmt fréttatilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar var kaupgleði landsmanna mikil í mars og velta í stærstu flokkum Smásöluvísitölunnar með mesta móti miðað við árstíma. Sem dæmi var dagvöruverslun 10,8% meiri í mars en í sama mánuði í fyrra, byggingavöruverslun 28% meiri og einnig var áfengis- og húsgagnaverslun lífleg.
Velta dagvöruverslana var 10,8% hærri í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi. Ein helsta ástæða fjörugrar verslunar með dagvöru er sú að í ár voru páskar í mars en í apríl árið 2015. Verðlag dagvöru hefur einnig hækkað um 1,7% frá mars í fyrra og er aukning frá fyrra ári á föstu verðlagi því nokkuð minni eða 8,9%. Árstíðaleiðrétt velta dagvöruverslana jókst um 5,6% á föstu verðlagi en með árstíðaleiðréttingu er leitast við að taka út áhrif þátta eins og páska og ólíkrar samsetningar vikudaga á milli mánaða. Telst sú aukning veltu þó enn nokkuð mikil fyrir jafn stöðugan vöruflokk og dagvöru.
Velta áfengisverslunar fyrir virðisaukaskatt var 29,3% meiri og voru 14,6% fleiri lítrar áfengis seldir í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Helsta skýring meiri áfengissölu nú en í fyrra má, líkt og í dagvöruverslun, rekja til tímasetningar páska. Sem fyrr stafar meiri veltuaukning en fjölgun lítra af þeim kerfisbreytingum sem tóku gildi um áramótin en veltutölur sem birtar eru hér eru án VSK en innihalda áfengisgjöld. Árstíðaleiðrétt velta áfengisverslunar á föstu verðlagi jókst um 14,2% og verðlag áfengis (með VSK) hækkaði um 0,8% frá mars í fyrra.
Líkt og undanfarna mánuði er mikill vöxtur í byggingavöruverslun en hún jókst um 28,1% frá síðasta ári á breytilegu verðlagi. Verðlag byggingavöru hefur lækkað um 2,3% frá fyrra ári og er ársbreyting veltu á föstu verðlagi því 31,1%. Verslun með byggingavörur er töluvert háð ástandi efnahagslífsins á hverjum tíma og mikil velta í flokknum vísbending um góðan gang hagkerfisins um þessar mundir.
Húsgagnaverslun var einnig kröftug í mars og jókst velta hennar um 20,7% frá fyrra ári á breytilegu verðlagi en 18,3% á föstu verðlagi. Líkt og í byggingavöruverslun hefur stöðugur vöxtur verið í veltu húsgagnaverslunar síðustu misseri. Þannig var húsgagnaverslun síðustu tólf mánuði 19,1% meiri á föstu verðlagi en á tólf mánaða tímabilnu þar á undan. Verðlag húsgagna í mars var 2,1% hærra en í sama mánuði í fyrra.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 10,8% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 8,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í mars um 5,6% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,7% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í mars 0,2% hærra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 29,3% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og um 28,3% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í mars um 14,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í mars síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 0,1% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 4,2% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,9% lægra í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 4,3% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 11,3% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 8,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í mars um 6,2% frá mars í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 20,7% meiri í mars en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 18,3% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 28,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 6,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2,1% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í mars um 28,1% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 31,1% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,3% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst í mars um 2,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 25,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 4,4% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 3,1% á milli ára. Verðlag raftækja fer almennt lækkandi og lækkaði verð hvers flokks á bilinu 2-4% frá fyrra ári.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.

Menntun og mannauður – Fræðsla erlendra starfsmanna.

Næsti fundur í menntaröðinni Menntun og mannauður verður þriðjudaginn 19. apríl kl. 8.30-10:00 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni, 35, 1. hæð. Fundurinn er hluti af fundaröðinni Menntun og mannauður 2015-2016.

Á fundinum verður fjallað um erlent starfsfólk og fræðslu.

DAGSKRÁ

Erlendir starfsmenn – áskoranir og tækifæri.
Sigríður Harðardóttir, mannauðsstjóri – Strætó.

Að skilja íslensku rýfur einangrun
Guðmundur Oddgeirsson, framkvæmdastjóri – Hýsing, Vöruhótel.

Innflutningshöft á þekkingu?
Margrét Jónsdóttir, starfsmanna- og skrifstofustjóri – Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum.

Spurningar og spjall

Kaffi, te og með því frá kl. 8.15. Allir velkomnir en nauðynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan.

Skráning hér

Hvaða hagsmuna átt þú að gæta í þínum rekstri?

Haldinn verður kynningarfundur fyrir verslunar- og þjónustuaðila miðborgarinnar miðvikudaginn 20. apríl nk.  Fundurinn verður í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, og hefst kl. 8:30.

Fundurinn er framhald stefnumótandi fundar sem SVÞ átti með fulltrúum miðborgarinnar  þar sem skoðað var  hvar hagsmunir verslunar- og þjónustuaðila í miðborginni færu saman með hagsmunum SVÞ.  Ljóst var að áhugi er fyrir því að SVÞ og miðborgin taki höndum saman í hagsmunagæslu.

Dagskrá fundar

Starfsfólk SVÞ, ásamt framkvæmdastjóra, Andrési Magnússyni, kynnir starfsemi samtakanna, helstu niðurstöður stefnumótunarfundarins og stýrir umræðum um næstu skref.

Auglýsing til útprentunar.

Oops! We could not locate your form.

Sala áfengis – versluninni er treystandi

Í umræðunni um fyrirliggjandi lagafrumvarp til breytinga á sölu áfengis hafa þau sjónarmið verið áberandi að verslunin muni ekki sýna ábyrgð í verki þegar kemur að þeim ströngu skilyrðum sem gilda um sölu áfengis. Þeir sem lengst hafa gengið halda því eindregið fram að sala áfengis í almennum verslunum muni leiða til aukins aðgengis og tilslökunar á sölu og afhendingu á þeirri neysluvöru sem áfengið er.

Í þessari umræðu er mikilvægt að greina á milli þeirrar gagnrýni sem byggist á lýðheilsusjónarmiðum og hins vegar þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram af einstaka hagsmunaaðilum sem halda því fram að aukin samkeppni ógni því þægilega umhverfi sem þeir sumir hverjir búa við í viðskiptum þeirra við einokunarfyrirtæki ríkisins.

Það er mjög mikilvægt að halda því til haga að versluninni hefur á undanförnum áratugum verið falin sala á ýmsum vörum sem hafa tiltekna hættueiginleika og varða almannaheill. Hér má nefna neysluvörur á borð við tóbak og lyf og aðrar vörur eins og skotfæri, skotelda, sprengiefni og vandmeðfarnar efnavörur.
Reynslan hefur sýnt það að versluninni er fyllilega treystandi til að annast sölu á þessum viðkvæmu vörum og að virða þær ströngu reglur sem um þessar vörur gilda. Á öðrum sviðum hefur einkaaðilum einnig verið treyst til að annast þjónustu á sviðum sem varða öryggi og almannaheill, eins og skoðun ökutækja. Af þessum dæmum ætti að vera nokkuð ljóst að versluninni er fyllilega treystandi til að annast sölu á áfengi til almennings.