25/05/2016 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 19.5.2016
Um 64% af innfluttum fatnaði og skóm báru 15% tolla fram að síðustu áramót þegar tollurinn var feldur niður. Þessi aðgerð leiddi af sér töluverða kostnaðarlækkun fyrir innflytjendur og niðurfelling tollana ætti því, að öðru óbreyttu, að leiða til ríflega 8% verðlækkunar á þessum vöruflokkum.
Þegar skoðað er hvort tollaniðurfellingin hafi skilað verðlækkun til neytenda þarf að skoða fleiri þætti en opinberar álaglögur. Innkaupsverð varanna, gengi gjaldmiðla, laun og annar innlendur kostnaður eru meðal þess sem hefur áhrif á rekstur þessara fyrirtækja og þar af leiðandi á þróun verðs á innlendum markaði.
Við mat á því hvort tollalækkanirnar hafi skilað sér með fullnægjandi hætti til neytenda þarf að skoða þróun annarra kostnaðarliða frá því að tollaniðurfellingin tók gildi. Því hefur efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins reiknað vísitölu sem vegur saman þessa kostnaðarliði og ber hana saman við verðþróunina eins og hún hefur verið skv. verðvísitölu Hagstofunnar.
Eins og sést á myndinni hér að ofan hafa verðlækkanir á fötum og skóm í innlendum fataverslunum verið svipaðar og við mátti búast samkvæmt reiknuðu vísitölunni. Frá desember í fyrra fram í apríl s.l. lækkaði verð að meðaltali um 3,9% en reiknaða vísitalan gerir ráð fyrir 3,7% verðlækkun.
Helsta ástæða þess að verðlag hefur ekki lækkað eins mikið og tollabreytingarnar einar og sér gæfu tilefni til, er mikil hækkun innlendra kostnaðarliða. Hæst bera miklar launahækkanir en á tímabilinu hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 4,8% og annar innlendur kostnaður um 0,7%. Þetta dregur úr áhrifum tollaniðurfellingarinnar og hagstæðrar gengisþróunar. En eftir stendur að niðurfelling tolla hefur skilað íslenskum neytendum um 4% lægra verði á fötum og skóm.
Verðbreytingar koma ekki fram strax og ný lög taka gildi, það þarf að hafa í huga í umræðu um skattkerfisbreytingar. Í fataverslun á meðalkaupmaðurinn um 120 daga vörubirgðir og því getur það því tekið 4 – 5 mánuði að sjá áhrif slíkra breytinga koma endanlega fram í verði vöru. Engu að síður sýna kannanir að verulegar lækkanir eru þegar komnar fram í einstaka vöruflokkum, s.s. kvenskóm, sem hafa lækkað um 17%.
SVÞ er ekki í minnsta vafa um að niðurfelling tolla af fötum og skóm muni skila sér til neytenda á sama hátt og skattkerfisbreytingar fyrri ára hafa gert það. Nýjasta dæmið í því sambandi er afnám vörugjalda um áramótin 2014-2015, en allar mælingar sýna að afnám þeirra gjalda skilaði sér í fullu til neytenda.
Fréttatilkynning 19.5.2016- Niðurfelling tolla og verðþróun á fötum og skóm
04/05/2016 | Fréttir, Viðburðir
Samtök iðnaðarins, FRÍSK og Samtök verslunar og þjónustu standa fyrir morgunverðarfundi í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 11. maí kl. 8.30 til 10.00.
Dagskrá:
- Hallgrímur Kristinsson, stjórnarformaður FRÍSK
- Stærð íslenska markaðarins – Eru erlendir aðilar að taka bita af kökunni?
Ágúst Þór Ágústsson, aðjúnkt við Viðskiptadeild HÍ – Fjallar um nýlega Capacent skýrslu og lykiltölur markaðarins.
- Hvernig bregðast íslenskir fjölmiðlar / efnisveitur við samkeppninni
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðla og markaðar hjá Símanum
- Hver á stefna hins opinbera að vera?
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Græna
- Menningaleg samkeppni: réttar leiðir og rangar
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata
Boðið upp á morgunkaffi.
SKRÁNING
03/05/2016 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Á aðalfundi SSSK sem haldinn var miðvikudaginn 27. apríl síðast liðinn í Kviku, Húsi atvinnulífsins var Áslaug Hulda Jónsdóttir endurkjörin formaður SSSK og Ólöf Kristín Sívertssen fagstjóri Skóla ehf. var endurkjörin varaformaður.
Aðrir stjórnarmenn voru einnig endurkjörnir: Ída Jensdóttir skólastjóri leikskólans Sjálands, Hulda Snæberg Hauksdóttir, leikskólastjóri Barnaheimilinu Ós og María Sighvatsdóttir, leikskólastjóri Vinagarði.
Endurkjörnir voru sem varamenn: Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri LFA ehf. og Snorri Traustason, skólastjóri Waldorfskólanna Sólstafir Höfn.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.
Margrét Theodórsdóttir skólastjóri Tjarnarskóla stýrði fundi.
Að loknum aðalfundarstörfum létti Edda Björgvinsdóttir fundarmönnum lundina með skemmtilegum og fróðlegum fyrirlestri.
Nýkjörin stjórn, á myndina vantar Snorra Traustason.

02/05/2016 | Fréttir, Greining
Sá gífurlegi vöxtur sem verið hefur í komu ferðamanna til landsins undanfarin ár, heldur áfram á sama hraða. Ekkert bendir til að hægja muni á þeirri þróun, þvert á móti er margt sem bendir til þess að aukningin verði enn meiri en bjartsýnustu spár hafa gert ráð fyrir.
Samfara þessum mikla vexti, eykst mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir verlsunar- og þjónustufyrirtækin í landinu. Ekki er neinum blöðum um það að fletta að erlendir ferðamenn skila stórauknum tekjum til þessara fyrirtækja. Augljósustu merkin um þá gífurlegu breytingu sem átt hefur sér stað, eru þau stakkaskipti sem verslun í miðborg Reykjavíkur hefur tekið á undanförnum örfáum árum. Það er hins vegar ekki eingöngu í hefðbundnum ferðamannaverslunum sem þessara breytinga sér merki. Eins og fram kemur í síðustu samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar var kortavelta erlendra kreditkorta í verlsun 40% meiri í nýliðnum marsmánuði en í sama mánuði 2015. Alls versluðu ferðamenn fyrir 1,7 milljarða króna í þeim mánuði. Mestur var vöxturinn í dagvöruverslun, 85% og næst mestur í fataverslun, 51%.
Ljóst er að þessi hraða breyting felur í sér bæði tækifæri og jafnframt vissar ógnanir fyrir fyrirtæki sem sinna ferðamönnum með einum eða öðrum hætti. Fyrir verslunina skiptir mestu máli að fjölbreytnin fái áfram notið sín og að verslunin þróist ekki út í einsleitni, eins og ákveðin merki eru um, einkum í miðborg Reykjavíkur. Tryggja verður að það verði rúm fyrir sem flestar tegundir verslana þar, enda verður miðborg Reykjavíkur varla áhugaverður áfangastaður fyrir ferðamenn ef þar verður ekki fjölbreytni í verslun og þjónustu. Hér reynir mjög á að góð samvinna takist milli borgaryfirvalda og hagsmunaaðila við að tryggja að fjölbreytnin fái áfram notið sín.
Það verður verkefni SVÞ og annarra hagsmunaaðila að vinna að þeim málum á komandi mánuðum og misserum.
02/05/2016 | Fréttir
Í aprílmánuði lagði SVÞ áherslu á að efla samráð við rekstrar- og þjónustuaðila á miðborgarsvæðinu og leituðu samtökin m.a. eftir ábendingum þessara aðila varðandi þau álitamál sem mikilvægt er að taka til skoðunar til að efla starfsemi á umræddu svæði. Þar er í mörg horn að líta og hagsmunir miklir enda um að ræða fjölbreytta starfsemi aðila á svæði þar sem miklar breytingar hafa orðið m.a. í kjölfar þess mikla fjölda ferðamanna sem sækja borgina heim.
Sem lið í þeirri vinnu voru haldnir tveir fundir í húsakynnum SVÞ í samvinnu við Miðborgina okkar; fyrst stefnumótandi fundur með völdum aðilum og í kjölfarið kynningarfundur á niðurstöðum þess fundar sem var opin öllum rekstrar- og þjónustuaðilum á miðborgarsvæðinu. Til þess að ná til sem flestra var borin út auglýsing til 600 aðila á svæðinu ásamt því að rafrænt eintak var sent á þessa sömu aðila.
Óhætt er að fullyrða að stefnumótunarfundurinn var vel sóttur og á fundinum gerðu rekstraraðila á miðborgarsvæðinu grein fyrir þeim álitamálum sem stendur fyrir dyrum hjá þessum aðilum og varða almennt rekstrarskilyrði þeirra og ljóst að málefnin eru mörg. Það var mál manna að slíkur fundur hefði verið löngu tímabær og taka SVÞ heilshugar undir þá ábendingu.
Helstu álitamálin sem brunnu á fundargestum voru skipulagsmál, samskipti við borgaryfirvöld, ímynd og ásjóna miðborgarinnar og fjöldi annarra mála sem snerta rekstrargrundvöll verslunar- og þjónustuaðila innan vébanda Miðborgarinnar okkar.
Þá var eins og fyrr segir haldinn kynningarfundur fyrir verslunar- og þjónustuaðila miðborgarinnar miðvikudaginn 20. apríl sl. þar sem niðurstöður stefnumótunarfundarins voru kynntar fyrir rekstrar- og þjónustuveitendum á miðborgarsvæðinu. Ljóst var að mikill áhugi er fyrir því að SVÞ og Miðborgin okkar taki höndum saman í hagsmunagæslu enda snertifletirnir margir.
02/05/2016 | Fréttir, Umhverfismál
Umhverfisstofnun (UST) hefur fengið styrk frá Hagstofu Evrópusambandsins til að mæla matarsóun á Íslandi. Áætlað er að gagnaöflun ljúki í maí og í framhaldinu hefst úrvinnsla gagnanna. Í rannsókninnni er verið að mæla alla virðiskeðjuna frá framleiðslu til heildsala, birgja og verslana auk heimila og stóreldhúsa.
Samkvæmt frétt á vef UST sýna ný gögn um matarsóun í Evrópu að hver Evrópubúi hendir að meðaltali um 173 kg af mat á ári sem er mun meira en áætlað var. Samanlagt er um 88 milljónum tonna af mat hent árlega að andvirði um 143 milljarða evra. Þetta þýðir að um 20% af þeim mat sem er framleiddur innan Evrópu endar í ruslinu. Stærstu úrgangshafarnir eru heimilin sem sóa um 47 milljónum tonna af mat á ári hverju. Þessi gögn voru unnin sem hluti af FUSIONS verkefninu (Food Use for Social Innovation by Optimizing Waste Prevention Strategies) sem er samstarfsverkefni styrkt af Evrópusambandi með það að markmiði að sporna gegn matarsóun. Nánar á vef UST.
Í mars sl. boðaði kynnti umhverfisráðuneytið stefnu um úrgangsforvarnir 2016 – 2027. Fyrstu tvö ár stefnunnar verður áhersla lögð á úrgangsforvarnir gegn matarsóun. Stefnuna má lesa hér.
Á sama tíma var opnuð vefgáttin www.matarsoun.is sem er eitt af þeim verkefnum sem falla undir þessa stefnu um úrgangsforvarnir. Tilgangur vefgáttarinnar er að fræða almenning um matarsóun og þar með ýta undir vitundarvakningu um matarsóun. Fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Landvernd, Kvenfélagasambandi Íslands, Matvælastofnun, Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Samtökum iðnaðarins, Vakandi – samtök gegn matarsóun, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Bændasamtökum Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga mynda samstarfshóp um vefsíðuna.