30/03/2020 | COVID19, Fréttir
Höldum áfram! er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka iðnaðarins en verkefninu er ætlað að vera liður í því að vernda störf og halda hjólum atvinnulífsins gangandi eftir bestu getu á tímum COVID-19. Hugmyndin er að virkja félagsmenn sem allra mest og fá þá til þátttöku í verkefninu.
Verkefnið er unnið eftir lean-aðferðafræðinni og því er farið af stað þó ekki sé allt fullkomið þar sem alltaf má bæta og þróa. Vefurinn www.holdumafram.is hefur verið opnaður en þar eru komnar ýmsar upplýsingar sem gagnast ættu aðildarfyrirtækjum. Sett hefur verið upp Facebook-síða verkefnisins, Facebook.com/holdumafram, og verkefnið er einnig á Instagram, Instagram.com/holdumafram, þar sem efni verður deilt sem snýr bæði að almenningi og fyrirtækjum. Þá hefur verið settur upp Facebook hópurinn SAF, SVÞ og SI halda áfram! sem er eingöngu ætlaður félagsmönnum.
Verkefnið snýr meðal annars að því að:
- Hvetja almenning að versla við íslensk fyrirtæki
- Setja fram hugmyndir fyrir almenning um hverskonar viðskipti er hægt að eiga á þessum tímum
- Safna saman tilboðum frá félagsmönnum
- Flytja fréttir af því sem félagsmenn eru að gera sem kann að vera áhugavert fyrir almenning og getur líka verið hvatning og innblástur fyrir önnur fyrirtæki
Við hvetjum félagsmenn til þátttöku og almenning til að taka áskoruninni og halda áfram viðskiptum eftir því sem fólk getur, til að vernda störf og halda hjólum atvinnulífsins gangandi!
25/03/2020 | COVID19, Fréttir
Vegna þeirra efnahagslegu áskorana sem viðskiptalífið stendur nú frammi fyrir býður Litla Ísland upp á tímabundna rekstraráðgjöf til félagsmanna. Rekstrarsérfræðingur Litla Íslands er Ingibjörg Björnsdóttir lögmaður og viðurkenndur bókari en hún hefur áralanga reynslu af fyrirtækjarekstri og rekstrarráðgjöf.
Þeir félagsmenn sem hafa áhuga á að ræða við rekstrarsérfræðing Litla Íslands geta pantað símatíma eða rekstrarviðtal á LitlaIsland.is/rekstrarvidtal
Hvað felst í rekstrarráðgjöf Litla Íslands?
1. Í rekstrarviðtali er farið almennt yfir helstu þætti í rekstrinum og hvar betur megi fara. Ef rekstrargrunnur er almennt góður en styrkja mætti hann enn frekar er félagsmanni bent á hvar hann getur leitað frekari aðstoðar við uppbyggingu á sterkum rekstrargrunni. Því sterkari sem rekstrargrunnur fyrirtækja er því meiri líkur eru á að yfirstíga tímabundinn rekstrarvanda.
2. Ef í rekstrarviðtali kemur í ljós að rekstrargrunnur er veikur og illa undir það búinn að takast á við áskoranir í atvinnulífinu og erfið rekstrarskilyrði getur félagsmaður fengið aðstoð við að greina veikleika í rekstri sem og leiðir til úrbóta með rekstrarúttekt. Í framhaldi er félagsmanni bent á hvar hann geti leitað frekari aðstoðar við endurskipulagningu.
2. Ef í rekstrarviðtali kemur í ljós að rekstrargrunnur er að bresta getur félagsmaður fengið neyðaraðstoð sem felst m.a. í greiningu á greiðsluerfiðleikum sem og úrræðum til að takast á við aðkallandi greiðsluvanda. Ef rekstur er lífvænlegur fær félagsmaður ráðleggingar um úrræði við greiðsluvanda sem og fyrstu hjálp við að fyrirbyggja frekari rekstrarvanda eða gjaldþrot. Í aðstoð felst m.a. samskipti við kröfuhafa og viðskiptabanka þar til mesta hættan er liðin hjá og félagsmaður á tök á að leita frekari aðstoðar við fjárhagslega uppbyggingu.
3. Ef rekstrarviðtal leiðir í ljós brostinn rekstrargrunn og gjaldþrot er óumflýjanlegt fær félagsmaður ráðleggingar á sviði skiptaréttar svo gjaldþrot fari fram í samræmi við reglur gjaldþrotaskiptalaga.
Þú getur bókað ýmist 15 mínútna símatíma eða klukkustundarlangt viðtal.
Athugið að rekstrarráðgjöf Litla Íslands er eingöngu í boði fyrir fyrirtæki sem eru aðilar að þeim samtökum sem að verkefninu standa, þ.e. Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Frekari upplýsingar um verkefnið og samtökin sem að því standa má finna hér.
25/03/2020 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gær, 24. mars, þar sem hann ræðir áhrif hertara samkomubanns fyrir verslunar- og þjónustu og kallar eftir að sveitarfélögin lækki fasteignagjöld til að veita súrefni í atvinnulífið.
Lesa má fréttina hér og sjá myndskeiðið úr fréttum Stöðvar 2 hér fyrir neðan.
25/03/2020 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum
Haft er eftir Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra SVÞ, í Vísi í gær, þann 24. mars, að fjöldi fyrirtækja hafi skellt í lás á fyrsta degi herts samkomubanns. Sum fyrirtæki megi hreinlega ekki starfa, önnur sjá ekki hag sinn í að hafa opið og mörgum er lokað vegna lítillar eftirspurnar.
„Fyrir aðrar búðir og þjónustuaðila þá er þetta að hafa gífurleg áhrif. Fyrir verslanir í miðbænum og verslunarmiðstöðum er þetta stórkostlegt fall í eftirspurn sem skiptir tugum prósenta. Mörg fyrirtæki eru að skerða þjónustu, stytta opnunartímann og í sumum tilfellum beinlínis að loka“
Fréttina má lesa í heild sinni hér á Vísi.
Ljósmynd, Baldur Hrafnkell fyrir Vísi
24/03/2020 | COVID19, Fréttir, Stjórnvöld
Samhæfingarstöð almannavarna hefur sent frá sér leiðbeiningar um notkun almennings á einnota hönskum og grímum.
Sjá má leiðbeiningarnar með því að hlaða niður myndinni eða pdf skjalinu hér fyrir neðan.
23/03/2020 | COVID19, Fréttir, Stjórnvöld
Sóttvarnalæknir að höfðu samráði við landlækni, ríkislögreglustjóra og formann farsóttarnefndar Landspítala óskaði eftir því við heilbrigðisráðherra, þann 21.03.2020, að gefin yrðu út ný fyrirmæli um samkomubann á Íslandi. Ákvörðunin er byggð á 2. mg. 12. gr sóttvarnalaga. Tillagan var samþykkt og er svohljóðandi:
Ráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að setja á samkomubann. Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 20 manns koma saman. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum. Þessi fyrirmæli til landsins alls.
Sérstök útfærsla á starfsemi verslana til að tryggja aðgang almennings á nauðsynjavörum
- Eitt hundrað manns geta á sama tíma verið inn í verslunum upp að 1.000m2 og síðan einn viðskiptavinur til viðbótar fyrir hverja 10m2 umfram það, þó að hámarki tvö hundruð.
- Tryggt verði að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum.
- Verslanir skulu með áberandi hætta merkja við inngang hversu mörgum er heimilt að vera í versluninni á hverjum tíma.
- Við alla innganga skal tryggja viðskiptavinum aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um verslun og talin er þörf á skal hið sama vera í boði. Við afgreiðslukassa skal einnig vera sótthreinsandi vökvi.
- Öllum starfsmönnum verslana skal standa til boða andlitsgrímur við störf sín.
- Hvatt er til þess að aðeins einn aðili af hverju heimili komi í verslun á hverjum tíma.