20/12/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 19. desember sl.:
Eitt af síðustu verkum þingheims fyrir jólafrí var að samþykkja lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir. Helsta markmið frumvarpsins var að koma úthlutunarreglum tollkvótanna í það horf að verð innfluttra landbúnaðarvara gæti lækkað, íslenskum neytendum til hagsbóta. Vegna þeirra lagareglna sem gilt hafa hingað til hafa neytendur ekki notið markverðs ábata af innfluttum landbúnaðarvörum, jafnvel þó að þær megi í sumum tilvikum flytja inn á lægri tollum en ella. Frumvarpið hafði alla burði til að breyta þessari stöðu, bæði hvað varðar úthlutunaraðferðir og opnunartímabil tollkvóta fyrir vörur sem hér hefur oft og tíðum skort. SVÞ lýsti yfir stuðningi við frumvarpið þar sem með samþykkt þess hefði verið stigið skref í rétta átt.
Þegar leið að því að frumvarpið yrði afgreitt úr þingnefnd, gerðist sá fáheyrði atburður að ellefu félög hagsmunaaðila ályktuðu gegn frumvarpinu. Fyrir utan Bændasamtök Íslands og ýmis aðildarfélög þeirra, stóðu að ályktuninni Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins. Til grundvallar ályktuninni voru færð afar mótsagnakennd rök, þ.e. að finna þyrfti málinu heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. Neytendasamtökin sáu góðu heilli að sér og drógu þátttöku sína í ályktuninni til baka. Þingheimur skákaði í skjóli þessa atburðar og gerði víðtækar breytingar sem taka mjög mið af sérkröfum innlendra framleiðenda og eru alfarið á kostnað neytenda.
Maður hefði nú að fyrra bragði ekki búist við að samtök á borð við Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins sem, í orði kveðnu a.m.k., haldið hafa á lofti sjónarmiðum viðskiptafrelsis og frjálsrar samkeppni, sameinist um að leggja stein í götu frumvarps, sem hafði það að raunverulegu markmiði að færa íslenskum neytendum ábata upp á fleiri hundruð milljónir króna á ári.
Það er til kínverskur málsháttur sem segir: Það heyrist jafnan meira í því sem þú gerir en í því sem þú segir. Vörslumenn sérhagsmuna leynast greinilega víðar en margur heldur.
18/12/2019 | Fræðsla, Fréttir, Umhverfismál, Viðburðir
Í framhaldi af morgunfyrirlestri um mótun umhverfisstefnu bjóða SVÞ og BravoEarth upp á fríar vinnustofur fyrir fyrirtæki innan SVÞ til að aðstoða þau við að móta, halda utan um og innleiða umhverfisstefnu. Vinnustofurnar eru liður í vöruþróun BravoEarth.
ATH! SVÞ félagar geta séð upptöku frá fyrirlestrinum hér inni á lokaða Facebook hópnum okkar. Ekki er nauðsynlegt þó að hafa horft á fyrirlesturinn til að nýta sér vinnustofurnar.
Fyrirtæki um allan heim eru að móta og innleiða umhverfisstefnu með það að markmiði að minnka sóun, nýta auðlindir betur og axla þannig ábyrgð fyrir framtíðina. Umhverfisstefna snertir alla starfsemi fyrirtækisins og er því mikil áskorun fólgin bæði í mótun og innleiðingu, þ.e. að framfylgja stefnunni. Mikilvægt er að virkja starfsmenn til að geta samstillt aðgerðir og fá starfsmenn til að breyta hegðun.
Ávinningur við innleiðingu á umhverfisstefnu er m.a.:
Betri afkoma: Minni sóun og betri nýting á auðlindum skilar sér í betri rekstrarniðurstöðum fyrir utan mikilvægi þess að vinna gegn loftslagsbreytingum.
Aukið stolt og starfsánægja: Það veldur mörgu starfsfólki vanlíðan að horfa upp á sóun á sínum vinnustað. Minni sóun og aukin umhverfisvernd skila sér í stoltara og ánægðara starfsfólki.
Bætt ímynd: Fólk beinir í auknum mæli viðskiptum sínum til þeirra sem standa sig vel í umhverfismálum. Árangursrík innleiðing er því gríðarlega mikilvæg fyrir verslun og þjónustu.
Dagskrá:
Kynning: Af hverju umhverfisstefna? Farið yfir stefnumótunar ferlið.
Umhverfisstefna: Farið verður yfir uppbyggingu umhverfisstefnu og hvað þarf að vera til staðar í henni. Greindir verða innri og ytri hagsmunaaðilar.
Hópastarf: Skilgreindir verða þættir sem vinna þarf með, s.s. endurvinnsla, heitt vatn, rafmagn, umbúðir o.s.frv. Verkefni í hverjum flokki skilgreind og hannaðir matsrammar til að meta framkvæmd.
Innleiðing: Breytingastjórnun. Hvernig komum við umhverfisstefnu í framkvæmd?
Afrakstur vinnustofunnar:
- Tilbúinn grunnur að umhverfisstefnu fyrir þína tegund af starfsemi.
- Skilgreindir verða helstu flokka sem vinna þarf með (s.s. endurvinnslu, orku, samgöngur o.s.frv.).
- Grunnur að verkefnum og matsrömmum sem fyrirtækið getur nýtt við innleiðingu.
Haldnar verða vinnustofur sem hugsaðar eru fyrir mismunandi starfsemi:
Þriðjudaginn 14. janúar kl. 9-12: Skrifstofustarfsemi
Unnið verður að umhverfisstefnu fyrir fyrirtæki með starfsemi sem rúmast getur innan skilgreiningar skrifstofustarfsemi. Þetta getur átt við velflest fyrirtæki þar sem skrifstofustarfsemi er oftast hluti af starfseminni. Mögulegt er að sækja fleiri en eina vinnustofu eftir eðli starfsemi fyrirtækisins. T.d. geta verslunarfyrirtæki sótt bæði þessa vinnustofu til að móta umhverfisstefnu fyrir skrifstofuhluta starfseminnar og næstu vinnustofu sem ætluð er verslun þar sem farið er yfir aðra hluti sem snúa sérstaklega að verslunarhluta starfseminnar.
Fimmtudaginn 16. janúar kl. 9-12: Verslun
Unnið verður að umhverfisstefnu fyrir fyrirtæki sem rúmast getur innan skilgreiningar verslunarstarfsemi, hvort sem um er að ræða heildverslun, sérverslun, matvöruverslun, netverslun eða annarskonar verslunarstarfsemi. Einnig geta fyrirtæki í verslun sem eru með sérstaka skrifstofustarfsemi sótt fyrri vinnustofu til að móta umhverfisstefnu fyrir skrifstofuhluta starfseminnar.
Leiðbeinendur:
Vilborg Einarsdóttir
Vilborg Einarsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri BravoEarth ehf. Vilborg með MSc gráðu í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og Verslunarháskólanum í Árósum. Vilborg er meðstofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri Mentors ehf. Hún hefur yfirgripsmikla reynslu bæði úr menntageiranum og úr atvinnulífinu. Sat t.d. í stjórn Íslandsstofu, Tækniþróunarsjóðs, Samtaka iðnaðarins og í Samráðsvettvangi um aukna hagsæld. Vilborg var stundakennari við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í stjórnun og stefnumótun auk þess að hafa haldið fjölda fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis varðandi menntun, nýsköpun og að byggja upp alþjóðlegt þekkingafyrirtæki.
Kjartan Sigurðsson
Kjartan Sigurðsson er kennari og verkefnastjóri við Háskólann í Reykjavík. Kjartan hefur umsjón með framkvæmd og innleiðingu á PRME (Principles for Responsible Management Education) í HR, en PRME er frumkvæði Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlegt samstarf viðskiptaháskóla til að efla menntun á svið samfélagslegrar ábyrgðar, sjálfbærni og viðskiptasiðferðis. Kjartan er með MSc gráðu í Alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í Félagsfræði frá Háskóla Íslands og mun ljúka doktorsnámi frá HR árið 2020. Kjartan hefur víðtæka reynslu sem framkvæmdastjóri og frumkvöðull og hefur einnig starfað víða í Evrópu og á Íslandi við ráðgjöf á innleiðingu og framkvæmd áætlanagerða í fyrirtækjum á sviði samfélagslegrar ábyrgðar, sjálfbærni og nýsköpunar. Kjartan hefur víðtæka reynslu á sviði rannsókna á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, en rannsóknir hans fela meðal annars í sér skoða hvort að fyrirtæki hafi hagsmuni af því að innleiða og móta stefnu fyrirtækja um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni.
Um BravoEarth
BravoEarth er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki með hugbúnaðarlausn sem ætlað er að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að móta og innleiða umhverfisstefnu í starfsemi sinni.
16/12/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Rætt er við Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ, í Viðskiptablaðinu þann 12. desember sl. um rétt til dráttarvaxta vegna ofgreiðslu opinberra gjalda, sem áætlað er að taki breytingum með nýrri heildarlöggjöf um innheimtu skatta og gjalda. Breytingin er m.a. studd þeim rökum að sumir gjaldendur átti sig ekki á því að rétturinn sé til staðar.
Í grein Viðskiptablaðsins segir m.a.: „Loku verður skotið fyrir það að einstaklingar og lögaðilar geti gert sér það að leik að oftelja viljandi skattstofna með það að marki að gera síðan endurkröfu á ríkið og njóta ávöxtunar á féð í formi dráttarvaxta.“
„Benedikt bendir á að þegar núgildandi endurgreiðslulög voru sett hafi verið vangaveltur um það að dráttarvextir yrðu skilyrðislaust greiddir þegar ofgreiðsla hefði átt sér stað. Hins vegar hafi sú leið verið farin að gjaldendur þyrftu að setja fram kröfu um endurgreiðslu til að fyrirbyggja að ekki væri verið að oftelja að gamni sínu.
„Nú verður það stjórnvalda að ákveða hvenær ofgreiðsla virkjar rétt til dráttarvaxta. Það er ekki hægt að sætta sig við slíkt. Af skoðun á dómaframkvæmd má ráða að þeir sem eignast inneign samkvæmt dómum eru undantekningalaust gjaldendur sem hafa staðið rétt að greiðslu skatta og greitt þær kröfur sem yfirvöld hafa sett fram. Þessi hópur á ekki að lýða fyrir það bótalaust með því að fá ekki dráttarvexti á ofgreiðslur eða oftekin gjöld,“ segir Benedikt.“
Úrdrátt úr greininni má sjá á vef vb.is hér og greinina í heild sinni má lesa í Viðskiptablaðinu sem út kom 12. desember sl.
10/12/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla var á Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 8. desember sl. ásamt Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og Ragnari Þór Péturssyni, formanni Kennarasambands Íslands.
Rætt var um niðurstöður PISA könnunarinnar og mál því tengd.
Sara Dögg bendir m.a. á að kjarasamningar kennara séu íþyngjandi að því leyti að þar sé of mikil stýring á
störfum kennara. Það skapi umhverfi með endalausum hindrunum fyrir framþróun og vexti skólastarfs og skortur sé á trausti milli sveitarfélaga, skólastjórnenda og kennara.
Hlusta má á þennan hluta þáttarins hér: https://www.visir.is/k/154a02c4-ae95-4ed0-bc5c-d27addf2b7d0-1575802502064