Sæfivörur: Kynningarfundur um skyldur framleiðenda og innflytjenda

Sæfivörur: Kynningarfundur um skyldur framleiðenda og innflytjenda

Vissir þú að sótthreinsivörur þurfa markaðsleyfi?

 

Umhverfisstofnun og Samtök verslunar og þjónustu bjóða til kynningarfundar um sæfivörur og skyldur framleiðenda og innflytjenda.

Hvenær: miðvikudaginn 29. maí kl. 10:30-11:30

Hvar: Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík

Aðildarfyrirtækjum Samtaka iðnaðarins og Félags atvinnurekenda er einnig boðið til fundarins.

 

Fyrir hverja er fundurinn?

Fyrirtæki innan SVÞ, SI og FA sem flytja inn, markaðssetja og nota sæfivörur.

 

Hvað eru sæfivörur?

Sæfivörur (biocides) eru efnavörur sem innihalda eitt eða fleiri virk efni sem ætlað er að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar með efna- eða líffræðilegum aðferðum. Sæfivörur skiptast í 22 vöruflokka, sem tengjast notkun þeirra. Þar er að finna m.a. sótthreinsandi vörur fyrir menn og dýr, einnig vörur til sótthreinsunar á yfirborðsflötum, viðarvarnarefni, skordýraeyða, nagdýraeitur, gróðurhindrandi vörur (t.d. botnmálning á skipum), og ýmis rotvarnarefni til nota í iðnaði.

 

Umsögn SVÞ um fjármálaáætlun ríkisins 2020-2024

Umsögn SVÞ um fjármálaáætlun ríkisins 2020-2024

SVÞ hafa veitt fjárlaganefnd Alþingis umsögn um fjármálaáætlun 2020–2024.

Í ljósi breyttra efnahagshorfa standa stjórnvöld frammi fyrir umtalsverðum áskorunum í ríkisfjármálum. Í umsögninni fjalla samtökin um áherslur við stjórn efnahagsmála í samhengi við helstu áherslumál verslunar og þjónustu. Mikilvægt er að SVÞ komi skilaboðum atvinnugreinanna á framfæri við meðferð málsins á Alþingi.

Smelltu hér til að lesa umsögn SVÞ um fjármálaáætlun 2020-2024 í heild sinni

Samstarf um orku- og loftslagsmál er nauðsyn

Samstarf um orku- og loftslagsmál er nauðsyn

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 8. maí sl. Greinin er eftir Eyjólf Árna Rafnsson formann Samtaka atvinnulífsins, Bjarnheiði Hallsdóttur formann Samtaka ferðaþjónustunnar, Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann Samtaka iðnaðarins, Helga Bjarnason formann Samtaka fjármálafyrirtækja, Helga Jóhannesson formann Samtaka orku- og veitufyrirtækja, Jens Garðar Helgason formann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Jón Ólaf Halldórsson formann Samtaka verslunar og þjónustu og Magnús Þór Ásmundsson formann Samtaka álfyrirtækja.

EES-samningurinn er eitt stærsta hagsmunamál íslensks atvinnulífs og hornsteinn að bættum lífskjörum almennings. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar byggist á viðskiptafrelsi sem er grundvallað á EES-samningnum. EES-samstarfið hefur fært Íslendingum mikinn ábata á liðnum aldarfjórðungi, lífskjör hafa batnað og atvinnulífið eflst.

Farsælt EES samstarf, sem nú fagnar 25 ára afmæli, tryggir með fjórfrelsinu frjálsa för fólks, vöru, þjónustu og fjármagns um alla Evrópu. Þetta er afar mikilvægt og ekki síst fámennum löndum eins og Ísland sannarlega er.

EES-samstarfið nær ekki til nýtingar auðlinda eins og sést af því að það eru Norðmenn sjálfir sem ákveða hvernig nýta skuli olíu- eða gaslindirnar þar. Það eru Finnar og Svíar sem ákveða hvernig skuli höggva skóga hjá sér. Og það eru Íslendingar sem ákveða hvort eða hvernig nýta eigi jarðhitann, vatnsaflið eða vindinn sem stöðugt blæs. Þessar ákvarðanir eru ekki teknar af Evrópusambandinu.

Samstarfið nær hins vegar til þess að vörur sem eru á markaði þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur um orkunýtingu og tæknilega staðla á hverju sviði fyrir sig. Gert er ráð fyrir að samkeppni ríki á sem flestum sviðum þar á meðal um orkusölu enda sé það fyrst og fremst til hagsbóta fyrir neytendur.

Smám saman hafa kröfur aukist um betri nýtingu orku, aukna notkun endurnýjanlegra orkulinda og um orkusparnað. Jafnt og þétt verða loftslagsmál og orkumál samofnari enda er notkun jarðefnaeldsneytis meginorsök þeirra loftslagsbreytinga sem við verðum að takast á við.

Íslendingar hafa sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og eru í samstarfi við Evrópulöndin um sameiginlegar skuldbindingar gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hagsmunir Íslands af þessu samstarfi eru mjög miklir og þátttaka í viðskiptakerfi Evrópu með losunarheimildir tryggir jafna samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar og fleiri fyrirtækja hér á landi og annars staðar á EES-svæðinu.

Löggjöf um orku- og loftslagsmál mun halda áfram að þróast og auk löggjafar sem nú er til meðhöndlunar á Alþingi (þriðji orkupakkinn) eru á döfinni enn frekari breytingar á lögum og reglum sem þessu sviði tengjast. Íslensk raforkulög taka þegar mið af því að Íslendingar hafa  innleitt fyrsta og annan orkupakka ESB og hefur sú ákvörðun reynst farsæl hingað til.

Það er mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands, atvinnulífsins og fólksins í landinu að halda áfram samstarfinu við ESB um orku- og loftslagsmál með innleiðingu 3. orkupakkans. Alþjóðleg samvinna á þessu sviði mun auðvelda viðureignina við loftslagsbreytingar og gagnast ekki einungis okkar kynslóð heldur börnum okkar og barnabörnum.

SVÞ og önnur hagsmunasamtök í atvinnulífinu styðja þriðja orkupakkann

SVÞ og önnur hagsmunasamtök í atvinnulífinu styðja þriðja orkupakkann

SVÞ hefur sent inn umsögn sem styður þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann sem nú er til meðferðar á Alþingi. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands styðja einnig tillöguna.

Samtökin leggja í þessu sambandi sérstaka áherslu á mikilvægi EES-samningsins fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag. Mikilvægi samningsins verða seint ofmetin enda er öllum ljós sú mikla og jákvæða breyting sem orðið hefur á samfélaginu öllu þann aldarfjórðung sem EES-samningurinn hefur verið í gildi. Samningurinn veitir, sem kunnugt er, Íslendingum aðgang að þeim 500–600 milljón manna markaði sem er innri markaður ESB- og EFTA-ríkjanna. Það skiptir afar miklu að þessu farsæla samstarfi verði ekki teflt í tvísýnu. Sú umræða sem farið hefur fram í þjóðfélaginu að undanförnu um það mál sem hér er til umfjöllunar, er með þeim hætti að full ástæða er til að staldra við og vekja athygli á mikilvægi málsins.

SVÞ telja mikilvægt að hafa í huga að orkulöggjöfinni er ætlað að efla samkeppni á því sviði sem löggjöfin nær til. Slíkt styrkir stöðu orkukaupenda, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, gagnvart þeim sem framleiða og dreifa orku. Eins og á öðrum sviðum þar sem virk samkeppni er til staðar, kemur það öllum kaupendum til góða, hvort sem er í formi betri þjónustu eða lægra verði. Sterkar vísbendingar eru um að samþykkt tillögunnar muni hafa ábata í för með sér.

Þeir annmarkar á innleiðingu þriðja orkupakkans sem teflt hefur verið fram í almennri umræðu að undanförnu eru illa skilgreindir og óljósir að mati samtakanna. Verði ákvörðunartaka um samþykkt tillögunnar byggð á tilvist þeirra er ekki einungis hætt við að meiri hagsmunum verði fórnað fyrir minni heldur einnig að ríkum og skýrum hagsmunum verði fórnað fyrir óljósa, illa skilgreinda og í öllu falli takmarkaða hagsmuni. Þar með yrði skýrum heildarábata fórnað af þarfleysu. Þeir hagsmunir sem Ísland og íslenskt samfélag hefur af því að af innleiðingu verði, eru í öllu tilliti mun ríkari, enda tekur orkupakkinn ekki yfirráð yfir orkuauðlindunum úr höndum íslensku þjóðarinnar.

Smelltu hér til að lesa umsögnina í heild sinni

 

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Nýr Facebook hópur hefur verið settur á laggirnar í tengslum við Faghóp stafrænnar verslunar innan SVÞ. Hópurinn er fyrir félagsmenn SVÞ sem hafa áhuga á efni tengdu stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum. Tilgangur hópsins er einkum að geta með öflugri hætti deilt sérhæfðu efni sem tengist stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum og að skapa vettvang fyrir félaga til að ræða málefni tengd stafrænni verslun.

Við bjóðum SVÞ félaga velkomna. Vinsamlegast smellið hér og sækið um inngöngu. Gefa þarf upp nafn fyrirtækis sem er aðili að SVÞ og netfang viðkomandi hjá því fyrirtæki. Athugið að lesa leiðarljós hópsins, þegar inn er komið, og sérstaklega þau gögn sem vísað er í varðandi samkeppnismál.

Góð aðsókn í nýja stafræna viðskiptalínu við Verzlunarskóla Íslands

Góð aðsókn í nýja stafræna viðskiptalínu við Verzlunarskóla Íslands

Næstkomandi haust hefst í Verzlunarskóla Íslands ný stafræn viðskiptalína á framhaldsskólastigi. Línan er svar við örum breytingum á vinnumarkaðinum og þá sérstaklega í starfsumhverfi verslunar og þjónustu. Námslínan brýtur blað í sögu Verzlunarskólans þar sem vinnustaðanám í stafrænni verslun og þjónustu er hluti af náminu. Þannig tengir námið nemendur við atvinnulífið með beinum hætti og gefur þeim innsýn í þau störf og þá hröðu þróun sem á sér stað innan verslunar og þjónustu.

Miklar framfarir og vöxtur stafrænnar tækni kallar á auknar kröfur um menntun á því sviði. Um leið verður slík menntun nauðsynleg fyrir atvinnugreinar sem vaxa ógnarhratt hvort heldur sem er í formi vefverslana eða annarra stafrænna þjónustulausna. Séreinkenni námslínunnar er annars vegar falin í nýjum áföngum er tengjast stafrænum lausnum, greiningu á gögnum og notagildi samfélagsmiðla í markaðssetningu og hins vegar vinnustaðanámi. Með vinnustaðarnáminu fá nemendur innsýn og þjálfun í þeim nýju störfum sem skapast hafa og munu halda áfram að skapast innan verslunar og þjónustu í kjölfar þeirrar hröðu starfrænu þróunar sem á sér stað.

Einungis 25 nemendur verða teknir inn í námið í haust en um 40 verðandi nemendur við Verzlunarskólann sóttu um. Námslínan er samvinnuverkefni Samtaka verslunar og þjónustu, Verzlunarskóla Íslands, VR og Starfsmenntasjóðs verslunar og skrifstofufólks. Unnið hefur verið að undirbúningi námsins sl. tvö ár að frumkvæði Samtaka verslunar og þjónustu.