27/01/2021 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Innra starf
Bílgreinasambandið og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hefja í dag öflugt samstarf með undirritun samstarfsyfirlýsingar. Markmiðið er að efla þjónustu við félagsmenn í samskiptum við stjórnvöld, í lögfræðilegum álitamálum og í fræðslu- og menntunarmálum ásamt því að styrkja rekstur beggja samtaka.
Flóknara rekstrarumhverfi fyrirtækja kallar á samvinnu
Rekstrarumhverfi fyrirtækja í bílgreininni og í verslun og þjónustu verður sífellt flóknara með auknum kröfum af margvíslegu tagi sem m.a. leiða til aukinna samskipta við stjórnsýsluna. Samvinna eflir þessi samskipti, eykur þjónustu og upplýsingagjöf og er til mikillar hagræðingar fyrir félagsmenn. Hún er ekki síður hagræðing fyrir stjórnsýsluna sem þarf þá að taka við færri umsögnum sem oftar en ekki eru efnislega sambærilegar. Sífellt hraðari tækniþróun kallar á aukna fræðslu og menntun sem samtökin geta eflt enn frekar með samvinnu.
Miklar væntingar til samstarfsins
„Það eru klárlega samlegðaráhrif á fjölmörgum sviðum sem gerir samtökunum kleift að vinna enn betur fyrir félagsmenn sína. Samskipti við stjórnsýsluna verða markvissari og öflugri, félagsmenn Bílgreinasambandsins munu njóta góðs af aðgengi að fræðsludagskrá SVÞ, enda er eðli bílgreinarinnar í raun verslun og þjónusta, og hagræðing í rekstrarkostnaði samtakanna er augljós. Við væntum mikils af þessu samstarfi,” segir María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Stefnt að enn frekara samstarfi
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, fagnar samstarfinu, enda ljóst að með því verði samtökin enn sterkara hagsmunaafl fyrir félagsmenn sína. „Hagsmunir þessara greina fara að langmestu leyti saman og í ljósi þess fögnum við þessum samstarfi og vonumst til að geta þróað það áfram enn frekar.”
27/10/2020 | COVID19, Fréttatilkynningar, Fréttir, Stafræna umbreytingin, Stafrænt-innri, Stjórnvöld
SVÞ og VR sendu í dag hvatningu og tillögur til stjórnvalda um stefnumótun og aðgerðir í stafrænum málum.
Heimsfaraldur COVID-19 hefur hraðað stafrænni þróun gríðarlega og ýtir enn frekar undir það bil sem þegar var farið að myndast meðal þeirra sem hafa og ekki hafa stafræna hæfni, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga. Einnig hafa fjölmargir aðilar, á borð við OECD, World Economic Forum og Sameinuðu þjóðirnar, lýst því yfir að faraldurinn hafi aukið enn á mikilvægi þess að brúa hið stafræna bil og að stafræn þróun muni leika lykilhlutverk við að koma efnahagskerfum heimsins úr kórónuveirukreppunni.
Í hvatningunni lýsa SVÞ og VR miklum áhyggjum af stöðu stafrænnar þróunar í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði og skorti á stafrænni hæfni. Í greinargerð með tillögunum er m.a. vitnað í alþjóðlegar rannsóknir sem sýna að Ísland er að dragast verulega aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við, ekki síst Norðurlandaþjóðunum, sem allar eru í fararbroddi í stafrænni þróun á heimsvísu. Þá er einnig bent á að mikil tækifæri séu til norræns samstarfs á þessu sviði og eru SVÞ og VR til að mynda þegar búin að koma á samstarfi við öfluga norræna aðila, m.a. um samstarf við Stafrænt hæfnisetur, sem er einn hluti af tillögum þeirra.
Lesa má hvatninguna í heild sinni hér.
Lagðar eru fram fimm tillögur til að hraða stafrænni þróun hjá íslenskum fyrirtækjum og starfsfólki:
- Komið verði á samstarfsvettvangi stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs, vinnumarkaðar og háskólasamfélags til að vinna að öflugri stafrænni framþróun í íslensku samfélagi og atvinnulífi,
- Mótuð verði heildstæð stefna í stafrænum málum fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf og farið í markvissar aðgerðir til að stuðla að stafrænni framþróun,
- Sett verði á fót Stafrænt hæfnisetur til eflingar stafrænni hæfni í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði,
- Skattfrádráttur rannsóknar- og þróunarverkefna verði útvíkkaður til að ná til stafrænna umbreytingaverkefna,
- Áhersla verði lögð á það í menntastefnu og aðgerðum að efla stafræna færni á öllum skólastigum.
Þegar er hafið samtal við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og menntamálaráðuneytið og undirbúningur að Stafrænu hæfnisetri er hafinn í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.
Tillögurnar verða kynntar frekar á aðalfundi faghópsins Stafræn viðskipti á Íslandi sem fram fer í dag og verður sá hluti fundarins sýndur í beinni útsendingu í Facebook hóp SVÞ sem helgaður er stafrænum málum hér.
Nánari upplýsingar um tillögurnar, og greinargerð sem þeim fylgir má lesa hér fyrir neðan:
Click to read Stafræn þróun – hvatning til stjórnvalda
14/10/2020 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Umhverfismál
Stjórn SVÞ samþykkti á fundi sínum þann 8. október sl. umhverfisstefnu fyrir samtökin. Umhverfisstefnan tekur bæði til innra starfs samtakanna en markmið hennar er ekki síður að vera aðildarfyrirtækjum og atvinnulífinu öllu góð fyrirmynd í umhverfismálum og sjálfbærni, og að leiðbeina, fræða, hvetja og styðja við aðildarfyrirtæki í málaflokknum, enda sé ekki síst skýr ávinningur af því fyrir aðildarfyrirtæki í formi betri afkomu, aukinnar starfsánægju starfsfólks og bættrar ímyndar.
„Umhverfismál og sjálfbærni varða okkur öll og atvinnulífið hefur sett þau mál kyrfilega á dagskrá. Við viljum því ganga fram með góðu fordæmi auk þess að styðja okkar aðildarfyrirtæki í því að skapa betra umhverfi fyrir okkur öll,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ
Umhverfisstefnuna má lesa í heild sinni hér: https://svth.is/umhverfisstefna-svth/
20/08/2020 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Hagsmunahópur blómaverslana, Stjórnvöld
SVÞ sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu rétt í þessu:
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, f.h. Hagsmunahóps blómaverslana, hafa óskað eftir því við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tollar af innfluttum blómum og plöntum verði teknir til endurskoðunar.
Möguleikar íslenskra blómaverslana til innkaupa á innlendum blómum og plöntum hafa farið þverrandi enda hefur samþjöppun í innlendri framleiðslu og heildsölu í mörgu tilliti leitt til fákeppni. Viðskiptaáhugi heildverslana og innlendra framleiðenda virðist vera takmarkaður og vegna takmarkaðs framboðs eru dæmi þess að heildverslanir hafi úthlutað blómaverslunum innkaupakvóta þegar að vinsælum blómum kemur.
Þrátt fyrir að tollarnir hafi í grundvallaratriðum ekki tekið breytingum í 25 ár hefur innflutningur á blómum og plöntum aukist, m.a. vegna mikilla breytinga á eftirspurn neytenda, innlendu framboði og fjölda innlendra framleiðenda. Tollarnir eru afar háir og sem dæmi má nefna getur viðskiptaverð tíu stykkja búnts af rauðum rósum, sem algengt er sé verðlagt í heildsölu erlendis á 500–650 kr., numið 1.460–1.800 kr. eingöngu vegna tolla en þá á eftir að bæta við flutningskostnaði og öðru því sem innflutningi tengist.
Í erindi SVÞ er m.a. vísað til greinargerðar samtakanna þar sem fram kemur að ýmis blóm og plöntur beri í mörgum tilvikum afskaplega háa tolla þrátt fyrir að framleiðsla á þeim sé ekki til staðar innanlands eða afar takmörkuð. Svo rík samkeppnisvernd í þágu innlendra framleiðenda takmarkar ekki einvörðungu verulega getu blómaverslana til þess að bregðast við óskum neytenda heldur kemur hún harkalega niður á rekstri verslananna en þær eru margar smáar að sniðum og í sumum tilvikum fjölskyldufyrirtæki.
29/04/2020 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Eftirfarandi fréttatilkynning var send út á alla helstu miðla þann 29. apríl:
Samtök sjálfstætt starfandi skóla hvetja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til þess að standa með sjálfstætt starfandi leikskólum og foreldrum
Sjálfstætt starfandi leikskólar á höfuðborgarsvæðinu munu fresta því tímabundið að senda greiðsluseðla til foreldra fyrir leikskólagjöldum.
Í fréttatilkynningu frá Samtökum sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) þann 24. mars s.l. er lagt til að gjöld fyrir þjónustu verði leiðrétt í samræmi við hlutfall skerðingar vistunartíma í samkomubanni síðustu vikna, þ.e. þjónustugjöld leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.
Ekki liggur þó fyrir hvort né hvernig sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu munu mæta sjálfstætt starfandi leikskólum. Því verða gjöld af foreldrum ekki innheimt fyrr en það liggur fyrir.
Samtök sjálfstæðra skóla harma þá óvissu sem sveitarfélögin leggja á rekstraraðila sjálfstætt starfandi leikskóla með þessu.
Það er ljóst að ef framlag til leikskóla skerðist getur það haft gríðarlegar afleiðingar fyrir rekstur skólanna. Samningar við sveitarfélögin eru skýrir en til að uppfylla lögbundið starf þá er samið um heildargreiðslu með hverju barni.
Öll sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins ásamt Hafnarfirði hafa mætt sjálfstætt starfandi leikskólum vegna skerts hlutar foreldra í leikskólagjöldum enda er rekstrarkostnaður skólanna óbreyttur.
Samtök sjálfstætt starfandi skóla hvetja sveitarfélögin til þess að halda áfram því mikilvæga og góða samstarfi sem verið hefur um fjölbreytt leikskólastarf og jafnræði foreldra óháð rekstrarformi leikskólanna.
Uppfært í lok maí: Sveitarfélögin hafa samþykkt að mæta tekjufalli leikskóla vegna skertra foreldragjalda.
11/03/2020 | Fréttatilkynningar, Fréttir
Síðustu ár hefur SVÞ haldið opna ráðstefnu í tilefni af aðalfundi samtakanna sem hefur verið sótt um af 450 gestum, auk þess sem oft hefur bæst í áhorfandafjöldann í gegnum streymi og birtingu á upptökum. Fyrirhugað var að halda slíka ráðstefnu næstkomandi fimmtudag, 12. mars á Hilton Nordica og hafði skráning gengið mjög vel þar til í síðustu viku, og stefndi í aðsóknarmet.
Eins og alþjóð veit hefur kórónaveiran haft gríðarleg áhrif um allan heim og ein birtingarmynd þess er að þó ekki sé búið að setja á samkomubann hérlendis hafa fjölmargir aðilar aflýst samkomum og viðburðum síðustu daga. SVÞ hefur einnig tekið þá ákvörðun að sýna ábyrgð í verki en þó ekki með því að aflýsa ráðstefnunni, heldur breyta fyrirkomulagi hennar. Það er við hæfi að ráðstefna um stafræna tækni og nýtt hugarfar sé jú haldin á stafrænan hátt – í gegnum netið. Hvernig er betra að sýna í verki hvernig stafræn tækni getur gert margt gott fyrir atvinnulífið og samfélagið okkar allt en með því að leyfa henni að gera okkur kleift að halda okkar striki og fræða íslenskt atvinnulíf og stuðla að frekari framþróun þess – lífið heldur jú áfram.
Aðalræðumaður dagsins verður umbreytinga- og framtíðarfræðingurinn Nick Jankel. Nick hefur verið ráðgjafi m.a. hjá Hvíta húsinu og No. 10 Downing Street, auk þess að hafa unnið með fjölda stórfyrirtækja að menningar- og breytingastjórnun og markaðsmálum. Hann hefur kennt við Yale, Oxford og London Business School, haldið fyrirlestra víðsvegar og verið fjallað um hann hjá miðlum á borð við The Times, The Financial Times, The Sunday Times og The Guardian.
Við fáum einnig innsýn í reynslu Kringlunnar, Já og Póstsins af þeim áskorunum sem felast í starfrænni umbreytingu og hvernig þau skapa fyrirtæki til framtíðar.
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar mun opna ráðstefnuna. Andri Heiðar Kristinsson, nýr Stafrænn leiðtogi ríkisstjórnarinnar mun stýra spurningum til Nick og annarra ræðumanna.
Ráðstefnan fer fram 12. mars kl. 14:00-17:00* í tölvum, spjaldtölvum eða snjallsímum þátttakenda en skráning fer fram hér á vef SVÞ: https://svth.is/radstefna-2020/
*vinsamlegast athugið að verið er að aðlaga dagskrána að nýju fyrirkomulagi og líklegt er að hún muni styttast.