EuroCommerce skorar á evrópsk stjórnvöld

EuroCommerce skorar á evrópsk stjórnvöld

EuroCommerce, samtök smásölu- og heildverslunar í Evrópu, í samvinnu við UNI Europe, sem eru samtök launafólks í Evrópu, hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem skorað er á evrópsk stjórnvöld að styðja við verslunarfyrirtækin með því að efla stafræna hæfni fyrirtækja og starfsfólks í verslunum. Skilaboðin bæði til Evrópusambandsins og ríkisstjórna í álfunni eru skýr:

Við höfum staðið vaktina í heimsfaraldri, nú er komið að ykkur að styðja verslunargeirann í stafrænni hæfni og umbreytingu.

Þetta er í fullkomnu samræmi við hvatningu SVÞ og VR til stjórnvalda um að styðja við íslensk fyrirtæki og starfsfólk þeirra í þessari stóru umbreytingu. Eins og kunnugt er hafa þessi tvö samtök, ásamt Háskólanum í Reykjavík, leitað eftir stuðningi stjórnvalda við að koma á klasasamstarfi um eflingu stafrænnar hæfni. Er það von þeirra sem að verkefninu standa að í framhaldinu komist á sem víðtækast og öflugast samstarf um eflingu stafrænnar hæfni í atvinnulífi og á vinnumarkaði almennt.

Í fréttatilkynningu EurocCommerce, sem lesa má í heild sinni hér, er m.a. haft eftir framkvæmdastjóra EuroCommerce, Christian Verschueren:

„Verslun snýst um fólk, þjónustu við fólk. Allir sem vinna í verslun hafa unnið hörðum höndum til að tryggja að neytendur hafi áreiðanlegt aðgengi að nauðsynjavörum nú í COVID-19 faraldrinum. Margir smásalar sem ekki selja matvöru hafa orðið fyrir miklum neikvæðum áhrifum af endurteknum og löngum lokunum í mörgum löndum. Faraldurinn hefur hraðað stafrænni umbreytingu og netsölu gríðarlega. Evrópusambandið og stjórnvöld í ríkjum Evrópu þurfa nú að hjálpa fyrirtækjunum okkar, sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum, að byggja upp þá færni sem starfsfólki þeirra er nauðsynleg til að nýta sem best þessi stafrænu tól.”

Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða, eins og allir vita. Langflest fyrirtæki í verslun í Evrópu eru annað hvort lítil eða meðalstór og veita um 28 milljónum manna vinnu. Það skiptir því sköpum fyrir framtíð þessarar atvinnugreinar hvernig henni tekst að aðlaga sig að þeim stafrænu umbreytingum sem eru þegar skollnar á allt í kring um okkur. Stjórnvöld, hvar sem er í Evrópu, geta ekki setið hjá á þess að koma að þessari vegferð með atvinnulífinu. Þessi skilaboð geta ekki verið skýrari.

Öflugt nýtt stjórnarfólk í SVÞ

Öflugt nýtt stjórnarfólk í SVÞ

Aðalfundur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í morgun í Hyl, Húsi atvinnulífsins. Á fundinum var kosið til fjögurra sæta meðstjórnenda en aldrei hafa jafnmargir boðið sig fram í stjórn samtakanna, eða tólf frambjóðendur.

 

Réttkjörin í stjórn SVÞ til næstu tveggja ára eru:

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1

Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Kokku

Tinna Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðsmála Regins og Smáralinda

 

Réttkjörinn í stjórn SVÞ til eins árs er Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips

 

Formaður SVÞ, Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands var endurkjörinn til næstu tveggja ára.

 

Stjórn er því skipuð eftirfarandi aðilum starfsárið 2021-2022:

 

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands, formaður

Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips

Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Kokku

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1

Kjartan Örn Sigurðsson, Verslanagreining

Tinna Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðsmála Regins og Smáralindar

 

„Það er ánægjulegt að fá svona öflugt fólk til liðs við okkur. Um leið og við bjóðum þau velkomin til starfa þökkum við fráfarandi stjórnarfólki kærlega fyrir samstarfið,” segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.

Metþátttaka á vefverslunarráðstefnu og aðgangur opnaður enn frekar

Metþátttaka á vefverslunarráðstefnu og aðgangur opnaður enn frekar

Vel yfir 600 manns eru skráðir á vikulanga ráðstefnu SVÞ og KoiKoi fyrir vefverslanir sem nú stendur yfir og vakið hefur mikinn áhuga.  

Netverslun hefur aukist gríðarlega í kjölfar COVID-19. Fulltrúar SVÞ hafa áður lýst ánægju sinni með þróunina en jafnframt áhyggjum af gæðum netverslunar þegar margir flýta sér í þá vegferð sökum ástandsins. Því var ákveðið, í samstarfi við vefverslunarsérfræðingana í KoiKoi að efna til veglegrar vefverslunarráðstefnu sem opin yrði öllum endurgjaldslaust á netinu með því markmiði að efla gæði íslenskrar netverslunar. Innan SVÞ er fjöldi aðildarfyrirtækja með sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum sem tengjast netverslun og því hæg heimatökin að fá góða aðila til að fjalla um þessi mál.  

„Það er ljóst að ímynd íslenskrar netverslunar byggist á gæðum allra netverslana hérlendis, smárra sem stórra, og sú ímynd hefur áhrif á upplifun viðskiptavina af íslenskri vefverslun og þar með velgengni hennar í heild. Það er því ekki nóg fyrir okkur að fræða félagsmenn okkar um þessi mál, heldur þurfum við að breiða boðskapinn víðar, og þetta er ein leiðin til þess.“ segir Þóranna K. Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri SVÞ. Hún bendir á að þetta sé þó aðeins lítið brot af því sem samtökin geri til að efla íslenskar verslanir, þó að þetta sé mikilvægt innlegg. 

„Íslensk verslun mætir síharðnandi samkeppni frá erlendum netverslunarrisum og eina leiðin til að mæta því er með því að efla íslenskar netverslanir svo að innlendir neytendur sjái þær sem vænlegan kost. Okkur er því ljúft og skylt að styðja við greinina í heild, enda hagsmunir íslenskrar verslunar, og fjölda starfa innan hennar, í húfi.“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtakanna. 

Ráðstefnan stendur yfir út vikuna. Skráningu lauk um helgina en vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að opna ráðstefnuna líka fyrir þeim sem ekki náðu að skrá sig í tíma. Upplýsingar má finna á www.svth.is/voxtur-og-bestun-vefverslana 

Bílgreinasambandið og SVÞ í öflugt samstarf

Bílgreinasambandið og SVÞ í öflugt samstarf

Bílgreinasambandið og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hefja í dag öflugt samstarf með undirritun samstarfsyfirlýsingar. Markmiðið er að efla þjónustu við félagsmenn í samskiptum við stjórnvöld, í lögfræðilegum álitamálum og í fræðslu- og menntunarmálum ásamt því að styrkja rekstur beggja samtaka.

Flóknara rekstrarumhverfi fyrirtækja kallar á samvinnu

Rekstrarumhverfi fyrirtækja í bílgreininni og í verslun og þjónustu verður sífellt flóknara með auknum kröfum af margvíslegu tagi sem m.a. leiða til aukinna samskipta við stjórnsýsluna. Samvinna eflir þessi samskipti, eykur þjónustu og upplýsingagjöf og er til mikillar hagræðingar fyrir félagsmenn. Hún er ekki síður hagræðing fyrir stjórnsýsluna sem þarf þá að taka við færri umsögnum sem oftar en ekki eru efnislega sambærilegar. Sífellt hraðari tækniþróun kallar á aukna fræðslu og menntun sem samtökin geta eflt enn frekar með samvinnu.  

Miklar væntingar til samstarfsins 

„Það eru klárlega samlegðaráhrif á fjölmörgum sviðum sem gerir samtökunum kleift að vinna enn betur fyrir félagsmenn sína. Samskipti við stjórnsýsluna verða markvissari og öflugri, félagsmenn Bílgreinasambandsins munu njóta góðs af aðgengi að fræðsludagskrá SVÞ, enda er eðli bílgreinarinnar í raun verslun og þjónusta, og hagræðing í rekstrarkostnaði samtakanna er augljós. Við væntum mikils af þessu samstarfi,” segir María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Stefnt að enn frekara samstarfi 

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, fagnar samstarfinu, enda ljóst að með því verði samtökin enn sterkara hagsmunaafl fyrir félagsmenn sínaHagsmunir þessara greina fara að langmestu leyti saman og í ljósi þess fögnum við þessum samstarfi og vonumst til að geta þróað það áfram enn frekar. 

SVÞ og VR hvetja stjórnvöld til stefnumótunar og aðgerða í stafrænum málum

SVÞ og VR hvetja stjórnvöld til stefnumótunar og aðgerða í stafrænum málum

SVÞ og VR sendu í dag hvatningu og tillögur til stjórnvalda um stefnumótun og aðgerðir í stafrænum málum. 

Heimsfaraldur COVID-19 hefur hraðað stafrænni þróun gríðarlega og ýtir enn frekar undir það bil sem þegar var farið að myndast meðal þeirra sem hafa og ekki hafa stafræna hæfni, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga. Einnig hafa fjölmargir aðilar, á borð við OECD, World Economic Forum og Sameinuðu þjóðirnar, lýst því yfir að faraldurinn hafi aukið enn á mikilvægi þess að brúa hið stafræna bil og að stafræn þróun muni leika lykilhlutverk við að koma efnahagskerfum heimsins úr kórónuveirukreppunni. 

Í hvatningunni lýsa SVÞ og VR miklum áhyggjum af stöðu stafrænnar þróunar í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði og skorti á stafrænni hæfni. Í greinargerð með tillögunum er m.a. vitnað í alþjóðlegar rannsóknir sem sýna að Ísland er að dragast verulega aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við, ekki síst Norðurlandaþjóðunum, sem allar eru í fararbroddi í stafrænni þróun á heimsvísu. Þá er einnig bent á að mikil tækifæri séu til norræns samstarfs á þessu sviði og eru SVÞ og VR til að mynda þegar búin að koma á samstarfi við öfluga norræna aðila, m.a. um samstarf við Stafrænt hæfnisetur, sem er einn hluti af tillögum þeirra. 

Lesa má hvatninguna í heild sinni hér.

Lagðar eru fram fimm tillögur til að hraða stafrænni þróun hjá íslenskum fyrirtækjum og starfsfólki: 

  • Komið verði á samstarfsvettvangi stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs, vinnumarkaðar og háskólasamfélags til að vinna að öflugri stafrænni framþróun í íslensku samfélagi og atvinnulífi,   
  • Mótuð verði heildstæð stefna í stafrænum málum fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf og farið í markvissar aðgerðir til að stuðla að stafrænni framþróun,   
  • Sett verði á fót Stafrænt hæfnisetur til eflingar stafrænni hæfni í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði, 
  • Skattfrádráttur rannsóknar- og þróunarverkefna verði útvíkkaður til að ná til stafrænna umbreytingaverkefna,
  • Áhersla verði lögð á það í menntastefnu og aðgerðum að efla stafræna færni á öllum skólastigum. 

Þegar er hafið samtal við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og menntamálaráðuneytið og undirbúningur að Stafrænu hæfnisetri er hafinn í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. 

Tillögurnar verða kynntar frekar á aðalfundi faghópsins Stafræn viðskipti á Íslandi sem fram fer í dag og verður sá hluti fundarins sýndur í beinni útsendingu í Facebook hóp SVÞ sem helgaður er stafrænum málum hér.

Nánari upplýsingar um tillögurnar, og greinargerð sem þeim fylgir má lesa hér fyrir neðan:

Click to read Stafræn þróun – hvatning til stjórnvalda

SVÞ setja sér umhverfisstefnu

SVÞ setja sér umhverfisstefnu

Stjórn SVÞ samþykkti á fundi sínum þann 8. október sl. umhverfisstefnu fyrir samtökin. Umhverfisstefnan tekur bæði til innra starfs samtakanna en markmið hennar er ekki síður að vera aðildarfyrirtækjum og atvinnulífinu öllu góð fyrirmynd í umhverfismálum og sjálfbærni, og að leiðbeina, fræða, hvetja og styðja við aðildarfyrirtæki í málaflokknum, enda sé ekki síst skýr ávinningur af því fyrir aðildarfyrirtæki í formi betri afkomu, aukinnar starfsánægju starfsfólks og bættrar ímyndar.

„Umhverfismál og sjálfbærni varða okkur öll og atvinnulífið hefur sett þau mál kyrfilega á dagskrá. Við viljum því ganga fram með góðu fordæmi auk þess að styðja okkar aðildarfyrirtæki í því að skapa betra umhverfi fyrir okkur öll,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ

Umhverfisstefnuna má lesa í heild sinni hér: https://svth.is/umhverfisstefna-svth/