Netverslun frá Eistlandi sprengir öll met – 45% af erlendum innkaupum í september

Netverslun frá Eistlandi sprengir öll met – 45% af erlendum innkaupum í september

Nýjustu tölur frá Rannsóknasetri verslunarinnar sýna að erlend netverslun heldur áfram að aukast, með verulegum áhrifum á íslenska markaðinn.

Samkvæmt nýjustu netverslunarvísum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) hafa Íslendingar eytt yfir 27 milljörðum króna í erlendar netverslanir á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, sem er umtalsverð aukning frá 19 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Ef þessi þróun heldur áfram er spáð að heildarútgjöld ársins nái hátt í 44 milljörðum króna, sem nálgast upphæðina sem erlendir ferðamenn vörðu hér á landi í júlí, um 48 milljörðum króna samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands.

14% aukning á erlendri netverslun á milli mánaða.

Í september einum saman námu innkaup Íslendinga í erlendum netverslunum 4,34 milljörðum króna, sem er 14% aukning frá ágúst – sem sjálfur var metmánuður. Þessi viðvarandi vöxtur endurspeglar að breytingar eru á neysluhegðun landsmanna, sérstaklega þar sem erlendar netverslanir hafa aukið aðgengi sitt með ódýrari dreifingarleiðum.

Eistland: risastór netverslunarmiðstöð Ali Express og Temu.

RSV vekur athygli á verulegri aukningu í netverslun frá Eistlandi, sem hefur rokið upp í um 2 milljarða króna í september og nam þannig yfir 45% af allri erlendri netverslun Íslendinga í þeim mánuði. Þessi þróun er meðal annars rakin til nýrra dreifingarmiðstöðva stórfyrirtækja eins og Ali Express og Temu.

Nánari greiningar fyrir fyrirtæki

Fyrir þau fyrirtæki sem vilja kafa dýpra býður RSV ítarlegri greiningar með upplýsingum úr Veltunni (veltan.is) sem flokkaðar eru eftir tollgögnum, tolllínum og sendingarlöndum.

Þetta gagnasafn nýtist vel fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja átta sig á þróun netverslunar og undirflokka sem tengjast erlendri verslun.

Smelltu HÉR fyrir allar fréttir frá RSV.

Áhrif svartsýni á fyrirtæki í verslun og þjónustu

Áhrif svartsýni á fyrirtæki í verslun og þjónustu

Fyrirtæki í verslun og þjónustu undir pressu.

Ný könnun Samtaka atvinnulífsins (SA) sýnir að stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins hafa auknar áhyggjur af rekstraraðstæðum á næstu mánuðum. Fyrirtæki í verslun og þjónustu eru meðal þeirra sem vissulega finna fyrir álaginu, þar sem hækkandi verðbólga, launakostnaður og breytt neyslumynstur hafa þrengt að mörgum rekstraraðilum.

Fjárfestingar dragast saman

Niðurstaða könnunarinnar sýnir m.a. að fjárfestingavísitalan sem vísar til breytinga í fjárfestingu á milli ára hefur ekki verið lægri í rúm þrjú ár. 34% stjórnenda gera ráð fyrir minni fjárfestingu í ár samanborið við árið áður, 21% gera ráð fyrir meiri fjárfestingu og 45% áætla að fjárfesting verði óbreytt milli ára. Fjárfestingar dragast mest saman í verslun og ýmissi sérhæfðri þjónustu en eykst mest í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, fjármála- og tryggingastarfsemi og sjávarútvegi.

Launahækkanir helsti áhrifaþáttur verðlagsbreytinga

Sem fyrr telja stjórnendur að launahækkanir séu megin áhrifaþáttur verðhækkana hjá fyrirtækjunum sem þeir stýra. 52% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni, sem er þó lækkun um 17 prósentustig frá síðustu könnun. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 24% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif. Aðrir þættir vega talsvert minna.

Skortur á starfsfólki fer minnkandi

Skortur á starfsfólki fer minnkandi á milli kannana en 73% stjórnenda telja sig ekki búa við skort á starfsfólki, samanborið við 69% í síðustu könnun. Skorturinn er minnstur hjá fyrirtækjum í fjármála- og tryggingastarfsemi en sem fyrr mestur í byggingariðnaði.

Smelltu hér til að lesa alla fréttina inná vef SA.is

EuroCommerce e-Report 2024: Vöxtur og áskoranir netverslunar í Evrópu

EuroCommerce e-Report 2024: Vöxtur og áskoranir netverslunar í Evrópu

Í nýútgefinni EuroCommerce e-Report 2024 kemur í ljós að evrópsk B2C netverslun óx um 3% árið 2023, en vöxtur var mismikill eftir svæðum. Vestri hluti Evrópu dróst lítillega saman, á meðan Suður- og Austur-Evrópa sýndu verulega aukningu um 14-15%. Áskoranir eins og samkeppni frá löndum utan ESB og nýjar sjálfbærnikröfur hafa áhrif á framgang greinarinnar. Spár benda þó til 8% vaxtar árið 2024.

Sjá nánar í skýrslunni hér.

Sjá upptöku af Webinar eCommerceEurope hér.

RSV | Áreiðanleiki gagna og mikilvægi samstarfs við færsluhirða: Áskoranir og ný þróun

RSV | Áreiðanleiki gagna og mikilvægi samstarfs við færsluhirða: Áskoranir og ný þróun

Aukinn fjöldi færsluhirða kallar á nýjar áskoranir

Rannsóknasetrur verslunarinnar (RSV) sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur ma. fram að RSV leggur mikla áherslu á áreiðanleika gagna við öflun upplýsinga fyrir Veltuna, sem er eitt af mikilvægustu verkefnum setursins. Söfnun gagna byggir á sjálfviljugri þátttöku færsluhirða sem starfa á íslenskum markaði, þar sem RSV hefur engan lagalegan rétt til að krefja þá um upplýsingar. Í gegnum árin hefur setrið byggt upp gott samstarf við þessi fyrirtæki, sem hefur skilað mikilvægu gagnasafni fyrir íslenskt viðskiptalíf.

Þróun síðustu missera hefur þó kallað á nýjar áskoranir. Fjöldi færsluhirða hefur aukist verulega og verið hefur unnið hörðum höndum að því að kortleggja þessa aðila og fá þá til samstarfs. Því miður hefur sú vinna ekki gengið eins vel og vonir stóðu til. Þó íslenskir aðilar hafi verið opnir fyrir samtali, hefur reynst erfiðara að sannfæra erlenda færsluhirða um að afhenda gögn. Samræming á tölum RSV við Seðlabanka Íslands (SÍ) hefur sýnt fylgni, en erfiðleikar við að ná öllum aðilum hafa gert það nær ómögulegt að áætla heildarstærð markaðarins.

Greiðslumiðlunarfyrirtæki hafa þróast hratt með nýrri tækni, breyttum neytendavenjum og aukinni samkeppni. Þessi þróun, ásamt alþjóðavæðingu greiðslulausna, hefur leitt til þess að fyrirtæki geta náð til nýrra markaða með minna flækjustigi. Á sama tíma hefur þessi þróun gert það erfiðara fyrir RSV að tryggja heildstæð gögn.

Í byrjun sumars hættu gögn að berast frá einum af stærri færsluhirðunum hér á landi, sem leiddi til verulegra skekkja þegar gögnin voru borin saman við tölur Seðlabankans. Af þessum sökum var tímabundið gert hlé á birtingu gagna hjá RSV þar til hægt er að ná utan um alla færsluhirða á Íslandi. Stjórn RSV hefur sent beiðni til Seðlabankans um gögn beint frá þeim til að tryggja enn frekar áreiðanleika gagna og er von á svari fljótlega.

RSV leggur mikla áherslu á trúverðugleika gagna og hefur verið að vinna að breytingum á þessu ári til að styrkja áreiðanleika þeirra enn frekar. Það er nauðsynlegt að Ísland sé í takt við aðrar Evrópuþjóðir hvað varðar söfnun, greiningu og birtingu gagna um stóra útgjaldaliði í hagkerfinu, þar sem gott aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum er lykilatriði.

Kíkið HÉR til að skoða Veltuna hjá RSV.

Nýjar áskoranir og tækifæri í sýndarveruleika: Áhrif á stjórnendur í verslun og þjónustu

Nýjar áskoranir og tækifæri í sýndarveruleika: Áhrif á stjórnendur í verslun og þjónustu

Í nýrri skýrslu um friðhelgi einkalífs og metaverse,frá Business at OECD er lýst möguleikum og áskorunum fyrir stjórnendur. Með vaxandi notkun sýndarveruleika [metaverse] verður mikilvægara en nokkru sinni fyrr að tryggja gagnavinnslu og friðhelgi viðskiptavina.

Fyrir verslun og þjónustu er mikilvægt að tryggja trúnað og öryggi við meðferð persónuupplýsinga, sérstaklega þar sem safna á og vinna úr líffræðilegum og persónulegum gögnum. Verslanir geta nýtt metaverse til að bæta viðskiptaupplifun með sýndarverslunum og persónusniðnum þjónustu, en það krefst skýrrar og öruggrar gagnavinnslu til að byggja upp traust viðskiptavina.

Þar kemur m.a. fram að stjórnendur þurfa að taka afstöðu til þess hvernig best er að innleiða nýja tækni á öruggan hátt, til að byggja upp traust og bæta viðskiptaupplifun.
Skýrslan leggur áherslu á að áhrifarík gagnaöryggi og stefnumótun verði lykillinn að velgengni í þessum nýja stafræna heimi.

Lesið nánar um áhrifin og tillögur skýrslunnar hér: Skýrsla OECD um metaverse.

Innlend netverslun af fötum er á pari við innflutning frá Kína

Innlend netverslun af fötum er á pari við innflutning frá Kína

Rannsóknasetur verslunarinnar [RSV] birtir í dag niðurstöður frá netverslun Íslendinga á fötum.

Tæplega þriðjungur Íslendinga verslar föt á netinu á meðan hinir gera sér ferð út í búð.

Viðskiptahættir okkar eru fjölbreyttir og breytast með tímanum.

Nýjasta könnun RSV sýnir að sama hvað gengur á í þjóðfélaginu, við hættum ekkert að kaupa okkur föt eða skó. Það er gömul mýta og ný að við erum alveg hætt að fara út í búð, verslum allt á netinu og fáum allt sent heim. Það er þó alls ekki þannig, yngri kynslóðin er kannski komin með þann vana en stundum þurfum við bara að fara út í búð og máta.

Hér koma nokkrar áhugaverðar tölur fyrir árið 2023 í fataverslun.

  • Tæplega þriðjungur Íslendinga verslar föt og skó á netinu á meðan hinir gera sér ferð út í búð og borgar í posa.
  • Tæplega þriðjungur okkar verslar föt á netinu að þá verslum við fjórfalt meira af fötum í erlendri netverslun en af íslenskum fataverslunarfyrirtækjum sem að bjóða upp á netverslun.
  • Tæplega annar hver hlutur sem að Íslendingar (eingöngu einstaklingar) flytja inn, eru föt eða skór (45,5%).
  • Við versluðum jafnmikið í netverslun við innlend fataverslunarfyrirtæki og við fengum sent af fötum frá Kína (3,7 ma.kr.) á árinu 2023.
  • Bretland, Bandaríkin, Víetnam og Holland koma svo fast á hæla Kína í keppninni um vinsæl lönd sem senda okkur föt eftir pantanir okkar í erlendri netverslun.

Fyrir frekari upplýsingar, skoðaðu Veltan.is.