28/11/2025 | Fréttir, Greining, Stafræna umbreytingin, Verslun
Mikil aukning í erlendri netverslun í október
Staða og þróun samkvæmt Rannsóknasetri verslunarinnar
Erlend netverslun jókst verulega í október. Samkvæmt nýjustu mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) nam aukningin 12,8% frá sama tíma í fyrra og nær 30% ef bornir eru saman september og október í ár. Heildaraukning ársins til þessa er nú 14,3%.
Fatnaður og skór eru enn stærsti undirflokkurinn (+ 12,3%).
Lyf og lækningavörur dragast saman (- 22,2%).
Matvara vex mest (+ 28,3%).
Hlutfall vara frá Kína heldur áfram að aukast og er nú um 40%, samanborið við tæp 30% árið 2022.
RSV birtir mánaðarleg gögn um þróun erlendra sendinga, uppruna vara og kauphegðun neytenda og býður uppá ítarlegar skýrslur um erlenda netverslun sem eru mikilvæg fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja skilja og bregðast við breyttu umhverfi í netverslun.
Sjá nánar á vef RSV.
21/11/2025 | Fréttir, Greining, Í fjölmiðlum, Verslun
Í viðtali á Bylgjunni í gær 20. nóvember fór Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, yfir niðurstöður árlegrar könnunar Rannsóknaseturs verslunarinnar um Jólagjöf ársins 2025 – og ef einhver hélt að árið myndi kalla á “glitrandi glingur”, þá er svarið einfalt: nei, neytandinn vill nytsamlegt og raunhæft.
„Fólk er sífellt meðvitaðra. Gjöfin þarf að nýtast – ekki bara skreyta,“ sagði Benedikt í þættinum, og benti á að fyrirtæki og verslanir séu orðnar mun markvissari í að auglýsa gjafir sem bæta lífið, einfalda tilveruna eða endast lengur en jólatréið sjálft.
Nýju gögnin frá RSV sýna að Íslendingar vilja helst fá hlýjar flíkur, útivistarfatnað, gagnleg heimilistæki, góð bók, snjallúr, heyrnartól, gjafabréf – og já, AirFryer-inn er enn að reyna að slá í gegn, þó hann sé ekki toppurinn lengur.
Gjafabréf, upplifanir og bækur halda einnig velli, en stóra breytingin í ár er sú að neytendur leggja meiri áherslu á gæði og gagnsemi en áður. Gjöfin á að „skilja eitthvað eftir sig“, helst eitthvað sem bætir heilsu eða líðan – eða einfaldlega gerir daginn aðeins betri.
Jólagjöfin 2025 er ekki eitt tiltekið hlutverk – heldur hugmyndafræði. Hún er praktísk, varanleg og lifir með þiggjandanum inn í nýtt ár.
Smelltu hér fyrir frétt frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.
Smelltu hér til að hlusta á viðtalið á Bylgjunni.
13/10/2025 | Fréttir, Greining, Stjórnvöld, Verslun, Viðburðir
Ójafnar leikreglur í alþjóðlegri netverslun skapa aukinn samkeppnishalla fyrir íslensk og evrópsk fyrirtæki.
Ný skýrsla frá EuroCommerce – samtökum evrópskra verslunar- og þjónustufyrirtækja – varpar ljósi á hvernig stórir alþjóðlegir netmarkaðir á borð við Temu og Shein hafa skapað nýjar áskoranir í netverslun frá þriðju ríkjum.
Í skýrslunni kemur fram að innlend og evrópsk fyrirtæki, sem fylgja ströngum reglum um vöruöryggi, umhverfi og skatta, standi frammi fyrir ósanngjarnri samkeppni gagnvart seljendum utan EES sem oft sleppa við slíkar skyldur.
Þetta leiðir til verulegs samkeppnishalla, en jafnframt hættu fyrir neytendur þar sem fjöldi vara sem seldar eru beint frá þriðju ríkjum stenst ekki evrópska staðla.
Ótryggar vörur, skert öryggi – og skakkur leikvöllur
Samkvæmt EuroCommerce uppfylla allt að 80% vara sem seldar eru í gegnum netmarkaði á borð við Temu og Shein ekki öryggis- og gæðakröfur Evrópu.
Þrátt fyrir að milljarðar sendinga berist árlega inn á markaðinn bera netmarkaðstorgin sjálf enga lagalega ábyrgð á vörunum sem þau selja – ólíkt innlendum dreifingaraðilum sem þurfa að uppfylla strangar reglur.
Á Haustréttum SVÞ 7. október sl., sagði Runar Wilksnes aðalhagfræðingur VIRKE, systursamtök SVÞ í Noregi, að þar í landi kæmu á hverjum degi 30.000.- sendingar frá Temu og Shein.
Þetta veldur tvöföldu tjóni:
- Neytendur standa frammi fyrir óöruggum vörum, efnainnihaldi og rafmagnstækjum sem ekki uppfylla staðla.
- Fyrirtæki innan EES missa markaðshlutdeild vegna ólöglega lágs verðs sem byggir á því að sleppa við kostnað sem fylgir ábyrgri starfsemi.
__________
Fundur SVÞ 29. október – Alþjóðlegar netverslanir… hvað er að gerast?
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu bjóða stjórnendum í verslun og þjónustu á upplýsingafund þann 29. október þar sem farið verður yfir stöðuna á Íslandi.
Skráðu þig hér:
👉 Alþjóðlegar netverslanir… hvað er að gerast? – Upplýsingafundur SVÞ
Hlaðið niður skýrslunni
Aðildarfélög SVÞ geta nú nálgast “Minni útgáfu” af EuroCommerce-skýrslunni um netverslun frá þriðju ríkjum. Skýrslan dregur fram lykilatriði um ósanngjarna samkeppni, lagaleg glufur og tillögur til að tryggja jafnvægi á evrópskum markaði.
📄EuroCommerce Report 2025 – Light Version
08/10/2025 | Fréttir, Greining, Greiningar, Skýrslur, Útgáfa, Verslun, Þjónusta
Haustréttir SVÞ 2025 (- Tölurnar tala sínu máli).pdf
Smelltu hér til að hlaða niður á PDF formati Haustréttir SVÞ 2025 (- Tölurnar tala sínu máli)
03/09/2025 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Greining
Í drögum að reglugerð kemur fram að merkja eigi umbúðir tiltekinna vara þannig að það sé skýrt að þær innihaldi plast. Þessi krafa kemur frá ESB. Efnislega gerir ESB þá kröfu að merkingarnar séu á íslensku og ekki nægi að þær séu á ensku eða öðru norðurlandamáli.
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu telja að vegna kröfunnar muni innflutningverð varanna hækka og hætt sé við að vöruúrval kunni að dragast saman. Ef það raungerist er hætt við að staðan geri hag íslenskra neytenda lakari.
SVÞ skiluðu umsögn um drögin, ásamt Samtökum atvinnulífsins þar sem athygli er vakin á hversu harkalega þessi krafa kemur niður á Íslandi, samanborið við fjölmennari málsvæði og stærri hagkerfi. Auðsætt er að ekki er eins hætt við að innflytjendur og neytendur í stærri ríkjum verði fyrir neikvæðum áhrifum.
SVÞ vilja vekja sérstaka athygli á að krafa ESB mun, umfram aðra, bitna á konum sem nota tíðavörur, þ.e. dömubindi og túrtappa. Það telja SVÞ ómálefnalegt og ekki í takt við tímann.
SVÞ telja jafnframt að framkvæmdastjórn ESB hafi gert mistök við lagasetningu, framkvæmdastjórnin hafi farið út fyrir valdsvið sitt eða lagt rangt mat til grundvallar þegar ákveðið var að ekki nægði að merkja vörurnar á ensku eða öðru norðurlandamáli.
Þó efni reglugerðardraganna beri ekki mikið yfir sér má halda því fram að meðferð stjórnvalda á þessu máli geti orðið prófsteinn á hvort og hvaða tækifæri Ísland hefur til að hafa áhrif á þær reglur sem gilda á innri markaði EES og þá ekki síst hvaða vægi ESB gefur séríslenskum hagsmunum. Undanfarin misseri hafa á almennum vettvangi átt sér stað umræður um mögulega ESB-aðild Íslands. Vera kann að þetta mál geti orðið innlegg í slíka umræðu. Þegar efni og eðli málsins er haft í huga telja SVÞ að íslensk stjórnvöld eigi að láta reyna á lögmæti tungumálakröfunnar og þannig gæta íslenskra hagsmuna, t.a.m. fyrir EFTA-dómstólnum.
18/08/2025 | Fréttir, Greining
Skattar, kvaðir og útflutningsland ráða miklu um bensínverð á Íslandi.
Í umræðu um bensínverð hafa ASÍ o.fl. vísað til þróunar heimsmarkaðsverðs og fullyrt að íslenskir neytendur njóti ekki ávinnings af lækkun þess. Greining skrifstofu SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu leiðir annars vegar í ljós að stór hluti eldsneytisverðsins hefur lítil eða engin tengsl við þróun heimsmarkaðsverðs og hins vegar að algengt er að ekki sé miðað við raunveruleg innflutningsgögn.
Skattar og gjöld ráða stórum hluta verðsins
Stór hluti bensínverðs á Íslandi er fastur og ákvarðaður af Alþingi í formi skatta og gjalda – almennt og sérstakt bensíngjald, kolefnisgjald og virðisaukaskattur. Þessir liðir nema í dag 135 kr. á hvern bensínlítra. Sé miðað við að íblöndun sé um 10% af bensínlítranum þá nema skattar og gjöld 42% af dæluverði hvers lítra og breytast ekki þó heimsmarkaðsverð breytist *. Þvert á móti eykst hlutur ríkisins í % af dæluverði ef innkaupsverð eldsneytis lækkar.
Bensín kemur frá Noregi – ekki New York
Nær allt innflutt bensín hefur komið frá Noregi, ekki New York höfn. Af upplýsingum frá Hagstofu Íslands má leiða að innflutningsverð á blýlausu bensíni frá Noregi í íslenskum krónum lækkaði um 3,5% frá janúar til júní á þessu ári. Það styður lítt ályktun ASÍ um lækkun sem nemur 13,7% vegna styrkingar krónunnar.
Stóra spurningin
Það vekur sérstaka athygli að útreikningar ýmissa aðila, þ. á m. ASÍ, virðist ekki taka mið af gögnum sem liggja fyrir, eru birt opinberlega og endurspegla raunverulegan innlendan kostnað.
„Það gerist reglulega og er hluti af veruleika atvinnurekenda og neytenda að þráttað sé um verðlagningu og örugglega er slík umræða holl m.t.t. samkeppni. Eigi umræðan að vera til framdráttar hlýtur hins vegar að vera lykilatriði byggt sé á haldgóðum gögnum. Af upplýsingum sem Hagstofan birtir sést að bensín á Íslandi hefur nær alfarið verið flutt inn frá Noregi og af þeim má einnig leiða að innkaupsverð í íslenskum krónum lækkaði um 3,5% frá janúar til og með júní – sem styður ekki 13,7% lækkun vegna gengisáhrifa eins og gefið hefur verið til kynna. Ef horft er fram hjá slíkum gögnum verður niðurstaðan varla rétt. Við teljum mikilvægt fyrir umræðuna að miðað sé við haldbærar upplýsingar.“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ.
_____________
* Í útreikningunum er miðað við að útsöluverð á bensín sé 290 kr. á hvern lítra. Fjárhæðin inniheldur virðisaukaskatt sem lagður er á skatta og gjöld en ekki virðisaukaskatt sem lagður er á breytilegan kostnað s.s. innkaupsverð og álagningu.
Síða 1 af 2012345...1020...»Síðasta »