06/02/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Tvær meginástæður eru fyrir því að dagvöruverðshækkanir vegna faraldursins koma fyrst fram núna að sögn SVÞ.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að það eru tvær meginástæður fyrir því að verðlagshækkanir á innfluttri mat- og dagvöru eru að koma fram fyrst núna, en verslunarmenn segjast eiga miklar hækkanir í vændum frá sínum birgjum og hafa varað við yfirvofandi holskeflu verðhækkana í kjölfarið.
„Fyrir það fyrsta tekur tíma frá því að kornið er skorið á akrinum þar til það verður að fullbúinni neysluvöru. Þetta er töluvert ferli. Að sama skapi tekur það því tíma fyrir áhrifin af hrávöruverðshækkunum að koma fram í verðlagi neytendavara. Hitt er það að tilkynningar erlendra birgja um verðbreytingar berast svo til alltaf í upphafi árs. Heildsalarnir eru að fá þessar tilkynningar mjög mikið þá. Þannig hefur það alltaf verið,“ bendir Andrés á í viðtalinu.
SMELLIÐ HÉR TIL AÐ LESA ALLT VIÐTALIÐ
30/01/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu sagði í fréttaviðtali hjá RÚV rétt í þessu að ekkert benda til þess að það dragi úr verðhækkunum næstu mánuði. Hrávöruverð á heimsmörkuðum sé í sögulegu hámarki. Seðlabankinn eigi engin tól gegn því.
Þá benti Andrés á að heimsmarkaðsverð á hrávöru, hvaða nafni sem hún nefnist, hefur hækkað fordæmalaust á einu og hálfu ári. Þar sé skýringa að leita á hækkun vöruverðs. Verðbólgudraugurinn hafi vaknað á ólíklegustu stöðum, jafnvel í Þýskalandi sem þekkt sé fyrir flest annað en verðbólgutölur. Hann segir samtökin margsinnis hafa bent á hvað væri í aðsigi og nú komi verðbólgan í andlitið á okkur.
„Við höfum ekki séð svona hækkanir á friðartímum, það er bara þannig. Allir indexar, allar vísitölur, allar hrávöruvísitölur staðfesta það. Það getur engum dottið það í hug að fyrirtæki, hvort sem þau eru stór eða smá, hvaða nafni sem þau nefnast, geti tekið þetta á sig. Það er skrifað í skýin að þegar svona miklar hækkanir verða á innkaupsverði þá hefur það áhrif á verðlag, það er ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum“ bætir Andrés við.
SJÁ FRÉTT Á RÚV HÉR
28/01/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Samtök sjálfstæðra skóla
Innherji tekur fyrir nýbirtar verðbólgutölur Hagstofunnar í morgun.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5 prósent í janúar á þessu ári og mælist tólf mánaða verðbólga núna því 5,7 prósent. Hefur árstaktur verðbólgunnar ekki verið meiri frá því í apríl árið 2012. Þá hækkaði kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði um 1,5 prósent, sem hafði áhrif á vísitöluna til hækkunar um 0,25 prósent. Þá hækkaði einnig verð á mat og drykkjarvörum um 1,3 prósent og rafmagn og hiti um 3,7 prósent.
Á móti lækkaði verð á fötum og skóm um 8 prósent, sem má rekja til þess að vetrarútsölur eru víða í gangi, og eins verð á húsgögnum og heimilisbúnaði.
SJÁ GREIN INNHERJA HÉR
22/01/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Jón Ólafur Halldórsson formaður Samtaka verslunar og þjónustu heldur í dag uppá stórafmælið sitt en hann fæddist 22.janúar 1962 í Reykjavík.
Morgunblaðið birtir skemmtilega grein af lífshlaupi formannsins í tilefni dagsins í dag.
SVÞ sendir Jóni Ólafi innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins.
SJÁ UMFJÖLLUN MORGUNBLAÐSINS HÉR!
mynd Morgunblaðsins
05/01/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Morgunblaðið birtir í dag, 4.janúar 2022, frétt um nýja Evróputilskipun vegna skoðanna ökutækja. En SVÞ er málsvari skoðanastöðvanna og gerði verulegar athugasemdir við drög að nýrri skoðanahandbók, eins og kemur fram í frétt Morgunblaðsins.
SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA ALLA FRÉTTINA
01/01/2022 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stafræna umbreytingin, Verslun, Þjónusta
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu skrifar í KJARNANUM 1.janúar 2022
Áramótagrein mín í Kjarnanum fyrir ári síðan bar yfirskriftina „Stafrænt stökk til framtíðar“. Þar lýsti ég því að þrátt fyrir allt hefði árið 2020 ekki verið það annus horribilis fyrir verslunar- og þjónustufyrirtækin í landinu sem margir gerðu ráð fyrir. Covid tíminn hafði nefnilega í för með sér ýmsar jákvæðar hliðarverkanir, ekki síst fyrir þær sakir að æ fleiri hafa nú öðlast skilning á mikivægi stafrænna umbreytinga og þeim gífurlegu tækifærum sem þær skapa. Fundarhöld á netinu og stafrænir viðburðir hvers konar sem áður voru nær óhugsandi eru núna daglegt brauð, með tilheyrandi tíma- og orkusparnaði fyrir alla þá sem slíka fundi sækja. Svo ekki sé nú minnst á þau jákvæðu áhrif sem stafræn fundarhöld hafa haft á kolefnisspor þeirra sem slíka fundi sækja.
Á því ári sem senn líður höfum við hjá SVÞ áfram haldið á sömu braut og áður, trú þeirri staðföstu skoðun okkar að öflugt átak við að efla stafræna hæfni og stafræna þekkingu alls staðar í atvinnulífinu sé ein af frumforsendunum fyrir því að Ísland haldi stöðu sinni áfram meðal fremstu þjóða heims hvað lífskjör varðar. Gert var samkomulag milli stjórnvalda annars vegar og Samtaka verslunar og þjónustu, VR og Háskólans í Reykjavík hins vegar um að setja á laggirnar „Stafrænan hæfniklasa“ sem hefur það hlutverk að efla stafræna hæfni bæði í atvinnulífinu og á hinum almenna vinnumarkaði. Með þessu sameina stjórnvöld, atvinnurekendur í verslun og þjónustu, launþegahreifing og háskólasamfélagið krafta sína í þessu efni. Stafræni hæfniklasinn hefur þegar hafið starfsemi sína.
Ísland áfram samkeppnishæft
Það er mikið í húfi að vel takist hér til. Til þess að Ísland verði áfram samkeppnishæft og íslensk fyrirtæki geti veitt hinum stóru alþjóðlegu fyrirtækjum samkeppni, verður þekking á stafræna sviðinu að taka stökk fram á við. Við erum þegar langt á eftir samanburðarþjóðum okkar í þessum efnum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er heill kafli um stafrænar umbreytingar þar sem m.a. segir að ríkisstjórnin hafi einsett sér að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu og að lögð verði áhersla á að styrkja stafræna hæfni fólks og getu þess til að leggja gagrýnið mat á upplýsingar. Óneitanlega hefði verið gaman að sjá í stjórnarsáttmálanum sterkar kveðið að orði um efla menntakerfið til þess að gera því kleift að bæta stafræna hæfni á öllum sviðum samfélagsins. Það er algert lykilatriði að menntakerfið í heild sinni taki þessi mál föstum tökum og efli færni kennara til að miðla þekkingu á þessu sviði til nemenda. Það verður eitt af stóru verkefnum nýhafins kjörtímabils að vinna þeim málum framgang.
Fordæmalausar breytingar
Allt þetta sýnir þær hröðu breytingar sem við nú upplífum, breytingar sem eru algerlega fordæmalausar, svo notað sé það margþvælda orð. Það er ákveðinn vendipunktur að eiga sé stað í öllu viðskiptaumhverfinu. Nýjar og áður óþekktar aðferðir til að ná til viðskiptavinarins spretta upp með reglulegu millibili, þar sem hægt er að fylgjast með neysluhegðun hvers einasta einstaklings af ótrúlegri nákvæmni. Aðferðir til að nálgast viðskiptavininn verða sífellt margbrotnari. Þær aðstæður sem mynduðust í heimsfaraldrinum hafa flýtt þessum breytingum svo um munar.
Stafrænt langstökk til framtíðar hlýtur að verða okkar svar.
Þegar litið er til ársins 2021 er ljóst að löngu þörf viðhorfsbreyting hefur átt sér stað í þeim málum. Á sama hátt er ljóst að betur má ef duga skal. Árið 2022 mun kalla á fleiri og stærri áskoranir í því efni og það sem er undir er hvernig við getum viðhaldið og tryggt samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í þeirri sífellt harðnandi alþjóðlegu samkeppni sem þau eiga við að glíma. Hvorki meira né minna.
SMELLIÐ HÉR TIL AÐ NÁLGAST GREIN Á KJARNANUM