23/03/2021 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Eftifarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 20. mars:
Þegar allt í kringum okkur er gengið hröðum skrefum og stórum til framtíðar, verða stuttu skrefin þannig að engu er líkara en að um kyrrstöðu eða afturför sé að ræða. Þetta má segja um frumvarp dómsmálaráðherra sem kemur til móts við umtalsverða grósku smærri brugghúsa er sprottið hafa upp um land allt. Verði það að lögum fá brugghúsin leyfi til þess að selja sitt fjölbreytta úrval af handverksbjór á framleiðslustað. Sú nýbreytni er til þess fallin að auka tilbreytingu í verslun og vera eftirsótt viðbót í ferðaþjónustu.
Jafnræði í nýjum veruleika
Veruleikinn hefur þó farið mörgum skrefum frammúr okkur með tilkomu alþjóðlegrar vefverslunar. Í vaxandi mæli fá Íslendingar vín og bjór sendan heim til sín eftir þeim leiðum. Umfang netverslunar vex með ógnarhraða og auglýsingar frá vín- og bjórframleiðendum erlendis eru áberandi á samfélagsmiðlum, þeim miðlum sem er orðin hin almenna leið til að afla sér upplýsinga og þekkingar. Í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) um það takmarkaða afnám einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er einmitt lögð höfuðáhersla á jafnræði til vefverslunar.
Óboðlegt viðskiptaumhverfi
Það hreinlega gengur ekki upp að erlendum vefverslunum sé heimilt að höndla án takmarkana með bjór og léttvín á íslenskum markaði á sama tíma og innlendar vefverslanir eru útilokaðar. Veruleikinn er einfaldlega sá að innlendir bjórframleiðendur flytja nú þegar afurðir sínar frá Íslandi í þeim eina tilgangi að senda þær aftur til landsins í gegnum erlendar vefverslanir, t.d. verslun Amazon í Bretlandi. Svona viðskiptahættir eru ekki boðlegir í dag, hvort sem litið er til jafnræðissjónarmiða eða kolefnisfótspors.
Hverjir réðu afturförinni?
Á undirbúningsstigi umrædds frumvarps voru drög að því birt í tvígang á samráðsgátt stjórnvalda, www.Island.is. Í bæði skiptin var gert ráð fyrir að heimilaður yrði rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda með vissum takmörkunum. Til grundvallar lágu þau rök að æskilegt væri að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar í ljósi þess að almenningi væri heimilt að kaupa áfengi í gegnum netverslun frá útlöndum og flytja til landsins til einkaneyslu á meðan slík verslun væri ekki heimil í vefverslun sem starfrækt væri hér á landi. Með því að heimila innlenda vefverslun með áfengi væri lagaleg staða innlendrar og erlendrar vefverslunar með áfengi jöfnuð. Vandséð er hvernig hægt er að réttlæta bann við atvinnurekstri sem snýst um sölu á vöru sem almenningur getur flutt inn að vild til einkaneyslu. Fróðlegt væri að fá upplýst hversvegna þessu sjálfsagða jafnræðissjónarmiði var kippt út úr frumvarpinu. Hverjir knúðu fram þá afturför?
Skref sem myndu bæta stöðuna
SVÞ hafa ávallt hafa lagt ríka áherslu á viðskiptafrelsi. Afstaða samtakanna er sú að stefna beri að því í markvissum skrefum að aflétta einokun ríkisins á viðskiptum með bjór og vín. Mikilvægt er að framkvæmdin sé skýr og afmörkuð þannig að engin óvissa skapist og vel sé um alla umgjörð búið. Reynsluna af hverju skrefi í afnámi einokunar á verslun með áfengi þarf að meta og hafa til hliðsjónar við töku næsta skrefs. Að sjálfsögðu þarf að gæta að lýðheilsusjónarmiðum og vönduðum vinnubrögðum í hvívetna, eins og gildir um alla þróun verslunar og þjónustu. Það er afstaða SVÞ að ekki sé hægt að styðja afgreiðslu frumvarpsins, sem hér er til umræðu, þótt það sé jákvætt í eðli sínu, nema því verði breytt á þann hátt að innlend netverslun með bjór og léttvín verði heimiluð samhliða því að innlendum framleiðendum verði heimiluð smásala á framleiðslustað. Það væru skref sem um munaði og myndu stuðla að jafnræði í verslun og jafnfætisstöðu í samkeppni, bæði íslenskra vefverslana og framleiðenda á Íslandi.
29/01/2021 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Í Fréttablaðinu þann 28. janúar birtist umfjöllun þar sem Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, segir erfitt að horfa upp á tilvik þar sem fyrirtæki séu nálægt því að uppfylla skilyrði tekjufallsstyrks stjórnvalda, en gera það ekki í ljósi strangra lagaskilyrða og óheppilegra tímasetninga. Í umfjölluninni eru talin upp nokkur álitamál sem SVÞ hefur skoðað í þessu sambandi, s.s. er varða nýlega stofnuð fyrirtæki, lítil fyrirtæki þar sem eigendur gripu til þeirra ráða að greiða ekki laun á viðmiðunartímabilinu, fyrirtæki sem fengu einhverjar tekjur í sumar og fyrirtæki sem skráð voru á launagreiðendaskrá en ekki virðisaukaskattsskrá.
>> Umfjöllunina má lesa í heild sinni á vef Fréttablaðsins hér.
04/01/2021 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Menntun, Verslun
Fyrstu nemendur brautskráðust úr fagnámi verslunar og þjónustu í Verzlunarskóla Íslands nú fyrir jólin. Í umfjöllun í Morgunblaðinu og á Mbl.is lýstu nemarnir mikilli ánægju með námið.
Námið er 90 einingar og fer fram í lotum. Það hófst í janúar í fyrra fyrir tilstilli SVÞ og VR sem leituðu til Versló og í kjölfarið var myndaður þróunarhópur. Um 20 nemendur eru nú í náminu.
Sjá umfjöllun hér á Mbl.is
Sjá umfjöllun hér á baksíðu Morgunblaðsins (aðgengilegt fyrir áskrifendur)
04/01/2021 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stafræna umbreytingin, Verslun
Í umfjöllun í hádegisfréttum Bylgjunnar og á Vísi þann 3. janúar, og á Vb.is er rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ. Þar kemur fram að heildarversla í íslenskum verslunum í nóvember var 46 milljarðar og hefur aldrei verið meiri og annað met var slegið þar sem hlutfall netverslunar fór upp í 17%.
28/12/2020 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stafræna umbreytingin
Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Kjarnanum á jóladag:
Það verður víst nóg um greinar sem tíunda allt hið slæma sem gerst hefur á því annus horribilis sem 2020 hefur verið. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott eins og sagði í Dýrunum í Hálsaskógi. Kófið hefur haft ýmsar jákvæðar aukaverkanir og sú sem við hjá SVÞ fögnum helst er að fleiri hafa öðlast skilning á mikilvægi stafrænnar umbreytingar og séð kosti hennar og þau tækifæri sem hún skapar. Fjöldi fastheldinna manna og kvenna sem aldrei fyrr hefðu samþykkt fundarhöld á netinu, rafræna viðburði og annað slíkt, hafa verið neyddir út fyrir þægindarammann og ýtt af hörku inn í nútímann. Fólk sem áður fussaði og sveiaði yfir frösum á borð við „stafræn þróun” og „stafræn umbreyting” gerir sér í dag ekki bara grein fyrir því að það verður að vera með, heldur einnig því að þessar breytingar eru af hinu góða ef við höldum rétt á málunum.
Hið opinbera hefur sett stafræna stjórnsýslu kyrfilega á dagskrá og nýlega bárust af því fréttir að Ísland hafi færst upp um sjö sæti á mælikvarða Sameinuðu þjóðanna á stafrænni opinberri þjónustu og sitji þar nú í 12. sæti af 193 löndum. Því ber að fagna, enda njótum við öll góðs af þeirri hagræðingu sem þessi vegferð hefur í för með sér, bæði í tíma og fjármagni, svo ekki séu nefnd jákvæð umhverfisáhrif. Þeir tæpu tíu milljarðar á ári sem ríkið mun spara árlega eftir um 3-5 ár eru einnig fjármunir sem augljóslega má nýta til betri verka í framtíðinni. Stafrænt Ísland og tengd verkefni eru því mikilvæg og verðug fjárfesting ríkisins.
Stjórnvöld hafa einnig hugað að ýmsum fleiri þáttum, svo sem máltækni og gervigreind, gagnanýtingu, færnimati á vinnumarkaði, tæknilegum innviðum og netöryggi, að ekki sé minnst á nýsköpun, auk þess að hafa skuldbundið sig til norræns samstarfs sem kallar á verulega nýtingu stafrænnar tækni – og nauðsynlegrar tilheyrandi hæfni. Í sumum þessara þátta hefur aðgerðum verið hrint af stað en öðrum ekki.
Það sem stjórnvöldum hefur hins vegar yfirsést hingað til er að huga að stuðningi við stafræna umbreytingu atvinnulífsins. Tækniþróunin er einfaldlega svo hröð að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hægt sé að treysta eingöngu á markaðsöflin til að atvinnulífið geti haldið í við hana og nýtt sér ávinning hennar almennilega. Þátttaka í þessu tæknikapphlaupi er óhjákvæmileg – það er einfaldlega ekki hægt að vera ekki með – og eins og staðan er núna er íslenskt atvinnulíf að dragast aftur úr.
Hvað er þá til ráða? Til að Ísland geti verið samkeppnishæft á alþjóðasviðinu verðum við öll að leggjast á eitt til að efla atvinnulífið í nýtingu stafrænnar tækni til verðmætasköpunar – og sköpunar starfa. Stjórnvöld víða um heim hafa þegar gert sér grein fyrir þessu, ekki síst á hinum Norðurlöndunum og víða annars staðar í Evrópu þar sem til staðar er skýr skilningur á mikilvægi stafrænnar umbreytingar atvinnulífsins sem undirstöðu lífsgæða og velferðar. Stjórnvöld þessara landa hafa nú fyrir nokkrum árum bæði mótað stefnu og gripið til markvissra aðgerða til að tryggja að fyrirtæki þeirra og starfsfólk á vinnumarkaði hafi það sem þarf til þess að halda í við þróunina á alþjóðavísu og í tilfelli nágranna okkar á hinum Norðurlandanna, að vera í fremstu röð stafrænnar umbreytingar í heiminum.
Íslenskt atvinnulíf er því miður almennt skammt komið á stafrænni vegferð og hefur hingað til ekki hlotið stuðnings stjórnvalda í því efni. Því lengur sem við erum að koma okkur almennilega af stað, því erfiðara verður að ná og halda í við samanburðarríki okkar og tryggja til framtíðar þá velferð og þau lífsgæði sem við viljum búa við. Önnur lönd eru komin á fljúgandi ferð – við verðum að koma okkur úr startholunum sem allra fyrst. Til að íslenskt atvinnulíf geti nýtt stafræna þróun sér og okkur öllum til framdráttar þurfa nokkrir hlutir að gerast:
- Stjórnir og stjórnendur fyrirtækja þurfa að öðlast greinargóðan skilning og þekkingu á stafrænni umbreytingu, ávinningi hennar, hvernig á að stýra stafrænum umbreytingarverkefnum á farsælan og árangursríkan hátt og síðast en ekki síst því að þessi þróun er ekki einstakt verkefni heldur nýr veruleiki sem kominn er til að vera
- Bæði stjórnendur fyrirtækja og starfsfólk á vinnumarkaði þurfa að hafa þá stafrænu hæfni sem þarf til að geta nýtt sér tæknina sér til framdráttar
- Fjármagn til að fara í stafræn umbreytingarverkefni og almennur skilningur þarf að vera á að slík verkefni eru fjárfesting til framtíðar, en ekki útgjöld
SVÞ og VR hafa hafið samtal við stjórnvöld um þetta mikilvæga mál og fengið jákvæðar undirtektir. Við höfum lagt til samstarf þvert á stjórnvöld, atvinnulíf, vinnumarkað, háskólasamfélag og aðra hagaðila um að hraða stafrænni þróun í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði með vitundarvakningu og eflingu stafrænnar hæfni, til að tryggja samkeppnishæfni Íslands og lífsgæði í landinu. Lagðar hafa verið fram markvissar, skýrar og vel ígrundaðar tillögur sem eru tilbúnar til framkvæmda. Málið er til skoðunar hjá stjórnvöldum og vonir okkar standa til að samstarf geti hafist sem allra fyrst á nýju ári.
Stafræn vegferð ríkisins hefur sýnt, svo ekki verður um villst, að ef við Íslendingar tökum skýra ákvörðun um að ganga í málin getum við áorkað ótrúlegustu hlutum. Á mettíma höfum við rokið upp stigatöfluna í opinberri stafrænni stjórnsýslu. Nú er kominn tími til að setja stafræna umbreytingu atvinnulífsins á dagskrá, rjúka upp þá stigatöflu og verða fullgildir þátttakendur með frændum okkar á Norðurlöndunum í því að leiða stafræna umbreytingu okkur öllum til heilla.