Daði má leiðrétta!

Daði má leiðrétta!

Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á orð fjármálaráðherra.

Miðvikudaginn 13. janúar 2026 var birt frétt á Vísi þar sem fjallað var um viðbrögð fjármála- og efnahagsráðherra vegna tíðinda af spám greiningardeilda bankanna um þróun verðbólgu í janúar. Í fréttinni mátti finna myndband með viðtali við ráðherra þar sem hann sagðist ekki rengja spá Landsbankans um 0,7 prósentustiga hækkun verðbólgu sem ætti að miklu leyti rót sína að rekja til þróunar á verðlagningu fólksbifreiða. Í viðtalinu sagði ráðherra m.a. eftirfarandi:

Það er hins vegar þannig að núna um áramótin eru ekki bara að verða breytingar á vörugjöldum heldur er það líka þannig að verð á bílum hefur verið að hækka alþjóðlega þannig að ég ætla ekki að rengja spánna en þetta er meira en það sem við höfðum gert ráð fyrir.

Stöðugt verð þrátt fyrir að ráðherra segi annað

Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á þessi orð þar sem þeir telja sig ekki hafa orðið vara við þessa alþjóðlegu verðþróun ráðherrans. Nægir því til stuðnings að benda á að ekkert í fyrirliggjandi gögnum Hagstofu Íslands gefur til kynna að innkaupsverð bifreiða hafi farið hækkandi svo einhverju nemi að undanförnu. Sömu sögu segja gögn sem endurspegla þróun kaupverðs frá Hagstofu Íslands, Eurostat og Evrópska Seðlabankanum. Þvert á móti má halda því fram að verð hafi verið óvenjulega stöðug, a.m.k. frá byrjun árs 2024, og litlum breytingum tekið eftir að verð hækkuðu á árunum í kringum heimsfaraldur og upphaf Úkraínustríðsins. Þá hafa erlendir fjölmiðlar sagt í fréttum frá spám greiningaraðila sem eru heilt yfir á þeirri skoðun að verðstöðugleika muni áfram gæta á alþjóðavísu en verð fólksbifreiða muni þó áfram verða há árið 2026.

Ekki brugðist við

Það má hins vegar segja í hálfkæringi að ákveðið sannleikskorn sé fólgið í orðum ráðherra ef horft er til framtíðarþróunar innkaupsverðs nýrra tengiltvinnbifreiða eftir að hærra vörugjaldi hefur við það verið bætt. Þannig vill nefnilega til að SVÞ og Bílgreinasambandið bentu efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ítrekað og með rökstuddum hætti á að gera þyrfti breytingar á tillögum nefndarinnar, um hækkun vörugjalds, í ljósi breytinga á alþjóðlegri prófunaraðferð tengiltvinnbifreiða. Við því var hins vegar ekki nægilega brugðist og af þeim sökum mun hækkun vörugjalda koma mun harðar niður á kaupendum slíkra bifreiða en annarra á næstu árum.

Á þennan hátt má sumsé halda því fram að þróun á sviði prófunaraðferða í samblandi við innlent fyrirkomulag vörugjalds muni leiða til mikillar hækkunar bæði innanlands sem og í öðrum þeim ríkjum sem leggja skatta á eigendur ökutækja með vísan til skráðrar losunar, a.m.k. að því marki sem þau hafa ekki brugðist við og lagfært fyrirkomulag skattlagningarinnar til mótvægis. Með svona leiðréttingu, sem er sett fram af ákveðinni lagni, getur ráðherra áfram haldið því fram að verðþróun fólksbifreiða hér á landi tengist þróun alþjóðlega.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ og Bílgreinasambandsins.

Grein Benedikts S. Benediktssonar má lesa í Viðskiptablaðinu Smelltu HÉR! 

 

Fréttamolar SVÞ | Desember 2025

Fréttamolar SVÞ | Desember 2025

Desember einkenndist af virkri hagsmunagæslu þar sem augu beindust að samkeppnishæfni verslunar og þjónustu í breyttu evrópsku og íslensku umhverfi, áhrif skatta og regluverks á rekstur og rekstrarkostnað.

Þá er undirbúningur að ráðstefnunni UPPBROT SVÞ 2026 sem haldin verður á Parliament Hótel Reykjavík við Austurvöll 12. mars nk., í fullum gangi.

 

SVÞ FRÉTTAMOLAR DESEMBER 2025.pdf
Fréttamolar SVÞ | Nóvember 2025

Fréttamolar SVÞ | Nóvember 2025

Í fréttamolum nóvembermánaðar dregur SVÞ saman helstu mál sem snertu verslun og þjónustu í mánuðinum: frá áhrifum nýrrar PPWR-reglugerðar ESB á umbúðir og ábyrga markaðssetningu, yfir í fyrirhugaðar skattbreytingar á ökutækjum og hækkandi kostnað í bílageiranum, niðurstöður könnunar Rannsóknaseturs verslunarinnar um jólagjafir ársins, stöðu neysluhegðunar Íslendinga og áberandi árangur félagsmanna SVÞ í Umhverfisverðlaunum atvinnulífsins — allt sett fram í hnitmiðuðu yfirliti í meðfylgjandi Fréttamolum.

 

FRÉTTAMOLAR SVÞ NÓVEMBER 2025.pdf
Afmæliskveðja til Vinagarðs

Afmæliskveðja til Vinagarðs

Leikskólinn Vinagarður – 50 ára

Sjálfstæðir skólar óska Leikskólanum Vinagarði innilega til hamingju með 50 ára afmælið.

Vinagarður hefur frá 1975 verið einstakur hluti uppeldis- og menntasamfélags í Reykjavík. Skólinn á rætur í starfi KFUM og KFUK og byggir á kristnum gildum, vináttu og tengingu við náttúruna. Þessar áherslur hafa skapað traust, hlýtt og fræðandi umhverfi þar sem börn fá að kanna, læra og njóta í nálægð við lífríki Laugardalsins.

Á afmælisdaginn var nýtt merki skólans afhjúpað, hannað af foreldri og grafískum hönnuði. Merkið sameinar tákn vináttu, náttúru og kristinnar trúar og endurspeglar gildi Vinagarðs á fallegan og einfaldan hátt.

Sjálfstæðir skólar fagna tímamótunum og óska Vinagarði áframhaldandi gæfu í starfi með börnum og fjölskyldum í Reykjavík.

Til hamingju með afmælið


Á myndinni sést Heiða Björg Hilmarsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, afhjúpa nýtt merki Vinagarðs

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Í nýju viðtali á Bílablogg.is bendir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, á mótsagnakennda stefnu stjórnvalda. Annars vegar hafa stjórnvöld gripið til aðgerða sem styðja við orkuskipti og styrkja bílakaup. Hins vegar er í fjárlagafrumvarpi boðað að hækka skatta á ökutæki og eldsneyti – sem bitnar á almenningi og fyrirtækjum.

„Þetta gengur einfaldlega ekki upp,“ segir Benedikt í viðtalinu. Hann leggur áherslu á að samræmi þurfi að vera í aðgerðum stjórnvalda svo þau skili árangri.

Lesa má viðtalið í heild á Bílablogg.is:
👉 Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

Óljós áform um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti

Í frétt Morgunblaðsins í dag, 24. september, kemur fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé gert ráð fyrir 7,5 milljarða króna tekjuöflun undir liðnum „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.

Samkvæmt fréttinni er óljóst hvernig áform stjórnvalda eru útfærð, en flest bendir til þess að auknar tekjur verði sóttar með hækkun vörugjalda á ökutæki.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir að áformin séu bæði óljós og illa tímasett:

„Í fjárlagafrumvarpinu er boðuð mjög mikil skattahækkun á almenning og fyrirtæki. Óljóst er hvaða breytingar eigi að ráðast í til að afla þeirra 7,5 milljarða sem eru merktir sem endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Flest bendi til að það fé eigi að sækja með hækkun vörugjalda af ökutækjum. Þetta er hrikalegur tímapunktur til að koma fram með svo óljós áform þar sem innflytjendur eru einmitt um þessar mundir að skila innkaupaáætlunum vegna næsta árs.“

SVÞ telur brýnt að stjórnvöld útskýri skýrt hvernig þau hyggjast standa að slíkri skattheimtu og hvaða áhrif hún muni hafa á markaðinn. Óvissa af þessu tagi torveldar áætlanagerð fyrirtækja og getur grafið undan stöðugleika í atvinnulífinu á viðkvæmum tíma.

Fjárlagafrumvarp-hrun-bílasölu