Aldrei meiri velta í verslunum og netverslun springur út!

Aldrei meiri velta í verslunum og netverslun springur út!

Í umfjöllun í hádegisfréttum Bylgjunnar og á Vísi þann 3. janúar, og á Vb.is er rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ. Þar kemur fram að heildarversla í íslenskum verslunum í nóvember var 46 milljarðar og hefur aldrei verið meiri og annað met var slegið þar sem hlutfall netverslunar fór upp í 17%.

> Sjá um umfjöllun í hádegisfréttum Bylgjunnar hér

> Sjá umfjöllun á Vísi hér

> Sjá umfjöllun á Vb.is hér

 

Stafrænt stökk til framtíðar

Stafrænt stökk til framtíðar

Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Kjarnanum á jóladag:

Það verður víst nóg um greinar sem tíunda allt hið slæma sem gerst hefur á því annus horri­bilis sem 2020 hefur ver­ið. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott eins og sagði í Dýr­unum í Hálsa­skógi. Kófið hefur haft ýmsar jákvæðar auka­verk­anir og sú sem við hjá SVÞ fögnum helst er að fleiri hafa öðl­ast skiln­ing á mik­il­vægi staf­rænnar umbreyt­ingar og séð kosti hennar og þau tæki­færi sem hún skap­ar. Fjöldi fastheldinna manna og kvenna sem aldrei fyrr hefðu sam­þykkt fund­ar­höld á net­inu, raf­ræna við­burði og annað slíkt, hafa verið neyddir út fyrir þæg­ind­ara­mmann og ýtt af hörku inn í nútím­ann. Fólk sem áður fuss­aði og svei­aði yfir frösum á borð við „sta­f­ræn þró­un” og „sta­f­ræn umbreyt­ing” gerir sér í dag ekki bara grein fyrir því að það verður að vera með, heldur einnig því að þessar breyt­ingar eru af hinu góða ef við höldum rétt á mál­un­um.

Hið opin­bera hefur sett staf­ræna stjórn­sýslu kyrfi­lega á dag­skrá og nýlega bár­ust af því fréttir að Ísland hafi færst upp um sjö sæti á mæli­kvarða Sam­ein­uðu þjóð­anna á staf­rænni opin­berri þjón­ustu og sitji þar nú í 12. sæti af 193 lönd­um. Því ber að fagna, enda njótum við öll góðs af þeirri hag­ræð­ingu sem þessi veg­ferð hefur í för með sér, bæði í tíma og fjár­magni, svo ekki séu nefnd jákvæð umhverf­is­á­hrif. Þeir tæpu tíu millj­arðar á ári sem ríkið mun spara árlega eftir um 3-5 ár eru einnig fjár­munir sem aug­ljós­lega má nýta til betri verka í fram­tíð­inni. Staf­rænt Ísland og tengd verk­efni eru því mik­il­væg og verðug fjár­fest­ing rík­is­ins.

Stjórn­völd hafa einnig hugað að ýmsum fleiri þátt­um, svo sem mál­tækni og gervi­greind, gagna­nýt­ingu, færni­mati á vinnu­mark­aði, tækni­legum innviðum og net­ör­yggi, að ekki sé minnst á nýsköp­un, auk þess að hafa skuld­bundið sig til nor­ræns sam­starfs sem kallar á veru­lega nýt­ingu staf­rænnar tækni – og nauð­syn­legrar til­heyr­andi hæfni. Í sumum þess­ara þátta hefur aðgerðum verið hrint af stað en öðrum ekki.

Það sem stjórn­völdum hefur hins vegar yfir­sést hingað til er að huga að stuðn­ingi við staf­ræna umbreyt­ingu atvinnu­lífs­ins. Tækni­þró­unin er ein­fald­lega svo hröð að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hægt sé að treysta ein­göngu á mark­aðs­öflin til að atvinnu­lífið geti haldið í við hana og nýtt sér ávinn­ing hennar almenni­lega. Þátt­taka í þessu tækni­kapp­hlaupi er óhjá­kvæmi­leg – það er ein­fald­lega ekki hægt að vera ekki með – og eins og staðan er núna er íslenskt atvinnu­líf að drag­ast aftur úr.

Hvað er þá til ráða? Til að Ísland geti verið sam­keppn­is­hæft á alþjóða­svið­inu verðum við öll að leggj­ast á eitt til að efla atvinnu­lífið í nýt­ingu staf­rænnar tækni til verð­mæta­sköp­unar – og sköp­unar starfa. Stjórn­völd víða um heim hafa þegar gert sér grein fyrir þessu, ekki síst á hinum Norð­ur­lönd­unum og víða ann­ars staðar í Evr­ópu þar sem til staðar er skýr skiln­ingur á mik­il­vægi staf­rænnar umbreyt­ingar atvinnu­lífs­ins sem und­ir­stöðu lífs­gæða og vel­ferð­ar. Stjórn­völd þess­ara landa hafa nú fyrir nokkrum árum bæði mótað stefnu og gripið til mark­vissra aðgerða til að tryggja að fyr­ir­tæki þeirra og starfs­fólk á vinnu­mark­aði hafi það sem þarf til þess að halda í við þró­un­ina á alþjóða­vísu og í til­felli nágranna okkar á hinum Norð­ur­land­anna, að vera í fremstu röð staf­rænnar umbreyt­ingar í heim­in­um.

Íslenskt atvinnu­líf er því miður almennt skammt komið á staf­rænni veg­ferð og hefur hingað til ekki hlotið stuðn­ings stjórn­valda í því efni. Því lengur sem við erum að koma okkur almenni­lega af stað, því erf­ið­ara verður að ná og halda í við sam­an­burð­ar­ríki okkar og tryggja til fram­tíðar þá vel­ferð og þau lífs­gæði sem við viljum búa við. Önnur lönd eru komin á fljúg­andi ferð – við verðum að koma okkur úr start­hol­unum sem allra fyrst. Til að íslenskt atvinnu­líf geti nýtt staf­ræna þróun sér og okkur öllum til fram­dráttar þurfa nokkrir hlutir að ger­ast:

  • Stjórnir og stjórn­endur fyr­ir­tækja þurfa að öðl­ast grein­ar­góðan skiln­ing og þekk­ingu á staf­rænni umbreyt­ingu, ávinn­ingi henn­ar, hvernig á að stýra staf­rænum umbreyt­ing­ar­verk­efnum á far­sælan og árang­urs­ríkan hátt og síð­ast en ekki síst því að þessi þróun er ekki ein­stakt verk­efni heldur nýr veru­leiki sem kom­inn er til að vera
  • Bæði stjórn­endur fyr­ir­tækja og starfs­fólk á vinnu­mark­aði þurfa að hafa þá staf­rænu hæfni sem þarf til að geta nýtt sér tækn­ina sér til fram­drátt­ar
  • Fjár­magn til að fara í staf­ræn umbreyt­ing­ar­verk­efni og almennur skiln­ingur þarf að vera á að slík verk­efni eru fjár­fest­ing til fram­tíð­ar, en ekki útgjöld

SVÞ og VR hafa hafið sam­tal við stjórn­völd um þetta mik­il­væga mál og fengið jákvæðar und­ir­tekt­ir. Við höfum lagt til sam­starf þvert á stjórn­völd, atvinnu­líf, vinnu­mark­að, háskóla­sam­fé­lag og aðra hag­að­ila um að hraða staf­rænni þróun í íslensku atvinnu­lífi og á vinnu­mark­aði með vit­und­ar­vakn­ingu og efl­ingu staf­rænnar hæfni, til að tryggja sam­keppn­is­hæfni Íslands og lífs­gæði í land­inu. Lagðar hafa verið fram mark­viss­ar, skýrar og vel ígrund­aðar til­lögur sem eru til­búnar til fram­kvæmda. Málið er til skoð­unar hjá stjórn­völdum og vonir okkar standa til að sam­starf geti haf­ist sem allra fyrst á nýju ári.

Staf­ræn veg­ferð rík­is­ins hefur sýnt, svo ekki verður um vill­st, að ef við Íslend­ingar tökum skýra ákvörðun um að ganga í málin getum við áorkað ótrú­leg­ustu hlut­um. Á met­tíma höfum við rokið upp stiga­töfl­una í opinberri staf­rænni stjórn­sýslu. Nú er kom­inn tími til að setja staf­ræna umbreyt­ingu atvinnu­lífs­ins á dag­skrá, rjúka upp þá stiga­töflu og verða full­gildir þátt­tak­endur með frændum okkar á Norð­ur­lönd­unum í því að leiða stafræna umbreyt­ingu okkur öllum til heilla.

Leiðin út úr kófinu er stafræn

Leiðin út úr kófinu er stafræn

Eftirfarandi grein eftir Þórönnu K. Jónsdóttur birtist í Viðskiptablaðinu þann 19. nóvember, en Þóranna sér um verkefni innan SVÞ sem snúa að stafrænni þróun.

Nýr veruleiki

Fyrir flest okkar hefur heimsfaraldur COVID-19 snarbreytt sumum þáttum lífs okkar. Í stað þess að mæta á skrifstofuna vinnum við að heiman með hjálp netsins og tækninnar, í stað þess að hittast tökum við fundi á Teams, Zoom og fjölmörgum öðrum stafrænum vettvöngum. Í stað þess að fara út í búð sitjum við heima og veljum í matarkörfuna í tölvunni, fáum hlutina senda heim, eða a.m.k. sækjum bara allt heila klabbið á einn stað. Krakkar sem áður sátu í skólastofu eru flest búin að kynnast námi yfir netið, hvort sem það hefur verið vegna sóttkvíar, skiptingar nemenda í hópa eða, eins og framhalds- og háskólanemarnir okkar þekkja, vegna þess að allt nám hefur færst yfir í fjarnám. Fyrir þá sem ekki hafa hugað að þessum málum hingað til er þetta oft stærsta stafræna umbreytingin sem fólk er virkilega meðvitað um að hafa tekið þátt í.

Ímyndaðu þér ástandið núna ef við hefðum ekki þessa stafrænu tækni til að geta haldið áfram að vinna, geta haldið áfram að versla það í matinn sem við erum vön, geta haldið áfram að læra og til að geta hitt fólk í hljóði og mynd á netinu þegar við getum ekki eins auðveldlega hist í raunheimum.

Stafræn umbreyting á ógnarhraða

Stafræn tækni hefur ekki bara bjargað fjölmörgu á þessum kórónuveirutímum heldur hefur hraði stafrænnar umbreytingar einnig margfaldast. Satay Nadella, forstjóri Microsoft, sagði nýlega að hraði breytinganna væri að aukast svo mikið að fyrirtækið væri að sjá þróun sem venjulega tæki 2 ár núna taka einungis 2 mánuði.

Þessi ógnarhraða stafræna þróun er góð – eða er hún slæm? Hún er tvíeggja sverð. Það er gott að við skulum hafa tæknina til að geta haldið hlutunum gangandi, en það er ekki gott ef að við höfum ekki hæfnina til að nýta hana – eða þegar sumir hafa hana og aðrir ekki, sem veldur ójöfnuði meðal fólks, meðal fyrirtækja – og meðal þjóða. Það eru t.d. ekki allir sem geta bara farið að vinna heima með hjálp tækninnar. Mörg störf bjóða ekki upp á það, og efnahagsáhrif faraldursins verða jafnframt til þess að fjölmörg störf glatast. Hvað þá?

Lykillinn að endurreisn efnahagkerfa

Sérfræðingum ber saman um að stafræn umbreyting, þ.e. aukin notkun stafrænnar tækni til að leysa hin ýmsu verkefni, sé lykillinn að því að endurreisa efnahagskerfi heimsins. En hvernig?

Jú, ólíkt því sem margir halda, þá veldur stafræn umbreyting ekki bara því að störf hverfa, heldur skapar hún fjölmörg störf. Innan OECD hafa 4 af hverjum 10 störfum sem skapast hafa sl. áratug verið innan stafrænt væddra atvinnugreina og OECD hefur lýst því yfir að hræðslan við fækkun starfa vegna tækniþróunar hafi ekki raungerst, heldur þvert á móti stuðlað að verulegri starfasköpun.

Stafræn tækni er einnig samofin nýsköpun og frumkvöðlastarfi – og fólk er almennt sammála um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er ein öflugasta leiðin til sköpunar bæði starfa og verðmæta. Án tækni verður nýsköpun ósköp fátækleg – jafnvel bara engin. Stafræn tækni gerir okkur líka kleift að þróa vörur og þjónustur sem auðvelt er að selja og yfir netið, og geta jafnvel kallað á minni fjárfestingu og minni áhættu en t.d. hefðbundnar áþreifanlegar vörur. Að ekki sé talað um þá miklu möguleika sem felast í því að nýta netið og stafræna tækni betur til sölu og markaðssetningar á alþjóðlega markaði.

Síðast en ekki síst gerir stafræn tækni okkur kleift að vinna, læra og taka þátt í hinum ýmsu verkefnum – og samfélaginu sjálfu – óháð staðsetningu, sem er fagnaðarefni í landi þar sem fáir búa dreift á stóru landsvæði.

Til að nýta þurfum við að kunna

En til þess að geta nýtt stafræna tækni til allra þessara góðu hluta þurfum við að kunna á hana. Stafræn hæfni er lykilatriði og hún er ekki eitthvað sem við fæðumst með. Jú, við erum klár að nota tölvurnar okkar og símana sem neytendur og notendur tækninnar – en við þurfum að verða öflugri í því að nýta hana til að skapa og að hafa frumkvæði að því að nýta hana okkur til framdráttar.

Þess vegna þarf stafræna hæfni. Og þess vegna hafa SVÞ og VR lagt áherslu á það í hvatningu til íslenskra stjórnvalda að efla þurfi stafræna færni og m.a. hafið samstarf að undirbúningi Stafræns hæfniseturs, ásamt Háskólanum í Reykjavík, til að stuðla að aukinni stafrænni hæfni meðal íslenskra stjórnenda og starfsfólks. Því þannig getum við nýtt tæknina í botn til að koma okkur á sem hraðastan og öflugastan hátt út úr kófinu!