Ójafnvægi í skattkerfinu: Atvinnuhúsnæði skattlagt þrefalt hærra

Ójafnvægi í skattkerfinu: Atvinnuhúsnæði skattlagt þrefalt hærra

SVÞ kallar eftir skynsamlegri skattstefnu sveitarfélaga.  

Fasteignamat fyrir árið 2026 hækkar – og með því skattbyrði fyrirtækja um tvo milljarða króna. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu birta nú umfjöllun um áhrif fasteignaskatta á atvinnulífið og greiningu úr skýrslu PWC sem dregur fram hvernig atvinnulífið stendur undir stórum hluta af skatttekjum af fasteignum. 

Þrátt fyrir að atvinnuhúsnæði telji aðeins 9% af öllum fasteignum bera fyrirtæki 53% af fasteignasköttum landsins. Álag fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði getur verið allt að þrefalt hærra en á íbúðarhúsnæði. Reykjavíkurborg, sem einn stærsti áhrifaaðilinn, er með hærri fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði en tíðkast að meðaltali á landsvísu. 

Greining SVÞ leiðir í ljós að fasteignagjöld eru einn stærsti liður í rekstrarkostnaði atvinnuhúsnæðis eða sem nemur 40% og  skýrslan PwC sýnir hvernig Ísland sker sig úr miðað við samanburðarlönd með hæstu skattbyrði fasteigna sem hlutfall af landsframleiðslu. 

Við hvetjum sveitarfélög til að fylgja fordæmi þeirra sem nú þegar hafa lýst vilja til að lækka skatthlutfall fasteignaskatts og láta lækkunina ná til atvinnuhúsnæðis. Það er sérstaklega mikilvægt að sveitarfélögin taki virkan þátt í að halda niðri rekstrarkostnaði í atvinnulífinu.“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ. 

Skoðaðu skýrsluna í heild:Fasteignamat 2026 og áhrif á atvinnulífið 

Norrænt skilagjaldakerfi í hættu – SVÞ varar við neikvæðum áhrifum nýrrar ESB reglugerðar

Norrænt skilagjaldakerfi í hættu – SVÞ varar við neikvæðum áhrifum nýrrar ESB reglugerðar

SVÞ og systursamtök á Norðurlöndum krefjast þess að árangri norrænna skilakerfum drykkjarvöruumbúða verði ekki fórnað vegna nýrrar umbúðareglugerðar ESB.

Áhrif PPWR reglugerðar á Ísland
Ákvæði nýrrar reglugerðar ESB um umbúðir (PPWR) geta haft alvarleg á íslenskt umhverfi, neytendur og fyrirtæki. Í henni eru m.a. settar kvaðir sem eiga að stuðla að endurnotkun drykkjarvöruumbúða. Við undirbúning reglugerðarinnar var ekki tekið tillit til árangurs söfnunar- og endurvinnslukerfa sem hafa skilað framúrskarandi niðurstöðu á Norðurlöndunum. Greiningar óháðra aðila á hinum Norðurlöndum hafa sýnt að í umhverfislegu tilliti geta hinar nýju kvaðir hæglega skilað lakari árangri en þegar hefur náðst.

Segja má að verið sé að boða endurnýjun lífdaga þykku gosflasknanna sem unnt var að skila í sjoppur og verslanir sem komu þeim fyrir í plastkössum og sendu til baka í gosverksmiðjur til þvottar og áfyllingar. Eins og flestir þekkja var það fyrirkomulag lagt af og langsamlega flestir skila nú flöskum og dósum til Endurvinnslunnar eða í dósagáma.

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt dagvöruverslunarsamtökum á hinum Norðurlöndunum komu nýverið á framfæri við framkvæmdastjóra umhverfismála ESB áskorun þess efnis að sérstakt tillit verði tekið til markaða þar sem skilagjaldakerfi ná yfir 90% skilahlutfalli.

„Við erum með skilakerfi sem virkar. Það skilar háu endurvinnsluhlutfalli, nýtur trausts og almennrar þátttöku almennings og fyrirtækja og dregur úr umhverfisáhrifum. Það væri skref afturábak að fara áratugi aftur í tímann til tíma fyrirkomulags sem hentar ekki okkar aðstæðum og skilar lakari árangri“ segir Benedikt S. Benediktsson hjá SVÞ, sem skrifaði undir áskorunina.

Hagsmunir almennings og fyrirtækja í húfi

Kostnaður við nýjar drykkjarumbúðir
Afleiðingar nýju umbúðareglugerðarinnar verða þær að léttum, endurvinnanlegum áldósum og plastflöskum verður að hluta skipt út fyrir þyngri umbúðir úr plasti sem er bæði kostnaðarsamt og verra fyrir umhverfið. Í viðskiptahagkerfinu verður til mikill kostnaður þar sem í auknum mæli þarf að flytja vökva í umbúðum til og frá landinu eða halda þarf úti tveimur skilakerfum. Við höfum náð góðum árangri þar sem mikill hluti kaupa á drykkjarvörum er í auðendurvinnanlegum álumbúðum en hætt er að við þeim árangri verði fórnað.

Á Íslandi hefur skilagjaldakerfið verið hluti af daglegum neysluvenjum í áratugi og tryggt að verulegur hluti drykkjarumbúða ratar í endurvinnslu aftur í nýja framleiðslu.

Sameinuð rödd Norðurlanda

Framtíð skilagjaldakerfisins á Norðurlöndum
Áskorunin er liður í samstilltri hagsmunagæslu Norðurlanda. Þar er m.a. bent á að lífsferilsgreiningar (LCA) hafi sýnt að núverandi endurvinnslukerfi á Norðurlöndunum skila betri árangri m.t.t. loftslags- og umhverfismála en þau kerfi sem reglugerðin leggur upp með.

Framtíðarsýn sem byggir á því sem virkar

SVÞ telja afar mikilvægt að regluverk framtíðarinnar taki tillit til þess sem þegar hefur sannað gildi sitt og því verði ekki fórna á altari samræmingar sem tekur mið á lakari stöðu ríkja ESB.

„Við viljum umhverfisvænar lausnir, en þær verða að grundvallast á skynsemi og staðreyndum. Það má ekki refsa fyrir árangur – við verðum að byggja á honum,“ segir Benedikt.

 

SVÞ benda á annmarka á kílómetragjaldi  – óljóst hvort unnt verði að leggja það á erlend ökutæki

SVÞ benda á annmarka á kílómetragjaldi – óljóst hvort unnt verði að leggja það á erlend ökutæki

„Við sjáum fyrir okkur að gríðarleg flækja geti fylgt breytingum á kílómetragjaldi“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, í samtali við Morgunblaðið í dag, 3. júní.

Í fréttinni er fjallað um hvort mögulegt verði að leggja kílómetragjald á erlend ökutæki, t.d. ökutæki í eigu ferðamanna og erlendra fyrirtækja. SVÞ telja líkur á að þegar upp verðir staðið geti reynst erfitt að leggja gjaldið á þessi ökutæki þar sem álagningin geti stangast á við regluverk EES-samningsins.

„Við veltum því fyrir okkur hvort skattlagning á erlend ökutæki verði lögmæt“ segir Benedikt.

SVÞ leggur áherslu á að vanda þurfi til verka við afgreiðslu frumvarpsins. Mikilvægt sé að tryggja að skattlagningin verði skilvirk, leggi ekki þungar kvaðir á herðar atvinnurekendum, tryggt verði að hún verði framkvæmanleg og síðast en ekki síst að auknar tekjur renni sannarlega til vegamála. Samtökin minna á mikilvægi þess að skattlagning og opinber gjöld rýri ekki samkeppnishæfni fyrirtækja á sviði verslunar og þjónustu.

Kílómetragjald á erlend ökutæki Morgunblaðið 3. júní 2025

„Stjórnmálin skilja ekki atvinnulífið“ – Benedikt S. Benediktsson í Svipmynd Viðskiptablaði Morgunblaðsins

„Stjórnmálin þurfa að skilja að fyrirtæki í atvinnulífinu ráða ekki við hvaða kröfur og byrði sem er og að í upphafi þurfi endinn að skoða.  Margir virðast halda að fyrirtækjarekstur sé jafnvel ekki hluti af samfélaginu heldur verkefni afmarkaðs hóps sem hafi takmarkað með það að gera að hafa skoðun á fyrirhuguðum breytingum eða hvernig samfélagið virkar“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu m.a., í Svipmynd hjá Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, 21. maí 2025.

Sjá allt viðtalið hér fyrir neðan:

Benedikt S. Benediktsson, Svipmynd Viðskiptamoggans 21. maí 2025

 

Ísland gengur lengra en Evrópa – Bílasala í uppnámi vegna reglna um peningaþvætti

Ísland gengur lengra en Evrópa – Bílasala í uppnámi vegna reglna um peningaþvætti

Ísland hefur tekið upp strangara regluverk um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í bílasölu en Evrópa. Þetta hefur valdið bílaumboðum og bílasölum miklum vanda, þar sem þeim er gert skylt að safna viðkvæmum gögnum um viðskiptavini sína, halda úti ferlum og verklagi og tryggja varðveislu safnaðra upplýsinga. Það sem ætti að vera einfalt viðskiptasamband hefur breyst í flókna eftirlitsstarfsemi þar sem sölufólk er sett í hlutverk lögreglu. 

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, bendir á að þessi þróun hafi gert verslunarfólk að óviljugum eftirlitsaðilum. „Verslunarfólk upplifir sig sem sakamenn í eigin starfsemi. Við erum að tala um kerfi sem líkist forvirkri lögreglurannsókn,“ segir Benedikt í nýrri grein. 

Hann útskýrir að íslensk löggjöf gangi lengra en Evróputilskipanir kveða á um, þar sem bílasölur eru skyldugir til að safna upplýsingum sem jafnvel bankar hafa þegar aflað. Þetta auki kostnað, flækjustig og óöryggi í atvinnulífinu. 

„Þetta er sjálfnærandi kerfi þar sem breytilegar og huglægar kröfur leiða alltaf til sektar. Eina leiðin út er að samþykkja sekt og borga eða leita til dómstóla,“ segir Benedikt. 

SVÞ kallar eftir endurskoðun á núverandi regluverki. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með.
_____

SMELLTU HÉR til að nálgast alla greinina.
SMELLTU HÉR til að lesa umfjöllun Viðskiptablaði Morgunblaðsins.

Pure North hlýtur Kuðunginn 2024 – leiðandi afl í sjálfbærni og nýsköpun

Pure North Recycling, eitt af félagsaðilum SVÞ, hefur hlotið Kuðunginn 2024 – umhverfisverðlaun Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins – fyrir framúrskarandi árangur í umhverfismálum og hringrásarhagkerfi.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Pure North hafi með afgerandi hætti markað sér sess sem leiðandi umhverfistæknifyrirtæki á Íslandi. Með nýtingu jarðhita við plastendurvinnslu hefur fyrirtækið náð að draga úr kolefnisspori framleiðslunnar um 82% miðað við sambærilega starfsemi í Evrópu – sem gerir plastið þeirra að einu því umhverfisvænsta sem í boði er á markaði.

Pure North hefur einnig lokað hringrás endurvinnslunnar með því að hefja eigin framleiðslu á vörum úr því plasti sem þau taka til endurvinnslu. Þá ber að nefna þróun háþróaðra úrgangslausna á borð við gervigreindarkerfið Úlli úrgangsþjarkur, sem greinir úrgangsgögn fyrirtækja og sveitarfélaga, og móttökustöðina Auðlind. Með samþættingu þessara kerfa hefur fyrirtækið skapað fyrirmyndarumgjörð fyrir skilvirka úrgangsstjórnun og hringrásarhugsun á Íslandi.

SVÞ fagnar þessum árangri félagsaðila síns og lítur á verkefni á borð við Pure North sem kraftmikil dæmi um hvernig framsýni, nýsköpun og sjálfbærni geta farið saman – með augljósum ávinningi fyrir atvinnulífið og samfélagið allt.

Sjá upphaflega frétt á MBL.is – Smelltu HÉR!

*Mynd frá MBL.is