03/03/2023 | Flutningasvið, Fræðsla, Innra starf, Stjórnvöld, Umhverfismál-innri, Viðburðir
Öryggi í alþjóðlegum vöruflutningum á viðsjárverðum tímum.
AEO öryggisvottun er brú inn í framtíðina.
Upptaka frá viðburði 2.mars 2023
Fyrirlesari: Lars Karlsson.
Lars heldur erindi um þá þróun sem átt hefur sér stað í alþjóðlegum vöruflutningum á umliðnum árum og hvernig bregðast skuli við ógnunum sem steðja að til að tryggja öruggt vöruflæði til og frá landinu. Lars fjallar um ávinning fyrir íslensk fyrirtæki að gerast viðurkenndir rekstraraðilar (AEO).
Fyrirtæki geta með fyrirbyggjandi aðgerðum verið betur í stakk búin að fást við truflanir og brugðist hraðar við þegar ófyrirséðir atburðir eiga sér stað.
25/11/2022 | Fréttir, Stjórnvöld
Yfirlýsing FATF vegna ósamvinnuþýðra ríkja frá nóvember 2022
Ríkisskattstjóri vekur athygli á ríkjum sem teljast áhættusöm, ósamvinnuþýð eða með annmarka á aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í því skyni er vísað til yfirlýsingar Financial Action Task Force (FATF) frá 21. október um ríki undir sérstöku eftirliti auk ríkja sem Evrópusambandið hefur tilgreint sem áhættusöm þriðju lönd, sbr. reglugerð nr. 725/2022, um breytingu á reglugerð um áhættusöm þriðju lönd vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 105/2020.
Í yfirlýsingu FATF frá því í október kemur fram að ríki skuli grípa til sérstakra fyrirbyggjandi varúðarráðstafana gagnvart Norður-Kóreu og Íran, enda steðji viðvarandi ógn að hinum alþjóðlega fjármálamarkaði vegna aðgerðarleysis ríkjanna í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Þau ríki sem eru talin áhættusöm, ósamvinnuþýð eða með annmarka í framangreindum skilningi eru eftirfarandi:
- Afganistan
- Albanía
- Alþýðulýðveldið Kórea
- Barbados
- Búrkína Fasó
- Cayman eyjar
- Filippseyjar
- Gíbraltar
- Haítí
- Íran
- Jamaíka
- Jemen
- Jórdanía
- Kambódía
- Lýðstjórnarlýðveldið Kongó
- Malí
- Marokkó
- Mjanmar/Búrma
- Mósambík
- Níkaragva
- Pakistan
- Panama
- Sameinuðu arabísku furstadæmin
- Senegal
- Simbabve
- Suður-Súdan
- Sýrland
- Tansanía
- Trinidad og Tóbagó
- Tyrkland
- Úganda
- Vanúatú
Í samræmi við 6. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skulu tilkynningarskyldir aðilar gefa aðilum frá nefndum ríkjum sérstakan gaum, m.t.t. aukinnar hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við 13. og 14. gr. laga nr. 140/2018.
SJÁ TILKYNNINGU FRÁ RÍKISSKATTSTJÓRA
01/11/2022 | Fræðsla, Stjórnvöld, Umhverfismál, Umhverfismál-innri, Upptaka
Með gildistöku ákvæða laga nr. 103/2021 (EES-reglur, hringrásarhagkerfi) um næstu áramót verða töluverðar breytingar á ábyrgð framleiðenda og innflytjenda sem einkum munu koma fram í hærra og breiðara úrvinnslugjaldi en áður. Vegna ákvæða laganna munu verkefni Úrvinnslusjóðs og Endurvinnslunnar hf. aukast að umfangi. Til grundvallar liggur hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins og er lögunum ætlað að leiða fram hegðunarbreytingar í átt til kostnaðarskilvirkni.
Á sérstökum viðburði SA þann 26.október s.l. fór Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ dýpra ofaní gildistöku ákveða laganna. Eygerður Margrétardóttir fór ofaní hvað lögin þýða fyrir sveitarfélögin og Þorsteinn Víglundsson fór yfir áskoranir og tækifæri fyrirtækja. Þá stýrði Hugrún Elvarsdóttir, verkefnastjóri á Efnahags og samskiptasviði SVÞ sérstökum pallborðsumræðum.
Hægt er að horfa á upptöku fundarins hér fyrir neðan.
16/09/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Lögfræðisvið SVÞ, Stjórnvöld
Um þessar mundir er frumvarp til fjárlaga 2023 til umfjöllunar á Alþingi. Því fylgir svokallaður bandormur sem inniheldur tillögur um breytingar á ýmsum skattalögum. Meðal þeirra atriða sem eru til umfjöllunar í bandorminum eru breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds.
Næstu áramót taka gildi lög sem hafa það í för með sér að Evrópuskuldbindingar sem snúa að hringrásarhagkerfinu verða innleiddar í innlendan rétt. Í þeim felst m.a. að lögð verður skylda á innflytjendur og framleiðendur ýmissa vara til að fjármagna úrvinnslu úrgangs fleiri vöruflokka en áður. Jafnframt ber þessum aðilum að fjármagna sérstaka söfnun heimilisúrgangs en samhliða verða merkingar sorptunna samræmdar um allt land, þeim fjölgað, ásamt fjölgun íláta á grenndarstöðvum.
Af bandorminum leiðir að í farvatninu er umtalsverð hækkun úrvinnslugjalds sem er annars vegar er lagt á innflutning samhliða tollafgreiðslu vara og hins vegar á innlenda framleiðslu. Eru dæmi um að hækkun muni í tilviki nokkurra vöruflokka verða allt að þreföld. Grundvallast hækkunin á mati Úrvinnslusjóðs á væntum kostnaðarauka sem innleiðing hringrásarhagkerfisins hefur í för með sér.
Rétt er að taka fram að frekari breytinga er að vænta á næstunni þar sem Evrópuskuldbindingarnar fela m.a. í sér skyldu aðildarríkjanna til að aðlaga gjaldhæð úrvinnslugjalds að endurnýtingar- og endurvinnslumöguleikum vara.
Skrifstofa SVÞ hyggst á næstunni boða til félagsfundar þar sem framangreindar breytingar og forsendur þeirra verða kynntar. Meira um það síðar.
Nánari upplýsingar veitir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, benedikt(hjá)svth.is, s. 864-9136.
15/09/2022 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Vísir [umræðan] birtir í dag grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann Samtaka verslunar og þjónustu og Egil Jóhannsson, forstjóra Brimborgar undir heitinu: „Ríkisstjórn Íslands leggst gegn hröðum orkuskiptum – eða hvað?“
Þar benda þeir m.a. á að Ísland hefur skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um 29% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram enn metnaðarfyllra landsmarkmið um 55% samdrátt. Það þýðir að draga þarf úr losun um 1,3 milljónir tonna koltvísýringsígilda (CO2í) á næstu 8 árum. Að auki hefur kolefnishlutleysi árið 2040 verið lögfest.
En aðgerðir stjórnvalda hafa undanfarið ekki verið í neinu samræmi við skuldbindingar og metnaðarfull markmið. Á ríkið getur fallið kostnaður sem nemur allt að 10 milljörðum kr. á ári náist samdráttarskuldbindingar ekki í tæka tíð og í því samhengi er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt fjármálafrumvarpinu sem lagt var fram í vikunni áformar ríkið að greiða 800 milljónir kr. í ljósi vanefnda á þessu sviði. Nýkynnt fjárlagafrumvarp varpar ljósi á áform sem munu vinna harkalega gegn því að við stöndum við skuldbindingar. Allt útlit er fyrir að útsöluverð rafbíla muni hækka um þriðjung á næsta ári vegna aðgerða stjórnvalda.
LESA ALLA GREININA HÉR
14/09/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stjórnvöld
Verulegar breytingar á smásöluumhverfi nikótínvara (m.a. nikótínpúða), rafrettna og áfyllingar fyrir þær.
Upplýsingar frá lögfræðisviði SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
Hinn 24. júní síðastliðinn voru gerðar töluverðar breytingar á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018.
Með breytingunum voru nikótínvörur * felldar undir löggjöf um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Undir lok ágústmánaðar setti heilbrigðisráðherra tvær reglugerðir sem útfæra breytingarnar nánar.
Í sem allra stystu máli munu smásöluaðilar þurfa að takast á við eftirfarandi meginbreytingar:
- Öllum þeim sem hyggjast halda áfram smásölu varanna eða hefja slíka sölu er skylt að sækja um sérstakt smásöluleyfi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Sækja þarf sérstaklega um leyfi fyrir hvern sölustað og mun kostnaður vegna hverrar leyfisveitingar nema 72.864 kr.
- Aðeins verður heimilt að selja í smásölu vörur sem hafa innflytjendur eða framleiðendur hafa tilkynnt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
- Einungis verður heimilt að selja nikótínvörur sem innihalda að hámarki 20 mg/g af nikótíni.
- Smásöluaðilar munu sæta markaðseftirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Stofnunin mun innheimta eftirlitsgjald í kjölfar eftirlitsferðar sem nemur 18.216 kr. á klst. auk tilfallandi kostnaðar á borð við ferðakostnað.
Eftirfarandi eru vefslóðir á þær reglugerðir sem hafa verið settar:
Til upplýsingar munu kröfur um merkingar varanna taka gildi hinn 1. desember nk. Þó hefur skylda til að tilgreina hlutfall nikótíns í mg/g og magn nikótíns í hverjum skammti eða púða, á einingapökkum og öllum ytri umbúðum nikótínvara, þegar tekið gildi.
Viðtakendur eru hvattir til að kynna sér efni reglugerðanna vel.
Búist er við því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun muni birta ýmsar upplýsingar á vefsvæði sínu, hms.is.
Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedik(hjá)svth.is, s. 864-9136.
* Vörur sem innihalda nikótín, hvort sem nikótínið er unnið úr tóbaki eða ekki, og varan inniheldur að öðru leyti ekki efni sem unnin eru úr tóbaki, t.d. nikótínpúði, en er ekki til innöndunar
Síða 3 af 21«12345...1020...»Síðasta »