Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ, skrifar í Viðskiptablaðið 17. apríl sl.:

Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Í hagfræðinni er rætt um harmleik almenninganna (e. tragedy of the commons) þegar einstakir aðilar nýta sameiginlegar auðlindir óhóflega þegar litið er til heildarhagsmuna samfélagsins. Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, lét þá skoðun sína í ljós í ræðu hinn 29. september 2015 að harmleikur væri á sjóndeildarhringnum (e. tragedy on the horizon). Þar vísaði hann til loftslagsmála þar sem vandinn er sá að borgarar dagsins í dag eiga erfitt með að sjá afleiðingar gjörða sinna fyrir þar sem þær munu ekki koma að fullu fram fyrr en næstu kynslóðir hafa tekið við keflinu.

Í ræðu sinni fjallaði Carney um áskoranir sem þessu fylgja en hann telur hættu á að loftslagsbreytingar geti leitt til fjármálakreppu og versnandi lífskjara. Til þess að gefa mynd af harmleiknum í nútímanum telur Carney rétt að upplýsingar um koltvísýringslosun liggi fyrir. Af þeim sökum hefur hann mælst til þess að leiðandi ríki heimshagkerfisins hvetji fyrirtæki til þess annars vegar að upplýsa hreinskilnislega um losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar að gera áætlanir um að draga úr umhverfisáhættu. Í ræðu Carney, þar sem hann fjallar um loftslagsmál og fjármálakerfið og ber ensku yfirskriftina „A global approach to sustainable finance“ segist hann fullviss um vangetu leikenda á fjármálamarkaði til að leiða umbreytingar hagkerfisins í átt til minni koltvísýringslosunar.

Carney telur lykilatriði að ríkisstjórnir setji leikreglur og skapi umgjörð um loftslagsmál sem einkageirinn geti tekið mið af við ákvarðanatöku um fjárfestingar. Þó að Carney ætli stjórnvöldum þannig leiðandi hlutverk leggur hann hins vegar áherslu á að fjármálamarkaðir verði að leggja sitt af mörkum. Þá telur hann skynsamlegt að ríkt tillit sé tekið til umhverfisáhættu við greiningu kerfisáhættu.

 

Þung áhersla á aðgerðir

Í ljósi smæðar og öfgakenndra hagsveiflna í íslensku hagkerfi er afar mikilvægt að hafa augun á þróun helstu áhættuþátta hverju sinni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð þung áhersla á aðgerðir í loftslagsmálum. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu en um þessar mundir eru 197 ríki aðilar að því og svo virðist sem 185 þeirra hafi lokið við að fullgilda það.

Með samkomulaginu er stefnt að því að halda hlýnun jarðar vel innan við 2 gráður á öldinni, bæta aðlögunargetu fyrirtækja og stofnana og tryggja að fjármagn flæði í þróunarverkefni sem eru loftslagsvæn. Þar kveður við nýjan tón í þeim skilningi að ætlunin virðist að hvetja til mun meiri samdráttar koltvísýringslosunar en áður, atvinnulífinu er ætluð virk þátttaka og áformað er að nýta markaði til að ná árangri.

Alþjóðastofnanir kalla eftir því að losun gróðurhúsalofttegunda verði rétt verðlögð á skilvirkum mörkuðum og þannig verði fyrirtæki hvött til þróunar í átt til loftslagsvænni lausna. Efndir skuldbindinga samkvæmt samkomulagi kalla á verulegar umbreytingar og í því felast áskoranir. Ef rétt er haldið á spilunum felast hins vegar einnig töluverð tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í þeim breytingum sem efndirnar hafa í för með sér.

 

Íslenskur fjármálamarkaður

Gerð íslenska hagkerfisins kallar á að tekið sé tillit til umhverfisáhættu við gerð áfallasviðsmynda fyrir íslenskan fjármálamarkað. Gera má ráð fyrir að sú áhætta birtist um þessar mundir einkum sem umbreytingaráhætta (e. transition risk) vegna óljóss kostnaðarauka sem fyrirtæki gætu þurft að takast á við vegna breytinga á starfs- og rekstrarháttum í ljósi hertra umhverfiskrafna.

Ef við bregðumst ekki við með réttum hætti með vel undirbúnum aðgerðum munu tekjuáföll og glötuð tækifæri hafa ófyrirséðar afleiðingar. Allt útlit er fyrir að staða loftslagsmála eigi eftir að hafa mikil áhrif annars vegar á daglegan rekstur fyrirtækja og hins vegar á fjárfestingaákvarðanir. Það er því skynsamlegt og í mörgum tilvikum orðið löngu tímabært fyrir fjárfesta og fyrirsvarsmenn fyrirtækja að taka tillit til loftslagsmála við undirbúning fjárfestingar- og stefnumótunarákvarðana.

Stjórnendur efnahagsmála hafa sýnt merkjanlegan og aukinn áhuga á að tryggja að íslenska fjármálakerfið ráði við umbreytingar í víðum skilningi. Möguleikar fjármálakerfisins til að takast á við áföll virðast um þessar mundir mun betri en oft áður. En betur má ef duga skal. Það ríður á að íslensk stjórnvöld og seðlabanki átti sig á í sameiningu á stóru myndinni af því hvernig íslensk fyrirtæki geta lagað sig á skilvirkan hátt að umbreytingum vegna loftslagsmála. Með öðrum orðum verða stjórnendur efnahagsmála að senda frá sér sem skýrust skilaboð sem fyrirtæki geta tekið tillit til við áætlanagerð.

Gera verður ráð fyrir að aðgerðir í loftslagsmálum kalli á mikið fjármagn sem mun að mestu leyti koma beint eða óbeint frá einkageiranum. Í því samhengi mun áhugi fjárfesta og fjármálastofnana á fjármögnun ráðast af þeim áhættum sem henni fylgja, þ.m.t. áhættu vegna ófyrirséðra breytinga á leikreglum og beitingu efnahagslegra hvata til aukinna fjárfestinga. Hagstæð fjármögnun mun aðeins nást undir fyrirsjáanlegum kringumstæðum.

Sérfræðingar frá háskólanum í Cambridge hafa bent á þrjá þætti sem þeir telja ráða miklu um hve berskjölduð fyrirtæki eru vegna breytinga á leikreglum um loftslagsmál: a) Losun í starfsemi fyrirtækis, b) óbein losun í aðfangakeðju fyrirtækis og þá sérstaklega vegna notkunar jarðefnaeldsneytis, og c) losun vegna notkunar á vöru og þjónustu sem fyrirtæki selur.

 

Þörf á markvissum aðgerðum

Ljóst er að þörf er á markvissum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í því samhengi er samþætting loftslags- og tæknistefnu mikilvæg. Erlendis munu stjórnvöld líklega einkum beina aðgerðum sínum að starfsemi sem felst t.d. í námurekstri, olíuvinnslu og orkufrekum iðnaði. Aðgerðirnar verða væntanlega í formi reglusetningar eða -breytingar eða annarra aðgerða sem munu hafa mikinn kostnað í för með sér.

Það getur ekki talist óábyrgt að ætla að þær atvinnugreinar sem óundirbúnar verða fyrir mestum umbreytingaráhrifum geti lent í svipaðri stöðu og fjármálageirinn eftir áföll alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Með fyrirsjáanleika að leiðarljósi þurfa stjórnendur efnahagsmála að senda atvinnulífinu skýr og samræmd skilaboð þannig að einkageirinn hafi möguleika á að tileinka sér nýja hugsun í fjárfestingum og fjármögnun verkefna.

Geirar atvinnulífsins búa við mismikla umbreytingaráhættu. Augljóst er að námuvinnsla, raforkuframleiðsla úr jarðefnaeldsneyti og olíuiðnaður lenda í hæsta áhættuflokki. Áhættan kann svo að smitast yfir á skuldabréfamarkaði þar sem skuldabréf útgefin af þessum fyrirtækjum eru seld. Þau fyrirtæki sem menga mest eru hins vegar í bestum færum til þess að bæta sig og því kann samstarf við stjórnendur þeirra að vera lykillinn að lausn sem skilar góðum árangri. Fjárfestar geta haldið stöðum í þessum greinum en freistað þess á móti að hafa áhrif á stjórnendur í átt til minni losunar.

 

Gróðurhúsalofttegundir verðlagðar

Stjórnvöld geta verðlagt losun gróðurhúsalofttegunda og með því haft áhrif á kauphegðun neytenda. Með því móti verða framleiðendur óhjákvæmilega að takast á við neikvæð ytri áhrif framleiðslunnar. En skilaboðin verða að vera skýrari því enn er kolefnisskattlagning opin fyrir þeirri gagnrýni að vera bara enn ein skattlagningin.

Þá ættu stjórnvöld að styrkja stoðir þeirra geira sem vinna hvað harðast að loftslagsjákvæðum tæknibreytingum.Benda má að Alþjóðaorkumálastofnunin (e. International Energy Agency – IEA) hefur gefið út leiðbeiningar um hagkvæm stýritæki sem henta í hverju tilfelli. Stjórnvöld ættu að leggja áherslu á að auka þekkingu á stöðu tækniþróunar á sviði losunarmála.

Með vel ígrunduðum aðgerðum geta stjórnvöld dregið úr áhættu sem tengist þróun tækninýjunga en smám saman dregið úr stuðningi sínum og hleypt tækninni óstuddri í samkeppnisumhverfi. Stuðningur stjórnvalda ætti þannig að vera ríkur í upphafi, dragast hægt og rólega saman og falla niður um það leyti þegar tæknin verður samkeppnishæf eða þegar ljóst er að tækniþróun skilar ekki tilætluðum árangri. Mat á virkni aðgerða kallar óhjákvæmilega á losunarbókhald í einhverri mynd.

Í ljósi framangreinds má benda á að Evrópusambandið hefur ýtt undir þróun markaða fyrir græn skuldabréf. Á þeim veita fjárfestar lán til fyrirtækja gegn skuldbindingum um að lánsfjármunir verði nýttir í umhverfisvænum tilgangi. Mikil aukning hefur verið í útgáfu slíkra skuldabréfa síðustu ár. Þá hefur Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) beitt sér fyrir samræmdri verðlagningu losunar og mælst til þess að aðildarríkin leggi mat á losunaráhrif við fjárlagagerð (e. Green budgeting). Alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki bjóða þegar upp á aðstoð við gerð græns bókhalds sem hefur þann tilgang að kortleggja umhverfisáhættuþætti og gera fyrirtækjum mögulegt að undirbúa breyttar áherslur.

Hagnaðurinn af sjálfbærni – ekki bara samfélagsleg ábyrgð heldur einfaldlega góð viðskipti

Hagnaðurinn af sjálfbærni – ekki bara samfélagsleg ábyrgð heldur einfaldlega góð viðskipti

SVÞ stóð að morgunverðarráðstefnu þann 19. febrúar um ávinninginn af sjálfbærni og loftslagsmálum fyrir fyrirtæki í verslun og þjónustu.

Dr. Hafþór Ægir frá CIRCULAR Solutions flutti aðalerindi ráðstefnunnar þar sem fjallað var um helstu tækifæri og áskoranir fyrirtækja nú þegar aukin áhersla er á sjálfbærni frá öllum hagaðilum og víðsvegar í virðiskeðjum þeirra. Hann fór yfir sjálfbærnimengið út frá áhrifum á hina þrískiptu rekstrarafkomu (fólk, jörðina, og hagnað) og einnig út frá langtímaáhættustýringarsjónarmiðum.

Gréta María framkvæmdastjóri Krónunnar fjallaði um vegferð Krónunnar í umhverfismálum og hvaða áhrif það hefur haft. Gréta fjallaði jafnframt um hvaða tilgang fyrirtæki eins og Krónan gegna í þessum efnum. Í því samhengi var fjallað umhverfisvænni umbúðir og umhverfisvænni plast fyrir verslanir. Þá nefndi Gréta meðal annars að mikilvægt væri að meira samtal ætti sér stað milli framleiðenda og söluaðila til stuðla að aukinni sjálfbærni í ferlinu.

Ina Vikøren, yfirmaður sjálfbærnimála hjá H&M í Noregi og Íslandi fjallaði um sjálfbærnistefnu og markmið H&M. Þar á meðal hefur H&M einsett sér að fyrir árið 2030 muni öll textílefni vera úr endurunnum efnum eða efnum sem vottuð eru sem sjálfbær. Árið 2040 stefnir H&M svo á að vera 100% loftslagsjákvætt (e. climate positive) þ.e. að öll virðiskeðja H&M hafi jákvæð áhrif loftslagið.

Myndir frá viðburðinum má sjá hér á Facebook.

Glærurnar af fyrirlestrunum má sjá hér fyrir neðan:

Glærur Hafþórs
Glærur Grétu Maríu
Glærur Inu Vikøren

Hagnaðurinn af sjálfbærni – ekki bara samfélagsleg ábyrgð heldur einfaldlega góð viðskipti

Hagnaðurinn af sjálfbærni – ekki bara samfélagsleg ábyrgð heldur einfaldlega góð viðskipti

Þriðjudaginn 19. febrúar mun SVÞ halda morgunverðarráðstefnu um sjálfbærnimál, undir yfirskriftinni Hagnaðurinn af sjálfbærni – ekki bara samfélagsleg ábyrgð heldur einfaldlega góð viðskipti

Hvar: Grand Hótel Reykjavík

Hvenær: Þriðjudagur 19. febrúar kl. 8:30-10:00

Skráning: https://tix.is/is/event/7554/morgunver-arra-stefna-hagna-urinn-af-sjalfb-rni-/

 

Dr. Hafþór Ægir - Circular SolutionsAðalerindi: Ávinningur af sjálfbærni? – tækifæri, hagnaður og hagkvæmni

– Dr. Hafþór Ægir frá Circular Solutions

Hver er ávinningurinn af sjálfbærni og loftslagsmálum fyrir reksturinn þinn?

70% af neytendum láta sjálfbærni stýra kauphegðun sinni.

79% fyrirtækja forgangsraða loftslagsbreytingum þegar horft er á Heimsmarkmið SÞ.

Hvaða tækifæri eru til staðar fyrir fyrirtæki til að mæta þessum áskorunum, skapa sér samkeppnisforskot, auka virði vörumerkisins, stýra áhættu í virðiskeðjum, birgjamati o.fl.?

Dr. Hafþór Ægir mun fara yfir helstu tækifæri og möguleika fyrirtækja til þessa að mæta þessum áskorunum, skapa sér samkeppnishæfni og skapa jákvæð áhrif á hina þrískiptu rekstrarafkomu (People, Planet, Profit). Einnig verður farið yfir helstu áhættur sem steðja að fyrirtækjum með alþjóðlegar virðiskeðjur.

Hafþór Ægir er með doktorspróf í verkfræði frá DTU í Danmörku og hefur margra ára reynslu af sjálfbærnimálum og sérhæfingu í sjálfbærni fyrirtækja.

Hafþór er einn af eigendum CIRCULAR Solutions, en fyrirtækið hefur unnið að sjálfbærniverkefnum með fjölda fyrirtækja, svo sem Marel, VÍS, Reykjavíkurborg og Landsvirkjun.

CIRCULAR Solutions er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í sjálfbærni fyrirtækja og aðstoðar við að flýta ferlinu í átt að sjálfbærni með betri ákvarðanatöku og beri viðskiptagreind sem skapar virði fyrir fyrirtækið og samfélagið í heild. Að auki starfa hjá fyrirtækinu Bjarni Herrera, forstjóri, Dr. Reynir Smári Atlason, sérfræðingur m.a. í sjálfbærri vöruþróun og Birgir Örn Smárason, sérfræðingur m.a. í sjálfbærum virðiskeðjum í sjávarútvegi.

Gréta María Grétarsdóttir - Krónan

Erindi úr viðskiptalífinu: Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar

Gréta María tók við starfi framkvæmdarstjóra Krónunnar 2018 en gengdi stöðu fjármálastjóra Festi 2 ár þar á undan. Hún var forstöðumaður Hagdeildar Arion Banka frá 2010-2016 en þar áður starfaði hún í fjárstýringu, fyrst hjá Sparisjóðabankanum og síðar Seðlabanka Íslands. Á árunum 2005-2007 starfaði Gréta María í upplýsingatækni hjá VKS og Kögun og sinnti þar gæðamálum og ráðgjöf. Gréta María hefur verið stundakennari frá 2010 fyrst við Verkfræðideild Háskóla Íslands og síðar við MPM námið í Háskóla Reykjavíkur.

 

 

Ina Vikøren - H&M

Erindi úr viðskiptalífinu: Ina Vikøren, yfirmaður sjálfbærnimála hjá H&M Í Noregi og á Íslandi

Ina er yfir sjálfbærnimálum hjá H&M í Noregi og á Íslandi. Það er hennar hlutverk að tryggja að H&M í báðum löndum nái metnaðarfullum markmiðum sínum um að vera 100% sjálfbært og endurnýtanlegt, 100% heiðarlegt og að réttindi allra séu jöfn og að H&M sé 100% að leiða þessar breytingar á markaðnum.

Ina er með meistaragráðu í iðnhagfræði og frumkvöðlafræðum, með áherslu á sjálfbær viðskiptalíkön í hringrásarhagkerfinu. Hún vann áður hjá World Wildlife Fund (WWF), Innovation Norway, norsku umhverfisstofnuninni og sem ráðgjafi í stefnumótun sjálfbærra viðskipta.

Hún hóf störf hjá H&M haustið 2018 vegna þess, eins og hún segir, að “svo víðfemt fyrirtæki og af þessari stærðargráðu ber ekki bara ábyrgð á því að leiða breytingar í átt að sjálfbærari tísku- og hönnunariðnaði heldur er það einnig frábært tækifæri fyrir það.”

 

smelltu hér til að skrá þig

 

 

 

Umhverfisdagur atvinnulífsins var haldinn 17. október sl.

Umhverfisdagur atvinnulífsins var haldinn 17. október sl.

Umhverfisdagur atvinnulífsins var haldinn fimmtudaginn 17. október sl. í Hörpu. Dagurinn er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru afhent af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Umhverfisfyrirtæki ársins er Toyota, en framtak ársins á sviði umhverfismála á Skinney-Þinganes. Í dómnefnd sátu Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar, Bryndís Skúladóttir, efnaverkfræðingur og Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Á vef SA er hægt að lesa nánar um verðlaunahafana.

Aðalhagfræðingur SVÞ, Ingvar Freyr Ingvarsson, flutti fyrirlestur um plastpokanotkun á Íslandi og mögulegar aðgerðir til að draga úr notkun plastpoka.

Á vef SA hér má sjá upptökur frá deginum.

Og hér geturðu séð glærurnar úr fyrirlestri Ingvars Freys: Umhverfisdagur atvinnulifsins – Er plastid a leid ur budunum

Umhverfisdagur atvinnulífsins 17. október 2018

Umhverfisdagur atvinnulífsins 17. október 2018

Umhverfisdagur atvinnulífsins verður haldinn miðvikudaginn 17. október 2018 í Hörpu Norðurljósum kl. 8.30-12.
Um árlegan viðburð er að ræða en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Sameiginleg dagskrá samtakanna hefst kl. 8.30 og stendur til 10. Málstofur hefjast kl. 10.30 og standa til kl. 12. Boðið verður upp á létta hádegishressingu og netagerð að lokinni dagskrá. Hægt er að skrá sig á sameiginlega hlutann eingöngu sem lýkur kl. 10.

 

DAGSKRÁ

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA
Sigsteinn Grétarsson, Arctic Green Energy
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og um langa hríð yfirmaður hjá loftslagssamningi S.þ.
Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ

 

UMHVERFISVERÐLAUN ATVINNULÍFSINS 2018

Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnenfndar og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Fundarstjóri er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

 

Málstofa um alþjóðaviðskipti og loftslagsmál kl. 10.30-12

Loftslagsvænt sérmerkt ál
Guðrún Þóra Magnúsdóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá Rio Tinto á Íslandi

Árangur sjávarútvegsins í loftslagsmálum
Hildur Hauksdóttir, verkefnastjóri hjá HB Grandi

Loftslagsvæn sjálfbær ferðaþjónusta
Nafn fyrirlesara staðfest síðar.

Ábyrgar fjárfestingar
Brynjólfur Stefánsson, sérfræðingur hjá Íslandssjóðum.

Kolefnishlutlaus orku- og veitustarfsemi 2030
Marta Rós Karlsdóttir, forstöðumaður auðlinda, Orku náttúrunnar

Málstofustjóri er Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

 

Málstofa um grænar lausnir atvinnulífsins kl. 10.30-12

Framtíð sorpförgunar
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur og stofnandi Environice

Vistvæn mannvirki
Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Grænnar byggðar

Kolefnisfótspor fyrirtækja
Kristján Geir Gunnarsson, forstjóri Odda

Er plastið á leið úr búðunum?
Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ

Endurnýjanlegt eldsneyti og sjálfbærar samgöngur
Margrét Ormslev, fjármálastjóri CRI

Málstofustjóri er Rakel Garðarsdóttir, stofnandi Vakandi.

 

Allir eru velkomnir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA hér.

Umhverfisdagur atvinnulífsins 17. október 2018

Tilnefningar fyrir Umhverfisverðlaun atvinnulífsins þurfa að berast fyrir föstudaginn næstkomandi 14. september

Tilnefningar fyrir Umhverfisverðlaun atvinnulífsins þurfa að berast fyrir föstudaginn næstkomandi 14. september.

Verðlaunin verða veitt á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem fram fer í Hörpu miðvikudaginn 17. október.

Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.

Það er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhendir verðlaunin.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Tilnefningar er hægt að senda með tölvupósti á sa@sa.is merkt: „Tilnefning til umhverfisverðlauna atvinnulífsins“.

Dómnefnd velur úr tilnefningum og skoðar meðal annars eftirfarandi þætti:

Umhverfisfyrirtæki ársins

  • Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
  • Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
  • Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
  • Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
  • Innra umhverfi er öruggt
  • Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
  • Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið

Framtak ársins

  • Hefur komið fram með nýjung – nýja vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif
  • Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
  • Gagnast í baráttu við loftslagsbreytingar