SVÞ setja sér umhverfisstefnu

SVÞ setja sér umhverfisstefnu

Stjórn SVÞ samþykkti á fundi sínum þann 8. október sl. umhverfisstefnu fyrir samtökin. Umhverfisstefnan tekur bæði til innra starfs samtakanna en markmið hennar er ekki síður að vera aðildarfyrirtækjum og atvinnulífinu öllu góð fyrirmynd í umhverfismálum og sjálfbærni, og að leiðbeina, fræða, hvetja og styðja við aðildarfyrirtæki í málaflokknum, enda sé ekki síst skýr ávinningur af því fyrir aðildarfyrirtæki í formi betri afkomu, aukinnar starfsánægju starfsfólks og bættrar ímyndar.

„Umhverfismál og sjálfbærni varða okkur öll og atvinnulífið hefur sett þau mál kyrfilega á dagskrá. Við viljum því ganga fram með góðu fordæmi auk þess að styðja okkar aðildarfyrirtæki í því að skapa betra umhverfi fyrir okkur öll,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ

Umhverfisstefnuna má lesa í heild sinni hér: https://svth.is/umhverfisstefna-svth/

Vel heppnaðar vinnustofur með BravoEarth um umhverfisstefnu

Vel heppnaðar vinnustofur með BravoEarth um umhverfisstefnu

Nýlega bauðst fyrirtækjum innan SVÞ að sækja vinnustofur með þeim Vilborgu Einarsdóttur og Kjartani Sigurðssyni frá BravoEarth. Á vinnustofunum fóru þau Vilborg og Kjartan yfir helstu atriði sem snúa að mótun, utanumhaldi og innleiðingu umhverfisstefnu.

Fjölmargir aðilar hafa sett sig í samband við okkur sem hafa áhuga á vinnustofu sem þessari en höfðu ekki tök á að taka þátt þegar þær fóru fram. Ef næg þátttaka fæst eru þau Vilborg og Kjartan tilbúin að skella í eina vinnustofu í viðbót. Áhugasamir vinsamlegast smelli hér og skrái sig og við munum vera í sambandi!

Fyrirtæki um allan heim eru að móta og innleiða umhverfisstefnu með það að markmiði að minnka sóun, nýta auðlindir betur og axla þannig ábyrgð fyrir framtíðina. Umhverfisstefna snertir alla starfsemi fyrirtækisins og er því mikil áskorun fólgin bæði í mótun og innleiðingu, þ.e. að framfylgja stefnunni. Mikilvægt er að virkja starfsmenn til að geta samstillt aðgerðir og fá starfsmenn til að breyta hegðun.

Ávinningur við innleiðingu á umhverfisstefnu er m.a.:

  • Betri afkoma: Minni sóun og betri nýting á auðlindum skilar sér í betri rekstrarniðurstöðum fyrir utan mikilvægi þess að vinna gegn loftslagsbreytingum.
  • Aukið stolt og starfsánægja: Það veldur mörgu starfsfólki vanlíðan að horfa upp á sóun á sínum vinnustað. Minni sóun og aukin umhverfisvernd skila sér í stoltara og ánægðara starfsfólki.
  • Bætt ímynd: Fólk beinir í auknum mæli viðskiptum sínum til þeirra sem standa sig vel í umhverfismálum. Árangursrík innleiðing er því gríðarlega mikilvæg fyrir verslun og þjónustu.

Við hvetjum öll fyrirtæki, hvort sem er í verslun, þjónustu eða öðrum geirum, til að huga vel að þessum málum.