01/12/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun
Í árlegri könnun Rannsóknaseturs verslunarinnar settu 55% neytenda bækur og spil á óskalistann sinn fyrir þessu jól.
Íslenskar bækur og spil! Jólagjöf ársins í ár er vinsæl meðal neytenda, selst alltaf vel fyrir jól og fellur einstaklega vel að tíðaranda sem kallar á aukinn léttleika og skemmtun. Jólagjöf ársins í ár fær okkur til að tala saman, spila saman og lesa saman sem hjálpar okkur að hlúa betur að hvort öðru og tungumálinu okkar.
Í frétt af vefsíðu RSV segir að eitt af árlegum verkefnum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) er val á jólagjöf ársins. Tilgangur verkefnisins er að greina hluta af neysluhegðun landans í aðdraganda jóla sem og að vekja athygli á verslun í landinu.
Í fyrra var það jogging gallinn, en nú er komið að bókum og spilum.
SMELLTU HÉR til að lesa alla fréttina frá RSV
30/11/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var gestur Morgunútvarps Rásar 2 í morgun þar sem velt var upp að verðbólgan virðist ekki vera á niðurleið þrátt fyrir spár og víða heyrast þær gagnrýnisraddir að verslanir haldi verðinu uppi þrátt fyrir lækkun á heimsmarkaðsverði í ýmsum vöruflokkum.
SMELLIÐ HÉR TIL AÐ HLUSTA!
30/11/2022 | Fréttir, Greining, Verslun
Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) birtir í dag spá yfir jólaverslun landsmanna 2022.
Þar segir m.a. að mikill kraftur hefur þó verið í einkaneyslunni í ár en gögn um kortaveltu gefa til kynna að vöxtur hennar sé drifinn áfram af aukinni veltu þjónustutengdrar innlendrar starfsemi og aukinni veltu innlendra greiðslukorta erlendis. Þá hefur töluverð aukning verið í verðmæti innflutnings á varanlegum og hálf varanlegum neysluvörum það sem af er ári auk þess sem gera má ráð fyrir að aukin velta ferðamanna í innlendri verslun á árinu hafi einhver áhrif til hækkunar á jólaverslun ársins.
Þá bendir RSV á að von er á stöðugleika í jólaverslun í ár
Það er spá RSV að velta smásöluverslunar yfir jólamánuðina, nóvember og desember, aukist að nafnvirði um tæp 4,3% frá fyrra ári en sambærileg aukning var 7,1% í fyrra. Áætlað er að heildarvelta smásöluverslana verði um 123,7 milljarðar kr. yfir jólamánuðina í ár, rúmum 5 milljörðum hærri en í fyrra miðað við breytilegt verðlagi. Að raunvirði dragist veltan þó saman um 1,7% frá fyrra ári.
SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA ALLA GREININA!
29/11/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun, Þjónusta
Morgunblaðið birtir í gær viðtal við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu þar sem hann er m.a. spurður út í breyttar verslunarhegðanir íslendinga á tímum tilboðsdaga s.s. dagur einhleypra, (Singles Day), Svartur föstudagur (Black Friday) og rafrænn mánudagur (Cyber Monday).
Í viðtalinu bendir Andrés m.a. á að „Bara fyrir örfáum árum var verslun í desember 40% meiri en í nóvember. Núna er munurinn 20%. Desember er enn þá afgerandi stærstur en munurinn hefur minnkað á milli þessara tveggja mánaða síðan svona 2018-2019 sem eru eiginlega einu samanburðarhæfu árin. Það er eiginlega útilokað að taka árin 2020 og 2021 til samanburðar.“
Þá bendir Andrés einnig á að Covid-árin ekki vera samanburðarhæf því þá ferðuðust Íslendingar lítið til útlanda. Viðskipti hafi gengið vel fyrir sig hér á landi af þeirri ástæðu.
„Nú er miklu stærri hluti viðskipta sem fer fram erlendis. Íslendingar ferðast eins og ég veit ekki hvað,“ segir Andrés.Hann segir utanlandsferðir Íslendinga eitthvað spila inn í sölu hér á landi en minna sé um að flugfélögin auglýsi beinlínis verslunarferðir til útlanda eins og áður var gert „Engu að síður, fólk ferðast og það eyðir ekki sömu peningunum tvisvar, svo mikið er víst.“ segir Andrés að lokum.
SMELLTU HÉR til að lesa allt viðtalið.
23/11/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun, Þjónusta
Viðskiptablað Morgunblaðsins birtir í dag, 23.nóvember viðtal við forstöðukonu Rannsóknaseturs verslunarinnar RSV, Sigrúnu Ösp Sigurjónsdóttur um kortaveltu landsmanna innan og utan landsteinanna.
Í viðtalinu segir Sigrún Ösp m.a. að greiðslukortanotkun Íslendinga hefur verið að aukast það sem af er þessu ári og er aukningin nær alfarið komin til vegna ferðalaga landsmanna út í heim. Þá bendir hún á að þrátt fyrir að kortanotkun innanlands standi nánast í staðámilli ára þá þurfi kaupmenn ekki að kvíða jólavertíðinni fram undan. „Það hefur verið mikill kraftur í einkaneyslunni á árinu en gögn um kortaveltu gefa til kynna að vöxtur hennar á þessu ári sé frekar drifinn áfram af aukinni veltu þjónustutengdrar innlendrar starfsemi og af aukinni veltu erlendis, en utanlandsferðum Íslendinga hefur fölgað mikið í ár. Kortaveltan gefur til kynna að einkaneysla verði áfram kröftug út árið,“ segir hún.
SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA ALLT VIÐTALIÐ

22/11/2022 | Fréttir, Lögfræðisvið SVÞ, Verslun, Þjónusta
Á þessu ári hefur kærunefnd vöru- og þjónustukaupa fellt þrjá úrskurði sem tilefni er til vekja athygli á. Í öllum tilvikum var deilt um hvort verslun væri bundin við ranga verðmerkingu á söluvörum. Úrlausnir kærunefndarinnar gefa til kynna að vanda þarf til verka við verðmerkingar, hvort heldur er á verslunarvörum í hefðbundinni verslun eða þegar slíkar vörur eru seldar í netverslun.
Í tveimur úrskurðum kærunefndarinnar frá 28. janúar 2022 var deilt um hvort verslun væri skylt að efna samninga um sölu á verkfærasettum þar sem mistök höfðu leitt til þess að uppgefið tilboðsverð nam aðeins 10% af því verði sem til stóð að bjóða. Ekki var fallist á kröfu neytanda og var verslunin því óbundin af hinu ranga verði. Í úrskurði kærunefndarinnar frá 18. október 2022 var deilt um hvort verslun væri skylt að efna samning um kaup á fjórhjóli þar sem mistök höfðu leitt til þess að verð þess hafði verið merkt einni milljón króna lægra en til stóð. Fallist var á kröfu neytanda og var úrskurðurinn efnislega á þá leið að versluninni væri skylt að standa við hið rangt merkta verð.
Af lestri úrskurðanna verður ráðið að það hallar í verulegum atriðum á verslunina þegar mistök verða við verðmerkingu. Því er afar brýnt að ganga úr skugga um að vörur sé rétt verðmerktar. Hafa ber í huga að ákvæði 5. mgr. 3. gr. reglna nr. 536/2011, um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum, eru svohljóðandi:
Fyrirtæki skal selja vöru á því verði sem verðmerkt er einnig þótt um mistök sé að ræða. Þetta á hins vegar ekki við ef kaupanda má vera ljóst að um mistök sé að ræða.
Mjög mikið þarf að koma til eigi að takast á sýna fram á að kaupanda hafi verið mistökin ljós.
Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedikt(hjá)svth.is, s. 864-9136.