14/07/2017 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar dróst velta dagvöruverslana saman um 3,6% í júní frá sama mánuði í fyrra. Costco er ekki með í mælingunni heldur aðeins þær verslanir sem voru á markaði fyrir komu verslunarrisans. Costco kaus að veita ekki upplýsingar um veltu sína þegar eftir því var leitað. Síðastliðin ár hefur vöxtur í veltu dagvöruverslana verið nokkuð stöðugur og er samdrátturinn nú nokkuð úr takti við þá þróun. Líklegt er að Costco hafi klipið af markaðshlutdeild þeirra verslana sem fyrir voru á markaði og það skýri samdráttinn.
Þá er athyglisvert að verð á dagvöru lækkar í hraðari takt undanfarna tvo mánuði en sést hefur um alllangt skeið. Verð á dagvöru var 3,9% lægra í júní síðastliðnum en í júní í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Verðið í júní lækkaði um 1,1% frá mánuðinum á undan. Verðmæling Hagstofunnar nær ekki til verðlags í Costco.
Þó velta dagvöruverslana hafi dregist saman að krónutölu þá jókst hún um 0,3% að raunvirði, þ.e. þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagsbreytingum á einu ári. Þetta felur í sér að þótt veltan hafi dregist saman að nafnvirði er magn þess sem selt er nánast það sama og fyrir ári síðan í þeim dagvöruverslunum sem voru á markaði fyrir komu Costco.
Sveiflur í veltu dagvöruverslunar hefur löngum í takt og veltu áfengissölu. Sala áfengis í júní jókst um 7,8% frá sama mánuði í fyrra og er því nokkuð frábrugðin veltu á dagvöru að þessu sinni. Verð á áfengi var óbreytt frá fyrra ári.
Verð á raftækjum, farsímum og tölvum hefur lækkað umtalsvert. Í júní var t.d. verð á svokölluðum brúnum raftækjum (sjónvörpum, hljómflutningstækjum, brauðristum o.fl.) 19,6% lægra en í sama mánuði í fyrra og á farsímum lækkaði verðið á sama tímabili um 14,1%. Líklegt er að þarna gæti áhrifa frá innkomu Costco, þó aðrir þættir gætu haft áhrif, eins og lægra innkaupsverð frá framleiðendum ásamt styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Tekið skal fram að gæðabreytingar hafa áhrif á verðlagsmælingu Hagstofunnar sem hér er stuðst við.
Fataverslun
Velta fataverslunar á Íslandi heldur áfram að dragast saman og er varla svipur hjá sjón miðað við sölu á fötum fyrir áratug síðan eða fyrir hrun bankanna. Það sem af er þessu ári hefur velta stærstu fataverslana landsins dregist saman enn frekar eins og sést á meðfylgjandi skýringarmynd. Ástæða hins skarpa samdráttar á þessu ári er lokun nokkurra fataverslana og hagræðing sem átt hefur sér stað í fataverslun í byrjun árs. Enn er boðuð fækkun fataverslana. Talið er að fataverslun hafi í auknum mæli færst til útlanda, bæði með auknum ferðalögum landsmanna til annarra landa svo og vegna mikillar aukningar í netverslun með föt frá útlöndum. Verð á fötum var 2,5% lægra í júní en í sama mánuði í fyrra.
Talnaefni
Velta í dagvöruverslun dróst saman um 3,5% á breytilegu verðlagi í júní miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 0,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum dróst velta dagvöruverslana í júní saman um 0,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 3,9% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í júní 1,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 7,8% á breytilegu verðlagi í júní miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,8% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í júní um 1,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0 lægra í júní síðastliðnum og 0,3% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 18,2% í júní miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 16,1% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 2,5% lægra í júní síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 7,1% í júní á breytilegu verðlagi og jókst um 12,2% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 11,4% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í júní um 4,5% frá júní í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 12,9% meiri í júní en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 22,4% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 3,4% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 6,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 7,7% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í júní um 12,2% í júní á breytilegu verðlagi og jókst um 13,7% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,3% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 2,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum jókst í júní um 29,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 8,2%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 19,9% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 15,3% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Fréttatilkynning RSV
13/07/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Blaðagrein birt undir Skoðun á visir.is
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Verslun á Íslandi hefur óumdeilanlega búið við mikla erlenda samkeppni í gegn um tíðina, enda þekkt að stór hluti af ferðum Íslendinga til útlanda eru gagngert farnar til þess að kaupa ýmis konar varning. Þessa mánuðina er landinn einmitt að slá metið í ferðalögum en á fyrri hluta þessa árs innrituðu 290 þúsund Íslendingar sig í flug út í heim frá Keflavíkurflugvelli.
Nýjar áskoranir
Burtséð frá þessu horfist íslensk verslun nú í augu við nýjar og meiri áskoranir en áður þekkist. Annars vegar hlýtur koma tveggja alþjóðlegra stórfyrirtækja, sem þegar hafa tekið ákvörðun um að halda innreið sína inn á hinn litla íslenska smásölumarkað, óhjákvæmilega breyta því starfsumhverfi sem greinin hefur búið við. Hins vegar er eðli verslunar sem slíkrar að breytast með þeim hætti að stærri og stærri hluti hennar fer fram á netinu, þar sem neytendur hafa val um að beina viðskiptum sínum til fyrirtækja hvar sem er í heiminum. Þróun þessi er mjög hröð um þessar mundir og allt eins líklegt að verslun eins og við þekkjum hana í dag muni ganga í gegn um meiri breytingar á næstu fimm árum en nokkru sinni fyrr.
Starfsumhverfið hefur breyst til batnaðar, en…
Stór skref hafa verið stigin á undanförnum árum til að gera starfsumhverfi íslenskrar verslunar sem líkast því sem það er í samanburðarlöndunum. Þar stóð síðasta ríkisstjórn vel að verki. Þar vegur þyngst afnám almennra vörugjalda og afnám tolla á öðrum vörum en ýmsum tegundum landbúnaðarvara. Og þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Niðurfelling tolla hefur ekki náð til þeirra landbúnaðarvara sem mestu skipta og verða íslenskir neytendur því að óbreyttu áfram að sætta sig við að kaupa þessa nauðsynjavöru á mun hærra verði en neytendur í flestum nágrannalöndum okkar. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta einmitt sá stóri munur sem enn er á starfsumhverfi íslenskrar verslunar og verslunar í samanburðarlöndunum.
Ávinningurinn skili sér til neytenda
Allt bendir til þess að núverandi stjórnvöld hafi vilja til að jafna þann aðstöðumun sem íslensk verslun býr enn við að þessu leyti, neytendum til hagsbóta. Fyrri hluta næsta árs kemur til framkvæmda nýr samningur íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins, sem m.a. fjallar um aukinn tollfrjálsan innflutning landbúnaðarvara til landsins. Það skiptir öllu máli að neytendur fái notið ábatans af þeim samningi til hins ýtrasta.
Rangar og villandi fullyrðingar
Því miður er það svo að ýmsir stjórnmálamenn sjá sér enn hag í því að tortryggja verslunina og sumir þeirra hafa haldið því blákalt fram að skattkerfisbreytingar síðustu ára hafi ekki skilað sér til neytenda. Slíkt er firra eins og ítrekað hefur verið sýnt fram á undanförnum mánuðum og misserum. Verra er þó þegar þessir sömu stjórnmálamenn halda því fram að felldir hafi verið niður tollar af landbúnaðarvörum, án þess að innistæða sé fyrir slíkum fullyrðingum. Það hlýtur að vera hægt að gera kröfu um að ekki sé farið rangt með staðreyndir, ekki síst hjá þeim sem besta þekkinguna eiga að hafa.
21/06/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 21.6.2017
Höfundur: Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu
Íslensk verslun stendur nú frammi fyrir nýjum áskorunum. Koma tveggja alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á hinn litla íslenska markað hefur þegar haft áhrif á smásölumarkaði, sem gætu allt eins orðið meiri á næstu mánuðum. Neytendur hafa tekið þessum breytingum fagnandi og hafa á undanförnum vikum staðið fyrir meiri og víðtækari umfjöllun um hagsmuni neytenda en dæmi eru um. Þessu ber að fagna, enda á verslunin allt sitt undir ánægðum neytendum og verslunin á Íslandi verður að standa sig í aukinni samkeppni.
Eins og oft gerist þegar breytingar sem hér um ræðir ganga yfir, þá falla stór orð í umræðunni. Margir eru óhræddir við að fella dóma. Sá sem harðast hefur gengið fram í þessari umræðu er Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Í grein sem birtist eftir hann í DV um s.l. helgi hefur hann uppi stór orð um félaga sína í hópi kaupmanna, en þar heldur hann því blákalt fram að íslensk verslun hafi stundað okur, hækkað verð fyrir útsölur og blekkt fólk.
Á meðan framkvæmdastjóri IKEA gerir ekki nánari grein fyrir því til hverra úr hópi kaupmanna hann beinir þessum orðum sínum, liggur allur sá stóri hópur „undir grun“. Þórarinn er því hér með hvattur til að stíga fram og segja með skýrum og ótvíræðum hætti við hverja hann á. Með því móti einu gefst þeim sem þessum orðum er beint til, möguleiki á að bera hönd fyrir höfuð sér. Þórarinn hefur oft sýnt það að hann hikar ekki við að segja það sem honum býr í brjósti. Það verður því varla hik á honum að upplýsa þetta. Framkvæmdastjóri IKEA hefur einnig sýnt það að hann er prýðilegur rekstrarmaður, um það vitna nýbirtar afkomutölur um rekstur IKEA, en framlegð þar er með því allra hæsta sem sést í smásöluverslun á Íslandi í dag. Hann hefur einnig stigið fram í ræðu og riti og talað um hærra verð í IKEA verslun sinni en sambærilegum IKEA verslunum í þeim löndum sem við berum okkur saman við og gert það vel. Verslun hans er til fyrirmyndar á erfiðum íslenskum örmarkaði, eykur á fjölbreytileikann á markaðnum eins og þessar verslunakeðjur gera sem eru að koma nýjar á markaðinn.
Íslensk verslun er ekki á villigötum þó hún takist nú á við stærri viðfangsefni en oft áður. Fjölbreytnin og samkeppnin er að aukast og því ber að fagna. Umræða um íslenska verslun er hins vegar á villigötum á meðan hún er með þeim hætti sem verið hefur undanfarnar vikur. Atvinnugreinin sem slík og þeir 26.000 einstaklingar sem hafa atvinnu sína af verslun eiga skilið málefnalega umræðu, þar sem tekist er á með rökum en ekki með sleggjudómum.
Blaðagreinin í Morgunblaðinu
20/06/2017 | Fréttir, Greinar, Greiningar, Í fjölmiðlum, Umhverfismál, Verslun
Viðskiptin sjálf hafa ekki mikil bein áhrif á losun gróðurhúsaloftegunda, en hafa áhrif á birgja, umhverfisval neytenda og heildarlosun. Við verðum að hafa áhrif.
Heild- og smásala greiðir um 9,4% af launum og launatengdum gjöldum á Íslandi og um 14% vinnuafls starfar í heild- eða smásölu og er þetta því sú atvinnugrein sem veitir flestum atvinnu hér á landi. Rúmlega 8% af landsframleiðslu á Íslandi árið 2016 átti rætur að rekja til heild- og smásöluverslunar og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi.
Við teljum að viðræður, samvinna og breið þátttaka á vinnustað um umhverfismál styðji og styrki átak á sviði umhverfismála. Það eru einkum þrjú svið þar sem verslun getur haft áhrif í grænu skiptum:
• Með eigin aðgerðum (orkunýtni, draga úr notkun jarðefnaeldsneytistegunda í samgöngum, flokkun og meðhöndlun úrgangs)
• Vera leiðandi fyrir birgja og framleiðendur
• Hvetja til grænnar neyslu
Naumur tími
Áætlað er að heildareftirspurn eftir auðlindum árið 2050 verði 140 milljarðar tonna en eftirspurnin var um 50 milljarðar árið 2014. Það er 400% meira en jörðin ræður við . Við notum nú þegar meira en jörðin nær að endurnýja á hverju ári. Aukin eftirspurn og minna aðgengi er ekki sjálfbært. Árið 2050 verður skortur á ýmsum mikilvægum málmum og ný úrræði verða mjög dýr.
Mikilvægi hringhagkerfisins
Hringhagkerfi styður við sjálfbæran vöxt og störf í verslun og þjónustustörfum á Íslandi. Hringhagkerfi snýst í meginatriðum um að halda auðlindunum í umferð. Framleiðendur bera ekki aðeins ábyrgð á vörum allan líftíma þeirra, þeir hafa einnig efnahagslegan ábata af því að fá vörur og efni til baka eftir notkun.
Allt þetta skapar ný störf, með nýjum verkefnum og nýjum hugsunarhætti. Fyrirhugaðri sýn verður að ná, m.a. með atvinnuskapandi nýsköpun og alhliða þjálfun fyrir alla starfsmenn. Fyrirtæki verða í miklu meira mæli að hafa virka nálgun til umhverfis- og loftslagsmála í virðiskeðjunni. Verslanir verða t.a.m. að kortleggja virðiskeðju matvæla til að ná árangi við að sporna gegn matarsóun.
Nauðsynleg aðkoma stjórnvalda
Leiðarvísir að breyttu umhverfi getur komið úr ólíkum áttum – bæði með því að huga að verslunarviðskiptunum sjálfum sem stjórnvöld geta komið að. T.a.m. getur verslun boðið upp á grænna vöruúrval sem er bæði aðlaðandi og aðgengilegt. Þetta er hægt með því að samtvinna sjálfbærni og undirstöður hringhagkerfisins í hönnun verslana, innkaupum, svæðisskipulagi og öðrum þáttum sem verslunin notar til að auglýsa sig. Umhverfisvottun verslana, umhverfisstaðlar á flutninga, þátttaka í mótun umhverfis og þróunarverkefnum í nærumhverfi verslunarinnar eru þættir sem verslunin gæti nýtt til að skapa samkeppnisforskot. Samhliða þessu ættu stjórnmálamenn að tryggja umhverfi sem gerir það einnig hagkvæmt fyrir verslunina að taka þátt í grænum skiptum.
Að endingu
Smásalar gegna lykilhlutverki í að hringhagkerfið virki þar sem neytendur versla í búðunum þeirra á hverjum einasta degi og eru í auknum mæli að sýna áhuga á umhverfisáhrifum neytendavara. Auk þess hafa Íslendingar tækifæri til að stuðla að samkeppnishæfu hagkerfi sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun með vali þeirra. Smásalar eru nú þegar virkir að upplýsa og hafa áhrif á val neytenda með því að bjóða þeim ábyrgar afurðir, pökkun með minni umhverfisáhrifum og veita ábendingar um hvernig á að geyma mat og elda með afgöngum til að draga úr matarsóun og skipuleggja upplýsingaherferðir til neytenda um orkusparandi vörur.
Á næstu vikum munu samtökin birta fleiri og ítarlegri samantektir um einstaka þætti í hringhagkerfinu.
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ.
19/06/2017 | Fréttir, Greining, Verslun
Í fréttatilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar kemur fram að innkoma Costco hefur sannarlega hreyft við verslunarmynstrinu hér á landi og viðbrögð neytenda hafa ekki látið á sér standa. Of snemmt er hins vegar að segja til um hver áhrifin verða, bæði hvað varðar markaðshlutdeild Costco á smásölu- og heildsölumarkaði og hins vegar áhrif á verðlag. Verslunin opnaði 23. maí sl. og var því aðeins starfrækt í rúma viku af þeim mánuði. Veltutölur þær sem Rannsóknasetur verslunarinnar birta hér ná ekki til veltu Costco. Af þeim tölum sem fyrirliggjandi eru um veltu frá verslunum sem fyrir voru á markaði í maí jókst heildarumfang þeirra frá sama mánuði í fyrra. Þetta á bæði við um dagvöruverslun og raftækjaverslun en samkeppni Costco við verslanir á þessum sviðum hafa verið í kastljósi fjölmiðlanna undanfarið.
Sjá nánar um markaðshlutdeild lágvöruverðsverslana á Norðurlöndunum hér að neðan.
Verð á dagvöru var 3,2% lægra í maí síðastliðinn en í sama mánuði í fyrra og jókst velta þeirra dagvöruverslana sem fyrir voru á markaði um 1,2% að nafnvirði eða 4,6% á raunvirði á sama tímabili. Ætla má að sú verðlækkun stafi annars vegar af styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og hins vegar af aukinni samkeppni með innkomu Costco. Verðlag dagvöru hefur lækkað hvern mánuð frá ágúst 2016, þó minnst í maí síðastliðnum.
Verðlagsmæling Hagstofunnar, sem hér er stuðst við, var síðast gerð um miðjan maímánuð, eins og venja er. Þó mælingin hafi verið gerð áður en Costco opnaði hafa verðlagsáhrif þegar verið farin að koma í ljós þegar ljóst var að samkeppnin ykist. Verðmælingar Hagstofunnar ná ekki til verðlags í Costco en endurspegla verðlagsáhrifin eins og þau koma fram í þeim verslunum sem fyrir voru á markaði.
Verð nær allra vöruflokka sem Smásöluvísitalan nær til lækkaði í árssamanburði í maí en einungis skófatnaður hækkaði í verði, um 3,5% frá maí í fyrra.
Raftækjaverslun jókst í maí síðastliðnum en velta svokallaðra hvítra raftækja (þvottavélar, ísskápar og o.s.fr.) var 13,7% meiri í maí síðastliðnum samanborið við maí 2016 á breytilegu verðlagi. Á sama mælikvarða jókst velta með tölvur og jaðarbúnað um 18,7%, velta brúnvara (sjónvörp o.fl.) um 3,8% og velta farsíma um 2,8% samanborið við sama mánuð í fyrra. Líkt og í dagvöruverslun miðar mælingin við þær verslanir sem fyrir voru og tekur ekki til veltu Costco.
Velta í byggingavöruverslun jókst um 10,6% í maí síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi, þá jókst velta sérverslana með gólfefni um 17,9% á sama tímabili. Verð byggingavara hefur lækkað um 1,2% frá sama mánuði í fyrra en verð gólfefna hefur lækkað um 1%
Markaðshlutdeild lágvöruverðsverslana á Norðurlöndunum
Ef horft er til áhrifa á markaðshlutdeild fjölþjóðlegra lágvöruverðsverslana, sem hafa haslað sér völl í hinum Norðurlöndunum, sést að markaðshlutdeild þeirra er á bilinu fj
ögur til átta prósent af smásölumarkaði með dagvöru. Hvort það hlutfall hefur forspárgildi hér á landi vegna komu Coscto er nokkurri óvissu háð, en gætu þó gefið vísbendingar.
Þær lágvöruverðsverslanir sem hér er vísað til á hinum Norðurlöndunum eru einkum Lidl og Aldi, sem hafa takmarkað vöruúrval, selja gjarna í stórum einingum og leggja áherslu á lægra vöruverð en í þeim verslunum sem bjóða breiðara vöruval og hafa meiri þjónustu. Costco er að nokkur leyti líkt ofangreinum lágvöruverðsverslunum en hafa einnig önnur einkenni því þar er að finna ýmislegt fleira en matvörur og viðskiptamódelið byggir á áskriftargjaldi viðskiptavina. Þá er Costo frábrugðið lávöruverðskeðjunum í Skandinavíu að því leyti að hér er aðeins ein verslun en á Norðurlöndunum eru útsölustaðirnir mun fleiri.
Eins og sjá má af meðfylgjandi skýringarmyndum hefur lágvöruverðskeðjan Lidl um 4% markaðshlutdeild í Svíþjóð og liðlega 8% í Finnlandi. Samsetning þeirra verslana sem skilgreina má sem lágvöruverðsverslanir er nokkuð mismunandi á milli landa, en heildarmyndin sýnir að innlendu dagvöruverslunarkeðjurnar hafa yfirburðastöðu í öllum löndunum.
Athyglisvert er einnig að á öllum Norðurlöndunum eru tvær til þrjár verslunarkeðjur sem ráða langstærstum hluta markaðarins. Þetta á jafnt við um Ísland sem og hin Norðurlöndin.
Velta smásöluverslana í maí
Velta í dagvöruverslun jókst um 1,2% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í maí um 3% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 3,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í maí 0% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 7,7% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í maí um 4,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í maí síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 17,7% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 11,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 6,5% lægra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 2,5% í maí á breytilegu verðlagi og minnkaði um 5,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -3,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í maí um 3,5% frá maí í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 14,2% meiri í maí en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 23,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 7,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 13,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 7,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í maí um 10,6% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 11,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,2% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 17,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum jókst í maí um 18,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 2,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 3,8% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 13,7% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.
Fréttatilkynning RSV.
24/05/2017 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnaar nam erlend greiðslukortavelta 18,6 milljörðum króna í apríl samanborið við 14,6 milljarða í sama mánuði í fyrra en um er að ræða 27,7% vöxt á tímabilinu. Þó ríflega fjórðungs vöxtur sé vissulega töluverð aukning virðist þó nokkuð vera að draga úr þeim mikla hlutfallsvexti sem hefur verið á kortaveltu ferðamanna undanfarin misseri. Vöxtur síðustu þriggja mánaða (febrúar til apríl) frá sama tímabili í fyrra hefur verið 29% en að meðaltali var árlegur hlutfallsvöxtur síðustu 12 mánuði þar á undan 52%. Vöxturinn í apríl er einnig minni í krónum talið en frá apríl 2016 jókst kortaveltan um 4 milljarða samanborið við 5,3 milljarða í apríl í fyrra.
Gengi krónunnar var 17,5% hærra gagnvart helstu viðskiptagjaldmiðlum í apríl síðastliðnum borið saman við apríl 2016. Ekki er ótrúlegt að sterkara gengi eigi sinn þátt í því að kortavelta vex minna núna en áður. Til að setja gengisstyrkinguna í samhengi má segja að kortavelta erlendra ferðamanna í apríl hafi aukist um 50% mælt í viðskiptagjaldmiðlum Íslands samanborið við áðurnefnd 27,7% mælt í íslenskum krónum.
Mest jókst erlend kortavelta í bensín, viðgerðir og viðhald, um 76,5% og dagvöruverslun 66,2% í apríl síðastliðnum. Aukning erlendrar kortaveltu dagvöruverslana umfram aðra liði kann að vera til marks um breytt neyslumynstur erlendra ferðamanna en undanfarna mánuði hefur hlutfallsleg aukning erlendrar kortaveltu dagvöruverslana verið töluvert meiri en á erle
ndri kortaveltu alls.
Stærsti einstaka liður kortaveltu erlendra ferðamanna eru farþegaflutningar með flugi og nam kortavelta aprílmánaðar 4,5 milljörðum króna og jókst um 38,1% frá apríl í fyrra. Sem fyrr er vakin athygli á því að hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er innifalinn í tölunum.
Erlendir ferðamenn greiddu 33,9% meira með kortum sínum til hótela og gistiheimila í apríl síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra. Kortavelta flokksins nam 3,3 milljörðum í apríl samanborið við 2,5 í apríl 2016. Þá var kortavelta veitingastaða 1,9 milljarðar króna í apríl eða 34,3% meiri en í sama mánuði í fyrra.
Aukning kortaveltu í flokknum ýmis ferðaþjónusta sem inniheldur meðal annars þjónustu ýmissa ferðaskipuleggjenda, dagsferðir og fleira var 13% í apríl og nam 2,5 milljörðum í apríl í ár samanborið við 2,2 milljarða í sama mánuði 2016.
Líkt og áður sagði var dagvöruverslun ferðamanna lífleg í apríl en heldur minni vöxtur varð í örðum flokkum verslunar í mánuðinum. Þannig jókst fataverslun um 27,7%, gjafa- og minjagripaverslun um 19,3% og tollfrjáls verslun um 32,6%. Önnur verslun dróst saman um tæplega 1% frá apríl í fyrra.
Fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll samkvæmt mælingu ferðamálastofu var ríflega 153.500 í apríl síðastliðnum samanborið við 94.900 ferðamenn í apríl í fyrra. Um er að ræða 61,8% aukningu á milli ára.
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 121 þús. kr. í apríl, eða um 3% meira en í mars. Það er um 21% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Ferðamenn frá Bandaríkjunum greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í apríl eða 168 þús. kr. á hvern ferðamann. Kanadamenn eru í öðru sæti með 162 þús. kr. á hvern ferðamann. Svisslendingar koma þar næst með 152 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.
Fréttatilkynningin frá RSV