Fögnum niðurfellingu tolla næstu áramót

Barnavagnar, barnaleikföng og snuð eru dæmi um vörur sem bera núna tolla sem falla niður.
Frá og með  1. janúar 2017 hafa allir tollar verið felldir niður hér á landi nema af hluta af matvöru.  Þetta verður  mikil kjarabót eins og hefur sýnt sig við niðurfellingu á almennum vörugjöldum 1. janúar 2015 og síðan niðurfellingu á tollum á fötum og skóm 1. janúar 2016.

Skilar niðurfellingin sér til neytenda?
Þrátt fyrir gagnrýnisraddir um annað þá hefur niðurfelling tolla og vörugjalda skilað sér til neytenda eins og efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hefur ítrekað sýnt fram á með tölulegum gögnum. Þetta getur hinn almenni neytandi einfaldlega sannreynt með því að skoða breytingu á vísitölu þessara vara.  Neytendur finna þetta einnig á verulegri verðlækkun á þeim vörum sem áður báru þessi gjöld s.s. eldavélum, sjónvörpum, salernum og bílavarahlutum. Einnig hafa föt og skór lækkað töluvert. Þetta hefur haft góð áhrif á þróun verðlags sem kemur öllum til góða.

Það skal þó tekið fram að tollar höfðu þegar verið  felldir niður af vörum sem komu frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og ríkjum sem gerðir hafa verið fríverslunarsamningar við, s.s. Kína, og báru því um 40% af innfluttum fötum og skóm engan toll þegar tollar voru felldir niður af þessum vörum um síðustu áramót. Niðurfelling á almennum vörugjöldum og tollum  hefur ekki eingöngu haft áhrif á verð á tilteknum vörum til neytenda heldur einnig mjög jákvæð áhrif á vísitöluna eins og áður sagði og þar með á verðtryggð lán landsmanna.  Því er hagur neytenda af tollaniðurfellingu ekki eingöngu mældur í lægra vöruverði.

Fyrir hverja er niðurfelling tolla og vörugjalda?
Niðurfelling tolla og vörugjalda gagnast fyrst og fremst neytendum og þá ekki síst þeim tekjulægri. Hin þjóðhagslegu áhrif hafa einnig verið jákvæð. Þannig hefur innlend verslun aukist í kjölfar þessara breytinga, skattgreiðslur fyrirtækjanna hækkað og störfum í verslun fjölgað.  Sjálfsagt hefur þetta líka haft þau áhrif  að þekktar erlendar verslunarkeðjur horfa nú í auknum mæli til Íslands sem ákjósanlegs vettvangs fyrir starfsemi sína. Samtök verslunar og þjónustu hafa lagt áherslu á  mikilvægi  þess fyrir íslenskt samfélag að  sem stærstur hluti verslunar landsmanna fari fram hér á landi, slíkt eykur vöruframboð og hefur jákvæð áhrif á vöruverð. Þannig verði tryggt að íslensk verslun starfi á samkeppnislegum grunni gagnvart erlendri verslun og að opinber álagning hér á landi raski ekki þeirri samkeppni.

Hvaða breytingar verða 1. janúar 2017?
Nú standa einungis eftir tollar á aðrar vörur sem og tollar af hluta af matvörum.  Dæmi um vörur sem tollar verða felldir niður af næstu áramót eru barnavagnar, leikföng, reiðtygi, ýmsar hreinlætisvörur, heimilisvörur   og húsgögn. Þessar breytingar eru enn ein kjarabótin fyrir heimilin sem skilar sé í lækkun á vöruverði og hefur því áhrif til lækkunar verðbólgu og kaupmáttaraukningu fyrir heimilin.

Samtök verslunar og þjónustu fagna þessum breytingum og eru verslunarmenn þegar farnir að undirbúa sig undir þær.

Birt á visir.is 25. okt. 2016
Höfundar: Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ og Margrét Sanders formaður SVÞ

Veltuaukning í allri tegund verslunar

Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt samantekt fyrir septembermánuð sem sýnir að mikil veltuaukning var í smásöluverslun í síðasta mánuði og greinileg merki um kaupmáttaraukningu frá sama mánuði í fyrra. Í sumum vöruflokkum jókst veltan um fjórðung frá því í fyrra, má þar nefna húsgögn, byggingavöru og snjallsíma. Matur og drykkur var heldur ekki skorinn við nögl því velta dagvöruverslana var 9,1% meiri en í september í fyrra og velta áfengisverslana var 30% meiri en í sama mánuði í fyrra.
Við samanburð á veltu áfengis milli ára þarf að hafa í huga kerfisbreytingar sem urðu um síðustu áramót á virðisaukaskatti og áfengisgjaldi sem skekkir samanburð þegar horft er að vöxt án virðisaukaskatts. Engu að síður jókst sala áfengis í september, í lítrum talið, um 15,7% á milli ára.
Kippur varð í fataverslun í september, sem var 8,3% meiri en í september í fyrra. Að magni til jókst sala á fötum 14,8%. Magnaukningin orsakast af því að verð á fötum var 5,7% lægra en í samanburðarmánuðinum í fyrra. Þetta skýrist væntanlega aðallega af afnámi tolla á föt um síðustu áramót.

Þó vöxtur í sölu raftækja sé ekki eins afgerandi og í öðrum flokkum, í samanburði söluna í sama mánuði í fyrra skýrist það af mikilli sölu í fyrra. Þó var velta í sölu á snjallsímum 28,7% meiri en í fyrra. Mikill uppgangur er enn í húsgagnaverslun sem sést á því að veltan var fjórðungi meiri en í september í fyrra. Velta sérverslana sem selja rúm jókst um 65% á milli ára og sala skrifstofuhúsgagna um 36%. Þá njóta byggingavöruverslanir góðs af uppsveiflu í húsbyggingum þar sem salan jókst um 23,6%.

Kortavelta Íslendinga í september nam 73,9 milljörðum eða 5,5% meira en í sama mánuði 2015 samkvæmt tölum Seðlabankans. Af þeirri fjárhæð greiddu Íslendingar 10,3 milljarða erlendis en 63,6 milljarða hér á landi. Erlend kortavelta hérlendis nam í september 21,7 milljörðum og standa erlendir ferðamenn því að baki ríflega fjórðungi kortaveltu hérlendis þó komið sé fram í september. Nánar verður rýnt í kortaveltu erlendra ferðamanna þegar Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlegar tölur sínar á næstu dögum.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 9,1% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 8,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í september um 7,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,2% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 30% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 29,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 19% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í september síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun jókst um 8,3% í september miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 14,8% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,7% lægra í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar jókst um 16,4% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 13,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í september um 2,3% frá september í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 25,5% meiri í september en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 22,7% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 64,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 35,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2,3% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 23,6% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 23,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst í september um 2,6% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 28,7%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 0,2% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 1,4% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

Sala húsgagna eykst um þriðjung

Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinna mublera landsmenn hjá sér heimilin sem aldrei fyrr. Í ágúst síðastliðnum var velta í húsgagnasölu 36% meiri en í sama mánuði í fyrra.  Síðastliðna sex mánuði hefur sala húsgagna verið að jafnaði um þriðjungi meiri en á sama tíma og í fyrra. Þó viðskipti með húsgögn hafi ekki náð sömu hæðum og var fyrir hrun hefur þessi tegund verslunar verulega rétt úr kútnum að undanförnu. Sala húsgagna var í ágúst síðastliðnum 66% meiri að magni til (á föstu verðlagi) en í ágúst 2010.  Hins vegar þegar húsgagnasala er borin saman við ágúst 2007 sést að salan þá var 29% meiri en hún var í ágúst síðastliðnum. Ef fram heldur sem horfir verður húsgagnasala orðin meiri eftir ár en hún var fyrir hrun.

Aukinn ferðamannastraumur hefur jákvæð áhrif á sölu húsgagna. Þó vissulega séu erlendir ferðamenn ekki tíðir viðskiptavinir húsgagnaverslana þá krefst umbúnaður ferðaþjónustuaðila mikilla fjárfestinga. Reglulega þarf að endurnýja húsgögn og húsbúnað á hótelum, heimagististöðum og í gistihúsum. Húsgagnaverslanir njóta góðs af því.

Sala í stærsta vöruflokk smásöluverslunar, sem er matur og drykkjavörur, eykst áfram hratt. Í ágúst síðastliðnum var 8,4% meiri sala en í ágúst í fyrra, sem er álíka vöxtur og hefur verið undanfarna mánuði. Að öllu jöfnu eru ekki miklar sveiflur í veltu í flokki dagvöruverslana og því er þessi vöxtur nokkuð mikill þegar horft er yfir lengra tímabil.

Byggingavöruverslun blómstrar nú sem aldrei fyrr, og kemur sjálfsagt fæstum á óvart. Í síðasta mánuði var næstum 20% meiri velta en í sama mánuði í fyrra. Í þeim tölum er bæði sala vegna nýbygginga og endurnýjunar á húsnæði.
Heldur meiri sala var í raftækjum, tölvum og snjallsímum í ágúst síðastliðnum en 12 mánuðum áður. Í ágúst eru venjulega útsölur á raftækjum. Sú vörutegund sem mestar sveiflur urðu í, í þessum vöruflokki, voru tölvur. Líklega hefur upphaf skólaársins í ágúst, og endurnýjun á tölvum þess vegna, haft þar mest áhrif.

Litlar breytingar voru á veltu fata- og skóverslana í ágúst. Verðlag hefur þó lækkað töluvert í samanburði við ágúst í fyrra sem ræðst fyrst og fremst af afnámi 15% tolla á fatnað um síðustu áramót.

Verðlag hefur almennt lítið breyst í smásöluverslunum. Verð á dagvöru og áfengi hefur hækkað um 0,8% á síðustu tólf mánuðum, verð á fötum lækkaði á sama tímabili um 6,2% og verð á húsgögnum hækkaði um 2%.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,4% á breytilegu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í ágúst um 8,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,8% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,4% hærra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 18,6% á breytilegu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 17,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 18% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í ágúst síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun jókst um 0,3% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 6,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 6,2% lægra í ágúst síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 0,8% í ágúst á breytilegu verðlagi og minnkaði um 4,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -4,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í ágúst um 4,2% frá ágúst í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 35,7% meiri í ágúst en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 33,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 7,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 19,6% í ágúst á breytilegu verðlagi og jókst um 18,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst í ágúst um 9,4% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 4,5%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,5% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 6,2% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

Löggjöf um innflutning á vörum úr eggjum og mjólk í andstöðu við EES samninginn

Eftirlitsstofnun EFTA sendi frá sér neðangreinda fréttatilkynningu í dag. Þess ber að geta að þessi niðurstaða eftirlitsstofnunarinnar kemuesa_logo_col_600r í beinu framhaldi af niðurstöðu EFTA dómstólsins um innflutningsbann á hráu kjöti, en Samtök verslunar og þjónustu áttu frumkvæði að þeim málarekstri.

Fréttatilkynningin
Innri markaður: Innflutningstakmarkanir á Íslandi á vörum úr eggjum og mjólk brjóta í bága við EES – samninginn

Íslensk löggjöf um innflutning á vörum úr eggjum og mjólk frá öðrum EES-ríkjum er ekki í samræmi við EES-samninginn. Innflutningstakmarkanirnar geta valdið innflutningsaðilum erfiðleikum við að koma vörum sínum á markað. Þetta er niðurstaða rökstudds álits sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi frá sér í dag.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á hráum eggjum og vörum úr þeim sem og ógerilsneyddri mjólk og mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar. ESA telur að þessar kröfur stangist á við tilskipun 89/662/EBE um eftirlit með dýraheilbrigði.

Vörur úr eggjum og mjólk sem viðskipti eru með innan Evrópska efnahagsvæðisins lúta nákvæmum reglum um heilbrigðiseftirlit í framleiðsluríkinu.  Eftirlit í viðtökuríki er hins vegar takmarkað við stikkprufur. Yfirgripsmikið regluverk ESB, sem er hluti af EES-samningnum, er sérstaklega hannað til að  draga úr áhættu og minnka líkur á að sjúkdómsvaldar berist milli landa. Víðtækt kerfi varúðarráðstafana er við lýði ef hætta skapast á útbreiðslu sjúkdómsfaraldurs í EES-ríkjum.

Í dómi sínum í máli E-17/15 Ferskar kjötvörur ehf v. íslenska ríkið komst EFTA dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að sambærilegar kröfur íslenska ríkisins varðandi innflutning á hráu kjöti stönguðust á við tilskipun 89/662/EBE. ESA telur hið sama gilda um innflutningstakmarkanir á vörum úr eggjum og mjólk.

ESA rekur einnig samningsbrotamál gegn Íslandi vegna innflutnings á hráu kjöti og sendi stofnunin íslenskum yfirvöldum rökstutt álit í október 2014. Þá hefur ESA einnig óskað eftir viðbrögðum íslenskra stjórnvalda í kjölfar niðurstöðu EFTA dómstólsins. Enn sem komið er hafa engar laga-eða reglubreytingar átt sér stað.

Rökstutt álit er annað skref í meðferð samningsbrotamáls. Hafi íslensk stjórnvöld ekki brugðist við innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

Til frekari upplýsinga er eftirfarandi hlekkur inn á heimasíðu ESA þar sem fjallað er um málið: http://www.eftasurv.int/press–publications/press-releases/internal-market/innri-markadur-innflutningstakmarkanir-a-islandi-a-vorum-ur-eggjum-og-mjolk-brjota-i-baga-vid-ees-samninginn

Árbók verslunarinnar 2016

Rannsóknasetur verslunarinnar og Kaupmannasamtök Íslands hafa gefið út Árbók verslunarinnar 2016 þar sem farið er yfir þróun og stöðu íslenskrar verslunar í tölum og texta. Þetta er níunda árið í röð sem Árbók verslunarinnar er gefin út.  Að þessu sinni er sérstakur kafli helgaður verslun í Reykjavík, en auk þess er farið yfir umfang smásölumarkaðarins á síðasta ári og þróun hans á undanförnum árum.

Árbók verslunarinnar 2016

Árbók verslunarinnar er ætlað að veita þeim sem reka verslun nytsamlegar upplýsingar sem nýtast við stjórnun og ákvarðanatöku. Bókin nýtist einnig þeim sem stunda hagrannsóknir, stjórnvöldum og öðrum þeim sem þurfa á að halda upplýsingum um stöðu og þróun verslunar.

Í Árbók verslunarinnar 2016 kemur fram að:
•    á árinu 2015 var heildarvelta smásöluverslunar án virðisaukaskatts tæpir 400 milljarðar króna samanborið við 376 milljarða árið áður. Vöxtur í veltu frá fyrra ári var því 5,8% og hefur ekki verið meiri á milli ára frá hruni.
•    stærsti einstaki vöruflokkur smásöluverslunar 2015 var í flokknum „dagvara og stórmarkaðir“. Velta í þeim flokki nam um 208 milljörðum kr.
•    ytri skilyrði verslunar hafa sjaldan verið betri. Kaupmáttur launa Íslendinga var í lok 2015 í sögulegu hámarki og hafði aukist um 8% á einu ári. Einkaneysla jókst um 5% á milli ára. Skuldir heimilanna dragast saman.
•    fjöldi skráðra smásöluverslana í landinu voru 2.258 í lok ársins 2015, sem er nánast sami fjöldi og árið áður. Af þessum verslunum voru flestar í flokki fataverslana. Mest fjölgun var hins vegar í flokki netverslana, eða um 6%.
•    hlutur verslunar í landsframleiðslu var 9,6% árið 2015 og hefur lítið breyst á milli ára. Framlag verslunar í landsframleiðslu er svipað og sjávarútvegs annars vegar og hefðbundins iðnaðar hins vegar.
•    erlendir ferðamenn greiddu með greiðslukortum sínum fyrir vörur í íslenskum verslunum árið 2015 fyrir 22,7 milljarða kr. sem er um 6% af heildarveltu íslenskra smásöluverslana. Erlend kortavelta í verslunum jókst um 23% frá árinu áður. Mest keyptu ferðamennirnir í dagvöruverslunum.
•    alls störfuðu 23.800 manns við verslun árið 2015 sem er um 13% af heildarvinnuafli landsins. Starfsmönnum í verslun fjölgaði um 600 frá árinu áður. Karlar sem störfuðu við verslun voru 2.700 fleiri en konur í greininni.
•    áætlað er að velta innlendrar netverslunar árið 2015 hafi verið að lágmarki um 5 milljarðar króna og aukist um 27% frá árinu áður.
Í Árbók verslunarinnar er auk þessa ítarleg greining á ýmsum lýðfræðilegum þáttum eftir landssvæðum. Þar koma meðal annars fram breytingar á fjölda íbúa eftir landssvæðum,
aldursskiptinu og kyni.

Hvað þýðir Brexit fyrir verslun í Evrópu?

Á fundi norrænna systursamtaka SVÞ sem haldinn var í Finnlandi fyrir skömmu var m.a. fjallað um mögulegar afleiðingar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu fyrir verslun í Evrópu. EuroCommerce, Evrópusamtök verslunarinnar, hafa greint stöðuna eftir því sem unnt er en ljóst er að mikið óvissutímabil fer nú í hönd, þar sem ekki liggur enn fyrir hvernig Bretar hyggjast haga aðskilnaði sínum við Evrópusambandið. Það eina sem liggur ljóst fyrir er að þeir munu yfirgefa sambandið, eða eins og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands hefur sagt „Brexit means Brexit“.

Búast má við að það taki um tvö ár að ganga frá aðskilnaðinum. Hvað gerist í kjölfarið er hins vegar að verulegu leyti óljóst.
Hvernig munu Bretar haga samskipum sínum við ESB? Munu þeir reyna að tengjast samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og Íslendingar og Norðmenn? Telja verður það ólíklega niðurstöðu. Mun líklegra er að þeir muni stefna að tvíhliða samningi við Evrópusambandið, líkt og Sviss hefur gert.

Búast má við að innfluttar vörur frá Bretlandi verði dýrari með frekari veikingu pundsins, sem flestir spá að verði. Það mun eðlilega hafa áhrif á eftirspurn eftir breskum vörum í Evrópu.

Það sem forsvarsmenn verslunarinnar í Evrópu hafa þó mestar áhyggjur af, er hin víðtækari afleiðing Brexit á viðskipti innan Evrópu. Margir óttast að sjónarmiðum verndarstefnu, þar sem tæknilegar viðskiptahindranir og mismunun einstakra aðildarríkja ESB gangvart erlendum fyrirtækjum, vaxi fiskur um hrygg. Nokkur slík dæmi hafa þegar komið upp, t.d. í Ungverjalandi og Póllandi. Það er því hið pólitíska landslag í Evrópu sem er aðaláhyggjuefnið, þar sem sjónarmiðum þjóðernisstefnu vex fiskur um hrygg. Samningaviðræður Bretlands og ESB munu fljótlega leiða í ljós hvor leiðin verður farin, leið frjálsra viðskipta eða leið verndarstefnu með tilheyrandi viðskiptahindrunum.