07/05/2018 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stjórnvöld
Meðfylgjandi er sameiginleg fréttatilkynning Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu vegna erindis sem samtökin hafa sent á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem óskað er upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti. Tilefni þessa erindis er frétt ráðuneytisins frá því í síðustu viku þar sem boðaðar voru breytingar á þeirri framkvæmd.
Nánari upplýsingar gefa:
- Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
- Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, s. 824-1225
Fréttatilkynning
Erindi SVÞ og NS vegna útreikninga tollkvóta á kjöti
25/04/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Nýkjörin stjórn SSSK, frá vinstri: Ingibjörg Jóhannesdóttir, Þórdís Jóna Sigurðardóttir varaformaður, Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður, Jón Örn Valsson, María Sighvatsdóttir, Guðmundur Pétursson, Sigríður Stephensen og Gísli Rúnar Guðmundsson.
Aðalfundur SSSK var haldinn þriðjudaginn 24. apríl í Kviku, Húsi atvinnulífsins. Þar var Sara Dögg Svanhildardóttir, Arnarskóla, kjörin formaður SSSK og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar var kjörin varaformaður. Meðstjórnendur voru kjörnir: Gísli Rúnar Guðmundsson, skólastjóri grunnskólans NÚ, Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf og María Sighvatsdóttir, leikskólastjóri Vinagarði.
Varamenn voru kjörnir: Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri LFA ehf og Sigríður Stephensen, leikskólafulltrúi og leikskólastjóri hjá Félagsstofnun stúdenta.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.
Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, stýrði fundi.
Að hefðbundnum aðalfundarstörfum loknum fór Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni: Ársskýrsla SSSK 2017
Hér má lesa ársreikninginn í heild sinni: Ársreikningur SSSK 2017
23/04/2018 | Fréttir, Viðburðir
Samtök verslunar og þjónustu boða til fundar miðvikudaginn 2.maí kl. 8:30 – 10.00 í Kviku, Borgartún35.
Morgunverður í boði frá kl. 8.00.
Dagskrá:
Erlend ferðamannaverslun og netverslun – upplýsingar úr greiðslumiðlun
Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknarsetur verslunarinnar.
Íslensk ferðaþjónusta
Bjarnólfur Lárusson, viðskiptastjóri í Verslun og þjónustu og Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur í Samskiptum og greiningu hjá Íslandsbanka kynna nýja skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu.
Fundarstjóri verður Margrét Sanders, formaður SVÞ
Fundurinn er opinn öllum en uppbókað er á hann og greinilegt að mikill áhugi er fyrir þessu umfjöllunarefni.
17/04/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla, Viðburðir
Aðalfundur Samtaka sjálfstæðra skóla verður haldinn þriðjudaginn 24. apríl 2018 milli kl. 15:00 og 16.30 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Kviku, 1. hæð
Setning: Kristján Ómar Björnsson, formaður SSSK
Margrét Theodórsdóttir, skólastjóri Tjarnaskóla, stýrir fundinum.
Hefðubundin aðalfundastörf skv. 7. grein samþykkta:
- Skýrsla stjórnar
- Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna
- Umræður um skýrslu og reikninga
- Félagsgjöld ársins
- Kosning formanns og varaformanns
- Kosning meðstjórnenda og varamanna
- Kosning tveggja skoðunarmanna
- Önnur mál
Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum fer Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.
Framboð til stjórnar þurfa að berast formanni stjórnar í síðasta lagi fyrir upphaf aðalfundar.
Fulltrúar rekstraraðila, skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og aðrir stjórnendur eru hjartanlega velkomnir.
Skráning hjá aslaug@svth.is
13/04/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13.04.18.
Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sem haldinn var fyrir nokkru var vandi greinarinnar mjög til umræðu. Ætti það ekki að koma neinum á óvart enda hefur þessi vandi verið til umræðu í einhverri mynd, svo lengi sem undirritaður hefur fylgst með. Á undanförnum árum og áratugum er búið að verja gífurlegum fjárhæðum af opinberu fé í tilraunum til að leysa vandann, bæði með beinum og óbeinum framlögum, m.a. með fjárframlögum til að leita nýrra markaða fyrir íslenskar sauðfjárafurðir. Þrátt fyrir öll þessi opinberu inngrip, er staða íslenskra sauðfjárbúa nú verri en nokkru sinni fyrr. Afurðastöðvarnar, sem eru að mestu í eigu bænda, hafa s.l. tvö ár tilkynnt eigendum sínum um verulega lækkun á afurðaverði. Skýringar sem gefnar hafa verið eru tímabundnir erfiðleikar á erlendum mörkuðum. Enn var því seilst í vasa skattgreiðenda s.l. haust þegar 665 milljónum króna var úthlutað til að leysa hinn tímabundna vanda. Svo vísað sé til mats sauðfjárbænda sjálfra er staðan í greininni sú að búin teljast vart rekstrarhæf.
Erfitt er að sjá hvernig vandi greinarinnar geti verið tímabundinn. Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Sláturfélags Suðurlands er framleiðsla á kindakjöti um 50% umfram innanlandsmarkað. Útflutningur, án opinbers stuðnings, mun í fyrirsjáanlegri framtíð ekki geta skilað þeim tekjum sem réttlætt geta útflutning. Hann skilar afurðastöðvunum 30 – 50% lægra verði en innanlandsmarkaður.
Þrátt fyrir að afurðastöðvar séu flestar í eigu bænda dró formaður Landssamtaka sauðfjárbænda upp þá mynd af stöðunni, að bændur væru valdalausir í verðlagsmálum sínum og vandi þeirra lægi fyrst og fremst í „fákeppni í smásölunni“. Sala og markaðssetning sauðfjárafurða á innanlandsmarkaði er í höndum afurðastöðvanna. Afurðastöðvarnar eru í sömu stöðu og aðrir birgjar á markaði, hvort sem þeir heita heildsalar eða iðnrekendur, afurðir þeirra er í samkeppni við aðrar vörur um hylli neytenda. Sú spurning er óneitanlega áleitin hvort afurðastöðvarnar hafi sinnt þörfum viðskiptavina sinna vel, t.d. varðandi vöruþróun.
Vandi sauðfjárbænda hefur ekkert með aðstæður á smásölumarkaði að gera. Vandi sauðfjárbænda er einfaldlega sá að þeir framleiða langt umfram það sem markaðurinn hefur þörf fyrir. Fyrsta verkefnið til lausnar á vanda greinarinnar hlýtur því að vera að aðlaga framleiðsluna að þörfum markaðarins og að sinna betur þörfum viðskiptavina sinna.
09/04/2018 | Fréttir, Stjórnvöld, Umsagnir
Í sameiginlegri umsögn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samorku, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Viðskiptaráðs Íslands voru gerðar alvarlegar athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga.
Fulltrúar samtakanna fylgdu umsögninni eftir með fundi með Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og embættismönnum. Á þeim fundi kom fram vilji til að koma til móts við einhverjar athugasemdir samtakanna, en hvergi nærri allar.
Þá er mjög líklegt að innleiðingu á löggjöfinni verði ekki lokið fyrir 25. maí nk., þegar hún tekur gildi í Evrópusambandinu.
Samtökin hafa varað við því að hætta gæti verið á því að einhver erlend fyrirtæki væru tregari til að ganga til samninga við íslensk fyrirtæki þar sem reynir á vernd persónuupplýsinga. Til þess að koma í veg fyrir það gæti þurft að útskýra fyrir þeim að persónuupplýsingar séu nægjanlega verndaðar hér þótt reglugerð Evrópusambandsins hafi ekki enn verið innleidd.
Samtökin lögðu áherslu á það á fundinum að ráðuneytið myndi setja upplýsingar um stöðu innleiðingarinnar á íslensku og ensku á vef sinn fyrir íslensk fyrirtæki og viðsemjendur þeirra.
Sjá nánar: