Námskeið – Omni channel sala og markaðssetning

SVÞ býður félagsmönnum á námskeið þar sem kynnt verður hvernig hægt er að greina tækifæri í kaupferlinu til að hefja Omni channel innleiðingu.

Omni channel innleiðing í verslun og þjónustu snýst um að samþætta alla kanala og snertifleti sem viðskiptavinir nota í kaupferlinu til að mæta breyttri kauphegðun og auknum kröfum viðskiptavina.

Greining á kaupferlinu er lykilskref í Omni Channel innleiðingu sem sýnir hvar fyrirtæki eru hugsanlega að tapa sölu og viðskiptavinum, hvar óánægja meðal viðskiptavina getur komið upp og af hverju og hvernig allir kanalar tengjast (skref 1) áður en fyrirtæki móta sér Omni channel stefnu, setja sér markmið og hefja aðgerðir (skref 2).

Á námskeiðinu verður farið yfir hvernig  fyrirtæki geta greint kaupferli viðskiptavina (Customer Purchase Journey) til að koma auga á tækifæri til að bæta upplifun viðskiptavina (Customer experience), með tilliti til Omni Channel sölu og markaðssetningar.

Ávinningurinn er aukin sala, tryggð og aðgreining.

2017-11-02_09-40-43

 

Annað námskeið verður svo haldið í janúar 2018 þar sem farið verður yfir skref 2: Omni channel stefnu, markmið og aðgerðir.

Stjórn námskeiðs: Edda Blumenstein, sem er ráðgjafi í Omni channel og vinnur að doktorsrannsókn á Omni Channel við Leeds University Business School.

Staður og stund: Kvika, Borgartúni 35, kl. 8:30 – 10:00 mánudaginn 6. nóvember 2017.

Létt morgunhressing í boði frá kl. 8.15

 

Oops! We could not locate your form.

Þegar námsvalkosti vantar!

Árið 2016 höfðu um 27.000 manns atvinnu af heild- og smásöluverslun samkvæmt vinnumarkaðsgögnum Hagstofunnar. Störfin eru um 14% allra starfa í atvinnulífinu. Á sama tíma er námsferill fólks í verslun og þjónustu oft flókinn, langur og óskýr. Það er lítið sem ekkert framboð af námi fyrir ungt fólk sem vill velja sér starf í verslun og þjónustu. Það vantar upphafið, það vantar grunninn. Nær öll störf eru þjónustustörf. Rúmlega fjórðung af heildarveltu hagkerfisins má rekja til verslunarinnar. Átta prósent af landsframleiðslu Íslands árið 2015 kom frá versluninni og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi. Ferðaþjónustan vex hratt og glímir að hluta til við sömu áskoranir. Það eru því mikil tækifæri sem felast í því að í boði verði braut á framhaldsskólastigi sem nýtist í slíku starfi og jafnframt til áframhaldandi náms.

Starfshópur á vegum SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu hefur unnið að undirbúningi slíkrar námsbrautar í samvinnu við Tækniskólann. Stúdentsbraut með áherslu á stafrænar lausnir þar sem lögð verður áhersla á sérhæfingu innan markaðsfræði, rekstarmála, mannlegra samskipta og starfsnáms.  Stefnt er að því að nemendur sem útskrifast af brautinni verði vel í stakk búnir til þess að skapa sín eigin viðskiptatækifæri, hafi góða þekkingu á stafrænum lausnum  ásamt því að fá góðan undirbúning fyrir fjölbreytt ábyrgðarstörf tengdum verslun og þjónustu.  Að auki verður nám á fagháskólastigi í verslun og þjónustu sett á laggirnar um áramótin en námið verður í boði bæði í Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst. Þetta er fagnaðarefni enda tilheyra tæplega 5.000 íslensk fyrirtæki þessum hópi eða 6,9% allra fyrirtækja í landinu.

Þessir valkostir munu svara mikilli eftirspurn atvinnulífsins á starfskröftum með slíka menntun.

Höfundur: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntasviðs SVÞ

Greinin til útprentunar.

Tillögur SSSK að úrbótum í íslensku menntakerfi

Birt á visir.is 12.10.2017

Skólakerfið
Tökum stór skref í átt að því að skapa fjölbreyttara skólakerfi og hverfum markvisst frá þeirri einsleitni sem þar ræður ríkjum.

Nemandinn
Viðurkennum ólíkar þarfir ólíkra nemenda og kappkostum að mæta þeim.

Foreldrarnir
Veitum foreldrum val og treystum þeim til þess að velja það námsumhverfi sem þau telja að henti sínum börnum best.

Kennarinn
Aukum sjálfstæði kennara og sýnum þeim traust til þess að gera það sem þeir eru bestir í: Að kenna.

Einföldum kröfur á kennara og minnkum tíma þeirra sem fer í skriffinnsku.

Veitum kennurum, líkt og nemendum, möguleika á að velja starfsvettvang í ólíkum skólum og sérskólum þar sem þeirra sérsvið, þekking og áhugi getur nýst sem best
Innleiðum sveigjanleika í nám kennara og möguleikann á því að öðlast viss réttindi til kennslu á skemmri tíma.

Viðurkennum að kennsla er að talsverðu leyti listgrein; Engum dytti í hug að láta listamenn vinna eftir stimpilklukku!

Skólastjórnandinn
Tryggjum skólastjórum faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði til þess að skapa sínum nemendum besta mögulega námsumhverfið.

Minnkum miðstýringu að hálfu skólayfirvalda í sveitarfélögum og leggjum meiri ábyrgð á hendur skólastjórnenda og skólaráðs í hverjum skóla.

Höfundur: Kristján Ómar Björnsson formaður SSSK, Samtaka sjálfstætt starfandi skóla

Framsækið miðstýrt menntakerfi eru refhvörf

Birt á visir.is 11.10.2017

Mennta- og skólastarf á Íslandi hefur, í sögulegu samhengi, lengstum verið á höndum annarra aðila en ríkis eða sveitarfélaga. Fram að myndun þéttbýla á Íslandi var slíkt starf að mestu einskorðað við trúarhreyfingar og kennslu í heimahúsum. Stofnun Barnaskóla Reykjavíkur varð fyrir einstaklingsframtak árið 1830 en í byrjun 20. aldar voru 10% allra skólabarna í Reykjavík í því sem þá voru kallaðir einkaskólar. Á 19. öld. voru farandskólar settir upp víðsvegar en jafnvel eftir að íslensk stjórnvöld settu á lög um almenna fræðsluskyldu um 1900 þá hvíldi sú fræðsla að talsverðu leyti á heimilunum.

Elsta starfandi grunnskóla landsins var komið á fót á Eyrarbakka árið 1854 af athafnamönnum þar í sveit og sumir af elstu grunnskólum landsins hafa verið sjálfstæðir frá upphafi. Landakotsskóli var stofnaður 1896, Suðurhlíðarskóli hefur starfað undir ýmsum nöfnum frá 1905 og Skóli Ísaks Jónssonar reis árið 1926. Í seinni tíð hafa svo sjálfstæðir skólar eins og Tjarnarskóli og Hjallaskólarnir fest sig í sessi.

Á leik-, framhalds- og háskólastigi hefur fjöldi sjálfstæðra skóla vaxið sl. ár og fjölbreytni í námsframboði almennt aukist. Í ljósi þess og sögunnar er því merkilega hversu íhaldssöm viðhorf fyrirfinnast enn gagnvart sjálfstæðum grunnskólum. Það endurspeglast t.d. í því hversu torsótt það er fyrir sjálfstæða aðila að fá að stofna grunnskóla, sem útskýrir það að einungis rúm 2% íslenskra grunnskólanema sækja sjálfstæða grunnskóla sem er með því lægsta sem gerist meðal OECD-ríkjanna.

Frá ca. miðri síðustu öld hefur byggst upp einsleitt grunnskólakerfi á Íslandi. Einsleitni er líklega í eðli miðlægra kerfa enda má færa sannfærandi rök fyrir því að það ætti að vera skylda miðstýrðs skólakerfis á hendi hins opinbera að mismuna ekki nemendum sínum heldur bjóða þeim upp á nákvæmalega sama umhverfið, óháð því í hvaða hverfisskóla þeir eru. Vissulega fyrirfinnst nýsköpun og framsækni í opinberum grunnskólum og þá ekki síst í minni sveitarfélögum úti á landi þar sem miðstýringin er lítil og umhverfi skólanna líkara því sem sjálfstæðir skólar búa við.

Ein sterkustu rökin fyrir því að koma á skólakerfi þar sem fjölbreyttir valkostir mæta foreldrum og nemendum eru þau að í slíku kerfi er líklegra að hver nemandi finni nám við sitt hæfi þar sem honum gefst kostur á að nýta styrkleika sína, færni og áhugasvið. Önnur sterk rök fyrir því að æskilegt sé að greiða götu fleiri sjálfstætt starfandi grunnskóla lúta að breyttum kröfum nútímans og framtíðarinnar til starfandi fólks. Skólakerfi 20. aldarinnar kann að hafa dugað til þess að undirbúa nemendur fyrir fyrirsjáanlegt starfsumhverfi þess tíma en stöðugar tæknibyltingar nútímans gera þá kröfu á skólakerfið að það sé sveigjanlegra, frjálsara og í stöðugri framþróun.

Á Íslandi er lögbundin grunnskólaskylda og til þess að halda upp þeirri þjónustu borgar fólk skatta. Sveitarfélög innheimta útsvar til reksturs grunnskólanna í sínu umdæmi og hafa, lögum samkvæmt, algjörlega frjálsar hendur um hvort rekstur grunnskólanna sé á þeirra hendi eða annarra aðila. Það er eðlileg krafa að skattgreiðendur sem kjósa að senda sín börn til náms í sjálfstæðum skóla fái sömu þjónustu fyrir sína skattpeninga og þurfi ekki að greiða skólagjöld. Flestir sjálfstæðir skólar innheimta skólagjöld einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin ákveða að útdeila þeim minna rekstrarfé en sínum eigin. Þetta er óréttlátt og útilokar sjálfstæða skólann sem raunverulegt val fyrir þá efnaminni. Fé ætti að fylgja barni, óháð því hvaða skóla það og foreldrarnir velja.

Að lokum er mikilvægt að hafa í huga í umræðu um sjálfstæða skóla að ekki er löglegt að greiða arð út úr starfssemi sjálfstæðra grunnskóla á Íslandi, ólíkt mörgum öðrum löndum. Almennir sem og sjálfstæðir skólar á Íslandi hrærast í krefjandi rekstrarumhverfi og að athuguðu máli ætti engum að detta í hug að stofna grunnskóla á Íslandi til þess að græða pening, heldur til þess að skapa umhverfi þar sem framtíð landsins fær að vaxa og blómstra.

Höfundur er formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla (SSSK).

Samantekt frá SVÞ um netviðskipti

Svíar eru fyrirferðamestir í netverslun í Skandinavíu
Með því að kanna umfang viðskipta í Skandinavíu við erlendar netverslanir má fá almenna hugmynd um styrkleika innlendrar verslunar í löndunum. Ef hlutfall þeirra neytenda sem stunduðu netviðskipti í Skandinavíu á fyrri helmingi ársins 2017 er skoðað kemur í ljós að  í Svíþjóð höfðu hlutfallslega flestir verslað á netinu eða um 65% neytenda. Þrátt fyrir að Svíar kjósi í meira mæli að beina viðskiptum sínum í gegnum netið þá kaupa Svíar í auknum mæli vörur af innlendum aðilum á meðan Finnar hafa hæst hlutfall viðskipta við erlenda netverslun. Ástæða þessa er m.a. sú að fjöldi af sænskum netverslunum starfa í hagstæðu og samkeppnishæfu viðskiptaumhverfi á víðtækum grunni. Sænsk netverslun nær því að skapa sér hagstæða stöðu á þessu sviði, aðallega á grundvelli fjölbreytts vöruúrvals og með því að bjóða upp á notendavænar vefsíður. Mikilvægt er að læra af reynslu Svía og útfæra svipaðar lausnir hér á landi m.t.t. hagsmuna neytenda.  Að endingu má benda á að Svíar og Finnar hafa dregið úr kaupum bóka og kvikmynda erlendis frá en því má þakka hagstæðu verði og góðum afhendingarmöguleikum innanlands. Annar þáttur í þessu er að alþjóðlegir aðilar ná ekki að markaðssetja vöruna á tungumálum landanna.

Skýrsluna má nálgast hér.

Þá er það komið á hreint – Niðurfelling tolla og vörugjalda skilaði sér til neytenda

Birt á visir.is 16.10.2017
„Það er tilgangslaust að fella niður tolla og vörugjöld, verslunin skilar slíku aldrei til neytenda“. Þessa setningu og margar aðrar í svipuðum dúr hefur oft mátt lesa í fjölmiðlum undanfarin ár,  eða allt frá því að áform þáverandi stjórnvalda um afnám almennra vörugjalda og tolla voru kunngjörð haustið 2014. Það var svo sem ekki í fyrsta sinn sem verslun á Íslandi mátti sæta ásökunum í þessa veru, en segja má að slíkt hafi verið viðtekin venja tiltekinna afla, þegar skattkerfinu hefur verið breytt á þann veg að neytendur skyldu njóta ábatans.
Þeir eru margir pólitísku lukkuriddararnir sem hafa reynt að slá keilur með því að tortryggja verslunina í þessum efnum og þar með allan þann stóra hóp fólks sem starfar innan þeirrar mikilvægu atvinnugreinar.  Þá hafa sum hagsmunasamtök bæði launþega og neytenda ekki látið sitt eftir liggja, en þau hafa hvað eftir annað sett fram fullyrðingar á opinberum vettvangi, þar sem sömu eða svipaðar ávirðingar eru settar fram.
Í þessu efni hefur það litlu sem engu breytt þó að ítrekað hafi verið skýrt út með opinberlega staðfestum gögnum, að niðurfelling vörugjalda og niðurfelling tolla hafi skilað sér til neytenda, í formi lægra vöruverðs. Þeir eru nefnilega ótrúlega margir sem setja sannleikann í annað sæti þegar þeir sjá sér hag í slíku. En sem betur fer kemur hið rétta oftast í ljós að lokum.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur nú birt skýrslu sína „Áhrif afnáms tolla og vörugjalda á verðlag“, en skýrsla þessi er, eins og nafnið bendir til, samantekt þessarar virtu stofnunar á áhrifum umræddra skattkerfisbreytinga sem komu til framkvæmda í áföngum á tímabilinu 2015 til 2017. Í ályktunarorðum skýrslunnar, sem eru jafnframt lokaorð hennar segir: „Í stuttu máli lækkaði smásöluverð þeirra vara sem hér voru til skoðunar um leið og fyrirkomulagi neysluskatta var breytt. Svo virðist sem lækkun gjalda hafi að mestu skilað sér í vasa neytenda. Álagning kaupmanna lækkaði á flestum vörum í krónum talið“.
Nú verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þeir sem fyrr voru nefndir og hæst hafa látið gagnvart versluninni, bregðast við. Munu þeir halda áfram á sömu braut og fyrr, eða munu þeir sjá að sér og viðurkenna að kannski hafi ekki verið innistæða fyrir þeim öllum hástemmdu yfirlýsingunum sem fallið hafa?

Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ

Greinin til útprentunar.