22/11/2016 | Fræðsla, Fréttir, Viðburðir, Þjónusta
Þriðjudaginn 22. nóv. var haldinn fundur á vegum SVÞ með yfirskriftinni Gerum betur í þjónustu. Margrét Reynisdóttir, eigandi og ráðgjafi hjá Gerum betur ehf. sagði stuttlega frá bók sem hún var að gefa út og inniheldur 50 uppskriftir að góðri þjónustu. Fyrstu 15 uppskriftirnar snúa að því að skapa góðan anda á vinnustaðnum því þjónustan gagnvart viðskiptavinum verður aldrei betri en þjónustan innandyra. Dregið er fram mikilvægi þess að hlúa að starfsmönnum, þekkingu þeirra og færni og mæla árangur bæði inná við og gagnvart viðskiptavinum. Síðan eru 13 uppskriftir sem má nýta til að tryggja að starfsmenn viti til hvers er ætlast af þeim í þjónustu og hvernig hún á að vera framborin. Það reynir fyrst á þjónustu þegar eitthvað fer úrskeiðis þess vegna eru 17 uppskriftir sem má æfa fyrirfram og nota til að bræða reiðan viðskiptavin. Ef við lærum ekki af mistökum þá erum við í raun að gera önnur mistök þess vegna er endað á 5 uppskriftum um ábendingastjórnun. Þarna er áherslan á að halda markvisst utan um ábendingar, kvartanir og hrós til að gera stöðugt betur.
Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Sjónlags og Eyesland sagði frá gildum fyrirtækisins: Fagmennska, virðing og traust og hvernig þau endurspeglast í allri starfsemi fyrirtækisins. Hann lagði mikla áherslu á að hugsa vel um starfsfólkið og vitnaði í orð Richard Branson: „Clients do not come first. Employees come first. If you take care of your employees, they will take care of your customers.“ Í framhaldi vitnaði hann í niðurstöðu rannsóknar sem sýnir að jákvæð tengsl eru milli ánægju og stolts starfsfólks og ánægju viðskiptavina í samræmi við það sem fræðimenn hafa haldið fram. Næst fór Kristinn yfir þjónustumælingar sem sýndu á ótvíræðan hátt að fyrirtækið er með landsliðsmenn í þjónustu og þeirra góða orðspor og meðmæli er ástæðan fyrir stækkun fyrirtækisins. Einnig kom berlega fram að viðmótið vegur þungt í heildaránægju viðskiptavina Sjónlags.
Sigurbjörg Sigþórsdóttir, framkvæmdastjóri Bakarameistans útskýrði á líflegan hátt reynslu fyrirtækisins af markvissri nýliðaþjálfun síðastliðin tvö ár. Bakarameistarinn fagnar á næsta ári 40 ára afmæli í en í upphafi voru starfsmenn 20 en eru núna yfir 150. Sigurbjörg vitnaði í orð Konfúsíusar sem eru leiðarljós þeirra í allri þjálfun: Segðu mér og ég gleymi – sýndu mér og ég man – leyfðu mér að reyna og ég skil. Bakarameistarinn hefur útbúið þjónustuhandbók sem allir nýir starfsmenn fá og þar er bæði sagt frá í texta og sýnt með myndum hvernig uppskrift þeirra er að góðri þjónustu. Sigurbjörg sýndi einnig hvernig þau hafa markað sporin í frekari nýliðaþjálfun skref fyrir skref og skrásetja verslunarstjórar þar framvindu þjálfunar og kunnáttu.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR sagði frá hvernig þjónustustefnan með gildin: Lipurð, þekking og ábyrgð eru leiðarljós í allri þjónustu bæði inn á við og út á við hjá fyrirtækinu. Þessi alúð við þjónustu hefur skilað ÁTVR hæstu einkunn allra fyrirtækja í niðurstöðu Íslensku ánægjuvogarinnar þrjú ár í röð. Ráðningar í stöður hjá fyrirtækinu, frammistöðusamtöl o.fl. taka mið af gildunum. Vínbúðirnar eru með mælanleg markmið sem birtast mánaðarlega í skortkortum hverrar Vínbúðar og byggja mikið á hulduheimsóknum. Þjónustukannanir eru síðan framkvæmdar tvisvar sinnum á ári. Árangurinn er því sýnilegur og þau eru alltaf með puttann á púlsinum.
22/11/2016 | Fræðsla, Fréttir, Viðburðir
Morgunfundur 29. nóvember kl. 8.30 – 10.00
Heitt á könnunni frá kl. 8.15
Fundarsalnum Kviku, Húsi Atvinnulífsins, Borgartúni 35
Hverju þarf að huga að í rekstri minni og meðalstórra fyrirtækja?
Farið er yfir hagnýt atriði fyrir minni og meðalstór fyrirtæki þegar kemur að bókhaldi, fjármálum, uppgjörum, áætlanagerð og sköttum.
Sérfræðingar Deloitte á þessum sviðum munu fara yfir lykilþætti þessara mála á einfaldan og skýran hátt, þar sem áhersla er lögð á leiðir til að bæta og einfalda ferla með áherslu á fjármálasvið.
Dagskrá:
• Bókhald, laun og aðrir ferlar í fjármáladeild – Jónas Gestur Jónasson & Sunna Einarsdóttir
• Ný ársreikningalög – helstu álitamál – Signý Magnúsdóttir
• Stjórnendaskýrslur og áætlanagerð í Excel – Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir
• Skatta- og lögfræðiatriði sem þarf að hafa í huga – Haraldur Ingi Birgisson
Leiðbeinendur:
• Jónas Gestur Jónasson – Viðskiptalausnir – Löggiltur endurskoðandi og eigandi
• Signý Magnúsdóttir – Endurskoðunarsvið – Löggiltur endurskoðandi og eigandi
• Sunna Einarsdóttir – Viðskiptalausnir – Liðsstjóri og CFO
• Haraldur Ingi Birgisson – Skatta- og Lögfræðisvið – Liðsstjóri
• Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir – Ráðgjafasvið – Liðsstjóri
Auglýsing til útprentunar.
Oops! We could not locate your form.
18/11/2016 | Fréttir, Umhverfismál, Viðburðir
Málþing í austurhluta Tjarnarsalarins í Ráðhúsi Reykjavíkur
Fimmtudaginn 24. nóvember 2016, kl. 8:30-12:00.
Boðið verður upp á kaffi og vörukynningu á umhverfisvænni umbúðum.
Skráning hér
DAGSKRÁ FUNDARINS
Ávarp Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur
UMBÚÐIR OG UMHVERFIÐ
Kristín Linda Árnadóttir frá Umhverfisstofnun
HLUTVERK UMBÚÐA OG LEIÐIR TIL AÐ LÁGMARKA NOTKUN
Bryndís Skúladóttir frá Samtökum iðnaðarins
HLUTVERK OG VALD SVEITARFÉLAGA Í AÐ DRAGA ÚR UMBÚÐAAUSTRI
Eygerður Margrétardóttir frá Reykjavíkurborg
ÖRKYNNINGAR
— KAFFI OG VÖRUKYNNINGAR —
EFNI, UMBÚÐIR, SAMHENGI
Garðar Eyjólfsson frá Listaháskóla Íslands
UMBÚÐIR OG MATVÆLI
Óskar Ísfeld frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur
UMBÚÐANOTKUN HJÁ VEITINGASÖLUM
Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir frá Gló og Rakel Eva Sævarsdóttir frá Borðinu
Fundarstjóri verður Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar
AÐGANGUR ER ÓKEYPIS OG ALLIR ERU VELKOMNIR.
Biðjum þó alla að skrá sig svo hægt sé að áætla fjölda og draga
úr matarsóun.
Strætóleiðir 1, 3, 6, 11, 12 og 14 stoppa hjá Ráðhúsinu
sem upplagt er að nýta sér!
Dagskráin á pdf sniði
18/11/2016 | Fréttir, Stjórnvöld
Fréttatilkynning send til fjölmiðla 18.11.2016
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu fyrr í dag að innflutningsbann á fersku kjöti fæli í sér brot gagnvart EES-skuldbindingum íslenska ríkisins og er því ólögmætt. Niðurstaða dómsins er því í fullu samræmi við fyrri ábendingar SVÞ en samtökin hafa undanfarin ár vakið athygli á málinu og barist fyrir afnámi bannsins en upphaf málsins má rekja til kvörtunar samtakanna til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem ESA komst að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi innflutningsbann á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstætt EES-samningnum.
Ferskar kjötvörur ehf., eitt aðildarfyrirtækja SVÞ, stefndi íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir sökum synjunar á heimild til að flytja til landsins frá Hollandi ferskt lífrænt ræktað nautakjöt. Undir rekstri málsins krafðist fyrirtækið þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins til að fá úr því skorið hvort íslensk löggjöf væri í samræmi við EES-samninginn. Var fallist á þá beiðni og var niðurstaða dómstólsins að bannið samræmist á engan hátt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.
Að mati Héraðsdóms Reykjavíkur er ekki fullt samræmi á milli EES-löggjafar og íslenskra laga og sýnist misræmið felast í því að innflutningur á fersku kjöti frá öðru aðildarríki EES-samningsins er háður sérstöku leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra auk þess sem þess er krafist að innfluttum matvælum fylgi tiltekin gögn og vottorð. Þvert á móti gerir EES-löggjöfin á hinn bóginn að meginstefnu til ráð fyrir því að ábyrgð á dýraheilbrigðiseftirliti matvæla er hjá því aðildarríki sem matvælin eru send frá, í þessu tilviki Hollandi, og að sérstakt eftirlit fer ekki fram á landamærum viðtökuríkis. Því beri íslenskum stjórnvöldum að virða niðurstöður dýraheilbrigðiseftirlit sem fram fer í öðrum aðildarríkjum í samræmi við sameiginlegar EES-reglur. Þá segir í dóminum að þar sem íslenska ríkið hafi viðhaldið banninu þrátt fyrir niðurstöðu eftirlitsaðila þá hafi slíkt falið í sér vísvitandi og alvarlegt brot gegn skuldbindingum ríkisins.
SVÞ fagna þessum áfanga í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi innflutningsbann á fersku kjöti frá aðildarríkjum EES-samningsins gangi gegn ákvæðum samningsins og samningsskuldbindingum íslenska ríkisins líkt og ESA og EFTA-dómstóllinn, og nú Héraðsdómur Reykjavíkur, hafa áður komist að. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
Nánari upplýsingar gefa:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SVÞ, s. 511-3007/862-0558
Fréttatilkynning á pdf sniði
17/11/2016 | Fræðsla, Fréttir, Viðburðir
SVÞ héldu þann 17. nóvember félagsfund þar sem kynntar voru þær breytingar sem hafa verið gerðar á evrópsku regluverki um persónuverndarlöggjöf. Eins og fram kom á fundinum er um að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi þar sem vernd persónuupplýsinga einstaklinga er tryggð enn frekar og munu reglurnar einnig efla hinn stafræna innri markað Evrópu. Í samræmi við EES-skuldbindingar íslenska ríkisins ber að innleiða þessar breyttu reglur í innlendan rétt í maí 2018.
Frummælendur á fundinum voru frá Persónuvernd, þ.e. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, og Vigdís Eva Líndal, verkefnastjóri EES-mála hjá stofnuninni. Kynnti Helga Þórisdóttir hina nýju Evrópureglugerð um persónuvernd og það breytta landslag sem fram undan er í persónuverndarmálum hérlendis, og í framhaldinu fjallaði Vigdís Eva Líndal nánar um einstaka skyldur sem fyrirtæki þurfa sérstaklega að huga að til að mynda aukna fræðslu til neytenda, skipun persónuverndarfulltrúa, gerð persónusniða o.fl.
Á fundinum kom fram breytingarnar munu að óbreyttu taka gildi hérlendis í maí 2018 og fyrir þann tíma þurfa fyrirtæki að aðlaga starfsemi sína að breyttum og auknum kröfum til persónuverndar og öryggis persónuupplýsinga. Réttindi einstaklinga t.d. til fræðslu og aðgangs að upplýsingum eru bætt og eftirlit persónuverndarstofnana aukið. Aukin ábyrgð fyrirtækja, stórauknar sektarheimildir eftirlitsstofnana og ríkari kröfur til öryggis persónuupplýsinga gera persónuvernd að lykilatriði í rekstri fyrirtækja sem vinna slíkar upplýsingar.
Gagnlegar umræður sköpuðust um þessi málefni á fundinum og er einnig ljóst að margt á enn eftir að skýrast um framkvæmdina samhliða innleiðingu á regluverkinu. Hins vegar er mikilvægt að fyrirtæki hefji sem fyrst undirbúning að því að aðlaga starfsemi sína að breyttu regluverki.
Kynningar frá fundinum:
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar – Ný Evrópureglugerð um persónuvernd og það breytta landslag sem fram undan er í persónuverndarmálum hérlendis
Vigdís Eva Líndal, verkefnastjóri EES-mála hjá Persónuvernd – Skyldur sem fyrirtæki þurfa sérstaklega að huga að
Hlekkur inn á heimasíðu Persónuverndar þar sem unnt er að nálgast frekari upplýsingar og kynningarefni.
http://www.personuvernd.is/ny-personuverndarloggjof-2018/
17/11/2016 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
Óskað eftir tilnefningum
Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 2. febrúar 2017. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 12. desember nk.
Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2017, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.
Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:
• að skipulögð fræðsla sé innan fyrirtækisins,
• að stuðlað sé að markvissri menntun og fræðslu,
• að sem flest starfsfólk taki virkan þátt og
• að hvatning til frekari þekkingaröflunar sé til staðar.
Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:
• að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja,
• samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.
Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta verkefni. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja.
Tilnefningar sendist í tölvupósti á sa@sa.is– eigi síðar en mánudaginn 12. desember nk.
Ekki er tekið við tilnefningum eða gögnum eftir þann tíma.
Verðlaunin verða veitt á Menntadegi atvinnulífsins 2. febrúar 2017 en þetta er í fjórða sinn sem dagurinn er haldinn.
Íslensk máltækni, menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður í kastljósinu.
Marel var valið menntafyrirtæki ársins 2015 og Síldarvinnslan á Neskaupstað menntasproti ársins. Samskip var fyrsta fyrirtækið til að hljóta menntaverðlaunin 2014 og ferðaþjónustufyrirtækið Nordic Visitor var fyrsti menntasprotinn.
Hægt er að horfa á innslög um verðlaunahafana 2016 hér að neðan í Sjónvarpi atvinnulífsins.
Icelandair er menntafyrirtæki ársins 2016
Securitas er menntasproti ársins 2016