03/11/2016 | Fréttir, Viðburðir
Dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna verður haldinn í grunnskólum og framhaldsskólum landsins í næsta mánuði. Tilgangurinn er að minna á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en sáttmálinn var undirritaður á allsherjarþingi SÞ 20. nóvember árið 1989.
Innanríkisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og framkvæmdastjóri Barnaheilla hafa skrifað skólastjórnendum grunn- og framhaldsskóla og óskað eftir að fjallað verði um mannréttindi barna og mikilvægi þess að börn og fullorðnir þekki barnasáttmálann. Þegar nær dregur verða skólum sendar frekari upplýsingar og hugmyndir að viðfangsefnum og verkefnum sem hægt yrði að vinna að í tilefni dagsins. Einnig er bent á vefinn barnasattmali.is í þessu samhengi.
Verður 18. nóvember
Þar sem 20. nóvember ber uppá sunnudag hefur verið ákveðið að dagur helgaður mannréttindum barna verði föstudagurinn 18. nóvember.
02/11/2016 | Fræðsla, Fréttir, Verslun
SVÞ boðar til félagsfundar um réttindi og skyldur vegna sölu á netinu fimmtudaginn 10. nóvember nk. kl. 8.30 – 10.00 í Kviku, Húsi atvinnulífins, Borgartúni 35. Boðið verður upp á kaffi, te og með því frá kl. 8.15.
Á fundinum mun lögfræðingur Neytendastofu fara yfir ákvæði nýrra laga um neytendasamninga og hvaða breytingar þau hafa í för með sér frá lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Farið verður stuttlega yfir almenna upplýsingaskyldu seljenda samkvæmt lögunum en megináhersla verður lögð á að fara yfir skyldur seljenda og réttindi neytenda við fjarsölu og sölu utan fastrar starfsstöðvar.
Að undanförnu hefur sala á netinu færst í aukana og hafa verslanir í síauknum mæli tileinkað sér netverslanir í sinni starfsemi sem valmöguleika fyrir neytendur. Að mörgu þarf að hyggja þegar kemur að netverslun enda geta réttindi og skyldur verið mismunandi frá því sem á við um staðbundna verslun.
Fyrr á þessu ári voru samþykkt ný lög um neytendasamninga sem hafa það að markmiði að samræma reglur aðildarríkja EES-svæðisins um samninga utan fastrar starfsstöðvar seljanda, fjarsölusamninga, sölu- og þjónustusamninga og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytendur áður en slíkir samningar verða skuldbindandi af hálfu neytenda.
Oops! We could not locate your form.
01/11/2016 | Fréttir, Menntun
Leitast er við að svara þessari spurningu á ráðstefnu þann 9. nóvember nk. sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, NVL, Erasmus+, EPALE og Euroguidance ætla í sameiningu að standa fyrir.
Aðalfyrirlesarar eru Jaana Kettunen frá Jyväskylä Háskólanum í Finnlandi og Peter Plant frá Háskólanum í Lillemhammer bæði sérfræðingar á sviði náms- og starfsráðgjafar.
Fundarstjóri er Guðbjörg Vilhjálmsdóttir prófessor. Drög að dagskrá.
Fyrirlestrar og umræður verða á ensku en þó er boðið upp á eina vinnustofu á íslensku. Þátttökugjald er 5.500 kr. Krækja í skráningu er HÉR
Ráðstefnan er hluti af þriggja daga tengslaráðstefnu á vegum Erasmus+ sem hefst 8. nóvember og lýkur þann 10. nóvember sjá nánar HÉR
28/10/2016 | Fréttir
Breytingar hafa verið gerðar á evrópsku regluverki um persónuverndarlöggjöf, þ.e. annars vegar reglugerð um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og frjálst flæði slíkra upplýsinga og hins vegar að tilskipun um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga hjá löggæslu- og dómsyfirvöldum. Er um að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi þar sem vernd persónuupplýsinga einstaklinga er tryggð enn frekar og munu reglurnar einnig efla hinn stafræna innri markað Evrópu. Þá mun tilskipun á sviði löggæslu og refsivörslu tryggja öryggi vinnslu persónuupplýsinga ásamt því að efla samvinnu löggæsluyfirvalda í Evrópu í baráttunni gegn hryðjuverkum og öðrum alvarlegum glæpum. Í samræmi við EES-skuldbindingar íslenska ríkisins ber að innleiða þessar breyttu reglur í innlendan rétt í maí 2018.
Það ítrekast að persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Vinnsla slíkra upplýsinga tekur til allrar notkunar og meðferðar á persónuupplýsingum, t.d. söfnunar, skráningar, geymslu, breytingar, leitar, notkunar, miðlunar, dreifingar eða annarra aðferða til að gera upplýsingarnar tiltækilegar, samantengingar eða samkeyrslu, aðgangstakmörkunar, afmáunar eða eyðileggingar.
Aukin réttarvernd einstaklinga hefur í för með sér m.a. skýrari kröfur til samþykkis áður en persónuupplýsingar eru unnar, aukinn rétt einstaklinga til fræðslu um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram hjá fyrirtækjum og stofnunum, aðgang einstaklinga að eigin persónuupplýsingum, réttinn til að gleymast ásamt reglum um hreyfanleika gagna. Þá felast í breytingunum nýjar og breyttar skyldur í starfsemi fyrirtækja og stofnana, m.a. að þessir aðilar greini þá áhættu sem vinnsla persónuupplýsinga kann að hafa fyrir einstaklinga og grípi til viðeigandi öryggisráðstafana sökum hennar, tilnefni sérstakan persónuverndarfulltrúa og haldi í vissum tilvikum skrá yfir vinnsluaðgerðir. Því þurfa fyrirtæki að setja sér sérstaka persónuverndarstefnu, yfirfara verkferla og breyta þeim þar sem þörf er á, tryggja viðeigandi fræðslu innan fyrirtækja og útbúa sérstök eyðublöð eða form vegna samþykkis aðila. Einnig þarf að uppfæra öryggisstefnu, áhættumat og öryggisráðstafanir.
Samhliða þessum breytingum fær Persónuvernd auknar valdheimildir, þ.m.t. heimild til að leggja stjórnsýslusektir á aðila sem gerast brotlegir við hinar nýju reglur, eða allt að 4% af árlegri heildarveltu eða 20 milljón evrum fyrir alvarleg brot og 2% af árlegri veltu eða 10 milljón evrum fyrir vægari brot. Sem dæmi um alvarleg brot er að ekki er heimild fyrir vinnslu, vinnsla uppfyllir ekki grunnskilyrði, hinum skráða ekki veittar upplýsingar, flutningur til ríkis utan EES uppfyllir ekki skilyrði eða fyrirmælum Persónuverndar ekki fylgt. Sem dæmi um vægari brot eru brot á reglum um innbyggða friðhelgi, ekki er gerður vinnslusamningur, öryggisrof ekki tilkynnt eða persónuverndarfulltrúi ekki skipaður.
Ljóst er að þessar breytingar munu hafa áhrif á innlend fyrirtæki og því mikilvægt að þau kynni sér þær breytingar og hagi starfsemi sinni í samræmi við þær. Af þessu tilefni munu SVÞ halda sérstakan kynningarfund fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna um málið 17. nóvember nk. þar sem fulltrúar frá Persónuvernd munu fjalla um áhrif þessara breytinga hér á landi.
28/10/2016 | Fréttir, Verslun
Að undanförnu hefur sala á netinu færst í aukana og hafa verslanir í síauknum mæli tileinkað sér netverslanir í sinni starfsemi sem valmöguleika fyrir neytendur. Að mörgu þarf að hyggja þegar kemur að netverslun enda geta réttindi og skyldur verið mismunandi frá því sem á við um staðbundna verslun.
Má í þessu samhengi benda á að réttindi neytenda kunna að vera ítarlegri varðandi viðskipti í gegnum netverslanir, s.s. varðar upplýsingar um vöru og skilarétt, og einnig þarf að gera grein ítarlega grein fyrir kostnaði. Til viðbótar má nefna að fyrr á þessu ári voru samþykkt ný lög um neytendasamninga sem hafa það að markmiði að samræma reglur aðildarríkja EES-svæðisins um samninga utan fastrar starfsstöðvar seljanda, fjarsölusamninga, sölu- og þjónustusamninga og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytendur áður en slíkir samningar verða skuldbindandi af hálfu neytenda.
Þær helstu breytingar sem hin nýju lög hafa í för með sér eru ýmsar formlegar kröfur til samninga utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga, svo sem um staðfestingu á samningi og hvernig upplýsingagjöf skuli háttað. Þá er einnig gert ráð fyrir rýmri rétti neytenda til þess að falla frá samningi miðað við tilteknar aðstæður.
Því er ljóst að sala á vörum og þjónustu í fjarsölu og utan fastrar starfsstöðvar, s.s. sala á netinu, felur í sér þær skyldur að tryggja neytendum nægar upplýsingar og ýmis réttindi við slík kaup. Einnig eru auknar kröfur lagðar á seljendur á netinu að upplýsa neytendur um rétt sinn.
SVÞ munu halda sérstakan félagsfund fimmtudaginn 10. nóvember nk. þar sem fulltrúar frá Neytendastofu munu kynna fyrir aðildarfyrirtækjum samtakanna þau réttindi og skyldur sem snúa að netverslun sem og kynna þær breytingar sem framangreind lög um neytendasamninga hafa í för með sér.
26/10/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Barnavagnar, barnaleikföng og snuð eru dæmi um vörur sem bera núna tolla sem falla niður.
Frá og með 1. janúar 2017 hafa allir tollar verið felldir niður hér á landi nema af hluta af matvöru. Þetta verður mikil kjarabót eins og hefur sýnt sig við niðurfellingu á almennum vörugjöldum 1. janúar 2015 og síðan niðurfellingu á tollum á fötum og skóm 1. janúar 2016.
Skilar niðurfellingin sér til neytenda?
Þrátt fyrir gagnrýnisraddir um annað þá hefur niðurfelling tolla og vörugjalda skilað sér til neytenda eins og efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hefur ítrekað sýnt fram á með tölulegum gögnum. Þetta getur hinn almenni neytandi einfaldlega sannreynt með því að skoða breytingu á vísitölu þessara vara. Neytendur finna þetta einnig á verulegri verðlækkun á þeim vörum sem áður báru þessi gjöld s.s. eldavélum, sjónvörpum, salernum og bílavarahlutum. Einnig hafa föt og skór lækkað töluvert. Þetta hefur haft góð áhrif á þróun verðlags sem kemur öllum til góða.
Það skal þó tekið fram að tollar höfðu þegar verið felldir niður af vörum sem komu frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og ríkjum sem gerðir hafa verið fríverslunarsamningar við, s.s. Kína, og báru því um 40% af innfluttum fötum og skóm engan toll þegar tollar voru felldir niður af þessum vörum um síðustu áramót. Niðurfelling á almennum vörugjöldum og tollum hefur ekki eingöngu haft áhrif á verð á tilteknum vörum til neytenda heldur einnig mjög jákvæð áhrif á vísitöluna eins og áður sagði og þar með á verðtryggð lán landsmanna. Því er hagur neytenda af tollaniðurfellingu ekki eingöngu mældur í lægra vöruverði.
Fyrir hverja er niðurfelling tolla og vörugjalda?
Niðurfelling tolla og vörugjalda gagnast fyrst og fremst neytendum og þá ekki síst þeim tekjulægri. Hin þjóðhagslegu áhrif hafa einnig verið jákvæð. Þannig hefur innlend verslun aukist í kjölfar þessara breytinga, skattgreiðslur fyrirtækjanna hækkað og störfum í verslun fjölgað. Sjálfsagt hefur þetta líka haft þau áhrif að þekktar erlendar verslunarkeðjur horfa nú í auknum mæli til Íslands sem ákjósanlegs vettvangs fyrir starfsemi sína. Samtök verslunar og þjónustu hafa lagt áherslu á mikilvægi þess fyrir íslenskt samfélag að sem stærstur hluti verslunar landsmanna fari fram hér á landi, slíkt eykur vöruframboð og hefur jákvæð áhrif á vöruverð. Þannig verði tryggt að íslensk verslun starfi á samkeppnislegum grunni gagnvart erlendri verslun og að opinber álagning hér á landi raski ekki þeirri samkeppni.
Hvaða breytingar verða 1. janúar 2017?
Nú standa einungis eftir tollar á aðrar vörur sem og tollar af hluta af matvörum. Dæmi um vörur sem tollar verða felldir niður af næstu áramót eru barnavagnar, leikföng, reiðtygi, ýmsar hreinlætisvörur, heimilisvörur og húsgögn. Þessar breytingar eru enn ein kjarabótin fyrir heimilin sem skilar sé í lækkun á vöruverði og hefur því áhrif til lækkunar verðbólgu og kaupmáttaraukningu fyrir heimilin.
Samtök verslunar og þjónustu fagna þessum breytingum og eru verslunarmenn þegar farnir að undirbúa sig undir þær.
Birt á visir.is 25. okt. 2016
Höfundar: Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ og Margrét Sanders formaður SVÞ