29/09/2016 | Fréttir, Greinar, Stjórnvöld
Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin, Samtök skattgreiðenda, Samtök verslunar og þjónustu og Viðskiptaráð Íslands hafa birt sameiginlega auglýsingu vegna nýsamþykktra búvörusamninga. Samningarnir voru staðfestir með nítján greiddum atkvæðum á Alþingi án þess að tekið hafi verið tillit til framangreindra tillagna. Telja framangreind samtök að með afgreiðslu sinni hafi Alþingi mistekist að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda.
Í aðdraganda nýgerðra búvörusamninga óskuðu samtökin þess að stjórnvöld gættu hagsmuna alls almennings umfram sérhagsmuni einstakra starfsgreina enda hafa þessir samningar áhrif á fleiri aðila en þá sem að þeim koma með beinum hætti, samtök bænda og ríkið. Með vísan til tillagna verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, þverpólitísks og þverfaglegs vettvangs sem ætlað er að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið, óskuðu samtökin þess að búvörusamningar hefðu m.a. að markmiði að:
1. Lækka matvælaverð til neytenda.
2. Tryggja rekstargrunn landbúnaðar sem atvinnugreinar.
3. Niðurgreiðslur færist frá sértækum búgreinastuðningi í átt að almennari jarðræktarstuðningi.
4. Stuðla að aukinni samkeppni á búvörumarkaði.
5. Lækka tolla á landbúnaðarvörum um 50% og afnema tolla á alifuglum og svínakjöti.
Til að bregðast við harðri gagnrýni á búvörusamninga kallaði meirihluti atvinnuveganefndar eftir þjóðarsamtali um landbúnað með aðkomu neytenda, samtaka launafólks og atvinnulífs. Ljóst er að loforð um endurskoðun var brotið og búvörusamningar festa í sessi óskilvirkt og kostnaðarsamt landbúnaðarkerfi þar sem bændur hafa fullt vald til að hafna öllum þeim breytingum sem þeim hugnast illa.
Alþingi hefur því samþykkt búvörusamninga til tíu ára án þess að taka tillit til framangreindra sjónarmiða og þannig brugðist skyldu sinni að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda. Að sama skapi standast ekki nánari skoðun fullyrðingar einstakra þingmanna og ráðherra um að samningarnir gildi eingöngu til þriggja ára.
Er það því brýnt verkefni komandi þings að stuðla að sátt í þessu máli. Það er skýr krafa framangreindra samtaka að nýtt þing endurskoði núverandi landbúnaðarkerfi með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Sátt um íslenskan landbúnað er öllum til hagsbóta, ekki síst bændunum sjálfum.
28/09/2016 | Fréttir, Samtök heilbrigðisfyrirtækja
Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins kynnti í morgun greiningu sína á íslensku heilbrigðiskerfi á opnum umræðufundi Samtaka atvinnulífsins, Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og Samtaka verslunar og þjónustu undir yfirskriftinni „Heilbrigð samkeppni: Áskoranir og tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu“ . Framsögu hafði Tryggvi Másson, viðskiptafræðingur á efnahagssviði SA.
Dr. Stefán E. Matthíasson formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja flutti erindi undir yfirskriftinni „Hvert stefnum við“ þar sem hann greindi stöðu íslensks heilbrigðiskerfis.
Að loknum framsögum gafst fundargestum tækifæri til að beina spurningum til fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem lýstu áherslum og stefnumörkun sinna flokka til heilbrigðismála í aðdraganda Alþingiskosninga 2016.
Margrét Sanders, formaður SVÞ stýrði umræðum.
Glærur frá fundinum:
Hvert stefnum við? – Dr. Stefán E. Matthíasson
Heilbrigð samkeppni: Áskoranir og tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu – Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins
Umfjöllun á vef SA
22/09/2016 | Fréttir, Greining
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta í ágúst 30,6 milljörðum króna samanborið við 22,2 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða tæplega 38% aukningu frá ágúst í fyrra. Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt tæpa 162 milljarða með kortum sínum en til samanburðar var erlend greiðslukortavelta allt árið í fyrra 154,4 milljarðar króna. Kortavelta á tímabilinu janúar til ágúst 2016 er því um 5% meiri en allt árið í fyrra.
Líkt og undanfarna mánuði var vöxtur í öllum útgjaldaliðum á milli ára. Tæpir 6,5 milljarðar króna fóru um posa gististaða í ágúst en gististarfsemi er veltuhæsti flokkurinn í kortaveltu ferðamanna. Upphæðin nú er 32,3% hærri en í ágúst 2015 þegar erlendir ferðamenn greiddu 4,9 milljarða króna til gististaða með kortum sínum. Erlend greiðslukortavelta til gististaða er jafnframt 4,8% hærri en í júlí síðastliðnum og hefur því aldrei verið meiri í einum mánuði.
Enn er mikill vöxtur í farþegaflutningum með flugi en erlend greiðslukortavelta til flugfélaga jókst um 128% frá fyrra ári. Erlendir aðilar greiddu í ágústmánuði 3,1 milljarða fyrir flugferðir samanborið við tæpan 1,4 milljarð í fyrra. Ekki fer öll starfsemi innlendra flugfélaga fram á Íslandi og því stafar hluti greiðslukortaveltu þeirra af ferðalögum til annarra áfangastaða en Íslands.
Um 57% aukning varð á milli ára í greiðslukortaveltu í flokknum ýmis ferðaþjónusta en flokkurinn inniheldur meðal annars ferðaskrifstofur og ýmsar skipulagðar ferðir ferðaþjónustufyrirtækja. Erlendir ferðamenn greiddu 3,5 milljarða á veitingahúsum í ágúst í ár eða 29,7% meira en í ágúst í fyrra og þá jókst greiðslukortavelta í verslun um 23,2% frá fyrra ári og var í ár 4,4 milljarðar. Í ágúst greiddu erlendir ferðamenn tæpar 900 milljónir fyrir menningar- afþreyingar og tómstundastarfsemi eða 47,2% meira en í sama mánuði árið 2015.
Í júlí komu 241.559 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 27,5% fleiri en í sama mánuði í fyrra og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði.
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 127 þús. kr. í ágúst, eða um 5% minna en í júlí. Það er um 8% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum eða 150 þús. kr. á hvern ferðamann. Rússar eru í öðru sæti með 146 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn koma þar næst með 139 þús. kr. Athygli vekur þó að meðaleyðsla ferðamanna frá öðrum löndum er 171 þús. kr. á hvern ferðamann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868- 4341.
www.rsv.is
21/09/2016 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
Nýjungar í starfsmenntun var yfirskrift á fyrsta fundi haustsins í fundaröðinni Menntun og mannauður sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins þann 20. sept. sl. Á fundinum var fjallað um nýjungar í starfsmenntun og það sem er nýjast í þessum málaflokki.
Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri Landsmenntar, sem er sjóður almennra starfsmanna á landsbyggðinni, fjallaði um það sem er efst á baugi hjá Landsmennt. Selma Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá SVS, starfsmenntasjóði verslunar-og skrifstofufólks og Sólveig Snæbjörnsdóttir, fagstjóri hjá SVS, fjölluðu um hvað bar hæst hjá SVS. Þá sagði Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar – fræðsuseturs iðnaðarins, frá helstu nýjungum hjá Iðunni. Að erindum loknum var boðið upp á spurningar og spjall.
Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni sem stendur til vors 2017 þriðja þriðjudag í mánuði.
21/09/2016 | Fréttir, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Viðburðir
Samtök heilbrigðisfyrirtækja, SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu og Samtök atvinnulífsins efna til opins morgunverðarfundar miðvikudaginn 28. september um tækifæri og áskoranir í íslenskri heilbrigðisþjónustu.
Heilbrigð samkeppni er yfirskrift fundarins en þar munu fulltrúar stjórnmálaflokkanna m.a. taka þátt í umræðum um stefnumörkun flokkanna í aðdraganda Alþingiskosninga 2016.
DAGSKRÁ
Heilbrigð samkeppni
Tryggvi Másson, viðskiptafræðingur á efnahagssviði SA.
Hvert stefnum við?
Dr. Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja.
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna?
Umræður um áskoranir og tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu:
Ásta Guðrún Helgadóttir, Pírötum, Elsa Lára Arnardóttir, Framsóknarflokki, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn, Páll Valur Björnsson, Bjartri framtíð, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Samfylkingu og Steinunn Þóra Árnadóttir, Vinstri grænum.
Margrét Sanders, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu stýrir fundi og stjórnar umræðum.
Léttur morgunverður og heitt á könnunni frá kl. 8.00.
Allir velkomnir en nauðynlegt er að skrá þátttöku. Skrá hér á vef SA.
Fundurinn fer fram á Grand hótel Reykjavík í salnum Gullteig kl. 8.30-10.
19/09/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinna mublera landsmenn hjá sér heimilin sem aldrei fyrr. Í ágúst síðastliðnum var velta í húsgagnasölu 36% meiri en í sama mánuði í fyrra. Síðastliðna sex mánuði hefur sala húsgagna verið að jafnaði um þriðjungi meiri en á sama tíma og í fyrra. Þó viðskipti með húsgögn hafi ekki náð sömu hæðum og var fyrir hrun hefur þessi tegund verslunar verulega rétt úr kútnum að undanförnu. Sala húsgagna var í ágúst síðastliðnum 66% meiri að magni til (á föstu verðlagi) en í ágúst 2010. Hins vegar þegar húsgagnasala er borin saman við ágúst 2007 sést að salan þá var 29% meiri en hún var í ágúst síðastliðnum. Ef fram heldur sem horfir verður húsgagnasala orðin meiri eftir ár en hún var fyrir hrun.
Aukinn ferðamannastraumur hefur jákvæð áhrif á sölu húsgagna. Þó vissulega séu erlendir ferðamenn ekki tíðir viðskiptavinir húsgagnaverslana þá krefst umbúnaður ferðaþjónustuaðila mikilla fjárfestinga. Reglulega þarf að endurnýja húsgögn og húsbúnað á hótelum, heimagististöðum og í gistihúsum. Húsgagnaverslanir njóta góðs af því.
Sala í stærsta vöruflokk smásöluverslunar, sem er matur og drykkjavörur, eykst áfram hratt. Í ágúst síðastliðnum var 8,4% meiri sala en í ágúst í fyrra, sem er álíka vöxtur og hefur verið undanfarna mánuði. Að öllu jöfnu eru ekki miklar sveiflur í veltu í flokki dagvöruverslana og því er þessi vöxtur nokkuð mikill þegar horft er yfir lengra tímabil.
Byggingavöruverslun blómstrar nú sem aldrei fyrr, og kemur sjálfsagt fæstum á óvart. Í síðasta mánuði var næstum 20% meiri velta en í sama mánuði í fyrra. Í þeim tölum er bæði sala vegna nýbygginga og endurnýjunar á húsnæði.
Heldur meiri sala var í raftækjum, tölvum og snjallsímum í ágúst síðastliðnum en 12 mánuðum áður. Í ágúst eru venjulega útsölur á raftækjum. Sú vörutegund sem mestar sveiflur urðu í, í þessum vöruflokki, voru tölvur. Líklega hefur upphaf skólaársins í ágúst, og endurnýjun á tölvum þess vegna, haft þar mest áhrif.
Litlar breytingar voru á veltu fata- og skóverslana í ágúst. Verðlag hefur þó lækkað töluvert í samanburði við ágúst í fyrra sem ræðst fyrst og fremst af afnámi 15% tolla á fatnað um síðustu áramót.
Verðlag hefur almennt lítið breyst í smásöluverslunum. Verð á dagvöru og áfengi hefur hækkað um 0,8% á síðustu tólf mánuðum, verð á fötum lækkaði á sama tímabili um 6,2% og verð á húsgögnum hækkaði um 2%.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,4% á breytilegu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í ágúst um 8,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,8% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,4% hærra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 18,6% á breytilegu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 17,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 18% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í ágúst síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun jókst um 0,3% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 6,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 6,2% lægra í ágúst síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 0,8% í ágúst á breytilegu verðlagi og minnkaði um 4,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -4,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í ágúst um 4,2% frá ágúst í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 35,7% meiri í ágúst en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 33,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 7,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 19,6% í ágúst á breytilegu verðlagi og jókst um 18,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst í ágúst um 9,4% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 4,5%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,5% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 6,2% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.
Fréttatilkynning RSV.