Kortavelta ferðamanna 20 milljarðar í maí

Samkvæmt frétt Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta tæpum 20 milljörðum króna í maí síðastliðnumsamanborið við rúmlega 13 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða 51,4% aukningu á milli ára.
Kortavelta pr. ferðamann 05 2016
Kortavelta ferðamanna jókst á milli ára í öllum útgjaldaliðum í maí. Erlendir ferðamenn greiddu tæpar 600 milljónir með kortum sínum til dagvöruverslana í maí, um 81% meira en í maí í fyrra en erlend kortavelta í dagvöruverslun hefur fjórfaldast á síðustu fjórum árum. Kortavelta erlendra ferðamanna í verslun jókst um tæp 41% á milli ára en það sem af er árinu hafa erlendir ferðamenn greitt 8,2 milljarða í verslun með kortum sínum.

Eins og síðustu mánuði var mestur vöxtur á milli ára í flugferðum, um 146%. Er maí sjöundi mánuðurinn í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári. Rétt er að nefna að hluti þeirrar greiðslukortaveltu sem fellur undir þennan lið er greiðsla fyrir þjónustu sem innt er af hendi utan landsteinanna.

Töluverð aukning var í kortaveltu ferðamanna til bílaleiga og greiddu ferðamann í maí rúmlega 1,8 milljarða, um 43% meira en í sama mánuði í fyrra fyrir bílaleigubíla. Það sem af er ári hafa ferðamenn eytt um 6 milljörðum í bílaleigubíla og sé eldsneyti, viðgerðir og viðhald bifreiða tekið með í reikninginn nam erlend kortavelta ferðamanna það sem af er ári til þessara flokka rúmum 8 milljörðum. Kortaveltan í flokki bílaleiga hefur fjórfaldast frá árinu 2012.
Í maí komu um 124 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 37% fleiri en í sama mánuði í fyrra.
   
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir 160 þús. kr. í maí. Það er um 11% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam aukningin um 10% á milli ára.

Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 306 þús. kr. á hvern ferðamann, sem að er um 7% hærri upphæð en í apríl.  Bandaríkjamenn eru í öðru sæti með 204 þús. kr. á hvern ferðamann sem að er heldur lægri upphæð en í apríl eða um 12%. Spánverjar koma þar næst með 199 þús. kr. Athygli vekur að eyðsla á hvern Kanadamann dregst saman um þriðjung á milli mánaða en þess ber að geta að fjöldi þeirra tæplega tvöfaldaðist á milli mánaða.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

www.rsv.is

Blómleg verslun með dagvöru í maí

Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknasetri verslunarinnar jókst velta öllum flokkum Smásöluvísitölunnar í maí mælt á föstu verðlagi. Dagvöruverslun í maí var 4,1% meiri en í sama mánuði í fyrra en einnig var töluverður veltuvöxtur í flokkum varanlegra neysluvara. Sem dæmi jókst húsgagnaverslun um 18% og byggingavöruverslun um 22%, verslun með raftæki jókst einnig nokkuð.

Þó dagvöruverslun sveiflist jafnan ekki mikið hefur velta hennar verið nokkuð lífleg undanfarin misseri. Eins og áður kom fram jókst velta flokksins um 4,1% á föstu verðlagi frá fyrra ári en í maí 2016 voru fjórir föstudagar og laugardagar samanborið við fimm í sama mánuði í fyrra. Ef tekið er tilllit til árstíðabundinna þátta og vikudagaáhrifa jókst velta dagvöruverslunar því meira, eða um 5,9% frá maí 2015 á föstu verðlagi.

Mikil verslun var með byggingavörur í maí og hefur vísitala byggingavöruverslunar ekki staðið hærra frá því flokknum var bætt inn í Smásöluvísitöluna, gildir þá einu hvort mælt er á föstu eða breytilegu verðlagi. Þannig var velta byggingavöruverslunar í maí 6,6% hærri en í fyrra hámarki sínu í júlí 2015 á breytilegu verðlagi. Verslun með byggingavörur var 22% meiri en í maí í fyrra á föstu verðlagi en 23,7% meiri á breytilegu verðlagi. Verðlag byggingavara hefur á sama tíma hækkað um 1,6%.

Þó verslun með fatnað og skó hafi aukist lítillega frá maí 2015 á föstu verðlagi dregst velta flokkanna saman á breytilegu verðlagi. Velta fataverslana dróst saman um hálft prósent á breytilegu verðlagi frá maí í fyrra en jókst um 2,9% á föstu verðlagi. Skóverslun minnkaði um 7,2% frá maí í fyrra en jókst um 0,6% á föstu verðlagi. Samkvæmt verðlagsmælingu Hagstofunnar var verðlag fatnaðar í maí síðastliðnum 3,1% lægra en í maí 2015 og verðlag skófatnaðar 7,6% lægra en á sama tíma í fyrra.

Verslun með húsgögn jókst um 18,9% í maí á breytilegu verðlagi frá sama mánuði í fyrra en um 18,3% á föstu verðlagi. Húsgagnaverslun hefur verið lífleg undanfarna mánuði en ef síðustu sex mánuðir eru bornir saman við sama tímabil ári áður er aukningin um 27%. Á sama tímabili hefur verðlag nær staðið í stað.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 5,7% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í maí um 5,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,6% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í maí 0,3% hærra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 16,8% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 15,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í maí um 24,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í maí síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun dróst saman um 0,5% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 2,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,1% lægra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 7,2% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 0,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 0,2% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í maí um 7,6% frá maí í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 18,9% meiri í maí en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 18,3% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 9,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 19,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 0,5% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í maí um 23,7% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 22% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst í maí um 10,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 11,3%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 9,8% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 8,3% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.

Samningamál lítilla fyrirtækja og skipulag

Litla Ísland efnir til opins fræðslufundar í Húsi atvinnulífsins föstudaginn 10. júní kl. 8.30-10. Þar verður fjallað um samningamál lítilla fyrirtækja og skipulag en fundurinn er hluti af fundaröð Litla Íslands um farsælan rekstur. Nokkrir lykilþættir einkenna vel rekin fyrirtæki og er farið yfir þá í fundaröðinni.

Það eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en vinsamlegast skráið þátttöku hér á vef SA.

Fundurinn fer fram í salnum Kviku á 1. hæð í Borgartúni 35 í Reykjavík.

undefined

Inga Björg Hjaltadóttir héraðsdómslögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus mun fjalla um helstu samninga í fyrirtækjarekstri og mikilvægi vandaðrar samningagerðar.

Þá mun Thomas Möller hagverkfræðingur, MBA og framkvæmdastjóri Rýmis Ofnasmiðjunnar fjalla um skipulag, ákvörðunartöku og eftirfylgni í daglegum störfum stjórnenda. Thomas mun m.a. fjalla um mikilvægi skýrleika (e. clarity) í rekstri og svörunar til starfsfólks (e. feedback). Hann mun einnig fjalla um helstu strauma í framkvæmd stefnumótunar (e. execution).

Thomas hefur starfað við stjórnun í um 35 ár og mun miðla af sinni reynslu og segja frá því hvað hefur reynst best á þessum sviðum stjórnunar. Thomas er stundakennari á Bifröst og hefur haldið námskeið um stjórnun hérlendis og í Danmörku á síðustu árum.  Rými Ofnasmiðjan hefur vaxið hratt á síðustu árum og skilað góðum árangri.

Að loknum erindum gefst fundargestum að spyrja spurninga og taka þátt í umræðum.

Grunnurinn að góðum rekstri er sterkur rekstrargrunnur, þar sem starfsmannamál, bókhald, markaðsmál, skipulag, samningar og markmiðasetning spilar saman.

Boðskapurinn af Barónsstígnum

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 21.5.2016
Höfundar: Dr. Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu 

Á vefsíðu Embættis Landlæknis (EL) birti Birgir Jakobsson nýverið áskorun til heilbrigðisráðherra um tafarlausar úrbætur í heilbrigðismálum. Látið er í veðri vaka að heilbrigðiskerfið sé á vonarvöl og helsta ástæða þess sé að íslenskir læknar komi ekki heim til Íslands til vinnu á Landspítalanum. Það er erfitt að taka undir fyrri fullyrðinguna, enda þótt vissulega megi margt betur fara, en þá síðari mögulega auðveldara, en af allt öðrum ástæðum en Birgir virðist gera sér grein fyrir eða vilji horfast í augu við.

Af greininni er ljóst að honum er einstaklega í nöp við um 350 sérfræðilækna sem standa á eigin fótum og reka eigin heilbrigðisfyrirtæki skv. samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Kallar þetta í niðurlægingatón „einyrkjastarf sérfræðinga„. Sem þar að auki séu ekki „… í stakk búin til að takast á við vandamál sjúklinga..“. Þetta er ekki nýtt, enda vart formlega búin að taka við embættinu þegar hann var þá þegar búinn að úthúða starfsemi þeirra. Hafði furðuleg rök í frammi, þ.e. að þeim fjármunum, sem samningur SÍ og sjálfstætt starfandi lækna veitti til heilbrigðisþjónustunnar höfnuðu í „hít“ sem tæki fé frá annarri mun verðugri en fjársveltri heilbrigðisþjónustu. Þá helst Landspítalanum. Bætti og um betur með því að fullyrða að enginn vissi í hvað þessi peningar færu. Þessa skoðun sína hefur hann reyndar margítrekað síðan. En lesendum til upplýsingar þá fóru 157 milljarðar af opinberu fé til heilbrigðismála á sl. ári. Þar af runnu á um 5% þeirrar upphæðar til fjármögnunar á umræddum samningi SÍ. Fyrir þessa fjárhæð fékk kaupandi þjónustunnar (SÍ) um 470 þúsund læknisviðtöl ýmissa sérhæfðra sérfræðinga (um 30% allra koma til lækna á landinu það árið), 15-18.000 skurðaðgerðir af ýmsu tagi, nokkur þúsund maga- og ristilspeglanir, 76  þúsund rannsóknir af ýmsu tagi, 63 þúsund myndgreiningarrannsóknir ofl, ofl. Allt þetta er samviskusamlega skráð, kostnaðargreint og árlega sent frá SÍ til EL því til upplýsingar og til að gera EL eftirlitsskyldu sína skv. lögum mögulega.

Dettur einhverjum í hug að kaup ríkisins á ofangreindri sérfræðiþjónustu raski tilveru eða rekstri Landspítalans?  Allar þessar upplýsingar voru því innanbúðar hjá Birgi frá fyrsta starfsdegi hans og fyrr. Það er óumdeilt, ef menn hafa kynnt sér málin, að sú þjónusta sem ríkið hefur keypt af fyrirtækjum sjálfstætt starfandi lækna er í senn skilvirk og ódýr. Öll töluleg rök tala sama máli, bara ef menn lesa það sem að þeim er rétt. Bæði ef horft er til nágrannalandanna og hér innanlands. En mögulega er eitt af fótakeflum þessarar þjónustu hversu skilvirk og ódýr þjónustan er í samanburði við sambærilega opinbera þjónustu. Samanburðurinn er víða afar fróðlegur svo ekki sé meira sagt.

Bráða patentlausnir Birgis á vanda heilbrigðiskerfisins eru í fimm liðum:

•    Landspítalinn verður að fá skýr fyrirmæli um að sérfræðingar verði framvegis einungis ráðnir í fullar stöður.
•    Stefna verður að því að vaktabyrði sérfræðinga sé ekki meiri en 3–4 vaktir á mánuði.
•    Setja verður reglur um aukastörf lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.
•    Jafnframt verður LSH að fá fyrirmæli um að auka dag- og göngudeildarstarfsemi spítalans svo að hægt sé að auka aðgengi sjúklinga með króníska sjúkdóma að þjónustu, hvort sem þeir hafa legið inni á spítalanum eða ekki.
•    Segja verður upp samningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við samtök lækna og setja reglur um það að SÍ geri framvegis aðeins samninga við heilbrigðisfyrirtæki (opinber eða einkarekin) sem vinni samkvæmt ákveðinni kröfulýsingu og veiti þjónustu sem ríkið (greiðandinn) sér þörf fyrir.“

Hryggjarstykkið í tillögunum virðist að takmarka atvinnufrelsi lækna. Þvinga hámenntaða sérfræðinga til að vinna á einum vinnustað í fullu starfi og takmarka starfsemi sjálftætt starfandi lækna enda látið að því liggja að hennar sé ekki þörf.
Birgi virðist algerlega sjást yfir þá staðreynd að vandi Landspítalans er ekki starfsemi sjálfstætt starfandi lækna. Landspítalinn gæti hvort eð er aldrei undir nokkrum kringumstæðum tekið við þeirri starfsemi eða fjármagnað hana á þeim framlögum sem til hennar fara í dag af gjaldaliðum SÍ. Kraftaverk dygði ekki til. Vandi Landspítalans nær dýpra og lengra aftur í tímann sem aðlaðandi vinnustaður. Er ekki endilega skortur á nýjum byggingum eins og sumir telja sér og öðrum trú um. Vissulega skortur á tækjum nútímans. Vanda sem vanræktur hefur verið, en nú er verið að taka á. Mesta ógnin er mögulega stofnunin sjálf, stjórnendur hennar og sú fákeppni sem er á sjúkrahúsmarkaði.

Birgi hefur verið bent á þá staðreynd að stjórnendur stofnunarinnar brjóta lög um ráðningar lækna án þess að blikna. Ráða ekki hæfasta umsækjandann og eyða tugum milljóna af skattfé í málsóknir til að losa sig við eða hindra að viðkomandi fái starf á stofnuninni. Birgir hefur kært sig kollóttan yfir þessari staðreynd þrátt fyrir að vera lögbundinn eftirlitsaðili með starfseminni. Hvarflar það að Birgi að  þetta fæli lækna frá því að sækja um starf á Landspítalanum?
Minni á að fyrir 14 árum voru 4 sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Ekki alveg vandræðalaust, en það gaf möguleika til valfrelsis sjúklinga og ekki síst heilbrigðisstarfsmanna til vinnuveitanda.  Það er áhyggjuefni fyrir hönd sjúklinga og ekki síst verðandi starfsmanna hvernig Landspítalinn hefur haldið á málum sínum. Fjölbreytileiki í veitingu heilbrigðisþjónustu og valfrelsi sjúklinga til þjónustuveitenda er forsenda fyrir því að skapa góða heilbrigðisþjónustu sem sátt er um. Fákeppni í heilbrigðisþjónustu er engum til framdráttar.

Mannauðurinn er helsta verðmæti heilbrigðisþjónustunnar, sem er fyrst og fremst þekkingariðnaður. En valfrelsi til vinnuveitanda og mismunandi rekstarforma er lykilatriði, hvort sem er í spítalaþjónustu, heilsugæslu eða sérfræðiþjónustu. Ekki dugir að hengja bakara fyrir smið í þessu efni.

Blaðagreinin í Morgunblaðinu á pdf sniði.
Slóð inn á vefsíðu Samtaka heilbrigðisfyrirtækja.

Farsæll rekstur á Litla Íslandi

Fundaröð Litla Íslands um farsælan rekstur lítilla fyrirtækja er nú í fullum gangi en næsti fundur er nk. föstudag 3. júní og fjallar um starfsmenn og markmið.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, MBA, atvinnufélagsfræðingur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus ræðir um réttu skrefin fyrir stjórnendur í átt að stefnumiðaðri mannauðsstjórnun og tengingu við góðan rekstrarárangur. Farið verður yfir helstu tól og tæki stjórnandans í mannauðsmálum.

Símon Þorleifsson rekstrarverkfræðingur og ráðgjafi í viðskiptagreind og árangursstjórnun hjá Capacent fjallar um markmiðasetningu sem byggir á framtíðarsýn stjórnenda og eigenda. Lögð er áhersla á að markmið séu skýr, hnitmiðuð og styðji við sýn stjórnenda um framtíð fyrirtækisins. Sýnd verða nokkur dæmi um markmið og hvernig fljótlegast er að setja fram markmið og viðeigandi mælikvarða ásamt dæmum um aðgerðir til að ná framúrskarandi árangri.

Að loknum erindum gefst góður tími til að spjalla og spyrja spurninga en fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, í salnum Kviku á 1. hæð. Allir framtakssamir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en vinsamlegast skráið þátttöku hér að neðan. Kaffi, te og með því frá kl. 8.15.

Grunnurinn að góðum rekstri er sterkur rekstrargrunnur. Nokkrir lykilþættir einkenna fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn og er farið yfir þá í fundaröðinni sem lýkur föstudaginn 10. júní.  Þá verður fjallað um samninga í fyrirtækjarekstri og skipulag, ákvarðanir og eftirfylgni í daglegum störfum.

Nánar um fundaröðina og skráning.

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA eru bakhjarlar Litla Íslands.

Aðgerðarleysi stjórnvalda skaðar starfsemi faggiltra fyrirtækja

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 27.5.2016
Faggiltar skoðunarstofur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem og eftirliti í þágu almennings. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits. Þrátt fyrir að starfsemi faggiltra fyrirtækja grundvallist á ströngum skilyrðum og aðhaldi með þeirri starfsemi þá virðist sem brotalöm sé hvað varðar eftirfylgni stjórnvalda með þeim kröfum sem á þeim hvíla á þessu sviði.

SVÞ – Samtök verslundar hafa á undanförnum árum haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsumhverfi faggiltra skoðunarstofa á Íslandi en samtökin gæta hagsmuna meginþorra þessara fyrirtækja hér á landi. Að mati SVÞ hefur stjórnsýsla faggildingar ekki að öllu leyti staðið undir þeim væntingum og skyldum sem samevrópskt regluverk leggur á herðar innlendra stjórnvalda, m.a. á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum. Reglugerðin leggur ýmsar skyldur á herðar stjórnvalda s.s. þá skyldu að undirgangast svokallað jafningjamat þar sem sannreynt og staðfest er að stjórnvöld starfi að faggildingarmálum líkt og aðrar faggildingarstofur aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld enn ekki undirgengist slíkt jafningjamat og því uppfyllir íslenska ríkið þ.a.l. ekki kröfur áðurnefndar reglugerðar.

Þar til íslenska ríkið bætir úr þeim ágöllum sem uppi eru mun starfsemi faggildingaryfirvalda hér á landi vera marklaus og sem afleiðing þessa er að faggildingar sem stafa frá Íslandi teljast ekki gildar og ekki unnt að byggja á þeim sem slíkum. Ástand þetta hefur haft í för með sér verulegan kostnað fyrir innlenda aðila og hafa faggiltar skoðunarstofur á mörgum sviðum þurft að sækja nauðsynlega þjónustu erlendis frá með tilheyrandi kostnaði og óhagræði.

Að mati SVÞ hefur núverandi ástand mála skaðleg áhrif á starfsemi faggiltra skoðunarstofa og gengur gegn markmiði samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um frelsi til að veita þjónustu og frjálsa vöruflutninga. Í ljósi þessa hafa SVÞ sent kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA þar sem þess er óskað að stofnunin taki mál þetta til skoðunar.

Fréttatilkynningin á PDF sniði
Kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA