Boðskapurinn af Barónsstígnum

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 21.5.2016
Höfundar: Dr. Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu 

Á vefsíðu Embættis Landlæknis (EL) birti Birgir Jakobsson nýverið áskorun til heilbrigðisráðherra um tafarlausar úrbætur í heilbrigðismálum. Látið er í veðri vaka að heilbrigðiskerfið sé á vonarvöl og helsta ástæða þess sé að íslenskir læknar komi ekki heim til Íslands til vinnu á Landspítalanum. Það er erfitt að taka undir fyrri fullyrðinguna, enda þótt vissulega megi margt betur fara, en þá síðari mögulega auðveldara, en af allt öðrum ástæðum en Birgir virðist gera sér grein fyrir eða vilji horfast í augu við.

Af greininni er ljóst að honum er einstaklega í nöp við um 350 sérfræðilækna sem standa á eigin fótum og reka eigin heilbrigðisfyrirtæki skv. samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Kallar þetta í niðurlægingatón „einyrkjastarf sérfræðinga„. Sem þar að auki séu ekki „… í stakk búin til að takast á við vandamál sjúklinga..“. Þetta er ekki nýtt, enda vart formlega búin að taka við embættinu þegar hann var þá þegar búinn að úthúða starfsemi þeirra. Hafði furðuleg rök í frammi, þ.e. að þeim fjármunum, sem samningur SÍ og sjálfstætt starfandi lækna veitti til heilbrigðisþjónustunnar höfnuðu í „hít“ sem tæki fé frá annarri mun verðugri en fjársveltri heilbrigðisþjónustu. Þá helst Landspítalanum. Bætti og um betur með því að fullyrða að enginn vissi í hvað þessi peningar færu. Þessa skoðun sína hefur hann reyndar margítrekað síðan. En lesendum til upplýsingar þá fóru 157 milljarðar af opinberu fé til heilbrigðismála á sl. ári. Þar af runnu á um 5% þeirrar upphæðar til fjármögnunar á umræddum samningi SÍ. Fyrir þessa fjárhæð fékk kaupandi þjónustunnar (SÍ) um 470 þúsund læknisviðtöl ýmissa sérhæfðra sérfræðinga (um 30% allra koma til lækna á landinu það árið), 15-18.000 skurðaðgerðir af ýmsu tagi, nokkur þúsund maga- og ristilspeglanir, 76  þúsund rannsóknir af ýmsu tagi, 63 þúsund myndgreiningarrannsóknir ofl, ofl. Allt þetta er samviskusamlega skráð, kostnaðargreint og árlega sent frá SÍ til EL því til upplýsingar og til að gera EL eftirlitsskyldu sína skv. lögum mögulega.

Dettur einhverjum í hug að kaup ríkisins á ofangreindri sérfræðiþjónustu raski tilveru eða rekstri Landspítalans?  Allar þessar upplýsingar voru því innanbúðar hjá Birgi frá fyrsta starfsdegi hans og fyrr. Það er óumdeilt, ef menn hafa kynnt sér málin, að sú þjónusta sem ríkið hefur keypt af fyrirtækjum sjálfstætt starfandi lækna er í senn skilvirk og ódýr. Öll töluleg rök tala sama máli, bara ef menn lesa það sem að þeim er rétt. Bæði ef horft er til nágrannalandanna og hér innanlands. En mögulega er eitt af fótakeflum þessarar þjónustu hversu skilvirk og ódýr þjónustan er í samanburði við sambærilega opinbera þjónustu. Samanburðurinn er víða afar fróðlegur svo ekki sé meira sagt.

Bráða patentlausnir Birgis á vanda heilbrigðiskerfisins eru í fimm liðum:

•    Landspítalinn verður að fá skýr fyrirmæli um að sérfræðingar verði framvegis einungis ráðnir í fullar stöður.
•    Stefna verður að því að vaktabyrði sérfræðinga sé ekki meiri en 3–4 vaktir á mánuði.
•    Setja verður reglur um aukastörf lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.
•    Jafnframt verður LSH að fá fyrirmæli um að auka dag- og göngudeildarstarfsemi spítalans svo að hægt sé að auka aðgengi sjúklinga með króníska sjúkdóma að þjónustu, hvort sem þeir hafa legið inni á spítalanum eða ekki.
•    Segja verður upp samningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við samtök lækna og setja reglur um það að SÍ geri framvegis aðeins samninga við heilbrigðisfyrirtæki (opinber eða einkarekin) sem vinni samkvæmt ákveðinni kröfulýsingu og veiti þjónustu sem ríkið (greiðandinn) sér þörf fyrir.“

Hryggjarstykkið í tillögunum virðist að takmarka atvinnufrelsi lækna. Þvinga hámenntaða sérfræðinga til að vinna á einum vinnustað í fullu starfi og takmarka starfsemi sjálftætt starfandi lækna enda látið að því liggja að hennar sé ekki þörf.
Birgi virðist algerlega sjást yfir þá staðreynd að vandi Landspítalans er ekki starfsemi sjálfstætt starfandi lækna. Landspítalinn gæti hvort eð er aldrei undir nokkrum kringumstæðum tekið við þeirri starfsemi eða fjármagnað hana á þeim framlögum sem til hennar fara í dag af gjaldaliðum SÍ. Kraftaverk dygði ekki til. Vandi Landspítalans nær dýpra og lengra aftur í tímann sem aðlaðandi vinnustaður. Er ekki endilega skortur á nýjum byggingum eins og sumir telja sér og öðrum trú um. Vissulega skortur á tækjum nútímans. Vanda sem vanræktur hefur verið, en nú er verið að taka á. Mesta ógnin er mögulega stofnunin sjálf, stjórnendur hennar og sú fákeppni sem er á sjúkrahúsmarkaði.

Birgi hefur verið bent á þá staðreynd að stjórnendur stofnunarinnar brjóta lög um ráðningar lækna án þess að blikna. Ráða ekki hæfasta umsækjandann og eyða tugum milljóna af skattfé í málsóknir til að losa sig við eða hindra að viðkomandi fái starf á stofnuninni. Birgir hefur kært sig kollóttan yfir þessari staðreynd þrátt fyrir að vera lögbundinn eftirlitsaðili með starfseminni. Hvarflar það að Birgi að  þetta fæli lækna frá því að sækja um starf á Landspítalanum?
Minni á að fyrir 14 árum voru 4 sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Ekki alveg vandræðalaust, en það gaf möguleika til valfrelsis sjúklinga og ekki síst heilbrigðisstarfsmanna til vinnuveitanda.  Það er áhyggjuefni fyrir hönd sjúklinga og ekki síst verðandi starfsmanna hvernig Landspítalinn hefur haldið á málum sínum. Fjölbreytileiki í veitingu heilbrigðisþjónustu og valfrelsi sjúklinga til þjónustuveitenda er forsenda fyrir því að skapa góða heilbrigðisþjónustu sem sátt er um. Fákeppni í heilbrigðisþjónustu er engum til framdráttar.

Mannauðurinn er helsta verðmæti heilbrigðisþjónustunnar, sem er fyrst og fremst þekkingariðnaður. En valfrelsi til vinnuveitanda og mismunandi rekstarforma er lykilatriði, hvort sem er í spítalaþjónustu, heilsugæslu eða sérfræðiþjónustu. Ekki dugir að hengja bakara fyrir smið í þessu efni.

Blaðagreinin í Morgunblaðinu á pdf sniði.
Slóð inn á vefsíðu Samtaka heilbrigðisfyrirtækja.

Farsæll rekstur á Litla Íslandi

Fundaröð Litla Íslands um farsælan rekstur lítilla fyrirtækja er nú í fullum gangi en næsti fundur er nk. föstudag 3. júní og fjallar um starfsmenn og markmið.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, MBA, atvinnufélagsfræðingur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus ræðir um réttu skrefin fyrir stjórnendur í átt að stefnumiðaðri mannauðsstjórnun og tengingu við góðan rekstrarárangur. Farið verður yfir helstu tól og tæki stjórnandans í mannauðsmálum.

Símon Þorleifsson rekstrarverkfræðingur og ráðgjafi í viðskiptagreind og árangursstjórnun hjá Capacent fjallar um markmiðasetningu sem byggir á framtíðarsýn stjórnenda og eigenda. Lögð er áhersla á að markmið séu skýr, hnitmiðuð og styðji við sýn stjórnenda um framtíð fyrirtækisins. Sýnd verða nokkur dæmi um markmið og hvernig fljótlegast er að setja fram markmið og viðeigandi mælikvarða ásamt dæmum um aðgerðir til að ná framúrskarandi árangri.

Að loknum erindum gefst góður tími til að spjalla og spyrja spurninga en fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, í salnum Kviku á 1. hæð. Allir framtakssamir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en vinsamlegast skráið þátttöku hér að neðan. Kaffi, te og með því frá kl. 8.15.

Grunnurinn að góðum rekstri er sterkur rekstrargrunnur. Nokkrir lykilþættir einkenna fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn og er farið yfir þá í fundaröðinni sem lýkur föstudaginn 10. júní.  Þá verður fjallað um samninga í fyrirtækjarekstri og skipulag, ákvarðanir og eftirfylgni í daglegum störfum.

Nánar um fundaröðina og skráning.

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA eru bakhjarlar Litla Íslands.

Aðgerðarleysi stjórnvalda skaðar starfsemi faggiltra fyrirtækja

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 27.5.2016
Faggiltar skoðunarstofur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem og eftirliti í þágu almennings. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits. Þrátt fyrir að starfsemi faggiltra fyrirtækja grundvallist á ströngum skilyrðum og aðhaldi með þeirri starfsemi þá virðist sem brotalöm sé hvað varðar eftirfylgni stjórnvalda með þeim kröfum sem á þeim hvíla á þessu sviði.

SVÞ – Samtök verslundar hafa á undanförnum árum haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsumhverfi faggiltra skoðunarstofa á Íslandi en samtökin gæta hagsmuna meginþorra þessara fyrirtækja hér á landi. Að mati SVÞ hefur stjórnsýsla faggildingar ekki að öllu leyti staðið undir þeim væntingum og skyldum sem samevrópskt regluverk leggur á herðar innlendra stjórnvalda, m.a. á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum. Reglugerðin leggur ýmsar skyldur á herðar stjórnvalda s.s. þá skyldu að undirgangast svokallað jafningjamat þar sem sannreynt og staðfest er að stjórnvöld starfi að faggildingarmálum líkt og aðrar faggildingarstofur aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld enn ekki undirgengist slíkt jafningjamat og því uppfyllir íslenska ríkið þ.a.l. ekki kröfur áðurnefndar reglugerðar.

Þar til íslenska ríkið bætir úr þeim ágöllum sem uppi eru mun starfsemi faggildingaryfirvalda hér á landi vera marklaus og sem afleiðing þessa er að faggildingar sem stafa frá Íslandi teljast ekki gildar og ekki unnt að byggja á þeim sem slíkum. Ástand þetta hefur haft í för með sér verulegan kostnað fyrir innlenda aðila og hafa faggiltar skoðunarstofur á mörgum sviðum þurft að sækja nauðsynlega þjónustu erlendis frá með tilheyrandi kostnaði og óhagræði.

Að mati SVÞ hefur núverandi ástand mála skaðleg áhrif á starfsemi faggiltra skoðunarstofa og gengur gegn markmiði samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um frelsi til að veita þjónustu og frjálsa vöruflutninga. Í ljósi þessa hafa SVÞ sent kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA þar sem þess er óskað að stofnunin taki mál þetta til skoðunar.

Fréttatilkynningin á PDF sniði
Kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA

SVÞ efast um að búvörusamningar standist stjórnarskrá og lög um opinber fjármál

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 26.5.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent umsögn sína um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum en frumvarpinu er ætlað að lögfesta svokallaða búvörusamninga stjórnvalda við Bændasamtök Íslands. Í umsögn sinni gagnrýna SVÞ frumvarpið og umrædda búvörusamninga og hvernig stefnt er að því að keyra mál þetta áfram í gegnum Alþingi.

Í umsögninni draga SVÞ í efa hvort og hvernig gerð samninganna standist stjórnarskrá, því fulltrúar framkvæmdavaldsins hafi bundið hendur Alþingis varðandi þau fjárútlát sem þessir samningar hafa í för með sér fyrir ríkissjóði. Samkvæmt þessum samningum hefur íslenska ríkið skuldbundið sig að reiða af hendi um 130 – 140 milljarða íslenskra króna á tíu ára tímabili til viðbótar við 9 milljarða króna árlegan stuðning sem innlendur landbúnaðar nýtur óbeint í formi tollverndar á innfluttar landbúnaðarvörur. Telja samtökin að sú framkvæmd gangi gegn stjórnarskránni sem og fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál og samræmist ekki almennt viðurkenndum sjónarmiðum um fjárstjórnarvald Alþingis og þrískiptingu ríkisvaldsins.

Í umsögninni er einnig lagt til að greint verði með skýrum hætti á milli hefðbundins landbúnaðar, s.s. sauðfjár- og nautgriparæktar, og iðnaðarframleiðslu, s.s. alifugla- og svínaræktar, enda ber síðarnefnda starfsemin með sér að um sé að ræða almenna iðnaðarframleiðslu sem á lítið skylt við hefðbundinn landbúnað.

Þá er gerðar athugasemdir varðandi úthlutun á tollkvótum á innfluttum landbúnaðarvörum, þá sér í lagi skyldu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að leggja svokölluð útboðsgjöld á slík kvóta sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum. Í umsögninni er því lögð til breyting á núverandi fyrirkomulagi þar sem byggt verði á blandaðri leið hlutkestis og sögulegs innflutnings á þessum vörum. Grundvallast sú tillaga á frumvarpsdrögum sem hafa verið unnin og fylgja með umsögninni.

Loks gagnrýna SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því leggja SVÞ til að stigið verði skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum um helming.

Fréttatilkynningin á pdf sniði
Umsögn SVÞ um 680. mál – Búvörusamningar
Fylgiskjal 1 með umsgön SVÞ. Drög að frumvarpi til breytinga á 65. gr. búvörulaga

Fylgiskjal 2 með umsögn SVÞ um 680. mál

Verslunin lækkar vöruverð í samræmi við niðurfellingu tolla – Auðvitað

Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 25.5.2016
Höfundur: Margrét Sanders, formaður stjórnar SVÞ

Um síðustu áramót var tekið stórt skref til eflingar verslunar á Íslandi þegar tollar á fötum og skóm voru afnumdir og ber að þakka stjórnvöldum fyrir framsýnina.
Versl. lækkar vöruverð - úrdr.
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) fögnuðu auðvitað þessari ákvörðun og var strax farið af stað með verslunum innan samtakanna að undirbúa þessa miklu aðgerð. Gerð var greining á því hversu hátt hlutfall af fötum og skóm bæru nú þegar ekki tolla, s.s. vegna fríverslunarsamninga og annarra milliríkjasamninga, og kom í ljós að um 35% af þessum vörum báru engan toll, þ.e. voru þá þegar tollfrjálsar. Fundað var með verslunareigendum og var mikill hugur í mönnum að sýna og sanna að þessi leið væri hagstæð fyrir neytendur og myndi skila sér í lækkuðu verði á þeim vörum sem enn báru tolla.

Strax fór að bera á því að ákveðnir aðilar voru mjög svo gagnrýnir á þessa ákvörðun stjórnvalda og sögðu beinlínis að verslunin myndi „stela“ þessari niðurfellingu og bar þar hæst skoðun Bændasamtakanna, örfárra þingmanna og einnig heyrðust gagnrýnisraddir frá ASÍ. Þetta kom verulega á óvart þar sem gerðar höfðu verið kannanir sem sýndu að fata- og skóverslun á Íslandi var stöðugt að færast til útlanda og að þessar breytingar myndu einna helst koma tekjulægri einstaklingum til hagsbóta sem kaupa þessar vörur á Íslandi.

Margar verslanir lögðu mikla vinnu í að upplýsa neytendur um verðlækkun og það mátti sjá í fjölda áberandi merkinga verslana þar sem kom fram verð fyrir niðurfellingu tolla og verð eftir niðurfellingu. Þetta framtak er til fyrirmyndar.

Þegar rýnt er í síðustu mælingar Hagstofu Íslands kemur í ljós að um 4% lækkun hefur verið á þessum vörum. Samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra sem tollalækkunin grundvallast á var búist við að um 10-13% lækkun yrði á fötum og skóm sem þá báru tolla, það ítrekast að ekki var um að ræða allar vörur því eins og að framan segir þá bar hluti þeirra ekki tolla. Hafa skal hugfast að 4% lækkun er örlítið meiri lækkun en efnahagssvið SA gerði ráð fyrir á þessum tímapunkti sem áhrif af þessum tollalækkunum þar sem litið var m.a. til kostnaðarsamra kjarasamninga og veltuhraða á þessum vörum, eitthvað sem gagnrýnisraddir í garð verslunarinnar hafa einhverra hluta vegna ekki tekið tillit til í sínum útreikningum.

Við hjá SVÞ erum sannfærð um að verðlækkun á fötum og skóm verður meiri. Samkeppnin á þessum markaði er ekki einungis á Íslandi heldur er hún alþjóðleg og því skiptir það okkur öll máli að verð og framboð verði sambærilegt við þau lönd sem við berum okkur saman við. Á móti kemur að aðhald með verslun verður að byggjast á réttum upplýsingum og málefnalegum rökum og ekki sett fram gegn betri vitund enda skaðar slíkt ekki eingöngu innlenda verslun heldur einnig þá aðila sem treysta á þá starfsemi, s.s. starfsfólk. Því vonumst við eftir, með allri auðmýkt, að neytendur og þau samtök sem bera hag þeirra fyrir brjósti treysti okkur þegar við segjum: Verslunin lækkar vörur í samræmi við niðurfellingu tolla – auðvitað.

Blaðagreinin í Fréttablaðinu 25.5.2016 – Verslunin lækkar vöruverð í samræmi við niðurfellingu tolla – Auðvitað

Fundaröð Litla Íslands

Litla Ísland er vettvangur þar sem smá fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum. Í tilefni sumarkomunnar efnir Litla Ísland til fundaraðar þar sem farsæll rekstur fyrirtækja verður í forgrunni.

Mikilvægt er að undirbúa stofnun fyrirtækis vel og leggja grunn að góðum rekstri strax í upphafi. Grunnurinn að góðum rekstri er sterkur rekstrargrunnur. Nokkrir lykilþættir einkenna fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn og verður farið yfir þá í fundaröðinni.

Fyrsti fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 25. maí í Húsi atvinnulífsins í salnum Kviku kl. 8.30-10, annar fundurinn verður föstudaginn 3. júní og sá þriðji föstudaginn 10. júní á sama stað og tíma. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA. Skrá þátttöku hér.

Fundirnir þrír eru hugsaðir sem ein heild og því fær fólk mest út úr því að sækja þá alla en einnig er hægt að skrá sig á staka fundi. Dagskrá má sjá hér að neðan en að loknum erindum gefst góður tími fyrir fyrirspurnir og umræður.

Boðið verður upp á kaffi, te og með því auk áhugaverðra fyrirlestra.

Miðvikudagur 25. maí kl. 8.30-10

Bókhald
Bókhald er áttaviti og mikilvægt stjórntæki.

Inga Jóna Óskarsdóttir viðurkenndur bókari, ráðgjafi og eigandi hjá Bókhaldi og kennslu og formaður félags bókhaldsstofa fjallar um lykilatriði í bókhaldi, hvað ber að varast og mikilvægi bókhalds sem stjórntækis í rekstri.

Markaðsmál
Á sandi byggði heimskur maður … markaðsstarfið. Vertu með á hreinu hvernig þú getur byggt það á bjargi.

Þóranna K. Jónsdóttir markaðsnörd hjá Markaðsmálum á mannamáli fjallar um þau atriði sem skipta mestu máli í uppbyggingu öflugs markaðsstarfs en eru jafnframt oft vanrækt hjá fyrirtækjum.

Umræður og fyrirspurnir

Föstudagur 3. júní kl. 8.30-10

Starfsmenn
Starfsmannamál – réttu skrefin fyrir stjórnendur.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, MBA, atvinnufélagsfræðingur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus fjallar um helstu réttu skrefin í átt að stefnumiðaðri mannauðsstjórnun og tengingu við góðan rekstrarárangur. Farið verður yfir helstu tól og tæki stjórnandans í mannauðsmálum.

Markmið
Ögrandi markmið og þolinmæði.

Símon Þorleifsson rekstrarverkfræðingur og ráðgjafi í viðskiptagreind og árangursstjórnun hjá Capacent fjallar um markmiðasetningu sem byggir á framtíðarsýn stjórnenda og eigenda.

Lögð er áhersla á að markmið séu skýr, hnitmiðuð og styðji við sýn stjórnenda um framtíð fyrirtækisins. Sýnd verða nokkur dæmi um markmið og hvernig fljótlegast er að setja fram markmið og viðeigandi mælikvarða ásamt dæmum um aðgerðir til að ná framúrskarandi árangri.

Umræður og fyrirspurnir

Föstudagur 10. júní kl. 8.30-10

Samningar
Helstu samningar í fyrirtækjarekstri.  

Inga Björg Hjaltadóttir héraðsdómslögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus fjallar um helstu samninga í fyrirtækjarekstri og mikilvægi vandaðrar samningagerðar.

Skipulag
Skipulag, ákvörðunartaka og eftirfylgni í daglegum störfum.

Thomas Möller hagverkfræðingur, MBA og framkvæmdastjóri Rýmis fjallar um mikilvægi skýrleika (e. clarity) í rekstri og svörunar til starfsfólks (e. feedback). Hann mun einnig fjalla um helstu strauma í framkvæmd stefnumótunar (e. execution).

Umræður og fyrirspurnir

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA eru bakhjarlar Litla Íslands.

logo-2016 - B35