Ársskýrsla SVÞ 2015-2016
Ársskýrsla SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu fyrir starfsárið 2015-2016 gefin út á rafrænu formi.
Nálgast má skýrsluna hér.
Ársskýrsla SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu fyrir starfsárið 2015-2016 gefin út á rafrænu formi.
Nálgast má skýrsluna hér.
Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var velta í byggingavöruverslun 16,7% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra eða rúmlega 20% meiri á föstu verðlagi. Vetrarmánuðirnir eru jafnan rólegir í byggingavöruverslun en veltan í febrúar var sambærileg veltu aprílmánaðar undanfarin tvö ár á föstu verðlagi. Má því segja að vorið í byggingavöruverslun komi nú tveimur mánuðum á undan áætlun. Verð byggingavara var nokkuð lægra í liðnum mánuði en í febrúar í fyrra og hafa sem dæmi verkfæri lækkað í verði um ríflega 7% frá fyrra ári en efni til viðhalds hækkað um tæpt prósent.
Töluverð veltuaukning hefur verið í húsgagnaverslun undanfarna mánuði og var veltan í febrúar 38,7% meiri en á sama mánuði í fyrra. Séu síðustu tólf mánuðir bornir saman við tólf mánaða tímabilið þar á undan hefur vöxtur í sölu húsgagna verið 17,4% en 19,2% á föstu verðlagi. Verðlag húsgagna hækkaði nokkuð í febrúar frá fyrra ári, eða um 4,3%. Má þó geta þess að verðlag síðustu tólf mánaða er um 1,4% lægra að meðaltali en verðlag á því tólf mánaða tímabili sem á undan kom.
Febrúar var degi lengri í ár en venjulega og sáust þess merki í dagvöruverslun, sem var 8,7% meiri í febrúar í ár en í fyrra. Árstíðarleiðrétt velta á föstu verðlagi var 3,9% meiri en í fyrra en verðlag dagvöru var 1,4% hærra en í febrúar í fyrra. Velta dagvöruverslana á milli ára er nokkuð viðkvæm fyrir hlaupárum enda velta flokksins jafnan nokkuð stöðug við hefðbundinn samanburð jafn langra mánaða. Svo fjölgun daga sé sett í samhengi við áðurnefndan veltuvöxt voru 3,6% fleiri dagar í febrúar árið 2016 en árið 2015 og því er rétt að miða við árstíðaleiðréttu töluna. Telst sú veltuaukning þó nokkur jafnvel þegar gert hefur verið ráð fyrir þessu.
Velta áfengisverslunar fyrir virðisaukaskatt var 18,7% meiri og fjöldi seldra lítra áfengis 4,8% meiri í febrúar nú en fyrir ári síðan. Skýrist mismunurinn að mestu leyti af breytingum á skattheimtu áfengis um áramótin þegar VSK var lækkaður en áfengisgjöld, sem innheimt eru á framleiðslu- eða innflutningsstigi, voru hækkuð á móti. Verð áfengis var 1% hærra í febrúar í ár samanborið við sama mánuð í fyrra.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,7% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 7,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í febrúar um 3,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,4% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í febrúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 18,7% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 17,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis á föstu verðlagi í febrúar um 13% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Fataverslun jókst um 5,9% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og um 5,1% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 1% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 10,9% í febrúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 10,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 9,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í febrúar um 0,3% frá febrúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 38,7% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 30,1% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 47,5% á breytilegu verðlagi.
Verð á húsgögnum hefur lækkað um 4,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í febrúar um 16,7% á breytilegu verðlagi og um 20,2% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,9% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum stóð í stað í febrúar á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 9,6%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,1% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 3,3% á milli ára. Verð á raftækjum fer almennt lækkandi. Þannig var verð á stórum raftækjum sem dæmi 5,9% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 16.3.2016
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið var lagafrumvarp um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis afgreitt úr allsherjar- og
menntamálanefnd Alþingis sl. þriðjudag. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu fagna þessum áfanga enda studdu samtökin frumvarpið í umsögn sinni um málið, bæði nú sem og áður þegar samhljóða mál hafa verið lögð fram á þinginu.
SVÞ benda á að frumvarpið er í samræmi við áherslur samtakanna um að færa verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila og er verslun með áfengi engin undantekning þar á. Þá felur frumvarpið í sér aukna möguleika til hagræðingar hjá hinu opinbera enda mun ríkið losna undan skuldbindingum sínum varðandi núverandi einkaleyfi, s.s. rekstrarkostnað, sem að óbreyttu fellur til við að halda úti starfsemi ÁTVR og viðhalda skyldum vegna einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis. Eftir sem áður mun ríkið halda eftir tekjum sem renna í ríkissjóð vegna m.a. álagningar áfengisgjalda. Að sama skapi felur frumvarpið í sér möguleika til hagræðingar hjá einkaaðilum þar sem unnt verður að samnýta verslunarrými sem þegar er nýtt undir aðrar vörur eða starfsemi.
SVÞ ítreka einnig að frelsi í viðskiptum fylgi ábyrgð og verslun og einkaaðilar taka hlutverk sitt alvarlega enda hefur þessum aðilum undanfarana áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, s.s. sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heillindi til að sinna þessum verkefnum og benda SVÞ á að það sama eigi við varðandi smásölu áfengis. Verði frumvarpið samþykkt mun verslunin ekki láta sitt eftir liggja að annast hlutverk sitt með ábyrgum og öruggum hætti. Því fagna SVÞ sérstaklega þeirri áherslu sem lögð er á forvarnir í frumvarpinu og vísa m.a. til þess árangurs sem náðst hefur að draga úr tóbaksnotkun með öflugu forvarnarstarfi.
SVÞ gagnrýna hins vegar að ekki er tekið til endurskoðunar bann við auglýsingum á áfengi. Í því samhengi benda SVÞ á að þrátt fyrir umrætt bann er heimilað að flytja inn til landsins blöð og tímarit sem innihalda áfengisauglýsingar og áfram munu íslenskir neytendur hafa áfengisauglýsingar fyrir augunum í gegnum erlendar sjónvarpsrásir sem sendar eru út hér á landi sem og á Internetinu. Svo mun verða áfram og á meðan mun áðurnefndur aðstöðumunur því áfram vera innlendri framleiðslu í óhag þar sem íslenskir framleiðendur munu áfram standa höllum fæti við að koma vöru sinni á framfæri við neytendur.
Eins og áður segir fagna SVÞ því að málið hafi verið afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd og telja samtökin mikilvægt að málið komist á dagskrá Alþingis og fái þar þinglega meðferð þannig að unnt verði að greiða atkvæði um málið á þinginu.
Ræðumenn:
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
Margrét Sanders, formaður SVÞ, flytur áhugavert erindi um þjónustu þar sem hún m.a. sýnir samanburð á mannaráðningum ríkisstofnana og úthýsingu verkefna
Ken Hughes, einn helsti sérfræðingur heims í neytenda- og kauphegðun, leitar svara við eftirfarandi spurningum:
Ari Eldjárn kitlar síðan hláturtaugarnar með spaugilegum hliðum málanna.
Hlökkum til að sjá þig!
Á ráðstefnu SVÞ þann 17. mars nk. mun einn helsti sérfræðingur heims í neytenda- og kauphegðun flytja klukkutíma langt erindi. Hann leitar svara í neytendasálfræði, mann-, hag,- og markaðsfræði og hefur getið sér einstaklega gott orð sem fyrirlesari og margverðlaunaður á því sviði.
Aðgangur er frír en takmarkaður fjöldi sæta, svo áhugasamir eru hvattir til að skrá sig á www.svth.is
Samtök verslunar og þjónustu stóðu fyrir fundi þriðjudaginn 1. mars undir yfirskriftinni „Skipta búvörusamningar neytendur máli?“ásamt Félagi atvinnurekenda, Viðskiptaráði Íslands, Neytendasamtökunum, ASÍ, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Samtökum skattgreiðenda og Öryrkjabandalagi Íslands.
Framsögu hafði Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði og forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Beindi Daði Már sjónum að því hvort hagsmuna neytenda væri gætt í nýjum búvörusamningum. Í framsögu Daða Más kom m.a. fram að kjúklingaræktin hér á landi fengi í raun 66% stuðning í formi tollverndar, þrátt fyrir að ekki væri um neinn beinan stuðning við greinina að ræða. Daði Már var gagnrýninn á þá skort á framsýni f.h. landbúnaðarins sem birtist í nýgerðum búvörusamningum og sagði að þær breytingar sem þó væri lagt upp með gerðust mjög hægt. Á fyrstu fimm árum samningsins yrðu t.a.m. engar raunverulegar breytingar á því styrkjafyrirkomulagi sem greinin hefði búið við undanfarna áratugi.
Hér má nálgast glærur Daða Más Kristóferssonar.
Að lokinni framsögu var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir.
Í pallborði sátu: Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ, Teitur Atlason, varaformaður Neytendasamtakanna, Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
Reifuðu þau niðurstöður í erindi Daða Más og svöruðu fyrirspurnum fundargesta ásamt framsögumanni.
Fundarstjóri var Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu