22/11/2022 | Fréttir, Lögfræðisvið SVÞ, Verslun, Þjónusta
Á þessu ári hefur kærunefnd vöru- og þjónustukaupa fellt þrjá úrskurði sem tilefni er til vekja athygli á. Í öllum tilvikum var deilt um hvort verslun væri bundin við ranga verðmerkingu á söluvörum. Úrlausnir kærunefndarinnar gefa til kynna að vanda þarf til verka við verðmerkingar, hvort heldur er á verslunarvörum í hefðbundinni verslun eða þegar slíkar vörur eru seldar í netverslun.
Í tveimur úrskurðum kærunefndarinnar frá 28. janúar 2022 var deilt um hvort verslun væri skylt að efna samninga um sölu á verkfærasettum þar sem mistök höfðu leitt til þess að uppgefið tilboðsverð nam aðeins 10% af því verði sem til stóð að bjóða. Ekki var fallist á kröfu neytanda og var verslunin því óbundin af hinu ranga verði. Í úrskurði kærunefndarinnar frá 18. október 2022 var deilt um hvort verslun væri skylt að efna samning um kaup á fjórhjóli þar sem mistök höfðu leitt til þess að verð þess hafði verið merkt einni milljón króna lægra en til stóð. Fallist var á kröfu neytanda og var úrskurðurinn efnislega á þá leið að versluninni væri skylt að standa við hið rangt merkta verð.
Af lestri úrskurðanna verður ráðið að það hallar í verulegum atriðum á verslunina þegar mistök verða við verðmerkingu. Því er afar brýnt að ganga úr skugga um að vörur sé rétt verðmerktar. Hafa ber í huga að ákvæði 5. mgr. 3. gr. reglna nr. 536/2011, um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum, eru svohljóðandi:
Fyrirtæki skal selja vöru á því verði sem verðmerkt er einnig þótt um mistök sé að ræða. Þetta á hins vegar ekki við ef kaupanda má vera ljóst að um mistök sé að ræða.
Mjög mikið þarf að koma til eigi að takast á sýna fram á að kaupanda hafi verið mistökin ljós.
Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedikt(hjá)svth.is, s. 864-9136.
01/11/2022 | Fréttir, Verslun
Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) er leiðandi aðili á Íslandi í rannsóknum og tölfræðivinnslu fyrir verslun og tengdar atvinnugreinar.
Markmið Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) er að hafa allar upplýsingar og gögn er varða verslun og þjónustu aðgengilegar á einum stað. Það markmið verður að veruleika í dag, 1.nóvember, þegar rannsóknasetrið opnar nýjan notendavef, Sarpinn. Tilkoma Sarpsins eru mikil tímamót fyrir hagaðila innlendrar verslunar og þjónustu.
Á notendavef RSV, Sarpinum, er hægt að nálgast allar upplýsingar og göng er varða verslun og þjónustu í landinu aðgengilegar á einum stað. Almennt felst starfsemi rannsóknasetursins í að fylgjast með þróun og breytingum er varða verslun og neysluhegðun og koma á framfæri upplýsingum því tengdu til fyrirtækja og almennings.
Rannsóknasetrið gegnir lykilhlutverki sem upplýsingaveita um vísitölur og aðra tölfræði sem stjórnendur í verslun þurfa á að halda í ákvarðanatöku í daglegri stjórnun og vegna stefnumótunar til lengri tíma.
Á Sarpinum má nálgast allar helstu tölfræðiupplýsingar, kortaveltugögn, vísitölur, rannsóknir og greiningar er varða verslun og þjónustu í landinu.
Mælaborð verslunarinnar.
Mælaborð verslunarinnar lítur dagsins ljós með tilkomu Sarpsins. Þar má einnig finna kortaveltusvæði með gögnum RSV um kortaveltu, bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna og vísitölusvæði með hinum ýmsu vísitölum verslunar og þjónustu.
Til að mynda vísitölu smásöluveltu, vísitölu hrávöruverðs og Netverslunarvísi RSV sem gefinn verður út í fyrsta sinn á árinu 2022. Sarpurinn verður í stöðugri þróun og munu spennandi nýjungar reglulega líta þar dagsins ljós.
SMELLTU HÉR til að finna hvaða áskriftarleið Sarpsins hentar þinni verslun.
31/10/2022 | Fréttir, Leiðtogi SVÞ
Leiðtogi október 2022 hjá SVÞ Samtökum verslunar og þjónustu er Aldís Arnardóttir, sviðsstjóri verslanasviðs 66°Norður.
Á sama tíma og við óskuðum Aldísi til hamingju með tilnefninguna fengum við hana til að svar nokkrum spurningum.
Aldís, segðu okkur frá starfinu þínu, hvað einkennir starfið þitt?
Ég hef síðastliðin 11 ár leitt verslanasvið fyrirtækisins. Tekjuhæsta og jafnframt fjölmennasta svið fyrirtækisins. Á Verslanasviði starfa um 100 starfsmenn, á íslandi og erlendis.
Starfið er mjög fjölbreytt og krefst mikilla samskipta, bæði við fólk í mínu teymi og annarra innan og utan fyrirtækisins. Ég og mitt teymi leiðum öll þau mál sem heyra undir verslanarekstur fyrirtækisins sem telur í heildina 13 verslanir, 11 á Íslandi og 2 í Danmörku.
Stefnt er að opnun 14 verslunarinnar á næstu vikum. Það hefur verið mikill vöxtur hjá félaginu síðustu ár og búið að vera ótrúlega skemmtilegt og gefandi að fá að vera hluti af þeirri vegferð sem við erum á. Þessa dagana er ég mikið með hugann við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins á erlendri grunndu og þá hvað þurfi að gerast til að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur.
Hvað er skemmtilegast við starfið þitt?
Ég myndi segja að það sem væri skemmtilegast væri fjölbreytnin sem fylgir starfinu en ásamt því þá er ótrúlega dýrmætt að eiga góða liðsfélaga innan fyrirtækisins sem allir hafa svo mikið fram að færa, með ólíkan bakgrunn og þekkingu.
Sömuleiðis er vinnustaðurinn sjálfur frábær, mikið um að vera og vel hugsað um starfsfólk. Mikið lagt uppúr því að hafa gaman af vinnunni og í vinnunni!
Hvernig viðhelduru ástríðunni fyrir starfinu?
Ég leitast mikið eftir því að afla mér aukinnar þekkingar, takast á við nýjar og spennandi áskoranir ásamt því að setja mér háleit markmið sem heldur manni við efnið og viðheldur ástríðunni fyrir starfinu.
Hvernig er hinn týpiski vinnudagur?
Hann er alla jafna mjög fjölbreyttur.
Enginn dagur er eins en ætli ég sé ekki nokkuð mikið á milli hinna ýmsu funda, eða það myndu allavega mínir nánustu samstarfsmenn segja. Ég er orðin nokkuð sjóuð í að halda mörgum boltum á lofti og hef gaman af að hendast úr einu í annað. Annars byrja ég vinnudaginn langoftast á einum kaffibolla, fer yfir dagskrá dagsins og renni yfir tölvupósta.
Að halda teyminu mínu upplýstu og inní málum skiptir mig miklu máli og því fer alltaf ákveðinn tími dagsins í að ræða við hópinn minn, taka stöðuna á verkefnum og fylgja eftir því sem er í gangi. Annars eru stóru verkefnin þessa stundina búðaropnanir erlendis sem tekur ágætis tíma úr dagatalinu þessa dagana.
Hvaða vana myndir þú vilja breyta?
Ég veit ekki hvort það er eitthvað sem ég myndi endilega vilja breyta eins og staðan er núna.
Ég gæti eflaust talið upp ýmislegt eins og að vakna aðeins fyrr, yfir í að drekka minna kaffi og borða minna súkkulaði. En finnst hreinlega mikilvægara að njóta þess eins og staðan er núna, lifa í núinu og finna ákveðið jafnvægi á hlutunum.
Ef þú værir hundur, hvernig hundur værir þú? Hvernig myndir þú lýsa þér?
Held ég sé ekki nógu vel að mér um hunda til að átta mig á því hvaða tegund það gæti verið. Ætli ég væri ekki einhver sem hefði gaman að því að vera í kringum fólk, myndi hlaupa um allar trissur ef mér yrði sleppt út og ætti kannski örlítið erfitt með að fylgja fyrirmælum, en að sama skapi með fínasta jafnaðargeð.
Hvað ertu að læra eða bæta við þekkingu hjá þér þessa dagana?
Ég hlusta töluvert á hlaðvörp og hef mjög gaman af því að læra af fólki sem er að vinna að áhugaverðum hlutum eða er að gera það gott í atvinnulífinu. Sömuleiðis læri ég mikið af fólkinu í kringum mig, bæði í vinnunni og utan hennar.
Ég hef t.d. mjög gaman af því að vinna með fólki sem nálgast hlutina á annan hátt en ég. Annað slagið tek ég svo uppá því að hlusta á áhugaverðar bækur sem snúa að leiðtogahæfni eða ákveðnu málefni sem mig langar að styrkja mig í.
Núna síðast hlustaði ég á Measure what matters eftir John Doerr, hef hlustað nokkrum sinnum á hana og því var það fínasta upprifjun. Bókin fjallar um markmiðasetningu eða OKR´s (Objective and Key Results) sem er aðferðafræði sem hefur gagnast okkur í 66°Norður vel í þó nokkurn tíma.
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
Árið hefur einkennst af búðaropnunum en við opnuðum í sumar glæsilega verslun í nýjum verslunarkjarna á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur.
Samhliða því hefur London átt hug minn og hjarta. Við erum að opna okkar fyrstu verslun í Bretlandi, á Regent Street í London, núna á næstu vikum og því nóg að gera í kringum það. Verkefnið er mikil fjárfesting og hefur átt sér langan aðdraganda.
Það má segja að við séum búin að vera að undirbúa okkur fyrir vöxt erlendis frá því ég kem inní fyrirtækið fyrir 11 árum. Framtíðarsýnin hefur á þeim tíma verið mjög skýr og opnun í London í samræmi við það.
Sjálfbærni er ein af þremur áherslum SVÞ þessi misserin Hvernig hefur þú tæklað þessa hluti í þínu starfi?
Sjálfbærni er fyrirtækinu mjög mikilvæg og hefur verið hluti af okkur frá stofnun, við framleiðum flíkur sem eiga að endast og ganga á milli kynslóða. Við erum með viðgerðastofu sem gerir við fatnað og erum sömuleiðis með okkar eigin verksmiðjur sem gefur okkur tækifæri til þess að nýta allt umfram efni og framleiða úr því t.d. fylgihluti, töskur ofl.
Fyrirtækið hefur verið Kolefnisjafnað síðan 2019 og sömuleiðis hlaut fyrirtækið alþjóðlega sjálfbærnivottun B Corp™ fyrst íslenskra fyrirtækja fyrr á þessu ári.
Vottunin hljóta þau fyrirtæki sem hafa uppfyllt hæstu kröfur um samfélagslega og umhverfislega frammistöðu í starfsemi sinni á ábyrgan og gagnsæjan hátt.
____________
Um 66°Norður
66°Norður er eitt elsta framleiðslufyrirtæki á Íslandi. Árið 1926 hóf fyrirtækið framleiðslu á sérstökum hlífðarfatnaði fyrir sjómenn og fiskverkunarfólk á norðurslóðum.
Með tímanum þróaðist fyrirtækið yfir í hönnun og framleiðslu á hágæða útivistarfatnaði. Í dag starfa um 400 manns hjá fyrirtækinu og starfar fyrirtækið í fjórum löndum, á Íslandi, í Danmörku, Bretlandi og Lettlandi.
Á Íslandi rekur Sjóklæðagerðin ellefu verslanir undir vörumerkinu 66°Norður og í Kaupmannahöfn eru tvær verslanir þar sem sú fyrsta opnaði í lok árs 2014.
Árið 2019 var opnuð skrifstofa í Lundúnum. Í lok árs 2022 mun fyrirtækið opna nýja verslun 66°Norður í Lundúnum.
66°Norður hefur verið í Samtökum verslunar og þjónustu frá árinu 2014.
19/10/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Viðskiptablað Morgunblaðsins birtir í dag viðtal við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI um mikla breytingu á vinnumarkaði.
Þar kemur m.a. fram að hlutfall erlendra ríkisborgara sem búsettir eru í sveitarfélögum í kringum höfuðborgarsvæðið hefur tvöfaldast frá miðju ári 2010.
Í viðtalinu bendir Andrés m.a. á að á þeim tíma sem hann hefur verið framkvæmdastjóri SVÞ hefur aldrei verið kvartað jafn mikið yfir erfiðleikum við að ráða starfsfólk til starfa. Og þá sérstaklega fólk sem stenst sérstakar hæfniskröfur.
Andrés bendir einnig á að ef að við tökum heildsölu og smásöluverslanir sérstaklega þá eru þessar greinar að ganga í gegnum umbreytingu á stafrænu tækninni sem eru meiri en við höfum séð áratugum saman. Það á ekki einungis við um Ísland heldur stöðuna allstaðar í Evrópu. Þetta kallar á breyttar hæfniskröfur á starfsfólki og þetta er ein af þremur stærstu áskorunum sem blasir við greininni. Hinar tvær eru stafræn umbreyting og sjálfbærni.
SMELLTU HÉR til að nálgast alla greinina.
18/10/2022 | Fréttir, Verslun
RSV (Rannsóknasetur Verslunarinnar) leitar til innlendra verslana eftir tillögum að jólagjöf ársins!
Nú er komið að hinu árlega verkefni RSV um jólagjöf ársins!
Jogging gallinn varð fyrir valinu í fyrra en hvað verður í jólapakkanum í ár?
Verkefnið fer þannig fram að upplýsinga er aflað frá neytendum og verslunum um vinsælar sérvörur í aðdraganda jóla. Rýnihópur RSV, sem skipaður er völdum neytendafrömuðum, mun svo koma saman og velja jólagjöf ársins út frá gefnum upplýsingum og forsendum.
Niðurstaðan verður að þessu sinni birt þann 1. desember nk.
Til að fá upplýsingar um hvaða vörur seljast best í aðdraganda jóla leitum við til ykkar sem rekið verslanir í landinu. Við tryggjum að gagnaskil fari fram með einföldum hætti svo þátttaka verði sem minnst íþyngjandi.
Við hvetjum ykkur til að taka þátt! Hverjar verða þrjár mest seldu vörurnar í þinni verslun á tímabilinu 1. október til 20. nóvember?
Þátttaka tilkynnist með tölvupósti á netfangið rsv@rsv.is. Tilkynning um þátttöku skal innihalda upplýsingar um nafn verslunar og tengilið hennar.
Þátttakendur fá sendar upplýsingar um vefform fyrir gagnaskil í tölvupósti. Einnig er hægt að óska eftir símtali og skila þannig upplýsingunum munnlega. Gagnaskil fara fram dagana 21.-24. nóvember nk.