Innflutningur á óöruggum vörum, SVÞ kallar eftir aðgerðum

Innflutningur á óöruggum vörum, SVÞ kallar eftir aðgerðum

SVÞ kallar eftir aðgerðum til að tryggja öryggi neytenda og jafnan grundvöll samkeppni

Í frétt á Vísir , frá 11. maí sl., er sagt frá áhyggjum íslenskra stjórnvalda kaupa neytenda á vörum frá kínversku netrisunum Temu og Shein. Af þessu tilefni vilja SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu leggja áherslu á mikilvægi neytendaverndar og jafnan grundvöll samkeppni.

Úrtaksrannsóknir hafa gefið til kynna að allt að 70% af vörum sem seldar eru á þessum síðum geti innihaldið skaðleg efni sem eru bönnuð á EES-svæðinu.

„Við höfum áhyggjur af því að íslenskir neytendur setji sig í hættu“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ og bætir við „Þetta snýst hins vegar ekki aðeins um neytendavernd heldur einnig um stöðu íslenskrar verslunar sem þarf ávallt að ganga úr skugga um að þær vörur sem hér eru seldar uppfylli settar kröfur og sætir innlendu eftirliti.“

SVÞ hefur á síðastliðnu ári átt samstarf við norræn systursamtök á vettvangi EuroCommerce þar sem þrýst hefur verið á að sömu kröfur séu sannarlega gerðar til allra sem selja evrópskum neytendum vörur. Það er bæði versluninni og neytendum til hagsbóta að traust ríki, neytendur njóti þess öryggis sem ætlunin er að tryggja og að jöfn samkeppni ríki á markaði.

SVÞ fylgist náið með þróun mála. „Neytendur velja við hverja þeir eiga viðskipti. Það eru þeirra hagsmunir að eiga viðskipti við söluaðila sem fylgja settum reglum.“ bætir Benedikt við. “Ef skaði hlýst af notkun vöru getur neytandinn verið ansi berskjaldaður í viðskiptum við söluaðila í fjarlægum heimshluta þar sem jafnvel gilda allt aðrar reglur um ábyrgð þeirra á tjóni en hér tíðkast”.

Tilnefndu þitt fyrirtæki til Evrópsku verslunarverðlaunanna 2025

Tilnefndu þitt fyrirtæki til Evrópsku verslunarverðlaunanna 2025

EuroCommerce hefur opnað fyrir tilnefningar til Evrópsku verslunarverðlaunanna 2025, sem haldin verða 2. desember í Brussel.
Verðlaunin veita evrópskum fyrirtækjum og samtökum viðurkenningu fyrir framúrskarandi framtak sem mótar framtíð verslunar og heildsölu í Evrópu.

Félagsfólk SVÞ er hvatt til að senda inn tilnefningar í eftirfarandi flokkum:

  • Sjálfbærni

  • Stafrænar lausnir

  • Samfélagsleg þátttaka

  • Hæfni og mannauðsþróun

Síðasti dagur til að skila inn tilnefningu er 6. júlí 2025.

Þetta er einstakt tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að sýna Evrópu hvað þau standa fyrir – hvort sem það snýst um nýsköpun, ábyrgð eða framsækna hæfniuppbyggingu.

Tilnefna má bæði sitt eigið fyrirtæki eða önnur fyrirtæki sem þykja skara fram úr.

Frekari upplýsingar og eyðublað til tilnefningar má finna hér:
👉 https://www.eurocommerce.eu/european-commerce-awards-2025/

Tilgangur sem drifkraftur – SVÞ býður félagsfólki á morgunfund með Skúla Valberg

Tilgangur sem drifkraftur – SVÞ býður félagsfólki á morgunfund með Skúla Valberg

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu bjóða félagsfólki sínu til morgunfundar 14. maí þar sem Skúli Valberg Ólafsson, rekstrarráðgjafi hjá KPMG, fjallar um hvernig tilgangur getur orðið lykill að meiri árangri í rekstri.

Á fundinum varpar Skúli ljósi á hvernig lifandi tilgangur – þegar hann er virkur hluti af stefnu og menningu – getur styrkt teymi, aukið tengsl við viðskiptavini og skilað mælanlegum árangri. Með víðtæka reynslu af leiðtogastörfum og breytingastjórnun, dregur hann fram dæmi úr raunveruleikanum og niðurstöður rannsókna.

Viðburðurinn fer fram á Zoom kl. 08:30 og er eingöngu opinn félagsfólki SVÞ.
Þeir sem taka þátt í beinni útsendingu fá tækifæri til að spyrja spurninga, en upptaka verður einnig aðgengileg síðar á innri vef samtakanna.

Skráning er hafin – tryggðu þér sæti og innblástur fyrir þinn rekstur.
SMELLTU HÉR til að skrá þig til leiks.

Pure North hlýtur Kuðunginn 2024 – leiðandi afl í sjálfbærni og nýsköpun

Pure North Recycling, eitt af félagsaðilum SVÞ, hefur hlotið Kuðunginn 2024 – umhverfisverðlaun Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins – fyrir framúrskarandi árangur í umhverfismálum og hringrásarhagkerfi.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Pure North hafi með afgerandi hætti markað sér sess sem leiðandi umhverfistæknifyrirtæki á Íslandi. Með nýtingu jarðhita við plastendurvinnslu hefur fyrirtækið náð að draga úr kolefnisspori framleiðslunnar um 82% miðað við sambærilega starfsemi í Evrópu – sem gerir plastið þeirra að einu því umhverfisvænsta sem í boði er á markaði.

Pure North hefur einnig lokað hringrás endurvinnslunnar með því að hefja eigin framleiðslu á vörum úr því plasti sem þau taka til endurvinnslu. Þá ber að nefna þróun háþróaðra úrgangslausna á borð við gervigreindarkerfið Úlli úrgangsþjarkur, sem greinir úrgangsgögn fyrirtækja og sveitarfélaga, og móttökustöðina Auðlind. Með samþættingu þessara kerfa hefur fyrirtækið skapað fyrirmyndarumgjörð fyrir skilvirka úrgangsstjórnun og hringrásarhugsun á Íslandi.

SVÞ fagnar þessum árangri félagsaðila síns og lítur á verkefni á borð við Pure North sem kraftmikil dæmi um hvernig framsýni, nýsköpun og sjálfbærni geta farið saman – með augljósum ávinningi fyrir atvinnulífið og samfélagið allt.

Sjá upphaflega frétt á MBL.is – Smelltu HÉR!

*Mynd frá MBL.is

 

 

 

 

Skattahækkanir á vegum ríkisins: SVÞ kallar eftir skýrleika og ábyrgð

Skattahækkanir á vegum ríkisins: SVÞ kallar eftir skýrleika og ábyrgð

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, vekur athygli á áformum stjórnvalda um auknar álögur á fyrirtæki og einstaklinga í tengslum við vegamál. Í nýrri grein á Vísi bendir hann á mikilvægi þess að tryggja að nýir skattar renni raunverulega til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. 

„Það er ekki ósanngjörn krafa að nægilegu fjármagni sé á hverjum tíma veitt í vegamál,“ segir Benedikt og undirstrikar að góð vegamannvirki séu lykilforsenda verðmætasköpunar og hagkvæmrar nýtingar framleiðsluþátta.

Benedikt gagnrýnir einnig skort á gagnsæi í skattlagningu og bendir á að stjórnvöld hafi ekki alltaf tryggt að tekjur af ökutækjum og eldsneyti fari beint í vegamál. Hann kallar eftir ábyrgð og skýrleika í fjármálum ríkisins til að endurheimta traust almennings og atvinnulífsins.

Grein Benedikts má lesa í heild sinni á Vísi: Smelltu HÉR! 

Flest fyrirtæki innan SVÞ upplifa ekki skort – sjá fram á fjölgun starfsfólks

Flest fyrirtæki innan SVÞ upplifa ekki skort – sjá fram á fjölgun starfsfólks

Niðurstöðuskýrsla úr svörum aðildarfyrirtækja SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, í tengslum við könnun Menntadags atvinnulífsins sýnir m.a., að stjórnendur sjá fram á fjölgun starfsfólks á næstu fimm árum, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Ekkert af þeim 23 fyrirtækjum sem svöruðu á landsbyggðinni ætlar að fækka starfsfólki – og hlutfallslega fleiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu áforma fjölgun.

Á sama tíma greina 42% fyrirtækja á landsbyggðinni frá því að skortur á starfsfólki hamli vexti þeirra – samanborið við 31% fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Hömlurnar eru jafnt yfir stór og lítil fyrirtæki, sem undirstrikar víðtæk áhrif á atvinnulífið.

Mestur er skorturinn í bílgreinum og heilbrigðisþjónustu, en einnig í flutningum og verslun. Þetta endurspeglar ákveðna hæfnibresti sem þarfnast markvissra lausna, bæði innan menntakerfisins og í gegnum símenntun og starfsþróun.

Þrátt fyrir að 89% fyrirtækja sem sjá tækifæri í gervigreind ætli ekki að fækka starfsfólki, eru fá fyrirtæki langt komin í nýtingu hennar. Tækifærin eru þó til staðar – og gervigreindin talin geta aukið samkeppnishæfni fyrirtækja.

Stuðningsúrræði til endurmenntunar, s.s. Áttin og starfsmenntasjóðir, virðast lítið þekkt – meira en 50% stjórnenda þekkja illa eða ekki til þeirra. Þrátt fyrir það nýta 53% fyrirtækja innan SVÞ slík úrræði, sem er örlítið hærra en meðaltal atvinnulífsins (46%).

SVÞ minnir á verkefnið ‘Ræktum vitið‘, sem er samstarfsverkefni SVÞ, VR og LÍV um hæfniaukningu starfsfólks í verslunar og þjónustugreinum.

Smelltu á SVÞ – Menntadagskönnun 2025 til að hlaða niður niðurstöðuskýrslu GALLUP 2025