Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Samkeppniseftirlitið leggur mat á hvort tilefni sé til rannsóknar á athöfnum einkaaðila og opinberra á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Hinn 12. desember sl. sendi Samkeppniseftirlitið einu einkafyrirtæki og nokkrum opinberum aðilum bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum, viðbrögðum og athugasemdum svo stofnunin gæti tekið ákvörðun um hvort ástæða sé til rannsóknar á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Ástæðan er erindi SVÞ til Samkeppniseftirlitsins f.h. aðildarfyrirtækis samtakanna, Skræðu ehf., þar sem vakin var athygli á hegðun Origo á markaðnum og ákvarðanatöku á vettvangi hins opinbera.

Í júlí 2011 taldi Samkeppniseftirlitið sterkar vísbendingar um að Origo væri ráðandi á markaðnum. Í því ljósi hvatti stofnunin tiltekna opinbera aðila í heilbrigðisþjónustu til að huga sérstaklega að þeirri stöðu við innkaup á þjónustu.

SVÞ telur tilefni til að vekja sérstaka athygli á að af svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá 10. þingmanni Suðurkjördæmis (þskj. nr. 1615 og 1616 á 149. löggjafarþingi) verður ráðið að verulegu opinberu fé hafi verið ráðstafað til framþróunar og viðhalds á hugbúnaðarkerfunum sem eru í eigu markaðsráðandi aðilans, Origo. Í bréfum Samkeppniseftirlitsins frá 12. desember sl. kemur jafnframt fram að sterkar líkur séu á að hvatning Landspítala til heilbrigðisfyrirtækja þess efnis að taka upp sjúkraskrárkerfið Sögu muni raska samkeppni á markaðnum.

SVÞ, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, sem starfa innan vébanda SVÞ, og fleiri samtök í heilbrigðisþjónustu hafa lýst verulegum áhyggjum af innkaupum hins opinbera á heilbrigðisþjónustu eins og fram kom í haust. SVÞ munu eftir sem áður standa við bakið á aðildarfyrirtækjum samtakanna í samskiptum við hið opinbera.

Áhugasamir þátttakendur á fyrirlestri um innleiðingu umhverfisstefnu

Áhugasamir þátttakendur á fyrirlestri um innleiðingu umhverfisstefnu

Þátttakendur voru mjög áhugasamir á morgunfyrirlestri SVÞ um mótun, utanumhald og innleiðingu umhverfisstefnu, sem haldinn var nýverið. Fyrirlesturinn héldu Vilborg Einarsdóttir og Kjartan Sigurðsson frá BravoEarth en Vilborg er sérfræðingur í breytingastjórnun og Kjartan í sjálfbærni, samfélagslegri ábyrgð og viðskiptasiðferði.

Í fyrirlestrinum kom m.a. fram að fyrirtæki eru í auknum mæli að marka sér umhverfisstefnu til að minnka sóun, nýta betur auðlindir og minnka kolefnisspor. Einnig hefur sýnt sig að innleiðing umhverfisstefnu skilar sér í betri afkomu fyrirtækja, auknu stolti og ánægju starfsfólks og bættri ímynd. Umhverfisstefna snertir alla starfsemi fyrirtækja og alla starfsmenn og helsti vandinn liggur almennt í innleiðingu stefnunnar, þ.e. að samstilla aðgerðir og fá starfsmenn til breyta hegðun. Farið var yfir leiðir til þess að innleiða umhverfisstefnu á áhrifaríkan hátt og virkja starfsfólk til árangurs.

SVÞ félagar geta séð upptöku af fyrirlestrinum inni í lokaða Facebook hópnum okkar hér.

Í framhaldi af fyrirlestrinum eru fríar vinnustofur í boði fyrir SVÞ félaga þar sem þeir geta fengið aðstoð við mótun, utanumhald og innleiðingu umhverfisstefnu. KYNNTU ÞÉR VINNUSTOFURNAR HÉR!

 

Lögreglan ekki nægilega vel búin til að taka á þjófnaðarvandanum

Lögreglan ekki nægilega vel búin til að taka á þjófnaðarvandanum

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var í viðtali hjá Reykjavík síðdegis á Bylgjunni 2. janúar sl. þar sem hann ræddi jólaverslunina og talningar en fyrst og fremst um þjófnað í verslunum. Þjófnaður í verslunum er skipulögð glæpastarfsemi og erlend glæpagengi koma gagngert til landsins til að stunda þessa iðju. SVÞ hefur verið í stöðugu sambandi við lögregluyfirvöld vegna þessara mála en réttarvörslukerfið er einfaldlega ekki tæknilega nógu vel búið til að bregðast við þessum vanda. SVÞ hefur nýlega átt fund með dómsmálaráðherra og mun halda áfram að þrýsta á yfirvöld að tryggja að réttarvörslukerfið hafi þann tæknibúnað og annað sem til þarf til að taka á þessum málum. Ljóst er að tjón og kostnaður vegna þjófnaðar og öryggismála veltur á milljörðum á ársgrundvelli sem óhjákvæmilega hefur áhrif á rekstur verslana og þar með verðlag.

Verið er að skipuleggja félagsfund með lögreglu um málið. Við hvetjum SVÞ félaga til að fylgjast vel með viðburðadagatalinu, tölvupóstinum og á samfélagsmiðlunum: Facebook, Twitter, LinkedIn.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HLUSTA Á VIÐTALIÐ

20-30% verslunar verður komin á netið innan skamms tíma

20-30% verslunar verður komin á netið innan skamms tíma

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, mætti Í bítið á Bylgjunni á þrettándanum til að ræða breytingar í verslun, greiðslumiðlanir og stafræna þróun. Þróunin hérlendis fylgir erlendri þróun þar sem aukning er í netverslun og verslunarrými breytast, bæði hvað varðar stærðir og tilgang, en við erum þó seinni til. Greiðslumiðlanir eru í auknum mæli að færast frá greiðslukortum yfir í smáforrit (öpp) og risar á borð við Facebook, Google og Apple eru ýmist komin inn á greiðslumiðlunarmarkaðinn eða í startholunum. SVÞ fylgist náið með þessum málum sem og öðru sem fylgir stafrænni þróun s.s. breytingum á eðli starfa og upplýsir og styður við fyrirtæki innan sinna raða.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HLUSTA Á VIÐTALIÐ