Þórdís Kolbrún gestur 200. stjórnarfundar SVÞ

Þórdís Kolbrún gestur 200. stjórnarfundar SVÞ

200. stjórnarfundur SVÞ var haldinn fyrir skömmu og var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra gestur þess fundar. Ráðherra fór vítt og breytt yfir sviðið og ræddi þau málefni sem hæst ber í hagsmunum verslunar- og þjónustufyrirtækja. Meðal þeirra málefna sem rædd voru á fundinum voru skattmál, samkeppnisstaða í breyttu viðskiptaumhverfi, útvistun verkefna frá ríki til einkaaðila, fjórða iðnbyltingin og allar þær áskoranir sem henni fylgja.

Ráðherra gaf sér góðan tíma með stjórn samtakanna og urðu á fundinum bæði góðar og málefnalegar umræður um bæði málefni sem snúa beint að hagsmunum fyrirtækja innan SVÞ og að atvinnulífinu almennt. Lýstu stjórnarmenn yfir mikilli ánægju með heimsókn ráðherra og vonuðust eftir góðu á nánu samstarfi við hana og ráðuneyti hennar í framtíðinni.

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2019

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2019

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2019 verða afhent í fjórða sinn miðvikudaginn 9. október fyrirtækjum sem staðið hafa sig vel í umhverfismálum. Athöfnin fer fram í Hörpu á Umhverfisdegi atvinnulífsins. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhendir verðlaunin.

Óskað er eftir tilnefningum fyrir 7. september nk. með tölvupósti á sa@sa.is merktum: „Tilnefning til umhverfisverðlauna atvinnulífsins“.

Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verður umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins verðlaunað. Dómnefnd velur úr tilnefningum og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

 

Umhverfisfyrirtæki ársins

 • Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
 • Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
 • Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
 • Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
 • Innra umhverfi er öruggt
 • Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
 • Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið

 

Framtak ársins

 • Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
 • Hefur komið fram með nýjung – vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Sjáðu frétt frá Umhverfisdegi atvinnulífsins 2019 á vef SA hér.

 

Kynntu þér þínar síður!

Kynntu þér þínar síður!

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað þínar síður fyrir aðildarfyrirtæki sín.

Á síðunum eru upplýsingar sem tengjast aðild þeirra að samtökunum og farvegir fyrir fyrirspurnir og verkbeiðnir. Unnt er að velja áskriftir að útgefnu efni, uppfæra tengiliði og skoða fjárhagslegar upplýsingar.

Notendur skrá sig inn sem einstaklingar með rafrænu skilríkjunum sínum og geta í kjölfarið veitt samstarfsmönnum aðgangsheimild.

Þú finnur þínar síður hér á atvinnulif.is

Innskráning á þínar síður er efst til hægri í leiðarstiku á forsíðu vefs SVÞ og efst til hægri á forsíðu vefs SA. Guðrún Reynisdóttir, verkefnastjóri, svarar spurningum og tekur við ábendingum á netfanginu minarsidur@sa.is.

Hámark á milligjöld lögfest

Hámark á milligjöld lögfest

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ skrifar:

Alþingi hefur samþykkt samhljóða sem lög frumvarp til laga um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur. Er hér um að ræða innleiðingu á Evrópulöggjöf um þetta efni sem er búin að vera í undirbúningi mjög lengi. Eins og komið hefur fram í fyrri fréttum frá SVÞ um þetta mál, þá hefur baráttan fyrir lækkun milligjalda í kortaviðskiptum verið eitt helsta hagsmunamál hagsmunasamtaka verslunarinnar í Evrópu um langt árabil. Lögin taka gildi 1. september n.k.

Meginefni laganna er að sett eru hámörk á milligjöld vegna neytendagreiðslukorta, 0,2% af fjárhæð greiðslu vegna debetkorta og 0,3% vegna kreditkorta. Milligjöldin er sú þóknun sem útgefendur greiðslukorta, oftast bankar eða sparisjóðir, fá greitt frá færsluhirði (á Íslandi einkum Borgun, Valitor og Kortaþjónustan). Sérstakt þjónustugjald kemur síðan til viðbótar í öllum kortaviðskiptum, en það er gjaldið sem færsluhirðir fær greitt frá söluaðila fyrir þjónustu sína.

Söluaðilar eru að jafnaði ekki í góðri stöðu til að hafna algengum greiðslukortum, þrátt fyrir mikinn kostnað af notkun þeirra, enda eru greiðslukort orðin langalgengasti greiðslumátinn. Korthafar hafa að sama skapi yfirleitt lítinn eða engan hvata til að velja ódýrari greiðslumáta enda er kostnaðinum venjulega jafnað niður á neytendur. Hérlendis birtist það m.a. í mikilli notkun kreditkorta þótt kostnaður vegna notkunar þeirra sé meiri en vegna debetkorta.

Sú þóknun sem verslunin og aðrir söluaðilar hafa þurft að greiða í milligjöld og þjónustugjöld fyrir notkun greiðslukorta í viðskiptum, hefur lengi verið mikill þyrnir í þeirra augum. Samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa brugðist við þessum aðstæðum. Þann 18. desember 2014 tilkynnti Samkeppniseftirlitið um að Arion banki hf., Íslandsbanki hf., Landsbankinn hf., Borgun hf. og Valitor hf. hefðu hvert fyrir sig gert sátt við eftirlitið vegna rannsóknar þess á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Sú sátt birtist í  ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 frá 30. apríl 2015 þar sem fyrirtækin féllust  m.a. á hámörk á milligjöld vegna neytendagreiðslukorta, 0,2% fyrir debetkort og 0,6% fyrir kreditkort. Hámörkin voru að hluta til hugsuð sem aðlögun að ákvæðum í fyrirhugaðri reglugerð Evrópusambandsins um milligjöld, þeirri sem nú hefur verið lögfest hér á landi.

Samtök verslunar og þjónustu brýna fyrir aðildarfyrirtækjum sínum að fylgjast náið með því að tilskyldar breytingar verði á milligjöldum í kortaviðskiptum þegar lögin taka gildi þann 1. september n.k.

Ritz Carlton þjónustuskólinn – sérkjör fyrir SVÞ félaga

Ritz Carlton þjónustuskólinn – sérkjör fyrir SVÞ félaga

Hvenær: Fimmtudaginn 12. september kl. 8:30-12:30

Hvar: Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut, Reykjavík

Í september næstkomandi verður boðið upp á einstakt námskeið frá Ritz Carlton á sérkjörum fyrir SVÞ félaga. Ritz Carlton eru margrómaðir fyrir frábæra þjónustu og hafa í næstum tvo áratugi kennt öðrum fyrirtækjum aðferðafræðina til að tryggja topp þjónustugæði. Meðal þeirra framúrskarandi fyrirtækja sem hafa notað aðferðafræði Ritz Carlton við mótun á allri sinni þjónustu eru Apple, en verslanir þeirra vekja heimsathygli fyrir frábæra þjónustu, með hlutum eins og „genius bar“ og fleiru.

Stjórnandi frá Ritz Carlton mun leiða hálfs dags vinnustofu sem hjálpar þátttakendum, á hagnýtan hátt, að láta sín fyrirtæki skara framúr með fyrsta flokks þjónustu.

 

Námskeiðslýsing

 

 • Farið verður yfir fimm lykilþætti sem viðskiptavinir þurfa og vilja að sá sem veitir þjónustu búi yfir, óháð því fyrir hvaða fyrirtæki eða í hvaða geira viðkomandi starfar.
 • Lykilþjónustuþættir Ritz-Carlton: Yfirlit yfir þá þjónustueiginleika sem leiða til raunverulegra sambanda og mikilvægi sálfræði í þjónustu.
 • Skýr þjónustustefna: Það er lykilatriði að þjónustupplifun viðskiptavinarins sé alltaf sú sama. Ein leið til að tryggja það hjá Ritz-Carlton er með því að nota hin þrjú þrep þjónustu.
 • Máttur ráðandi þjónustu: Þú munt komast að því hvernig á að sjá fyrir og vinna með þarfir viðskiptavinarins í gegnum þjónustuupplifunina, þar með talið hvernig á að bæta skynjun með því að nýta augnablikið, hvernig nýta á lykilatriði úr CRM fræðum og hvernig á að notfæra sér það að koma viðskiptavinum á óvart og gleðja þá.
 • Tilfinningalegar tengingar: Umræða um muninn á hlutlægum og tilfinningalegum eiginleikum og af hverju þessi munur er lykilatriði þegar kemur að vörumerkjatryggð.

 

Hagnýtu upplýsingarnar

 

Hvenær: fimmtudaginn 12. september, kl. 8:30-12:30 – Ath! Aðeins þessi eina dagsetning og takmarkað sætaframboð.

Hvar: Hilton Reykjavík Nordica

Fyrir hverja hentar þetta: Námskeiðið er fyrir alla sem stjórna, móta eða hafa áhrif á þjónustuupplifun viðskiptavina fyrirtækja af öllum stærðum, og í öllum atvinnugreinum.

Verð: Verð fyrir SVÞ félaga er 54.900 kr. per þátttakanda ef bókað er fyrir 7. júní (annars 69.900 kr).

 

Kaupauki fyrir SVÞ félaga!

 

SVÞ félagar eiga að auki kost á tveggja klst. framhaldsvinnustofu þann 16. september þar sem þeir Guðmundur Arnar Guðmundsson frá Markaðsakademíunni og Árni Árnason frá Árnasonum fara dýpra í efni vinnustofunnar. Nánari upplýsingar síðar.

Takmarkað sætaframboð á framhaldsvinnustofuna – fyrstir koma fyrstir fá!

 

smelltu hér til að skrá þig

 

 

 

ATHUGIÐ! TIL AÐ VIRKJA AFSLÁTTINN ÞARF AÐ SETJA (SVÞ)“ Á EFTIR NAFNI FYRIRTÆKIS VIÐ SKRÁNINGU!