Hin stafræna umbreyting

Hin stafræna umbreyting

Eftirfarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu þann 28. febrúar 2020:

Hin stafræna umbreyting, sem mætti allt eins kalla hina stafrænu byltingu, er án vafa eitt mikilvægsta verkefni sem íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir. Hér er um að ræða umbreytingu sem hafa mun áhrif á allt samfélagið, heimili jafnt sem fyrirtæki. Áhrifin sem af þessu verða innan atvinnulífsins skapar gríðarleg tækifæri, en leiðir jafnframt til harðrar samkeppni sem fyrirtækin, bæði stór og smá, verða einfaldlega að taka þátt í. Hin mikla umbreyting sem hér um ræðir hefur í för með sér hraðari og meiri breytingar í rekstri fyrirtækja en áður hafa þekkst. Þar er engin atvinnugrein undanskilin. Samkeppni milli fyrirtækja verður fyrst og fremst alþjóðleg, þar sem landamæri í hefðbundnum skilningi þess orðs hverfa.

Sterkar vísbendingar eru um að íslensk fyrirtæki séu þegar farin að dragast aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur oftast saman við, þegar kemur að innleiðingu á stafrænni tækni. Frændþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum hafa þegar tekið afgerandi skref í þessum efnum. Þar hafa stjórnvöld jafnt sem atvinnulíf gert sér grein fyrir að slíkar aðgerðir séu beinlínis nauðsynlegar til að tryggja stöðu einstakra ríkja í þeirri samkeppni sem verður sífellt alþjóðlegri.

Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki mótað sér stefnu í stafrænum málum fyrir íslenskt atvinnulíf eða íslenskt samfélag í heild sinni. Að mati Samtaka verslunar og þjónustu er aðkallandi þar verði breyting á. Þörf er á skjótum, öflugum og markvissum aðgerðum til að efla stafræna færni í íslensku atvinnulífi, eigi Ísland að komast hjá því að dragast aftur úr helstu samanburðarlöndum. Þar eru breytingar á menntakerfinu forgangsmál. Framtíðarhagsmunir þeirra sem munu byggja þetta land eru í húfi.

Samtök verslunar og þjónustu hafa nú lagt fyrir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tillögur sínar um aðgerðir sem stutt geta íslenskt atvinnulíf til að geta sem best nýtt stafræna þróun sér til framdráttar og til aukinnar samkeppnishæfni. Tillögurnar taka mjög mið af því sem gert hefur verið í þessum málum í nágrannalöndum okkar, ekki síst Danmörku. Þar í landi hefur verið sett á laggirnar samstarfsvettvangur atvinnulífs, háskólasamfélags og stjórnvalda um hvernig styrkja megi atvinnulíf og þar með vinnumarkað, vegna þeirra miklu breytinga sem stafræn þróun leiðir af sér.

Nú verðum við Íslendingar einfaldlega að bretta upp ermar. Samtök verslunar og þjónustu er eindregið þeirrar skoðunar að öflugt samstarf stórnvalda, atvinnulífs og menntastofnanna sé lykillinn að farsælli leið okkar til móts við hina stafrænu framtíð.

Fræðsla um COVID-19 og veggspjald fyrir SVÞ félaga

Fræðsla um COVID-19 og veggspjald fyrir SVÞ félaga

Landlæknir hefur nú birt fræðslumyndband um COVID-19 fyrir almenning og atvinnulífið:

Að auki hafa SVÞ og SAF í samstarfi við embættið sett upp einfalt veggspjald sem félagsmenn geta sett upp hjá sér. Nálgast má veggspjöldin hjá samtökunum en einnig má hlaða því niður hér fyrir neðan og prenta í góðum litaprentara.

>> Smelltu hér til að hlaða niður pdf skjali af veggspjaldi til útprentunar: Dragið úr hættu á kórónaveiru smiti

>> Smelltu hér til að hlaða niður pdf skjali af veggspjaldi á ENSKU til útprentunar: Reduce the risk of COVID-19 infection

Upptaka: Fullt út úr dyrum á fyrirlestri um kortlagningu notendaupplifunar!

Upptaka: Fullt út úr dyrum á fyrirlestri um kortlagningu notendaupplifunar!

Fullt var út úr dyrum á fyrirlestri Berglindar Ragnarsdóttur, stjórnendaráðgjafa og þjónustuhönnuðar hjá CoreMotif þriðjudaginn 18. febrúar sl. Í einstaklega fróðlegum fyrirlestri fór Berglind yfir helstu atriði og ferli hönnunarhugsunar (e. design thinking) og kortlagningu notendaupplifunar (e. journey mapping). Hún lagði áherslu á að hlusta á notandann og hanna út frá hennar þörfum. Hún deildi líka með okkur fjölmörgum dæmum um áhugaverð verkefni, lausnir og árangur í tengslum við efnið.

Upptöku frá fyrirlestrinum má sjá hér fyrir neðan:

SVÞ félagar eiga kost á að taka þátt í frírri vinnustofu þriðjudagsmorguninn 25. febrúar nk. þar sem Berglind leiðir þá í gegnum kortlagningu notendaupplifunar. Smelltu hér til að fá frekari upplýsingar og skrá þig.