02/07/2020 | Fréttir, Greinar, Stjórnvöld
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið, 2. júlí:
Það er almennt talið góð leið til árangurs í rekstri að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni. Þetta á við um allan rekstur hvort sem hann er á vegum hins opinbera og einkafyrirtækja. Það getur t.d. ekki talist kjarnastarfsemi sveitarfélaga að annast þrif á húsnæði í eigu viðkomandi sveitarfélags. Sama lögmál gildir um starfsemi einkafyrirtækja, enda fela þau flest sérhæfðum fyrirtækjum að annast slíkt fyrir sig, m.ö.o þau útvista þrifunum.
Þetta fyrirkomulag er eiginlega svo sjálfsagt að það ætti ekki að þurfa að nefna það. Enda gera flestir atvinnurekendur sér grein fyrir að það felst í því veruleg hagræðing að kaupa þjónustu af aðilum sem hafa sérhæft sig á tilteknum sviðum. Gildir þar einu hvort um er að ræða starfsemi á borð við þrif, bókhald, hugbúnaðarþjónustu, vöruflutninga eða starfsmannaráðningar.
Það er nú samt einhvern veginn þannig að pólitísk umræða um þessi mál nær aldrei neinu flugi. Þeir sem aðhyllast ríkisumsvif eru vafalaus mjög sáttir við það. Á hinn bóginn hlýtur það að umhugsunarefni fyrir alla þá sem draga vilja úr umsvifum hins opinbera, hversu hægt miðar. Það virðist alls ekki eftirsóknarvert að setja þessi mál á oddinn í pólitískri umræðu, sem leiðir til þess að allar breytingar á þessu sviði gerast á hraða snigilsins.
Í þessu sambandi er ástæða til að rifja upp að árið 2006 höfðu þáverandi stjórnvöld uppi háleitar hugmyndir um útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkaaðila. Þar voru sett metnaðarfull markmið. Síðan eru liðin fjórtán ár. Á þessum árum hefur það helst gerst að umsvif hins opinbera hafa aukist verulega og meiri tregða en nokkru sinni fyrr er á að fela einkafyrirtækjum verkefni sem eru betur komin þar en hjá hinu opinbera.
Innan Samtaka verslunar og þjónustu er fjöldinn allur af fyrirtækjum sem eru sérhæfð á þeim sviðum sem hér um ræðir. Þessi fyrirtæki eru meira en tilbúin til að taka þessi verkefni að sér, sannfærð um að í felist veruleg hagræðing og góð nýting á almannafé. Nú styttist óðum í næstu alþingiskosningar. Þá gefst þeim stjórnmálamönnum sem draga vilja úr opinberum umsvifum enn eitt tækifærið til að sýna hvað í þeim býr með því að setja raunhæf markmið um tilfærslu verkefna frá hinu opinbera til einkafyrirtækja.
06/04/2020 | COVID19, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 4. apríl:
Eins og margoft hefur verið sagt á undanförnum vikum er það sameiginlegt viðfangsefni okkar allra að komast í gegn um þann skafl sem við blasir. Og þó að sá vetur sem brátt kveður hafi flutt til okkar fleiri óveðurslægðir en tölu verður á komið, þá var glíman við snjóskafla vetrarins barnaleikur í samanburði við þær appelsínugulu heilsufars- og efnahagslegu viðvaranir sem við nú horfumst í augu við.
Við Íslendingar höfum áður þurft að glíma við erfiðleika og oftast leyst þá með prýði. Við ætlum að gera það einnig núna, enda má segja að við séum hokin af reynslu í þeim efnum. Langflest berum við fullt traust til þess fólks sem skipar framvarðarsveitina og vísar okkur veginn, enda nálgast þau verkefni sitt af yfirvegun og hæfilegri festu. Við höfum einnig fulla ástæðu til að hafa trú á sjálfum okkur og framtíð okkar, enda höfum við aldrei verið eins vel í stakk búin til að takast á við áföll og nú.
Við þessar aðstæður skiptir miklu að allir sem eiga þess kost haldi áfram sínu daglega lífi. Þar með talið að eiga þau viðskipti við verslanir og önnur þjónustufyrirtæki sem hver og einn telur nauðsynleg. Með því móti leggjum við okkar að mörkum til að draga úr neikvæðum afleiðingum þess faraldurs sem á okkur dynur. Með því móti leggjum við einnig okkar að mörkum til að gera þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem nú glíma við mikinn vanda, auðveldara að komast í gegn um erfiðleikana. Þar er sannarlega til mikils að vinna.
Sóttkví eða aðrar ástæður sem gera fólki ómögulegt að fara út úr húsi er þarna engin hindrun. Netverslun og heimsending er mál málanna við þessar aðstæður, enda er fjöldinn allur af verslunum og öðrum þjónustuaðilum farin að bjóða upp á slíkt. Ört stækkandi hópur neytenda nýtir sér þá þjónustu og leggur þar með sitt lóð á vogaskálina við að halda hagkerfinu gangandi.
Sýnum í verki samtakamátt okkar og skiptum við íslensk fyrirtæki. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til.
06/03/2020 | Fréttir, Greinar, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Sara Dögg Svanhildardóttir, forstöðumaður mennta- og fræðslumála Samtaka verslunar og þjónustu skrifar í Fréttablaðið þann 3. mars sl.
Þær eru fjölmargar áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að því að leggja fram menntastefnu heillar þjóðar. Ein þeirra er stafræna umbyltingin sem á sér stað út um allan heim. Við lifum á tímum þar sem umbreytingum vegna stafrænnar tækni fleygir fram á ógnarhraða. Við komumst ekki hjá að mæta þeim umbreytingum og taka þátt í þeim, enda umlykur stafræn þróun nú þegar allt samfélag okkar, hvort sem er í leik eða starfi.
Til þess að vera fær um að athafna okkur í nýju umhverfi gegnir menntun á þessu sviði mjög mikilvægu hlutverki. Hvers kyns menntun sem eykur færni í umhverfi stafrænnar tækni gerir okkur hæfari til að takast á við breytt umhverfi.
Nýverið kynnti menntamálaráðherra nýja tíma í starfs- og tækninámi í samvinnu við Samtök íslenskra sveitarfélaga og Samtök iðnaðarins. Afar brýnt og löngu tímabært er að blása til sóknar á þessu sviði. Menntun í stafrænu tæknilæsi á leik- og grunnskólastigi er gríðarlega mikilvægur grunnur fyrir alla tæknimenntun, en ekki síður menntun almennt. Störf munu umbreytast hröðum skrefum og krafan vaxa ört um menntað starfsfólk í stafrænni tækni til að halda uppi samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
Til framtíðar litið er óábyrgt að gera ráð fyrir öðru en að nemendur nútímans muni starfa í stafrænu umhverfi og þá er nánast sama hvar stigið er niður fæti í starfsvali. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að námsumhverfi dagsins í dag byggi á þeim veruleika. Menntastefna til framtíðar þarf að taka mið af því.
28/02/2020 | Fréttir, Greinar, Stafræna umbreytingin
Eftirfarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu þann 28. febrúar 2020:
Hin stafræna umbreyting, sem mætti allt eins kalla hina stafrænu byltingu, er án vafa eitt mikilvægsta verkefni sem íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir. Hér er um að ræða umbreytingu sem hafa mun áhrif á allt samfélagið, heimili jafnt sem fyrirtæki. Áhrifin sem af þessu verða innan atvinnulífsins skapar gríðarleg tækifæri, en leiðir jafnframt til harðrar samkeppni sem fyrirtækin, bæði stór og smá, verða einfaldlega að taka þátt í. Hin mikla umbreyting sem hér um ræðir hefur í för með sér hraðari og meiri breytingar í rekstri fyrirtækja en áður hafa þekkst. Þar er engin atvinnugrein undanskilin. Samkeppni milli fyrirtækja verður fyrst og fremst alþjóðleg, þar sem landamæri í hefðbundnum skilningi þess orðs hverfa.
Sterkar vísbendingar eru um að íslensk fyrirtæki séu þegar farin að dragast aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur oftast saman við, þegar kemur að innleiðingu á stafrænni tækni. Frændþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum hafa þegar tekið afgerandi skref í þessum efnum. Þar hafa stjórnvöld jafnt sem atvinnulíf gert sér grein fyrir að slíkar aðgerðir séu beinlínis nauðsynlegar til að tryggja stöðu einstakra ríkja í þeirri samkeppni sem verður sífellt alþjóðlegri.
Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki mótað sér stefnu í stafrænum málum fyrir íslenskt atvinnulíf eða íslenskt samfélag í heild sinni. Að mati Samtaka verslunar og þjónustu er aðkallandi þar verði breyting á. Þörf er á skjótum, öflugum og markvissum aðgerðum til að efla stafræna færni í íslensku atvinnulífi, eigi Ísland að komast hjá því að dragast aftur úr helstu samanburðarlöndum. Þar eru breytingar á menntakerfinu forgangsmál. Framtíðarhagsmunir þeirra sem munu byggja þetta land eru í húfi.
Samtök verslunar og þjónustu hafa nú lagt fyrir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tillögur sínar um aðgerðir sem stutt geta íslenskt atvinnulíf til að geta sem best nýtt stafræna þróun sér til framdráttar og til aukinnar samkeppnishæfni. Tillögurnar taka mjög mið af því sem gert hefur verið í þessum málum í nágrannalöndum okkar, ekki síst Danmörku. Þar í landi hefur verið sett á laggirnar samstarfsvettvangur atvinnulífs, háskólasamfélags og stjórnvalda um hvernig styrkja megi atvinnulíf og þar með vinnumarkað, vegna þeirra miklu breytinga sem stafræn þróun leiðir af sér.
Nú verðum við Íslendingar einfaldlega að bretta upp ermar. Samtök verslunar og þjónustu er eindregið þeirrar skoðunar að öflugt samstarf stórnvalda, atvinnulífs og menntastofnanna sé lykillinn að farsælli leið okkar til móts við hina stafrænu framtíð.
06/01/2020 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stafræn viðskipti
Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Kjarnanum 29. desember sl.:
Það er sama hvert við horfum í atvinnulífinu, til lítilla fyrirtækja jafnt sem stórra, innan verslunar og þjónustu, ferða- og fjármálaþjónustu, stafræn tækni er að innleiða gríðarlegar breytingar. Allt frá litlum fyrirtækjum með heimasíður, og tímabókanir á netinu til stórfyrirtækja með vöruhús í umsjón vélmenna eða bálkakeðjutækni í flutningum, ekkert fyrirtæki er ósnortið af stafrænni tækni. Íslensk fyrirtæki eru þarna ekki undanskilin. Eins og staðan er í dag eiga íslensk fyrirtæki hinsvegar verulega á hættu að dragast aftur úr og verða ósamkeppnishæf í nútímaumhverfi. Fyrsta skrefið er að átta sig á að nauðsyn þess að taka þátt í þessari þróun af fullum þunga – hið nauðsynlega skref er hugarfarsbreyting.
Stafræn þróun snýst um mun fleira en kaup á tölvum, tækjum og forritum. Stafræn þróun á erindi við alla innan fyrirtæksins, ekki eingöngu tölvudeildina. Stafræn þróun snýst um grundvallarbreytingu á því hvernig við nálgumst viðskipti. Virðiskeðjur og viðskiptamódel eru að taka gagngerum breytingum og mörkin milli vöru og þjónustu verða sífellt óskýrari. Stafræn þróun kallar á breytingar sem ganga í gegnum fyrirtækið allt og því þarf stjórnun, menning, þróun ferla og uppbygging á hæfni að taka hana með í reikninginn á öllum stigum. Þetta snýst um algjörlega breytt hugarfar þar sem fyrirtæki hugsa alla starfsemi sína út frá viðskiptavininum og því að nýta stafræna tækni alls staðar þar sem hún á við. Viðskiptavinirnir gera kröfur sem alþjóðlegir samkeppnisaðilar okkar mæta og mæta þeim vel. Viðskiptavinir vilja fá lausnir sniðnar að persónulegu þörfum sínum, þeir vilja skjóta afgreiðslu og framúrskarandi þjónustu. Þeir vita að þetta er allt hægt – þau fá þetta frá Amazon, Aliexpress og Asos! Þessi og sambærileg fyrirtæki eru þau sem íslenskar nútímakynslóðir alast upp við að eiga viðskipti við. Þetta er samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja – einnig þeirra sem eru aðeins með þrjá starfsmenn og ætla sér ekki að þjónusta annað en sitt nærumhverfi. Staðreyndin er sú, að til þess að vera samkeppnishæf verða íslensk fyrirtæki að hafa getu til og vera tilbúin til að aðlaga starfsemi sína að þörfum og óskum viðskiptavina í sama mæli og öll önnur fyrirtæki. Þau verða að finna leið til að keppa við alþjóðlegu risana.
Öll þau lönd sem við horfum hvað helst til hafa markað sér stefnu í stafrænum málum. Stór þáttur í þeirri stefnumörkun eru aðgerðir til að efla fyrirtæki í stafrænni þróun svo að þau geti verið samkeppnishæf. Svíar og Danir hafa sett sér skýr markmið um að vera í fremstu röð í stafrænum heimi. Stefnumörkun í þessum málum er ekki síður mikilvæg en stefnumörkun í nýsköpun sem nýlega hefur verið sett fram af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Gera má ráð fyrir að þær aðgerðir sem ráðist verður í á grunni nýsköpunarstefnu og stefnu í stafrænum málum verði á margan hátt samþættar og styðji hvor við aðra.
Þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð þýðir það ekki að við getum ekki tekist á við þessar áskoranir. Færa má rök fyrir því að einmitt þess vegna séum við betur í stakk búin til að mæta þeim þar sem boðleiðir eru styttri og ákvarðanataka hraðari. Eistland, svo dæmi sé tekið, er með rúmlega 1,3 milljónir íbúa og með skýrri stefnu og markvissri ákvarðanatöku hafa þeir raðað sér fremst í flokk í stafrænni stjórnsýslu. Við íslendingar gætum allt eins markað slíka stefnu og fylgt henni eftir.
Stóru áskoranirnar í stafrænum heimi eru þekking og fjármagn. Nágrannalönd okkar eru þegar farin að vinna að þessum málum með fjárhagslegum stuðningi við stafræna þróun í formi styrkja, lána og eflingu þekkingar bæði innan almenna menntakerfisins en ekki síður með sí- og endurmenntun.
Ljóst er að miklar breytingar verða á ýmsum störfum á allra næstu árum, sem þarf ekki að vera neikvætt eða nokkuð sem ástæða er til að óttast. Stafræn þróun skapar störf um leið og hún gerir önnur störf óþörf. Áskorunin felst í því að gera fólk fært um að sinna þessum nýju störfum.
Mikilvægast af þessu öllu er samt sem áður hugarfarið. Með breyttu hugarfari erum við í stakk búin til að takast á við hinn nýja veruleika og taka honum fagnandi og sjá tækifærin sem í honum felast. Við verðum að marka okkur stefnu og grípa til markvissra aðgerða til að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í hinum alþjóðlega stafræna heimi. Það eina sem hægt er að ganga að sem vísu eru breytingar – sífellt hraðari breytingar.
SVÞ mun á næsta ári hafa forgöngu um vinnu sem nauðsynleg er til að íslensk fyrirtæki verði í stakk búin til að keppa í heimi nýrrar stafrænnar samkeppni.
20/12/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar í Kjarnann í dag, föstudaginn 20. desember:
Við lestur greinar sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) skrifaði í Kjarnann í gær kemst maður ekki hjá því að álykta sem svo að hann hafi fundið til sviða við lestur greinar minnar í Morgunblaðinu 19. desember sl. Meðal annars sakar framkvæmdastjórinn mig um „að skrifa gegn betri vitund“, fara með „rökleysu“ og jafnvel aðhyllast lagabreytingar sem muni leiða af sér vöruskort. Í greininni reifar framkvæmdastjórinn efni umsagna FA um umrætt lagafrumvarp ráðherra um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir og bendir á eitt og annað sem þar hafi komið fram máli sínu til stuðnings.
Hugsanlega var meginefni greinar minnar frá 19. desember sl. ekki nógu skýrt í huga framkvæmdastjórans og því tel ég rétt að koma útskýringu á framfæri.
Það ætti öllum að vera ljóst að breytingar á regluverki sem snertir búvöruframleiðslu með einum eða öðrum hætti eru viðkvæmar og erfiðar viðfangs. Hagsmunir bænda og búgreina njóta jafnan ríks stuðnings meðal þingmanna. Af þeim sökum hafa verið tekin afar stutt skref í átt sem gagnast gæti neytendum. Það er ekki annað hægt en að ætla að þessu hafi framkvæmdastjórinn gert sér grein fyrir.
Það væri hægt að eyða mörgum orðum í umfjöllun um hvort mikill munur sé á afstöðu FA og SVÞ til einstakra atriða lagafrumvarps ráðherra. Til að mynda lýstu SVÞ einnig efasemdum um niðurstöðu starfshóps um úthlutun tollkvóta landbúnaðarráðherra og töldu tillögu fulltrúa Neytendasamtakanna mun betri en sú sem endaði í frumvarpinu. Þá hafa SVÞ jafnframt lýst því yfir að árstíðarbundin og föst úthlutun tollkvóta fyrir tilteknar vörur gæti ekki orðið óbreytanleg og varanleg lausn. Slík umfjöllun eða samanburður mundi hins vegar ekki bæta neinu við. Ástæðan er sú að grundvallarmunurinn á afstöðu SVÞ og FA til lagafrumvarps ráðherra birtist einfaldlega ekki í umsögnum eða annarri opinberri umfjöllun heldur í gjörðum FA. Þrátt fyrir að FA hafi, líkt og SVÞ, síst talið frumvarpið gallalaust viðurkennir framkvæmdastjórinn það beinlínis í grein sinni að neytendur munu hið minnsta njóta tímabundins ávinnings af því breytta útboðsfyrirkomulagi tollkvóta sem nú hefur verið lögfest. SVÞ taldi að með því væri stigið skref í rétta átt þó vissulega hefði skrefið mátt vera annað og stærra. Umsögn FA um frumvarpið verður í ljósi greinar framkvæmdastjórans ekki skilin öðruvísi en að félagið hafi alfarið hafnað því skrefi. Lokahnykkinn rak FA svo með þátttöku í yfirlýsingu sem framkvæmdastjóranum gat ekki dulist að mundi valda vatnaskilum. Enda fór svo að meiri hluti atvinnuveganefndar setti fram tillögur sem styttu skrefið enn meira en ráðherra lagði upp með. Við það tilefni gaf framsögumaður málsins, alþingismaðurinn Halla Signý Kristjánsdóttir frá sér yfirlýsingu þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:
„[…] undirrituð fullyrðir að þær gagnrýniraddir sem bárust frá ólíkum hagsmunasamtökum bænda, félagi atvinnurekanda og neytendasamtökunum fengu framsögumann málsins til að taka í handbremsuna en með seiglunni og góðs stuðnings þingflokksins náðist að koma þeim í höfn.“
Þrátt fyrir alla ágallana á lagafrumvarpi ráðherra var það eindregin skoðun SVÞ að á heildina litið mundi samþykkt þess skila neytendum ábata. Mat ráðherra var að sá ábatinn gæti numið 240–590 milljónum króna á ári. SVÞ hafði ekki forsendur til að rengja það mat og ekki verður séð að það hafi FA heldur gert. Slíkur ábati hefði vissulega ekki verið nein himnasending en þó skref í rétta átt.
Nú hefur Alþingi fengið frumvarpinu lagagildi og virðist yfirlýsing FA hafa átt ríkan þátt í því að neytendaábatanum var að miklu leyti varpað fyrir róða.
Það var í framangreindu samhengi sem ég leyfði mér að vísa til svohljóðandi kínversks málsháttar í grein minni hinn 19. desember sl.: Það heyrist jafnan meira í því sem þú gerir en í því sem þú segir. Í efnissamhengi greinarinnar var merkingin sú að það skiptir í raun ekki máli þó þú berjist opinberlega fyrir tilteknum sjónarmiðum ef gjörðir þínar bera vott um að annarskonar hagsmunir ráði för.