Fyrirtæki eru námsstaðir

Hátt í hundrað manns víða úr atvinnulífinu mættu í Hús atvinnulífsins á fyrsta fund vetrarins í fundaröðinni Menntun og mannauður sem fram fór í vikunni.  Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni.

Þórður framkvæmdastjóri, Outcome kannana, og Guðrún S. Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri menntamála hjá Samtökum atvinnulífsins, fóru yfir niðurstöður nýrrar menntakönnunar atvinnulífsins. Fram kom að í sex af hverjum tíu fyrirtækjum fer fram skipuleg fræðsla og að starfsreynsla, menntun á viðkomandi sviði og samskiptahæfni skorar hæst þegar verið er að ráða nýtt fólk.

Að auki voru flutt þrjú erindi frá ólíkum fyrirtækjum, bæði að stærð og gerð, þar sem fjallað var um fræðslu innan þeirra. Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Eimskips, Kristjana Milla Snorradóttir, verkefnastjóri mannauðsmála Nordic Visitor og Guðrún Inga Guðlaugsdóttir, fræðslustjóri Sjóvá veittu innsýn í fræðslustarf fyrirtækjanna.

Í ljós kom ákveðinn samhljómur með þeim og var áhugavert var að heyra um mikilvægi nýliðaþjálfunar og mentora, tækifæri í stafrænni þjálfun og fræðslu svo eitthvað sé nefnt.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, opnaði fundinn og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntamála hjá Samtökum verslunar og þjónustu stýrði fundinum.

Hér má nálgast erindi sem flutt voru á fundinum.

 

 

Nýtt nám í verslunarstjórnun á fagháskólastigi

Um áramótin munu Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst bjóða upp á nýtt nám. Markmiðið er að bjóða upp á valkost í námi fyrir þá sem vilja mennta sig í verslun og þjónustu og vilja jafnvel halda áfram í háskólanám í framhaldi en námið verður metið áfram í námi til BS gráðu í viðskiptafræði í báðum skólum.

Námið, sem verður 60 ECTS einingar, verður nám með vinnu og mun taka tvö ár í dreifinámi. Það byggir að hluta til á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræði við Bifröst og HR en að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunar og þjónustu í huga með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni. Námið byggir að auki á hæfnigreiningu fyrir starf verslunarstjóra og viðhorfskannana meðal starfandi verslunarstjóra. Styrkur námsins liggur í nánu samstarfi við atvinnulífið og samstarfi háskólanna tveggja um þróun námsins og kennslu.

Almenn inngönguskilyrði verða stúdentspróf eða sambærilegt nám en einnig verður litið til starfsreynslu og hæfni við inntöku nemenda. Stefnt er að því að fyrirtæki velji nemendur úr starfsmannahópum sínum inn í námið en aðrir munu einnig geta sótt um námið.

Það er mikið fagnaðarefni að slíkt nám verði valkostur. Verslunarstjórar sinna ábyrgðarmiklum stjórnendastörfum og algengt er að þeir stýri tugum starfsmanna og beri ábyrgð á hundruð milljóna veltu. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt VR gerðu könnun meðal verslunarstjóra í vor um menntun og þeirra menntunarþörf. Þar kom í ljós að þörf er á námi sem þessu, en 56% telja sig hafa mikla eða mjög mikla þörf fyrir menntun, þjálfun eða fræðslu í tengslum við núverandi starf. Jafnframt kom fram að meirihluti verslunarstjóra, eða hátt í 70%, telja sig hafa mjög eða frekar lítil tækifæri til endurmenntunar.

Slíkur valkostur á fagháskólastigi er því fagnaðarefni.

Frá fundi um nýjar áskoranir í framhaldsfræðslu

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Fræðslusjóður stóðu fyrir málþingi um nýjar áskoranir í framhaldssfræðslu 7. sept. sl. Málþingið var vel sótt og greinilega mikill áhugi á þróun framhaldsfræðslunnar og þeim leiðum sem farnar verða í þeim breytingum sem framundan eru. Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntamála hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu var með erindi á ráðstefnunni þar sem hún fór yfir sýn atvinnurekenda á námi í fyritækjum. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra setti ráðstefnuna og aðrir framsögumenn voru: Sveinn Aðalsteinsson, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Fjóla Jónsdóttir, Efling stéttarfélag, Inga Dóra Halldórsdóttir, Símenntunarmiðstöð Vesturlands og Særún Rósa Ástþórsdóttir, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Guðrún Ragnarsdóttir, ráðgjafi Strategía ehf og formaður Fræðslusjóðs stýrði fundi.

Í erindi Áslaugar Huldu kom m.a. fram:

Það skiptir máli að einstaklingar sem sækja sér meiri menntun fái eignarhald á því sem þeir hafa á sig lagt, fái vottun og viðurkenningu á sínu framlagi. Við verðum að tryggja að allt nám, þjálfun og fræðsla sé skráð og fylgi einstaklingnum – hvort sem það er í formlegu námi, hjá símenntunarmiðstöðvunum eða þálfun og námi innan fyrirtækis. Og svo þarf fjármagnið að fylgja þeim einstaklingum sem sækja sér endurmenntun – hvar sem hún er svo framarlega sem hún er viðurkennd. Það má ekki vera lokað inni í einhverju kerfi.

Það liggja gríðarleg tækifæri í stafrænum lausnum. Og við verðum að grípa þau! Við þurfum ekki lengur að flytja fólk úr öllum áttum á sama stað, á sama tíma, og fara yfir mikið efni í alltof langan tíma. Við getum streymt efninu. Tekið upp. Og starfsmenn geta farið yfir námsefnið þegar þeim hentar, þar sem þeim hentar, á þeim tíma sem þeim hentar. Með aðstoð tækninnar getum við líka á skilvirkari hátt verið tilbúin með þekkinguna þegar starfsmaðurinn þarf hana en ekki þegar fyrirtækið er búið að bóka sal og fyrirlesara. Tæknin kemur svo sterk inn með alla þá fjölbreyttu möguleika sem stafræn þjálfun gefur okkur.

Til eru rannsóknir sem sýna að einstaklingar sem hafa tækifæri til að auka þekkingu sína og vaxa í starfi eru ánægðari í starfi, hafa góð áhrif á liðsheild og starfa lengur innan viðkomandi fyrirtækis. Aukin menntun og fræðsla eykur sveigjanleika innan fyrirtækja, starfsfólk getur tekið að sér fjölbreyttari störf og er frekar tilbúið í breytingar. Með þessu verður mannauður fyrirtækisins öflugri og fyrirtækin þá um leið samkeppnishæfari. Þetta hefur líka jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja. Allt þetta skiptir fyrirtækin máli, ör starfsmannavelta er fyrirtækjum dýr. Kröfur um hæfni eru alltaf að aukast – vel þjálfað og hæft starfsfólk gerir færri mistök, er skilvirkara og nýtir tíma sinn betur. Hæft fólk skapar meira virði fyrir fyrirtækin.

Starfslýsingar og hæfnikröfur þurfa að vera lagðar til grundvallar þegar námsframboð er skipulagt. Hæfnigreiningar þurfa að liggja að baki námsskráa þegar þær eru unnar eða endurskoðaðar. Þær eiga að leggja grunn að menntun. Og það er mikilvægt að atvinnulífið takið formlega þátt í mótun stefnu um menntun. Menntun þarf að taka mið að þörfum atvinnulífsins.

Fræðslumál ólíkra fyrirtækja

Fyrsti morgunfundur vetrarins í fundaröð Húss atvinnulífsins um menntamál verður haldinn miðvikudaginn 27. september kl. 8.30 – 10.
Á fundinum verða kynntar niðurstöður nýrrar menntakönnunar á vegum Samtaka atvinnulífsins um umfang menntunar og fræðslu innan ólíkra fyrirtækja.

Að auki munu fundargestir fá innsýn í hvernig þessum málum er háttað hjá þremur ólíkum fyrirtækjum, sem öll fara sína leið í menntun og fræðslu síns starfsfólks.

Dagskrá:

Helstu niðurstöður nýrrar menntakönnunar
Þórður Höskuldsson, framkvæmdastjóri Outcome kannana og Guðrún Eyjólfsdóttir verkefnastjóri menntamála SA

Hvernig gerum við þetta?

Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Eimskips.
Kristjana Milla Snorradóttir, verkefnastjóri mannauðsmála Nordic Visitor.
Guðrún Inga Guðlaugsdóttir, fræðslustjóri Sjóvá.

Fundarstjóri er Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntamála SVÞ.

Fundurinn fer fram  í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, í salnum Kviku á 1. hæð.

Heitt og könnunni og létt morgunhressing frá kl. 8.15.

SKRÁNING FER FRAM HÉR.

Námslínan Stjórnendur í verslun og þjónustu

Námslínan Stjórnendur í verslun og þjónustu mun hefja göngu sína í annað sinn í september 2017.

Námslínan er samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Samtaka verslunar og þjónustu og er ætluð stjórnendum. Áherslan í náminu verður á hagnýta færni og þekkingu. Jafnframt verður áhersla lögð á raunhæf verkefni til að tengja við vinnuumhverfi og áskoranir í starfi þátttakenda.

Námið samanstendur af sjö efnisþáttum,

  • Stjórnun og leiðtogahæfni
  • Mannauðsstjórnun
  • Framsögn og framkoma
  • Tímastjórnun og skipulag
  • Sölutækni og þjónustustjórnun
  • Markaðsmál – Uppstilling og framsetning
  • Rekstur og fjármál

Námslínan hefst 5. september og lýkur 5. desember.

Kennt verður á þriðjudögum frá kl. 13.00-17.00.

Frekari upplýsingar á vef Opna háskólans.

Alcoa Fjarðaál er menntafyrirtæki ársins 2017 og Keilir menntasproti ársins

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í morgun menntaverðlaun atvinnulífsins á menntadegi atvinnulífsins sem haldinn var í fjórða sinn á Hilton Reykjavík Nordica.

Fjarðaál á Reyðarfirði er stærsta iðnfyrirtæki landsins en þar vinna um 530 starfsmenn auk fjölda verktaka. Metnaður er lagður í menntun, þjálfun og fræðslu starfsfólks á hverjum degi. Fyrirtækið rekur stóriðjuskóla sem er samstarfsverkefni Fjarðaáls, Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands en um 50 nemendur stunda nám við skólann á hverjum tíma.

„Ég er afar stoltur af því að taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd starfsfólks Alcoa Fjarðaáls. Innan Fjarðaáls starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks sem eru öll sérfræðingar á sínu sviði. Lykillinn að því að hámarka og viðhalda þekkingu, hæfni og reynslu innan fyrirtækisins er að allt starfsfólk sé reiðubúið að miðla sín á milli í gegnum fræðslustarf og skipulag fyrirtækisins. Ég vil því óska starfsfólki Alcoa Fjarðaáls til hamingju með Menntaverðlaunin og þakka þeim fyrir framlag sitt,“ segir Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls.

Hópur starfsfólks Alcoa Fjarðaáls tók á móti verðlaununum með Magnúsi Þór Ásmundssyni í morgun. Þau eru á meðfylgjandi mynd með forseta Íslands og Kristjáni Þór Júlíussyni menntamálaráðherra sem ávarpaði fundinn.

Frá vinstri á myndinni eru Hilmar Sigurbjörnsson, Sigrún Björnsdóttir, Guðný B. Hauksdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Guðni Th. Jóhannesson, Magnús Þór Ásmundsson, Elísabet Sveinsdóttir, Hólmgrímur Elís Bragason og Valgerður Vilhelmsdóttir.

Alcoa Fjarðaál og sveitarfélagið Fjarðabyggð  hafa á undanförnum árum unnið að því að efla áhuga ungs fólks á Austfjörðum á verk- og tæknimenntun. Kennarar lögðu sitt af mörkum og aðstaða til kennslu var bætt, námsframboð á verklegum valgreinum var aukið og nemendur hvattir til nýsköpunar auk þess sem þeim var boðið að heimsækja Fjarðaál og kynna sér starfsemi fyrirtækisins.  Verkefnið heppnaðist mjög vel en fjöldi þeirra sem völdu verk- og tækninám að loknum grunnskóla tvöfaldaðist á aðeins þremur árum. Eitthvað sem atvinnulífið hefur lengi kallað eftir.

„Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki í iðnaði að beita sér fyrir því að verk- og tækninámi sé haldið á lofti, það eflt og áhersla lögð á mikilvægi þess. Samvinna atvinnulífsins, skólakerfisins og sveitarfélaganna er lykilatriði í því að árangur náist og að orðum fylgi athafnir. Við munum halda áfram að leggja okkar af mörkum til eflingar verk- og tæknináms, sem og efla þekkingu og hæfni innan fyrirtækisins,“ segir Magnús.

Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, er menntasproti ársins 2017. Keilir var stofnaður árið 2007 og starfar á Ásbrú í Reykjanesbæ á gamla varnarsvæði Bandaríska hersins.

Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Á aðeins tíu árum hefur tekist að breyta yfirgefinni herstöð í þekkingarþorp. Keilir hefur lyft grettistaki, innleitt nýjar hugmyndir og kennsluhætti og lagt sig fram um að hlusta á þarfir atvinnulífsins og mennta starfsfólk sem eftirspurn er eftir þegar námi lýkur.

Hlutfall háskólamenntaðra íbúa í Reykjanesbæ sem eru eldri en 25 ára hefur meira en tvöfaldast frá 2007 og 85% þeirra sem ljúka námi við Háskólabrú Keilis halda áfram í háskóla en margir þeirra hafa flosnað upp úr hefðbundnu háskólanámi.

„Fyrir hönd starfsfólks Keilis tek ég í auðmýkt við þessari skemmtilegu viðurkenningu.  Við höfum reynt að fara nýjar leiðir við að bjóða fólki menntaúrræði.  Þessi hvatning frá Samtökum atvinnulífsins hvetur okkur til frekari dáða. Við þökkum fyrir okkur,“ segir Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis.

Á myndinni hér til hliðar eru frá vinstri Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis, Árni Sigfússon stjórnarformaður og forseti Íslands.Keilir verdlaun

Í dómnefnd sátu Karen Kjartansdóttir fyrir Samtök atvinnulífsins, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem var menntafyrirtæki ársins 2016, Sigurður Steinn Einarsson sérfræðingur hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað sem var menntasproti ársins 2015 og Ragnheiður H. Magnúsdóttir viðskiptastjóri hjá Marel sem var menntafyrirtæki ársins 2015.

Hópur starfsfólks Alcoa Fjarðaáls tók á móti verðlaununum með Magnúsi Þór Ásmundssyni í morgun. Þau eru á meðfylgjandi mynd með forseta Íslands og Kristjáni Þór Júlíussyni menntamálaráðherra sem ávarpaði fundinn.

Frá vinstri á myndinni eru Hilmar Sigurbjörnsson, Sigrún Björnsdóttir, Guðný B. Hauksdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Guðni Th. Jóhannesson, Magnús Þór Ásmundsson, Elísabet Sveinsdóttir, Hólmgrímur Elís Bragason og Valgerður Vilhelmsdóttir.

 

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.

Menntasúpa - ný