05/02/2018 | Fréttir, Verslun
Póstyfirvöld í Svíþjóð – Postnord og sænsk tollayfirvöld voru ekki sammála um hverjir væru ábyrgir fyrir því að innheimta virðisaukaskatt af vörum sem Svíar kaupa í netverslun frá Kína. Vegna þessa er talið að sænska ríkið hafi farið á mis við milljarða sænskra króna vegna tapaðra skatttekna.
Komið hefur í ljós að tollayfirvöld hafa látið þetta viðgangast því fjöldi póstsendinga er það mikill að kerfið ræður ekki við að innheimta virðisaukaskatt af öllum þeim vörum sem berast. En engu að síður er þetta brot á tollareglum og því hefur verið gagnrýnt að Postnord, sem er að hluta til í eigu sænska og danska ríkisins, komist upp með að innheimta ekki skattinn fyrir ríkið. Postnord hefur borið fyrir sig að vörur sem kosta undir 22 Evrur beri ekki virðisaukaskatt. Nú er orðið ljóst að ábyrgðin liggur hjá Postnord.
Umfjöllun í sænskum fjölmiðlum:
https://www.expressen.se/dinapengar/konsument/beskedet-ska-bli-dyrare-handla-pa-wish/
http://sverigesradio.se/sida/artikel.aspx?programid=83&artikel=6844295
https://www.svt.se/nyheter/inrikes/postnord-infor-avgift-pa-paket-fran-kina
05/02/2018 | Fréttir, Viðburðir
Markaðsmál lítilla og meðalstórra fyrirtækja voru í kastljósinu á Smáþingi Litla Íslands á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 1. febrúar. Tölur um umfang og mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja voru birtar á þinginu auk þess sem bent var á leiðir til að bæta starfsumhverfið. Frumkvöðlar sögðu skemmtilegar sögur og tóku þátt í umræðum.
Á fjórða hundrað gesta tóku þátt í þinginu og rúmlega 1.500 horfðu á beina útsendingu á vefnum.
Hvernig á að ná í nýja viðskiptavini og halda núverandi viðskiptavinum?
Hvað er að gerast á markaðnum?
Hvernig nærðu árangri með markaðsstarfi?
Hvernig er hægt að nota samfélagsmiðla með nýjum hætti?
Hvaða áhrif hafa áhrifavaldar?
Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, setti þingið Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá VÍS, stýrði því.
Litla Ísland er vettvangur þar sem lítil fyrirtæki vinna að stórum hagsmunamálum. Bakhjarlar Litla Íslands eru SAF, SVÞ, SI, SFF og SA.
Hægt er að horfa á upptökur af einstökum erindum á vef SA.
02/02/2018 | Fréttir, Viðburðir
Aðalfundur SVÞ verður haldinn fimmtudaginn 15. mars nk. kl. 8.30 í Kviku, Húsi atvinnulífsins. Kallað verður eftir framboðum til stjórnar SVÞ og til setu í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins næstu daga. Konur, jafnt sem karlar, eru hvattar til að gefa kost á sér.
Að venju verður haldin vegleg ráðstefna í tengslum við aðalfundinn síðar um daginn. Ráðstefnan fer fram á Hilton Reykjavík Nordica og hefst kl. 14
Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Magnus Lindkvist, sem er sænskur rithöfundur og „Trendspotting futurologist“. Hann skoðar með heimspekilegum hætti hvernig má takast á við allar þær nýju áskoranir sem verslunar- og þjónustufyrirtæki standa frammi fyrir.
Nánari dagskrá ráðstefnu birt síðar.
Hér má nálgast upplýsingar um Magnus Lindkvist
02/02/2018 | Fréttir
Bilun kom upp í kerfum RB í gær vegna óvanalegs álags og skýrist af mörgum samverkandi þáttum. Að öllu jöfnu ráða kerfi RB við aukið álag í tengslum við mánaðarmót en við það bættist bilun í búnaði sem takmarkaði afkastagetu og hafði keðjuverkandi áhrif á kerfið. Þetta olli truflunum í heimildargjöf debetkorta, afgreiðslukerfi bankanna og í hraðbönkum. Tveir álagstoppar mynduðust, annars vegar upp úr 13:00 og hins vegar upp úr 17:00. Á þeim tíma var ekki hægt að nota debetkort í verslunum, hraðbönkum eða afgreiðslukerfum . Þetta varði í rúmar 20 mínútur í fyrra skiptið og rúmar 50 mínútur í seinna skiptið og orsakaði eðlilega mjög mikla röskun hjá verslunar- og þjónustufyrirtækjum.
Neyðarstjórn RB var kölluð út strax við fyrra atvikið. Stjórnin og stór hópur starfsmanna RB og samstarfsaðila vann að úrlausn fram á kvöld. Klukkan 18:00 voru kerfi RB komin í eðlilegt ástand og viðgerðum á búnaði var að fullu lokið um kl 21:00. Ekki er talin hætta á frekari röskun á þjónustu af þessum sökum.
Færslur sem framkvæmdar voru oftar en einu sinni verða leiðréttar af RB í dag. Viðskiptavinir sem ekki geta beðið geta leitað til síns viðskiptabanka.
RB gerir sér grein fyrir alvarleika málsins og harmar þær erfiðu aðstæður sem sköpuðust. RB mun í samvinnu við sína viðskiptavini greina málið frekar og grípa til ráðstafana sem draga úr möguleikum á sambærilegum bilunum í framtíðinni.
Nánari upplýsingar veitir:
Elsa M. Ágústsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri RB
Netfang: elsa@rb.is
Sími: 899-7172
02/02/2018 | Fréttir, Viðburðir
SVÞ í samvinnu við verkfræðistofuna Mannvit stóð nýlega fyrir fundi um myglu í húsnæði þar sem varpað var ljósi á hvaða áhrif þetta fyrirbæri hefur á líðan og heilsu fólks sem býr eða starfar í húsnæði þar sem mygla er eða grunur hefur komið upp um myglu. Á fundinum var einnig tekið fyrir það mikilvæga viðfangsefni, hvernig réttarstöðu aðila er háttað þegar slíkar aðstæður skapast í húsnæði. Frummælendur á fundinum voru þau María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir, lungna- og ofnæmislæknir á Landspítalanum, Kristján Guðlaugsson og Anna Dagbjört Ívarsdóttir, verkfræðingar hjá Mannviti og Othar Örn Petersen, lögmaður á Logos. Tilgangur fundarins var fyrst og fremst að varpa ljósi á þessi atriði og hvernig samspili þeirra væri háttað.
Það kom m.a. fram hjá Maríu Ingibjörgu að stórar faraldsfræðilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið sýni fram á hærri tíðni astma og öndunarfærasjúkdómaeinkenna hjá þeim sem búa í rakaskemmdu húsnæði. Það vantaði hins vegar upp á að nægjanlegar rannsóknir væru til staðar til að sýna með óyggjandi hætti fram á bein orsakatengsl.
Alma Dagbjört fjallaði í erindi sínu um hina marga samverkandi þætti sem koma saman í vinnuumhverfi og benti á að innivist væri mjög margþætt hugtak sem fjalli m.a. um bygginguna sjálfa, loftgæði, hljóðvist og lýsingu.
Othar Örn fjallaði um réttarstöðu aðila út frá gallahugtakinu í lögum um fasteignakaup. Reifaði Othar nokkra dóma sem gengið hafa, þar sem reynt hefur á þetta álitaefni. Þar kom einkum fram að sönnunarbyrðin fyrir því að mygla hafi verið til staðar við afhendingu húsnæðis hvílir á kaupanda/leigjanda húsæðis. Þá kom einnig fram að dómstólar gera ríkar kröfu til þess að fyrir liggi matsgerð dómkvaddra matsmanna áður en mál koma fyrir dóm. Ekki er því nægjanlegt að hafa eingöngu sérfróða meðdómsmenn í dómi.
Það var markmið þeirra sem stóðu að fundinum að skýra og styrkja það ferli sem fer í gang þegar upp kemur grunur um myglu eða rakaskemmdir í húsnæði. Helstu hagsmunaðilar á þessu sviði hafa þegar lýst yfir vilja til þess að hefja slíka vinnu. Þar er stefnt að því að byggja á áralangri vinnu sem Þjóðverjar hafa lagt í. Vonandi hefst þessi vinna sem allra fyrst þannig að okkur takist að eyða þeirri óvissu sem uppi hefur verið undanfarin ár þegar þessi staða hefur komið upp í húsnæði.
29/01/2018 | Fréttir, Viðburðir
Markaðsmál lítilla og meðalstórra fyrirtækja verða í kastljósinu á Smáþingi Litla Íslands sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 1. febrúar kl. 15-16.30. Tölur um umfang og mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja verða einnig birtar á þinginu auk þess sem bent verður á leiðir til að bæta starfsumhverfið.
Frumkvöðlar segja reynslusögur og fram fara umræður. Netagerð fer fram að loknum fundi með tónlist og tilheyrandi.
•Hvernig á að ná í nýja viðskiptavini og halda núverandi viðskiptavinum?
•Hvað er að gerast á markaðnum?
•Hvernig nærðu árangri með markaðsstarfi?
•Hvernig er hægt að nota samfélagsmiðla með nýjum hætti?
•Hvaða áhrif hafa áhrifavaldar?
Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, setur þingið en dagskrá má nálgast hér að neðan. Smáþingsstjóri er Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá VÍS.
Litla Ísland er vettvangur þar sem lítil fyrirtæki vinna að stórum hagsmunamálum. Bakhjarlar Litla Íslands eru SAF, SVÞ, SI, SFF og SA. Kynning á þjónustu samtakanna verður fyrir og eftir Smáþing.
DAGSKRÁ SMÁÞINGS 2018
Setning
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
Stóra lausnin er smá!
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Hvernig ná lítil og meðalstór fyrirtæki árangri með markaðsstarfi?
Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Íslandsbanka og stundakennari við HR
Rótgróið fyrirtæki í nýjum heimi
Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss og formaður SI.
Vald áhrifavalda og nýjar leiðir við notkun samfélagsmiðla
Hlynur Þór Árnason, sölu- og markaðssérfræðingur hjá Ghostlamp
Reynslusögur & umræður
Pink Iceland
Eva María Þórarinsdóttir Lange, stofnandi og eigandi
Einstök Ölgerð
Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri.
Omnom
Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri.
Eldum rétt
Hanný Inga Birschbach, þjónustustjóri
SKRÁNING