20/02/2024 | Fréttir, Verslun, Viðburðir, Þjónusta
Reykjavík, 20. febrúar 2024
Til aðildarfyrirtækja SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
BOÐUN AÐALFUNDAR SVÞ – SAMTAKA VERSLUNAR OG ÞJÓNUSTU
Með bréfi þessu er boðað til aðalfundar SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu hinn 14. mars 2024 kl. 08:30 í fundarsalnum Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
1. Ræða formanns SVÞ
2. Skýrsla stjórnar SVÞ fyrir liðið starfsár
3. Reikningar SVÞ fyrir liðið reikningsár
4. Lýst kosningu meðstjórnenda í stjórn SVÞ
5. Lýst kosningu í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins
6. Kosning löggilts endurskoðanda SVÞ
7. Breytingar á samþykktum SVÞ
8. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál
Nánar um einstaka dagskrárliði:
Um 2. dagskrárlið
Skýrsla stjórnar SVÞ verður gerð aðgengileg á vefsvæði SVÞ fyrir fundinn. Á fundinum verður gerð grein fyrir helstu atriðum skýrslunnar.
Um 3. dagskrárlið
Reikningar SVÞ fyrir reikningsárið 2023 munu liggja fyrir á skrifstofu SVÞ aðildarfyrirtækjum til skoðunar eigi síðar en frá með 7. mars 2024. Á fundinum verður gerð grein fyrir efni þeirra.
Um 4. og 5. dagskrárliði
Til samræmis við ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 14. gr. sbr. 2. mgr. 15. gr. samþykkta SVÞ skal kjósa þrjá meðstjórnendur til tveggja ára á aðalfundi SVÞ 2024, þ.e. kjörtímabilið milli aðalfunda 2024 og 2026.
Kjörnefnd SVÞ 2024 yfirfer framkomin framboð til stjórnar SVÞ og fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins. Framboðsfrestur rennur út 22. febrúar 2024. Berist nefndinni fleiri en þrjú framboð til stjórnar SVÞ eða fleiri framboð til fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins en sem nemur fulltrúasætum SVÞ munu kjörgögn væntanlega verða send aðildarfyrirtækjum 23. febrúar 2024. Kosningarnar verða rafrænar og er áætlað að þær hefjist 28. febrúar 2024 og þeim ljúki 12. mars 2023 kl. 12:00.
Um 7. dagskrárlið
Í ljósi afkomu síðasta reikningsárs leggur stjórn SVÞ til að við samþykktir SVÞ frá 26. maí 1999, með síðari breytingum, verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. skal veita aðilum að SVÞ, samkvæmt ákvæðum II. kafla, 3% afslátt af árgjaldi árið 2024. Afslátturinn skal veittur af árgjaldinu eftir að það hefur verið ákvarðað skv. 2. mgr. 9. gr. og skal jafnframt taka til lágmarks- og hámarksárgjalds.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.
___________
SMELLIÐ HÉR FYRIR SKRÁNINGU Á AÐALFUND SVÞ.
19/02/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun, Þjónusta
Lilja Dögg Alfreðsdottir, menningar-og viðskiptaráðherra skrifar grein í Morgunblaðið 17.febrúar s.l. um frumvarp um innlenda greiðslumiðlun sem ætti að spara íslenskt atvinnulíf 20 milljarða á ári m.v. notkun greiðslumiðla 2021.
Sjá skjáskot að grein Morgunblaðsins hér fyrir neðan:
19/02/2024 | Fréttir, Verslun, Þjónusta
Niðurstaða Maskínukönnunar á stöðu sí- og endurmenntunar frá sjónarhóli stjórnenda og starfsfólks í verslunar- og þjónustugreinum
Í mars 2023, undirrituðu Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR / LÍV, tímamótasamstarfssamning um hæfniaukningu starfsfólks í verslun og þjónustu allt til ársins 2030. [SJÁ FRÉTT]
Markmið samningsins eru að efla sí- og endurmenntun starfsfólks í verslunar og þjónustugreinum, auka hæfni í íslensku meðal nýbúa og þróa viðurkenndar vottanir eða fagbréf. Þessi áherslur munu styðja við starfsfólk og fyrirtæki í greininni til að mæta þörfum vinnumarkaðarins sem er í örri umbreytingu.
Opin málstofa mun nú kynna fyrstu niðurstöður úr könnun Maskínu á atvinnumarkaði sem tengjast þessum markmiðum, en könnunin tók bæði til stjórnenda innan SVÞ og starfsfólks innan VR.
Dagur: miðvikudaginn 6. mars n.k.
Staður: Hús verslunarinnar, Kringlan 7, 103 Reykjavík – 9.hæð
Tími: Húsið opnar klukkan 08:30 viðburður hefst kl. 09:00
Markmið málstofunnar er að kynna niðurstöður könnunar Maskínu um hæfnikröfur í verslunar- og þjónustugreinum á tímum kollvörpunar. Könnunin veitir innsýn í þær kröfur sem gerðar eru til starfsfólks og stjórnenda í þessum mikilvægu greinum.
Dagskrá:
- Victor Karl Magnússon sérfræðingur VR kynnir niðurstöðu Maskínu könnunar.
- Þórdís Jóna Sigurðardóttir forstjóri Menntamálastofnunar. Erindi „mál með vexti“ .
Pallborðsumræður:
Gestir á pallborði:
- Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
- Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Samkaupum
- Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR/LÍV
- Kristín Erla Þráinsdóttir, fagstjóri ráðgjafar og raunfærnimats hjá Mími
Þessir aðilar munu ræða um stöðuna, framtíðaráskoranir og mögulegar leiðir til árangurs.
Fundarstjóri: Guðrún Ragnarsdóttir, einn eigenda Strategíu.
Viðburðurinn lýkur klukkan 10:00.
Áhugasömum er bent á að skrá sig – SMELLA HÉR!
Við hlökkum til að sjá ykkur og eiga saman gagnlegar og upplýsandi umræður!
14/02/2024 | Fréttir, Menntun
Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Elko er Menntafyrirtæki ársins og Bara tala hlaut Menntasprotann 2024. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í dag.
ELKO kom með krafti inn á íslenskan raftækjamarkað árið 1998 og er í dag ein stærsta raftækjaverslun landsins með þrjár verslanir á höfuðborgarsvæðinu, eina á Akureyri, tvær verslanir á Keflavíkurflugvelli ásamt því að vera með vefverslun. Árið 2019 var mörkuð ný stefna hjá fyrirtækinu þar sem framtíðarsýnin var ánægðustu viðskiptavinirnir og því til stuðnings var lögð enn meiri áhersla á fræðslu og þjálfun og ánægju starfsfólks.
Í tilnefningu Elko koma fram greinargóðar upplýsingar um fræðslustarfið og þau fjölmörgu námskeið og menntaleiðir sem bjóðast starfsfólki í svokölluðum Fræðslupakka Elko . ELKO uppfyllir öll viðmið menntaverðlauna atvinnulífsins með skipulagðri og markvissri fræðslu innan fyrirtækisins þar sem þátttaka starfsfólks er góð enda hvatning til frekari þekkingaröflunar til staðar. Elko sýnir með fræðsluáætlun, skýrum mælikvörðum og mælingum að árangur fræðslustarfsins er mikill og góður.
Ljóst er að stefnumiðuð og markviss vinna í fræðslumálum starfsfólks hefur lagt grunn að mjög góðum árangri í þeirri vegferð fyrirtækisins að auka ánægju starfsfólks og fylgja stefnunni eftir um ánægðustu viðskiptavinina. Þá er eftirtektarvert að fyrirtækið hefur einnig stutt við viðskiptavini sína og sitt ytra umhverfi þegar kemur að menntun og fræðslu, til dæmis með foreldrafræðslu um raftækjanotkun barna.
06/02/2024 | Fréttir, Greinar, Verslun
Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) birtir í dag niðurstöður netverslunar fyrir árið 2023. Þar kemur m.a. fram að Íslendingar versluðu mest í erlendri netverslun frá Kína eða fyrir rúmlega 6 milljarða króna árið 2023 en við Íslendingar versluðum fyrir 27,4 milljarða króna í erlendri netverslun árið 2023. Í öðru sæti eru Bandaríkin með 4,2 milljarða króna en Bretland situr í þriðja sæti með 3,2 milljarða króna. Þýskaland og Holland fylgja svo fast á eftir. Hollendingar slá Víetnam úr fimmta sæti frá árinu 2022 en innflutningur frá Hollandi tvöfaldaðist milli ára. Kína sat einnig á toppnum fyrir árið 2022 með 6,2 milljarða króna af 23,9 milljörðum sem fóru í erlenda netverslun.
Innlend netverslun hækkar um 20,8% á milli ára
Innlend netverslun fyrir árið 2023 nam 50,4 milljörðum króna og hækkar um 20,8% á milli ára á meðan erlend netverslun nemur 27,4 milljörðum króna og hækkar um 14,6% á milli ára. Verslun á netinu í dagvöruverslunum innanlands hefur aukist um 48,7% á milli ára og má telja að landsmenn hafi verið duglegir að nýta sér tækni dagvöruverslana á árinu sem leið.
SMELLTU HÉR fyrir greinina inná RSV.
22/01/2024 | Fréttir, Innra starf, Verslun, Þjónusta
LEITAÐ ER TILLAGNA UM ÞRJÁ MEÐSTJÓRNENDUR Í STJÓRN SVÞ OG FULLTRÚA SVÞ Í FULLTRÚARÁÐ SAMTAKA ATVINNULÍFSINS.
Kjörnefnd SVÞ leitar að áhugasömum stjórnendum til setu í stjórn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.
Þrír stjórnarmenn taka sæti til næstu tveggja starfsára.
Þá er leitað eftir fulltrúum til setu í fulltrúaráði SA til eins árs.
Við hvetjum félagsfólk innan samfélags verslunar og þjónustu SVÞ, til að bjóða þig fram eða senda inn tilnefningu fyrir kl. 12:00 hinn 16. febrúar nk. en framboðsfrestur samkvæmt samþykktum rennur út 22. febrúar. Aðalfundur verður haldinn 14. mars nk.
Í stjórn SVÞ eiga sæti formaður og sex meðstjórnendur.
– Formaður SVÞ til loka starfsársins 2024/2025 er Jón Ólafur Halldórsson, Marga ehf.
Eftirtaldir meðstjórnendur eiga sæti í stjórninni til loka næsta starfsárs, 2024/2025:
- Egill Jóhannsson, Brimborg ehf.
- Guðrún Jóhannesdóttir, Kokka ehf.
- Árni Stefánsson, Húsasmiðjan ehf.
Þrír meðstjórnendur skulu kosnir til setu í stjórn SVÞ fyrir næstu tvö starfsár.
Tilnefningar til stjórnar SVÞ og fulltrúaráðs SA skulu sendar til SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Borgartúni 35, 105 Reykjavík, merktar „Kjörnefnd SVÞ“ eða á netfangið: kosning@svth.is
Rétt er að minna á að tillögur um breytingar á samþykktum SVÞ þurfa að berast stjórn samtakanna eigi síðar en 16. febrúar 2023.
Fólk af öllum kynjum er hvatt til að gefa kost á sér í stjórn SVÞ og í fulltrúaráð SA.
Kjörnefnd SVÞ
___________________
Viltu hafa áhrif á mótun samfélagsins?
Hagsmunagæsla á tímum umbreytinga.
Síðustu ár hafa fyrirtæki í verslun og þjónustu tekist á við við miklar áskoranir. Heimsfaraldur og sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda kölluðu sífellt á ný viðfangsefni og vinnubrögð. Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hefur breytt heimsmyndinni. Áhrif átaka í Mið-Austurlöndum eru tekin að koma fram. Brestir í aðfangakeðjunni, erfiðar aðstæður á flutningamarkaði og eftirspurnarbreytingar valda breytingum á rekstraraðstæðum. Á sama tíma blasa við fyrirtækjum áskoranir á sviði stafvæðingar, sjálfbærni og orkuskipta og mannauðs. Kjaraviðræður eru yfirstandandi. Sjaldan hefur verið mikilvægara að aðildarfyrirtæki SVÞ leggi sitt af mörkum á vettvangi samtakanna.
Með setu í stjórn SVÞ gefst þér tækifæri á að hafa áhrif á mótun rekstrarumhverfis fyrirtækja í verslun og þjónustu.