27/11/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Erlend uppskrift tilboðsdaga hefur afgerandi áhrif á verslun Íslendinga.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ Samtaka verslunar og þjónustu sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að tilboðsdagar að erlendri uppskrift hafi haft afgerandi áhrif á það hvernig Íslendingar versla fyrir jólin.
„Stærri og stærri hluti af jólaverslunar landans fer fram á þessum dögum. Og það er bara í takt við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Þetta kemur kannski meira afgerandi fram hjá okkur en sums staðar annars staðar,“ segir hann.
Allt bendi til þess að tilboðsdagar líkt og svartur föstudagur og stafrænn mánudagur sem nú eru í gangi hafi orðið til þess að stór hluti jólaverslunar landsmanna hafi færst inn í nóvember. Þetta sé þróun sem sé komin til að vera.
„Það er allt sem bendir til þess og þróunin hefur eindregið verið þannig undanfarin ár. Mælingin sem við gerum reglulega sýnir það afgerandi að fyrir kannski sjö, átta árum var eiginlega öll jólaverslun í desember“, segir Andrés.
„Undanfarin ár hefur þetta verið að þróast í þá átt að jafnvel helmingur af allri jólaverslun fer fram á þessum dögum.“
Sjá nánari frétt á RÚV.is
25/11/2023 | Fréttir, Stjórnvöld
Fyrsti Atvinnulífsfundur Reykjavíkurborgar var haldinn í Höfða 22.nóvember s.l. og tók Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu þátt fyrir hönd samtakanna.
Atvinnulífsfundur er liður í atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar, Nýsköpun alls staðar, sem snýr að því að skapa sameiginlega framtíðarsýn milli borgar og atvinnulífs um áskoranir og markmið. Helstu niðurstöður þessa fundar var að móta þarf sameiginlega framtíðarsýn, setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu og efla stuðning við nýsköpun.
Fundurinn var í boði borgarstjóra og forseta borgarstjórnar í Höfða. Þar komu saman fulltrúar Reykjavíkurborgar, atvinnulífs, háskóla, klasa og verkalýðsfélaga og ræddu hvernig efla mætti alþjóðlega samkeppnishæfni Reykjavíkur og skapa borg þar sem nýsköpun þrífst.
Virkt samtal var meðal 36 þátttakenda undir fundarstjórn Guðfinnu Bjarnadóttur um þá þætti sem þyrfti að huga sérstaklega að til að skapa sannkallaða nýsköpunarborg. Óhætt er að segja að almenn ánægja var með samtalið meðal fundargesta og mikill samhljómur um helstu áskoranir og næstu skref.
Gestir voru beðnir að forgangsraða verkefnum tengdum samkeppnishæfni úr atvinnu- og nýsköpunarstefnu og völdu þeir að leggja mesta áherslu á að setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu, setja fram sameiginlega og skýra framtíðarsýn, auka stuðning við nýsköpun og efla klasasamstarf.
Sjá nánari frétt inná vef Reykjavikurborgar, hér!
21/11/2023 | Fréttir, Umhverfismál
Á rauðu ljósi?
Umhverfisdagur atvinnulífsins 2023 verður haldinn miðvikudaginn 29. nóvember í Hörpu kl. 13:00-15:00 undir yfirskriftinni Á rauðu ljósi?
Tengslamyndun tekur við milli 15:00 – 16:00.
SKRÁNING Í SAL EÐA STREYMI HÉR!
Umhverfisdagur atvinnulífsins 2023
20/11/2023 | Fréttir, Stjórnvöld
Frá Ríkisskattstjóra.
Ríkisskattstjóri vekur athygli á ríkjum sem teljast áhættusöm, ósamvinnuþýð eða með annmarka á aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í því skyni er vísað til yfirlýsingar Financial Action Task Force (FATF) frá 27. október um ríki undir sérstöku eftirliti auk ríkja sem Evrópusambandið hefur tilgreint sem áhættusöm þriðju lönd, sbr. reglugerð nr. 725/2022, um breytingu á reglugerð um áhættusöm þriðju lönd vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 105/2020.
Í yfirlýsingu FATF frá því í október kemur fram að ríki skuli grípa til sérstakra fyrirbyggjandi varúðarráðstafana gagnvart Norður-Kóreu, Íran og Mjanmar/Búrma, enda steðji viðvarandi ógn að hinum alþjóðlega fjármálamarkaði vegna aðgerðarleysis ríkjanna í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Þau ríki sem eru talin áhættusöm, ósamvinnuþýð eða með annmarka í framangreindum skilningi eru eftirfarandi:
- Afganistan
- Albanía
- Alþýðulýðveldið Kórea
- Barbados
- Búlgaría
- Búrkína Fasó
- Cayman eyjar
- Filippseyjar
- Gíbraltar
- Haítí
- Íran
- Jamaíka
- Jemen
- Jórdanía
- Kambódía
- Kamerún
- Króatía
- Lýðstjórnarlýðveldið Kongó
- Malí
- Marokkó
- Mjanmar/Búrma
- Mósambík
- Nígería
- Panama
- Sameinuðu arabísku furstadæmin
- Senegal
- Suður Afríka
- Suður-Súdan
- Sýrland
- Tansanía
- Trinidad og Tóbagó
- Tyrkland
- Úganda
- Vanúatú
- Víetnam
Í samræmi við 6. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skulu tilkynningarskyldir aðilar gefa aðilum frá nefndum ríkjum sérstakan gaum, m.t.t. aukinnar hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við 13. og 14. gr. laga nr. 140/2018.
SJÁ FRÉTT FRÁ SKATTURINN.IS
13/11/2023 | Fréttir, Verslun, Þjónusta
Þegar náttúruhamfarir stöðva starfsemi fyrirtækis, s.s. jarðskjálftar, eldgos, snjóflóð eða skriðuföll, þá verður því ekki gert að efna samningsskuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki. Byggir það á almennum reglum samningaréttar um force majeure og 3. gr. laga nr. 19/1979. Fyrirtæki í fiskvinnslu geta sótt um endurgreiðslur, haldi þau starfsfólki tímabundið á launaskrá.
Lögfræðingar vinnumarkaðssviðs SA veita aðildarfyrirtækjum ráðgjöf vegna álitamála sem upp kunna að koma.
Nánari umfjöllun munu bætast við inná vinnumarkaðsvef SA eftir því sem aðstæður kalla og álitamál skýrast.
Réttindi og skyldur atvinnurekenda þegar náttúruhamfarir stöðva rekstur (sa.is)
08/11/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Viðskiptablaðið birtir í blaði sínu í dag viðtal við Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu um þá óvissu og aukinn kostnað sem blasir við skipafélögum samkvæmt drögum að frumvarpi um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir – ETS-kerfið svokallaða. En þau voru birt í samráðsgátt á dögunum. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á nokkrum EES-gerðum, þar á meðal að sjóflutningar muni frá áramótum færast undir kerfið. Samkvæmt þeim munu skipafélögin því þurfa að kaupa losunarheimildir á markaði til að gera upp losun sína frá og með 2025.
Ákvörðunin um að fella skipaflutninga undir ETS-kerfið hefur vakið athygli en Samtök verslunar og þjónustu, Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð skiluðu inn sameiginlegri umsögn þegar áform um lagafrumvarpið komu fram í samráðsgátt stjórnvalda í lok september síðastliðnum.
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur hjá Samtökum verslunar og þjónustu, segir enn margt á huldu. „Það sem fyrst og fremst blasir við skipafélögunum núna er bara óvissa og hún helgast í fyrsta lagi af því að þau vita ekki undir lögsögu hvaða ríkis siglingarnar verða felldar og það gerist ekki fyrr en framkvæmdastjórnin er búin að birta sinn lista. Svo hef ég haft veður af því að það sé mjög erfitt að nálgast upplýsingar um það erlendis frá hvernig fyrirkomulagið verður í raun og veru á gagnaskilum um losun.“
Sjá heildar viðtal inná Viðskiptablaðinu: Óvissa og aukinn kostnaður blasir við (vb.is)
Mynd frá VB.is