03/08/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar vegna júní sl. nam erlend greiðslukortavelta tæpum 26 milljörðum króna samanborið við rúmlega 18 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða rúmlega 40% aukningu á milli ára. Kortavelta erlendra ferðamanna í júní er sú mesta í einum mánuði frá upphafi en fyrra met var í júlí í fyrra, tæpir 24 milljarðar.
Aukning var í erlendri kortaveltu í öllum útgjaldaliðum að meðaltali um 44% á milli ára. Töluverð aukning var í kortaveltu ferðamanna í dagvöru og vörðu ferðamenn í júní tæpum milljarði í þann útgjaldalið, eða rúmlega 68% meira en í sama mánuði í fyrra. Það sem að af er ári hafa ferðamenn varið rúmlega 11,6 milljörðum í verslun á Íslandi, sem að er rúmlega 3 milljörðum meira en fyrir sama tímabil í fyrra.
Kortavelta ferðamanna í flugferðum rúmlega tvöfaldaðast á milli ára, áttunda mánuðinn í röð og var vöxturinn í júní um 105% á milli ára. Rétt er að taka það fram að hluti þeirrar greiðslukortaveltu sem fellur undir liðinn er greiðsla fyrir þjónustu sem innt er af hendi utan landsteinanna. Ferðamenn vörðu í júní rúmlega fimm milljörðum í gistiþjónustu, eða um 34% meira en á sama tíma í fyrra. Ferðamenn sækja enn meira í tónleika, viðburði, leik- og kvikmyndahús og var kortavelta ferðamanna 84% meiri en í júní í fyrra.
Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt um 100 milljarða króna með kortum sínum, mest í flugferðir eða um 19 milljarða, gistiþjónustu tæplega 18 milljarða og 11,6 milljarða króna í verslun.
Í júní komu um 187 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 36,8% fleiri en í sama mánuði í fyrra.
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 139 þús. kr. í júní, eða um 13% lægri en í maí. Það er um 4% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam aukningin um 2% á milli ára.
Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 245 þús. kr. á hvern ferðamann. Hollendingar eru í öðru sæti með 167 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn koma þar næst með 157 þús. kr. Athygli vekur að meðaleyðsla ferðamanna frá öðrum löndum er 175 þús. kr. á hvern ferðamann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868- 4341.
03/08/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar var verslun í júní ekki ósnortin af Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu og sjá má merki um neyslubreytingar í tengslum við keppnina í Smásöluvísitölu mánaðarins. Íslendingar gerðu vel við sig í mat og drykk í júní en dagvöruverslun var 8,3% meiri en í júní í fyrra og fjöldi seldra lítra í vínbúðunum var 14% meiri en fyrir ári síðan. Sala svokallaðra brúnna raftækja, þar með talið sjónvarpstækja var 30% meiri en í júní 2015.
Dagvöruverslun hefur verið afar lífleg það sem af er ári og hefur verslun með dagvöru undanfarna sex mánuði verið 7% meiri en á fyrri helmingi ársins í fyrra. Eins og áður sagði var dagvöruverslun 8,3% meiri í júní síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi en 7% meiri á föstu verðlagi. Verðlag dagvöru hefur hækkað um 1,2% frá fyrra ári.
Áfengisverslun var mikil í júní og var velta áfengisverslunar 26,2% meiri en í júní í fyrra og 14% fleiri lítrar seldir samkvæmt tölfræði Vínbúðanna. Líkt og áður þarf að líta til þess að kerfisbreytingar voru gerðar á gjaldheimtu áfengis um áramótin þegar áfengisgjöld voru hækkuð en virðisaukaskattur lækkaður. Því hækkar velta án VSK, sem Smásöluvísitalan byggir á, meira en velta með VSK.
Mest veltuaukning í júní var í flokki húsganga, 38,6% meira en í júní í fyrra á breytilegu verðlagi. Verðlag húsgagna var 1,5% lægra en á sama tíma í fyrra og jókst velta því um 40,7% á föstu verðlagi á sama tíma.
Margir gripu tækifærið og uppfærðu sjónvarpstæki sín en eins og kom fram í inngangi var um 30% veltuaukning í flokki brúnna/minni raftækja frá sama mánuði í fyrra en flokkurinn inniheldur meðal annars sjónvörp. Minni vöxtur var í veltu annarra raftækja og jókst velta með hvít/stærri raftæki um 3,4% frá fyrra ári og 1,8% meiri verslun var með farsíma samanborið við júní í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta í tölvuverslun var 20,6% minni en í júní 2015 en þess ber að geta að í júní í fyrra var verslun með með tölvur óvenju mikil. Verðlag raftækja er nokkuð lægra en í júní 2015 samkvæmt verðlagsmælingum Hagstofunnar en þess ber að geta að gæðabreytingar raftækja hafa þar nokkuð að segja.
Byggingavöruverslun í júní jókst um 13,1% frá fyrra ári á breytilegu verðlagi. Er um nokkuð minni aukningu að ræða en undanfarna mánuði en síðustu þrjá mánuði á undan var vöxturinn 27,5% borið saman við sömu mánuði árið 2015. Líklegt má telja að EM í knattspyrnu hafi haft letjandi áhrif á byggingaframkvæmdir landsmanna en skal þó ósagt hve mikil áhrif mótið hafði á vísitölu mánaðarins.
Fataverslun jókst um 13,8% frá sama mánuði í fyrra en var 2,7% minni en í maí síðastliðnum á breytilegu verðlagi. Verðlag fatnaðar í júní síðastliðnum var 5,5% lægra en í júní 2015 en tollar á fatnað voru felldir niður um áramótin. Skóverslun í júní var 8,5% meiri í júní en í júní fyrir ári síðan á breytilegu verðlagi.
Önnur áhrif EM á verslun og þjónustu
Rannsóknasetur verslunarinnar fór á stúfana og hafði samband við seljendur vöru og þjónustu til að kanna hvort Evrópumeistaramótið í knattspyrnu hefði haft áhrif á neyslu.
Líkt og kom fram að ofan var vöxtur í bygginavöruverslun á milli ára minni í júní en mánuðina á undan en samkvæmt heimildum Rannsóknasetursins dróst sala á algengum vörum til viðhalds húsa, sem dæmi pallaolíu saman á meðan á EM stóð. Sömu sögu er að segja af blómum og garðplöntum.
Grillmatur og pizzur voru vinsæll matur á borðum landsmanna á meðan á EM stóð. Mikil aukning var í pizzasölu hjá Dominos á Íslandi í júní mánuði ólíkt því sem að hefur verið síðustu ár en yfir sumartímann hefur grillið jafnan vinninginn fram yfir pizzurnar hjá landsmönnum. Af þessu er þó ekki að ráða að smekkur landsmanna fyrir pizzum hafi dregið úr sölu grillkjöts en samkvæmt frétt RÚV var stóraukin sala á lambakjöti í júní síðastliðnum.
Víða um land buðu sportbarir upp á beinar útsendingar frá leikjum mótsins en veruleg aukning varð í sölu bjórkúta til veitinga-, skemmtistaða og kráa á milli ára. Leiða má að því líkum að EM hafi haft veruleg áhrif á neysluhegðun Íslendinga og einnig á ferðavenjur þeirra.
Tjaldsvæði landsins voru fremur fásetin íslenskum ferðamönnum í júní. Í Húsafelli voru talsvert færri Íslendingar á svæðinu í ár en á sama tíma í fyrra en í júní mánuði er alla jafna mikið um Íslendinga á tjaldsvæðinu. Talsvert var þó um erlenda ferðamenn á svæðinu líkt og fyrri ár.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,3% á breytilegu verðlagi í júní miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í júní um 5,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í júní 0,4% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 26,2% á breytilegu verðlagi í júní miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 25,2% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í júní um 18,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í júní síðastliðnum og 0% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun jókst um 13,8% í júní miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 20,6% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,5% lægra í júní síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 8,5% í júní á breytilegu verðlagi og jókst um 12% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 10,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í júní um 3,1% frá júní í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 38,6% meiri í júní en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 40,7% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 73,4% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 26,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 1,5% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í júní um 13,1% í júní á breytilegu verðlagi og jókst um 12,3% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,4% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í júní um 20,6% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 1,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 30,1% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 3,4% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Fréttatilkynning til útprentunar.
23/06/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Blaðagrein birt í Viðskiptablaðinu 23.6.2016
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Fyrir nokkrum árum mætti Jón Gnarr, þá sem uppistandari, á jólafund SVÞ og ræddi um þjónustu. Hann rifjaði m.a. upp þá þjónustu sem menn urðu aðnjótandi hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins, meðan sú stofnun var og hét og hjá áfengisversluninni við Snorrabraut, þar sem misjafnlega upplagðir starfsmenn í bláum vinnusloppum afgreiddu áfengið yfir búðarborð. Lýsingar Jóns voru með þeim hætti að menn veltumst um af hlátri þann klukkutíma sem uppistandið stóð yfir. Þó að tilgangur þessa fundar hafi fyrst og fremst verið að skemmta félagsmönnum SVÞ í amstri jólanna, var hann þörf áminning um að það er ekki sjálfgefið að fólk fái óaðfinnanlega þjónustu hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem það á viðskipti við. Eitt er víst að það hvarflaði ekki að neinum sem sat þennan fund að endurvekja Bifreiðaeftirlit ríkisins eða byrja á ný að afgreiða áfengi yfir búðarborð.
Breytt viðhorf, en…
Viðhorf til rekstrar hins opinbera hefur breyst mikið á undanförnum árum. Lengi vel var litið svo á að aðeins ríkið gæti annast tiltekin verkefni, á þeirri forsendu að það eitt byggi yfir nægjanlegri þekkingu og mannafla og nauðsynlegu skipulagi til að stýra verkefnum. Lengi vel var nefnilega litið svo á að aðeins ríkið gæti innt af hendi þau verkefni sem áður voru á hendi stofnana á borð við Bifreiðaeftirlit ríkisins. Það er hins vegar langur vegur frá því að þessi almenna viðhorfbreyting hafi leitt til þess að ríkið hafi í nægjanlegum mæli dregið sig út úr starfsemi sem það hefur sinnt. Einkareknar stofur hafa hérlendis í tvo áratugi annast mörg þau verkefni sem áður hvíldu á herðum hins opinbera, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa þessi fyrirtæki því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á þeim sviðum sem áður voru eyrnamerkt hinu opinberra. Þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda, virðast allar frekari breytingar á þessu sviði gerast með hraða snigilsins. Þrátt fyrir að þjónusta þeirra fyrirtækja sem nú sinna þeim verkefnum sem Bifreiðaeftirlit ríkisins sinnti áður, sé almennt óumdeild, gerast hlutirnir ótrúlega hægt.
Tækifærin eru víða
Þær skipta tugum þær stofnanir sem sinna verkefnum sem frekar ættu að vera falin einkaaðilum. Hér má nefna sem dæmi starfsemi stofnana á borð við MAST, Fiskistofu, Vinnueftirlitsins og Neytendastofu. Ekkert bendir til annars en að stór hluti af þeirri starfsemi sem þessar stofnanir sinna, væri betur komin í höndum einkaaðila. Einkaaðilar starfa þar að auki upp til hópa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka – kröfur sem á tíðum eru strangari en hjá hinu opinbera. Allar þessar stofnanir sinna verkefnum er snúa með einhverjum hætti að öryggi borgaranna og þar sem opinbert eftirlit með öryggismálum bifreiða okkar hefur verið fært til einkaaðila, hlýtur að koma mjög sterklega til álita að færa einkaaðilum verkefni af sama toga enda búa þeir yfir nægjanlegri þekkingu, mannafla og nauðsynlegu skipulagi til að stýra verkefnum á við hið opinbera og gott betur.
Einkarekstur eða opinber – Viðskiptablaðið 23.6.2016
21/06/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt frétt Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta tæpum 20 milljörðum króna í maí síðastliðnumsamanborið við rúmlega 13 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða 51,4% aukningu á milli ára.
Kortavelta ferðamanna jókst á milli ára í öllum útgjaldaliðum í maí. Erlendir ferðamenn greiddu tæpar 600 milljónir með kortum sínum til dagvöruverslana í maí, um 81% meira en í maí í fyrra en erlend kortavelta í dagvöruverslun hefur fjórfaldast á síðustu fjórum árum. Kortavelta erlendra ferðamanna í verslun jókst um tæp 41% á milli ára en það sem af er árinu hafa erlendir ferðamenn greitt 8,2 milljarða í verslun með kortum sínum.
Eins og síðustu mánuði var mestur vöxtur á milli ára í flugferðum, um 146%. Er maí sjöundi mánuðurinn í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári. Rétt er að nefna að hluti þeirrar greiðslukortaveltu sem fellur undir þennan lið er greiðsla fyrir þjónustu sem innt er af hendi utan landsteinanna.
Töluverð aukning var í kortaveltu ferðamanna til bílaleiga og greiddu ferðamann í maí rúmlega 1,8 milljarða, um 43% meira en í sama mánuði í fyrra fyrir bílaleigubíla. Það sem af er ári hafa ferðamenn eytt um 6 milljörðum í bílaleigubíla og sé eldsneyti, viðgerðir og viðhald bifreiða tekið með í reikninginn nam erlend kortavelta ferðamanna það sem af er ári til þessara flokka rúmum 8 milljörðum. Kortaveltan í flokki bílaleiga hefur fjórfaldast frá árinu 2012.
Í maí komu um 124 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 37% fleiri en í sama mánuði í fyrra.
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 160 þús. kr. í maí. Það er um 11% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam aukningin um 10% á milli ára.
Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 306 þús. kr. á hvern ferðamann, sem að er um 7% hærri upphæð en í apríl. Bandaríkjamenn eru í öðru sæti með 204 þús. kr. á hvern ferðamann sem að er heldur lægri upphæð en í apríl eða um 12%. Spánverjar koma þar næst með 199 þús. kr. Athygli vekur að eyðsla á hvern Kanadamann dregst saman um þriðjung á milli mánaða en þess ber að geta að fjöldi þeirra tæplega tvöfaldaðist á milli mánaða.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.
www.rsv.is
21/06/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknasetri verslunarinnar jókst velta öllum flokkum Smásöluvísitölunnar í maí mælt á föstu verðlagi. Dagvöruverslun í maí var 4,1% meiri en í sama mánuði í fyrra en einnig var töluverður veltuvöxtur í flokkum varanlegra neysluvara. Sem dæmi jókst húsgagnaverslun um 18% og byggingavöruverslun um 22%, verslun með raftæki jókst einnig nokkuð.
Þó dagvöruverslun sveiflist jafnan ekki mikið hefur velta hennar verið nokkuð lífleg undanfarin misseri. Eins og áður kom fram jókst velta flokksins um 4,1% á föstu verðlagi frá fyrra ári en í maí 2016 voru fjórir föstudagar og laugardagar samanborið við fimm í sama mánuði í fyrra. Ef tekið er tilllit til árstíðabundinna þátta og vikudagaáhrifa jókst velta dagvöruverslunar því meira, eða um 5,9% frá maí 2015 á föstu verðlagi.
Mikil verslun var með byggingavörur í maí og hefur vísitala byggingavöruverslunar ekki staðið hærra frá því flokknum var bætt inn í Smásöluvísitöluna, gildir þá einu hvort mælt er á föstu eða breytilegu verðlagi. Þannig var velta byggingavöruverslunar í maí 6,6% hærri en í fyrra hámarki sínu í júlí 2015 á breytilegu verðlagi. Verslun með byggingavörur var 22% meiri en í maí í fyrra á föstu verðlagi en 23,7% meiri á breytilegu verðlagi. Verðlag byggingavara hefur á sama tíma hækkað um 1,6%.
Þó verslun með fatnað og skó hafi aukist lítillega frá maí 2015 á föstu verðlagi dregst velta flokkanna saman á breytilegu verðlagi. Velta fataverslana dróst saman um hálft prósent á breytilegu verðlagi frá maí í fyrra en jókst um 2,9% á föstu verðlagi. Skóverslun minnkaði um 7,2% frá maí í fyrra en jókst um 0,6% á föstu verðlagi. Samkvæmt verðlagsmælingu Hagstofunnar var verðlag fatnaðar í maí síðastliðnum 3,1% lægra en í maí 2015 og verðlag skófatnaðar 7,6% lægra en á sama tíma í fyrra.
Verslun með húsgögn jókst um 18,9% í maí á breytilegu verðlagi frá sama mánuði í fyrra en um 18,3% á föstu verðlagi. Húsgagnaverslun hefur verið lífleg undanfarna mánuði en ef síðustu sex mánuðir eru bornir saman við sama tímabil ári áður er aukningin um 27%. Á sama tímabili hefur verðlag nær staðið í stað.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 5,7% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í maí um 5,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,6% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í maí 0,3% hærra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 16,8% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 15,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í maí um 24,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í maí síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 0,5% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 2,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,1% lægra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 7,2% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 0,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 0,2% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í maí um 7,6% frá maí í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 18,9% meiri í maí en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 18,3% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 9,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 19,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 0,5% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í maí um 23,7% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 22% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst í maí um 10,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 11,3%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 9,8% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 8,3% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Fréttatilkynning RSV.
07/06/2016 | Fréttir, Viðburðir
Litla Ísland efnir til opins fræðslufundar í Húsi atvinnulífsins föstudaginn 10. júní kl. 8.30-10. Þar verður fjallað um samningamál lítilla fyrirtækja og skipulag en fundurinn er hluti af fundaröð Litla Íslands um farsælan rekstur. Nokkrir lykilþættir einkenna vel rekin fyrirtæki og er farið yfir þá í fundaröðinni.
Það eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en vinsamlegast skráið þátttöku hér á vef SA.
Fundurinn fer fram í salnum Kviku á 1. hæð í Borgartúni 35 í Reykjavík.
Inga Björg Hjaltadóttir héraðsdómslögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus mun fjalla um helstu samninga í fyrirtækjarekstri og mikilvægi vandaðrar samningagerðar.
Þá mun Thomas Möller hagverkfræðingur, MBA og framkvæmdastjóri Rýmis Ofnasmiðjunnar fjalla um skipulag, ákvörðunartöku og eftirfylgni í daglegum störfum stjórnenda. Thomas mun m.a. fjalla um mikilvægi skýrleika (e. clarity) í rekstri og svörunar til starfsfólks (e. feedback). Hann mun einnig fjalla um helstu strauma í framkvæmd stefnumótunar (e. execution).
Thomas hefur starfað við stjórnun í um 35 ár og mun miðla af sinni reynslu og segja frá því hvað hefur reynst best á þessum sviðum stjórnunar. Thomas er stundakennari á Bifröst og hefur haldið námskeið um stjórnun hérlendis og í Danmörku á síðustu árum. Rými Ofnasmiðjan hefur vaxið hratt á síðustu árum og skilað góðum árangri.
Að loknum erindum gefst fundargestum að spyrja spurninga og taka þátt í umræðum.
Grunnurinn að góðum rekstri er sterkur rekstrargrunnur, þar sem starfsmannamál, bókhald, markaðsmál, skipulag, samningar og markmiðasetning spilar saman.