Mikilvægi ferðamannaverslunar eykst hröðum skrefum

Sá gífurlegi vöxtur sem verið hefur í komu ferðamanna til landsins undanfarin ár, heldur áfram á sama hraða. Ekkert bendir til að hægja muni á þeirri þróun, þvert á móti er margt sem bendir til þess að aukningin verði enn meiri en bjartsýnustu spár hafa gert ráð fyrir.

Samfara þessum mikla vexti, eykst mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir verlsunar- og þjónustufyrirtækin í landinu. Ekki er neinum blöðum um það að fletta að erlendir ferðamenn skila stórauknum tekjum til þessara fyrirtækja. Augljósustu merkin um þá gífurlegu breytingu sem átt hefur sér stað, eru þau stakkaskipti sem verslun í miðborg Reykjavíkur hefur tekið á undanförnum örfáum árum. Það er hins vegar ekki eingöngu í hefðbundnum ferðamannaverslunum sem þessara breytinga sér merki. Eins og fram kemur í síðustu samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar var kortavelta erlendra kreditkorta í verlsun 40% meiri í nýliðnum marsmánuði en í sama mánuði 2015. Alls versluðu ferðamenn fyrir 1,7 milljarða króna í þeim mánuði. Mestur var vöxturinn í dagvöruverslun, 85% og næst mestur í fataverslun, 51%.

Ljóst er að þessi hraða breyting felur í sér bæði tækifæri og jafnframt vissar ógnanir fyrir fyrirtæki sem sinna ferðamönnum með einum eða öðrum hætti. Fyrir verslunina skiptir mestu máli að fjölbreytnin fái áfram notið sín og að verslunin þróist ekki út í einsleitni, eins og ákveðin merki eru um, einkum í miðborg Reykjavíkur. Tryggja verður að það verði rúm fyrir sem flestar tegundir verslana þar, enda verður miðborg Reykjavíkur varla áhugaverður áfangastaður fyrir ferðamenn ef þar verður ekki fjölbreytni í verslun og þjónustu. Hér reynir mjög á að góð samvinna takist milli borgaryfirvalda og hagsmunaaðila við að tryggja að fjölbreytnin fái áfram notið sín.

Það verður verkefni SVÞ og annarra hagsmunaaðila að vinna að þeim málum á komandi mánuðum og misserum.

Stefnumótun með miðborginni

Í aprílmánuði lagði SVÞ áherslu á að efla samráð við rekstrar- og þjónustuaðila á miðborgarsvæðinu og leituðu samtökin m.a. eftir ábendingum þessara aðila varðandi þau álitamál sem mikilvægt er að taka til skoðunar til að efla starfsemi á umræddu svæði.  Þar er í mörg horn að líta og hagsmunir miklir enda um að ræða fjölbreytta starfsemi aðila á svæði þar sem miklar breytingar hafa orðið m.a. í kjölfar þess mikla fjölda ferðamanna sem sækja borgina heim.

Sem lið í þeirri vinnu voru haldnir tveir fundir í húsakynnum SVÞ í samvinnu við Miðborgina okkar; fyrst stefnumótandi fundur með völdum aðilum og í kjölfarið kynningarfundur á niðurstöðum þess fundar sem var opin öllum rekstrar- og þjónustuaðilum á miðborgarsvæðinu.  Til þess að ná til sem flestra var borin út auglýsing til 600 aðila á svæðinu ásamt því að rafrænt eintak var sent á þessa sömu aðila.

Óhætt er að fullyrða að stefnumótunarfundurinn var vel sóttur og á fundinum gerðu rekstraraðila á miðborgarsvæðinu grein fyrir þeim álitamálum sem stendur fyrir dyrum hjá þessum aðilum og varða almennt rekstrarskilyrði þeirra og ljóst að málefnin eru mörg.  Það var mál manna að slíkur fundur hefði verið löngu tímabær og taka SVÞ heilshugar undir þá ábendingu.

Helstu álitamálin sem brunnu á fundargestum voru skipulagsmál, samskipti við borgaryfirvöld, ímynd og ásjóna miðborgarinnar og fjöldi annarra mála sem snerta rekstrargrundvöll verslunar- og þjónustuaðila innan vébanda Miðborgarinnar okkar.

Þá var eins og fyrr segir haldinn kynningarfundur fyrir verslunar- og þjónustuaðila miðborgarinnar miðvikudaginn 20. apríl sl. þar sem niðurstöður stefnumótunarfundarins voru kynntar fyrir rekstrar- og þjónustuveitendum á miðborgarsvæðinu.  Ljóst var að mikill áhugi er fyrir því að SVÞ og Miðborgin okkar taki höndum saman í hagsmunagæslu enda snertifletirnir margir.

Gögnum safnað um matarsóun á Íslandi

Umhverfisstofnun (UST) hefur fengið styrk frá Hagstofu Evrópusambandsins til að mæla matarsóun á Íslandi. Áætlað er að gagnaöflun ljúki í maí og í framhaldinu hefst úrvinnsla gagnanna. Í rannsókninnni er verið að mæla alla virðiskeðjuna frá framleiðslu til heildsala, birgja og verslana auk heimila og stóreldhúsa.

Samkvæmt frétt á vef UST sýna ný gögn um matarsóun í Evrópu að hver Evrópubúi hendir að meðaltali um 173 kg af mat á ári sem er mun meira en áætlað var. Samanlagt er um 88 milljónum tonna af mat hent árlega að andvirði um 143 milljarða evra. Þetta þýðir að um 20% af þeim mat sem er framleiddur innan Evrópu endar í ruslinu. Stærstu úrgangshafarnir eru heimilin sem sóa um 47 milljónum tonna af mat á ári hverju. Þessi gögn voru unnin sem hluti af FUSIONS verkefninu (Food Use for Social Innovation by Optimizing Waste Prevention Strategies) sem er samstarfsverkefni styrkt af Evrópusambandi með það að markmiði að sporna gegn matarsóun. Nánar á vef UST.

Í mars sl. boðaði kynnti umhverfisráðuneytið stefnu um úrgangsforvarnir 2016 – 2027. Fyrstu tvö ár stefnunnar verður áhersla lögð á úrgangsforvarnir gegn matarsóun. Stefnuna má lesa hér.

Á sama tíma var opnuð vefgáttin www.matarsoun.is sem er eitt af þeim verkefnum sem falla undir þessa stefnu um úrgangsforvarnir. Tilgangur vefgáttarinnar er að fræða almenning um matarsóun og þar með ýta undir vitundarvakningu um matarsóun. Fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Landvernd, Kvenfélagasambandi Íslands, Matvælastofnun, Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Samtökum iðnaðarins, Vakandi – samtök gegn matarsóun, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Bændasamtökum Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga mynda samstarfshóp um vefsíðuna.

Ferðamenn eyddu 15 milljörðum meira á fyrsta ársfjórðungi

Erlend greiðslukortavelta í mars síðastliðnum nam tæpum 15 milljörðum króna samanborið við 9,7 milljarða í mars 2015. Um er að ræða 55% aukningu á milli ára. Sé litið á fyrsta ársfjórðung í heild nam kortavelta erlendra ferðamanna um 40 milljörðum króna, það gerir 61% aukningu á milli ára en kortaveltan var 24,7 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi árið 2015. Kortavelta á hvern erlendan ferðamann sem kom til landsins í mars jókst um rúmlega 12% miðað við sama mánuð í fyrra.
Erlend kortavelta í mars jókst í öllum útgjaldaliðum. Líkt og í febrúarmánuði var mikil aukning í farþegaflutningum, eða 131% frá sama mánuði í fyrra. Erlendir aðilar greiddu í mars með kortum sínum alls 3,2 milljarða króna fyrir farþegaflutninga, en til að setja vöxt undanfarinna missera í samhengi má nefna að kortavelta í sama flokk nam 3,7 milljörðum allt árið 2013. Jafnframt er mars fimmti mánuðurinn í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári.
Þá var í mars töluverð aukning í kortaveltu ferðamanna í verslun og versluðu ferðamenn fyrir rúmlega 1,7 milljarð, sem er 40% Kortavelta e. útgjaldaliðum 03 2016meira en í sama mánuði í fyrra. Mestur var vöxturinn í dagvöruverslun, um 85% og þar næst, 51% í fataverslun.
Kortavelta ferðamanna í bílaleigum í mars var um helmingi meiri en í sama mánuði í fyrra og hefur hún tvöfaldast frá mars 2014. Í öðrum flokkum jókst kortavelta einnig á milli ára, sem dæmi um 53% í veitingaþjónustu og 43% í gistiþjónustu.
Í mars komu um 116 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 38% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Til samanburðar eru það fleiri ferðamenn en komu í júní 2014, þriðja fjölmennasta ferðamannamánuði þess árs.

Kortavelta eftir þjóðerni
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir um 130 þús. kr. í mars, líkt og í febrúar síðastliðnum. Það er um 12% hærri upphæð en í mars í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam aukningin um 11% á milli ára.
Líkt og í febrúar keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 345 þús. kr. á hvern ferðamann. Rússar eru í öðru sæti með 245 þús. kr. á hvern ferðamann og Kanadamenn koma fast á hæla þeirra með 243 þús. kr.
Velta eftir þjóðerni ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veita Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868- 4341.

www.rsv.is

Tökum vel á móti erlendu starfsfólki

Mikilvægt er að Íslendingar taki vel á móti erlendu starfsfólki sem þjóðfélagið þarf á að halda næstu ár og áratugi. Risavaxnar áskoranir á íslenskum vinnumarkaði eru framundan vegna öldrunar þjóðarinnar og mikillar örorkubyrði, en til að standa undir góðum hagvexti og lífskjörum til framtíðar þarf Ísland á erlendu starfsfólki að halda.

Ísland er að þróast í fjölmenningarsamfélag en því er spáð að hlutfall erlendra ríkisborgara verði orðið 20% innan ekki langs tíma en hlutfallið er 8% í dag. Erlent starfsfólk er því lykill að fjölbreyttum og öflugum vinnumarkaði og nauðsynleg forsenda þess að auka samkeppnishæfni landsins.

Samtök atvinnulífsins ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Samorku og Samtökum verslunar og þjónustu stóðu fyrir vel heppnuðum fundi um erlent starfsfólk á Íslandi í Húsi atvinnulífsins í vikunni en þar voru sagðar reynslusögur fyrirtækja sem hafa ráðið erlent starfsfólk í vinnu.  Um var að ræða fund í fundaröðinni Menntun og mannauður.

Sjá nánar hér