05/09/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir
FRÉTTATILKYNNING
Neytendasamtökin, SAF – Samtök ferðaþjónustunnar og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent erindi til fjármála- og efnahagsráðherra þar sem farið er fram á að hann beiti sér fyrir niðurfellingu tolla sem lagðir eru á við innflutning á frönskum kartöflum.
Í ljósi þess að framleiðsla franskra kartaflna hefur verið hætt á Íslandi eru ekki lengur til staðar þær verndarforsendur sem liggja til grundvallar 46–76% verðtolli sem lagður er á við slíkan innflutning.
Hagsmunir neytenda, verslana og ferðaþjónustunnar fara saman þegar kemur að niðurfellingu tollanna. Niðurfellingin kemur neytendum til góða þar sem hún stuðlar að lægra vöruverði. Hún kemur versluninni til góða þar sem hún veitir henni færi á að kaupa franskar kartöflur frá fleiri ríkjum en þeim sem falla undir gildandi fríverslunarsamninga og stuðlar þannig bæði að aukinni verðsamkeppni og bættu framboði. Veitingamenn selja töluvert af frönskum kartöflum til viðskiptavina sinna og ætti niðurfellingin að veita þeim tækifæri til verðlækkana sem munu í einhverjum mæli bæta samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu gagnvart erlendri.
Tolltekjur ríkisins af frönskum kartöflum virðast hafa numið um 300 millj. kr. á síðasta ári. Það nemur rúmum 7% allra tolltekna það ár en þó aðeins 0,04% heildarskatttekna ríkisins 2021. Það er ljóst að tekjurnar ríða ekki baggamuninn þegar að tekjuöflun ríkisins kemur. Hins vegar skiptir hver króna máli fyrir mörg heimili í landinu um þessar mundir og ætti niðurfellingin að hafa jákvæð áhrif á verðbólguþróun.
Samtökin hafa m.a. farið fram á að ráðherra svari erindinu og lýsi afstöðu sinni telji hann sér ekki fært að verða við beiðni samtakanna.
05/09/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum
VISIR.IS birtir í dag grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni: „Konungurinn gerir ekki rangt“.
Þar segir Andrés;
Umfang hins opinbera í efnahagslífinu er verulegt og hefur, samkvæmt upplýsingum frá OECD, aukist nokkuð hratt frá árinu 2016. Óvíða er þó umfang hins opinbera meira en í heilbrigðiskerfinu. Nýverið höfum við tekist á við áskoranir þar sem mjög reyndi á heilbrigðiskerfið og innviði þess. Nú þegar allt bendir til þess að við komum út úr þeirri áraun standandi hefur stjórnendum og starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu með réttu verið hampað og þökkuð vel unnin störf við erfiðar aðstæður.
Við megum þó ekki gleyma okkur í neinum fagnaðarlátum. Það virðist stöðugt þurfa að minna á að gagnsæi og heiðarleiki eru grundvallaratriði í skipulagi og starfi handhafa ríkisvaldsins. Þeim sem fara með opinbert vald ber að halda þessi grundvallaraatriði í heiðri í öllum sínum störfum. Það á einnig við um stjórnendur í heilbrigðiskerfinu og eftirlitsstofnanir þess.
Embætti landlæknis
Hinn 22. ágúst síðastliðinn birti embætti landlæknis yfirlýsingu þar sem fram kom að það hefði stefnt einkafyrirtæki fyrir dómstóla. Eyddi embættið mörgum orðum í að réttlæta aðgerðina. Fluttar voru fréttir af yfirlýsingunni sem birtust víða. Rétt er að taka fram að málatilbúnaður embættisins snýr m.a. að því að fyrirtækið hafi runnið út á fresti til að kæra málið til kærunefndar útboðsmála og því hafi nefndin ekki mátt taka kæru þess til umfjöllunar. Það vekur sérstaka athygli að embætti landlæknis kýs að senda frá sér opinbera yfirlýsingu í tilefni af stefnunni enda er það ekki almennur vani hjá opinberum stofnunum að senda út yfirlýsingar af slíku tilefni. Menn geta svo spurt hver ástæðan er!
Í þessu samhengi er rétt að nefna að fjölmiðlafólk, einstaklingar og fyrirtæki hafa ítrekað þurft að leita til úrskurðarnefndar upplýsingamála til að fá aðgang að gögnum landlæknisembættisins, m.a. samningum sem það er aðili að. Í einum úrskurðinum segir m.a.: Það er afstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á að þær upplýsingar sem fram koma í samstarfssamningnum séu til þess fallnar að valda […] tjóni verði þær gerðar opinberar. Þá lítur nefndin til þess að um er að ræða upplýsingar sem lúta með beinum hætti að ráðstöfun opinberra fjárhagslegra hagsmuna. Að undanförnu hafa Samtök verslunar og þjónustu, fyrir hönd aðildarfyrirtækja sinna, sent embættinu beiðni um upplýsingar. Efnisleg svör hafa ekki borist.
Landspítali
Landspítalinn er langstærsti veitandi heilbrigðisþjónustu í landinu. Spítalinn er í ljósi stærðar sinnar stærsti og jafnvel eini viðskiptavinur margra fyrirtækja sem starfandi eru á heilbrigðissviðinu, bæði sem birgjar og þjónustuveitendur. Mörg þeirra eru aðildarfyrirtæki Samtaka verslunar og þjónustu. Þó að samskiptin hafi breyst til batnaðar hafa samtökin oftlega þurft að aðstoða fyrirtækin vegna viðskipta þeirra við Landspítalann, einkum vegna aðstæðna sem rekja má til þeirrar yfirburðarstöðu sem spítalinn hefur sem kaupandi vöru eða þjónustu.
Fjárfrekur málaflokkur
Innkaup hins opinbera eru umfangsmikil, ekki síst á sviði heilbrigðismála. Miklir fjármunir renna til málaflokksins, enda eru útgjöld til heilbrigðismála stærsti útgjaldaliður hin opinbera. Ákvæðum laga um opinber innkaup er bæði ætlað að stuðla að hagkvæmum innkaupum og virkri samkeppni. Í eðli sínu geta innkaupin talist ígildi úthlutunar takmarkaðra gæða. Því hefur verið
lagt kapp á að veita fyrirtækjum rétt til að láta reyna á hvort rétt hafi verið að innkaupum staðið. Það eru hagsmunir allra að bæði fyrirtækin og hið opinbera nái sem bestri niðurstöðu.
Eitt er að handhafar ríkisvaldsins vilji gera góð kaup eða séu ósáttir við lagatúlkun og leiti leiða til að fá hana endurskoðaða. Farvegur fyrir slíkt er til staðar og er öllum kunnur. Annað er þegar því fylgja orð og athafnir sem hafa það yfirbragð að þeir átti sig hvorki á stöðu sinni né beri virðingu fyrir mögulegum viðsemjendum sínum. Í því endurspeglast hið forna viðhorf að konungurinn gerir ekki rangt.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
LESA GREININA INNÁ VÍSIR.IS
01/09/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Samtök sjálfstæðra skóla
RÚV birtir í dag úrtekt frá yfirlýsingu Samtaka sjálfstæðra skóla sem undrast að ekki hafi verið leitað til þeirra vegna úttektar innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Í úttektinni segir meðal annars að nokkrir sjálfstætt starfandi leikskólar greiði út umtalsverðan arð af starfsemi sinni og að engar reglur séu um nýtingu opinberra framlaga og rekstrarafgang þessara skóla. Alma Guðmundsdóttir, stjórnarformaður samtakanna, segir dæmi um rangfærslu í úttektinni.
Þar kemur m.a. fram að Alma segir að best hefði verið ef Reykjavíkurborg hefði borið athugasemdir í úttektinni undir skólana sjálfa áður en hún var birt. Úttektin var gerð í mars. Í henni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við háar arðgreiðslur einkarekinna leikskóla.
Alma segir að heppilegra hefði verið að ræða beint við þá skóla sem athugasemdir snúa að, til að leita skýringa, áður en úttektin var birt.
„Í tilviki eins skóla er hreinlega verið að segja rangt frá. Það er vísað í ólöglegan gjörning en engra skýringa leitað.“ Alma segist þó ekki geta tjáð sig um einstaka skóla. Hún telur að það hefði verið heillavænlegt hjá innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar að vera í sambandi við samtökin og einstaka skóla til að dýpka úttektina.
Alma segir að jafnvel þótt athugasemd feli ekki í sér rangfærslu, gætu verið eðlilegar skýringar á málinu og skólinn ekki að misnota fjárveitingar borgarinnar. „Í allri umfjöllun er verið að ýja að því að verið sé að fara illa með almannafé.“
Í yfirlýsingu Samtaka sjálfstæðra skóla segjast samtökin fagna málefnalegri umfjöllun „sem kallar bæði á að fyrir liggi gagnsæjar og skýrar reglur og að í samskiptum Reykjavíkurborgar og leikskóla innan borgarinnar liggi fyrir skýr markmið, mælikvarðar og aðgerðir.“
SMELLIÐ HÉR TIL AÐ LESA ALLA FRÉTTINA
31/08/2022 | Fréttir, Innra starf, Leiðtogi SVÞ
Samtök verslunar og þjónustu kynnir leiðtoga ágúst mánaðar!
Helga Birna Brynjólfsdóttir, sviðsstjóri skrifstofu og þjónustu hjá JÁ
En hver er Helga Birna? Fyrir hverju brennur hún og hvað er hún að gera þessi misserin?
Við byrjum á að biðja Helgu Birnu að segja okkur frá starfinu sínu, hvað einkennir það?
Sem sviðstjóri skrifstofu og þjónustu þá mundi ég segja að starfið einkennist af samvinnu við alla á skrifstofunni. Hvort sem það er að upplýsa um rekstrartölur, viðhalda þjónustu í 1818, innleiða jafnlaunavottun, vökva blómin og allt þar á milli.
Hvað er skemmtilegast við starfið?
Það er auðvelt að svara þessari spurningu, það er starfsfólkið 😉
Það er ótrúlega skemmtilegt og metnaðarfullir starfsfólk sem vinna hér. Umhyggjan á vinnustaðnum er mikil og sýnir það sig að fólk leggur sig fram við að hjálpa hvort öðru í starfi og utan vinnu. Það er auðvelt að ræða verkefnin sem eru í gangi og spegla þau við starfsemina. Með því að ræða málin koma oft nýir vinklar á verkefnin sem hjálpar okkur að þróast.
Hvernig viðheldurðu ástríðunni fyrir starfinu?
Það gefum mér mestu orkuna í vinnunni að sjá framfarir og ánægju starfsmanna. Þegar við höfum verið að vinna að einhverju verkefni og við sjáum starfsfólk vaxa og eflast, þá fæ ég algjört kikk. Þetta er svona eins og ef ég væri að þjálfa handbolta og væri búin að vera æfa einhverja taktík sem gengur svo upp í leikjum, 1-0! Þá hoppa ég af kæti.
Hvernig er hinn staðlaði vinnudagur?
Ég er svo heppin að dagarnir eru fjölbreyttir hjá mér, það fer eiginlega eftir því hvaða tími mánaðar er, hver verkefnin eru. Þar sem ég er með marga hatta þá fara oft dagarnir í lok mánaðar í að klára mánaðaruppgjör, senda út reikninga og sjá til þess að allar kröfur séu greiddar, það þarf allt að skila sér í bókhaldið. Svo koma verkefni inn á milli eins og umhverfisstefnan, jafnlaunavottun, öryggi í vinnuumhverfi og þess háttar sem þarf að innleiða og viðhalda.
Hvaða vana myndir þú vilja breyta?
Oft finnst mér svo mörg spennandi verkefni í gangi og mig langar að taka þátt í öllu. Það þýðir að of margir boltar eru á lofti. Þá er mikilvægt að forgangsraða sem getur oft verið snúið. Sum verkefni eru skemmtilegri en önnur en hafa minni forgang. Það er hlutur sem ég þarf að breyta í vinnulagi mínu, bæta forgangsröðun.
Ef þú værir bíll, hvaða bíll værir þú? Hvernig myndir þú lýsa þér?
Ég væri vel bónaður grænn sportbíll sem er kraftmikill og tekur góða spretti. Hann er kvikur, ferskur og sportlegur því ég elska allar íþróttir. Grænn er uppáhalds liturinn minn.
Hvað ertu að læra/lesa/bæta við þekkingu?
Ég er í stjórn handknattleiksdeildar Víkings og það hefur kennt mér ýmislegt. Í svona sjálfboðavinnu þarf að ganga í öll verk og vinna óeigingjarnt starf. Þá er lykillinn að hafa gaman, ef við gerum leiðinleg verkefni skemmtileg þá er það engin fórn heldur bara árangur.
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
Þessa dagana er ég mest að vinna í uppgjöri þar sem mánuðurinn er að klárast. Svo erum við að jafnlaunavotta fyrirtækið sem þarf að klárast fyrir áramót þannig að mikil vinna fer í það. Við erum líka að breyta ja.is vefsíðunni okkar þar sem sjálfsafgreiðslan verður meiri og viðskiptavinir geta uppfært upplýsingarnar á vefnum sjálfir. Þetta er verkefni sem er búið að vera í gangi lengi og við erum núna að sjá blómið blómstra. Svo verð ég að minnast á vöruleitina á ja.is því hún er algjör snilld, mæli með að skoða hana þegar þú ert að leita að einhverju.
Stafræn þróun, sjálfbærni og símenntun og endurmenntun er mál málanna í dag. Hvernig hefur þú tæklað þessa hluti í þínu starfi?
Já gaf út símaskrá á sínum tíma, nú er hún komin á ja.is og við erum svo að fara enn lengra með það verkefni og færa skráningar í sjálfsafgreiðslu með allri þeirri stafrænu þjónustu sem því fylgir.
Gallup hefur einnig verið að þróa nýtt platform þar sem viðskiptavinir geta sótt gögn og upplýsingar á aðgengilegan hátt með fjölbreyttri gagnvirkni. Starfsmannarannsóknir Gallup voru að innleiða sjálfsafgreiðslulausn sem heldur utan um vinnustaðakannanir þar sem fyrirtæki geta valið spurningar úr stórum gagnabanka af sannprófuðum spurningum og fengið niðurstöður birtar strax ásamt samanburði við önnur fyrirtæki, bæði á heimsvísu sem og innanlands.
Í allri þessari þróun innan fyrirtækisins fylgir heilmikill lærdómur fyrir starfsfólk og nýjar áskoranir.
________________________________________________________________________________________
Um JÁ:
Já hf. samanstendur af ja.is, 1818, Gallup og Markaðsgreiningar. Vörumerkin eru öll á sviði upplýsingatækni á Íslandi þar sem Já hf. auðveldar viðskipti, samskipti og ákvarðanatöku viðskiptavina og hefur verið í Samtökum verslunar og þjónustu frá árinu 2010.
________________________________________________________________________________________
SVÞ leitar eftir tilnefningum til leiðtoga mánaðarins. Hver er að gera góða hluti í kringum þig og hafa jákvæð áhrif á samfélagið?
SMELLTU HÉR til að tilnefna þinn leiðtoga.
29/08/2022 | Fréttir, Umhverfismál
Umhverfisdagur atvinnulífsins 2022 verður haldinn miðvikudaginn 5. október í Hörpu Norðurljósum kl. 09:00-11.00.
Húsið opnar kl. 08:30 með morgunhressingu.
Dagurinn er árviss viðburður og að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
Dagskrá umhverfisdagsins 5. október lýkur með afhendingu Umhverfisverðlauna atvinnulífsins og við tekur kaffi og tengslamyndun fyrir fundargesti til kl. 12:00.
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins í ár verða veitt fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel í umhverfismálum. Veitt verða tvenn verðlaun.
Annars vegar verðlaun fyrir umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins. Venju samkvæmt afhendir forseti Íslands Umhverfisverðlaun atvinnulífsins.
Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og málefnum hringrásarhagkerfis en rannsóknir sýna að búast má við að hringrásarhagkerfinu fylgi jákvæð áhrif á efnahagslífið og landsframleiðslu. Einnig má búast við aukinni samkeppnishæfni hagkerfisins.
SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG!
26/08/2022 | Fréttir, Innra starf, Verslun, Viðburðir, Þjónusta
Samtök verslunar og þjónustu keyrði haust dagskránna í gang með sérstökum opnum viðburði sem var haldinn í Húsi atvinnulífsins í gær, 25.ágúst.
Dagskráin var fjölbreytt.
Sverrir Norland höfundur bókarinnar Stríð og kliður hélt hressandi erindi um mikilvægi þess að efla hugmyndarflugið og minnti okkur á að festast ekki um of í gagnadrifnu viðhorfi.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu kynnti ‘Stærstu áskorun í verslun og þjónustu til 2030’, samkvæmt skýrslu McKinsey sem vakti mikla athygli.
Þá kynnti Rúna Magnúsdóttir, markaðs og kynningastjóri Samtaka verslunar og þjónustu haust viðburði samtakanna og fjóra nýjunga í starfi samtakanna; ‘Leiðtoga mánaðarins‘, ‘Fyrirtækjaheimsóknir SVÞ‘ þar sem félagsfólk samtakanna gefst kostur á að kynnast fyrirtækjum og stofnunum innan samtakanna, fyrirhugaðri heimsókn Samtaka verslunar og þjónustu til Akureyrar og síðast en ekki síst ‘Örstefnumót‘ samtakanna, þar sem félagsfólk gefst tækifæri á að efla tengslanetið.
Nú þegar er hægt að bóka sætið sitt á þó nokkrum viðburðum samtakanna, sjá nánar um viðburði haustsins hér!
Að síðustu hélt Dr Snjólaug Ólafsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá EY erindi um áskoranir fyrirtækja í dag og í framhaldi af erindi Snjólaugar voru áhugaverðar pallborðsumræður undirstjórn Jóns Ólafs Halldórssonar, formanns SVÞ.
Á pallborði voru þau Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, leiðtogi sjálfbærni og umbóta hjá Ölgerðinni, Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan og Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.
Fundarstjóri var Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka verslunar og þjónustu.
Í lok dagskrá var netagerð og léttar veitingar.
Upptaka frá viðburðinum mun verða aðgengileg félagsfólki samtakanna á innri vef SVÞ fljótlega.