18/06/2025 | COVID19, Fréttir, Greining, Verslun, Þjónusta
Neytendur treysta sínum nánustu – ekki áhrifavöldum
Ný McKinsey-grein varpar ljósi á breytta kauphegðun neytenda frá 2019.
Ný skýrsla McKinsey, State of the Consumer 2025, sýnir að kauphegðun neytenda er að breytast hratt um allan heim. Netverslun og afhendingarþjónusta halda áfram að vaxa og þjónusta sem skilar hraða, þægindum og einfaldleika hefur aldrei verið mikilvægari. Í dag eru 21% máltíða borðaðar heima með aðstoð afhendingarþjónustu – tvöföldun frá 2019.
En það sem vekur sérstaka athygli er að neytendur taka ákvarðanir byggðar á trausti – og það traust byggir ekki á áhrifavöldum eða samfélagsmiðlum, heldur fjölskyldu, vinum og persónulegum tengslum. Samfélagsmiðlar eru taldir minnsti traustvekjandi þátturinn í kaupákvörðunum.
McKinsey greinin bendir á mikilvægi á:
-
Nýja nálgun í markaðssetningu: minna af ópersónulegum skilaboðum – meira af tengslamarkaðssetningu.
-
Endurmat á þjónustuferli: hversu hratt og þægilega getum við afhent vörur og þjónustu?
-
Nýsköpun og samvinna: ný tækifæri til að þróa staðbundnar lausnir með alþjóðlegri innblástur.
Kynntu þér niðurstöður skýrslu McKinsey – State of the Consumer 2025: When disruption becomes permanent SMELLTU HÉR!
16/06/2025 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, VR og Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) hafa tekið höndum saman vegna vaxandi áhyggna af ofbeldi og áreitni gagnvart starfsfólki verslana. Í dag, 16. júní var undirritað sameiginlegt minnisblað sem markar upphaf samstarfs um þetta mikilvæga samfélagsmál.
Settur verður á laggirnar vinnuhópur skipaður fulltrúum atvinnurekenda og launafólks sem er meðal annars ætlað að draga fram áskoranir og hættur m.t.t. öryggis starfsfólks verslana. SVÞ munu tryggja aðkomu atvinnurekenda að hópnum en m.a. er ætlunin að á vettvangi hópsins verði deilt reynslu, þekkingu og viðbrögðum verslunarfyrirtækja á ólíkum sviðum.
Hlutverk hópsins er að taka saman og greina viðfangsefnið og kortleggja úrræði sem fyrirtæki hafa þegar gripið til eða gætu gripið til. Standa vonir til þess að úr verði sameiginlegar hugmyndir að viðbrögðum og góðum starfsvenjum sem auka öryggi allra í verslunum.
Ætlunin er að vinnuhópurinn ljúki störfum fyrir lok október 2025 og niðurstöður hans verða nýttar til að þróa frekara samstarf og samtal við stjórnvöld.
Nýleg könnun VR sýnir að 54% félagsmanna hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi á starfsferlinum. SVÞ tekur þessar niðurstöður alvarlega og fagnar því að atvinnurekendur og launþegar sameinist um mikilvægt verkefni sem ætti styðja bæði öryggi og heilbrigt starfsumhverfi. Sjá minnisblað HÉR!

Frá undirritun samstarfssamnings milli SVÞ, VR & LÍV 16. júní 2025
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, Eiður Stefánsson, formaður LÍV, og Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ
12/06/2025 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Stjórnvöld, Umhverfismál
SVÞ og Bílgreinasambandinu bárust upplýsingar um að óljóst hefði þótt hvort draga ætti fjárhæð rafbílastyrks úr Loftslag- og orkusjóði frá kaupverði bíls við ákvörðun stofns bifreiðahlunninda. Með öðrum orðum og í dæmaskyni hvort stofn bifreiðahlunninda vegna rafbíls sem var keyptur á 9 millj. kr. nemi 9 millj. kr. eða 8,1 millj. kr., þegar fengist hefur 900 þús. kr. styrkur úr sjóðnum. Að höfðu samráði við Skattinn vilja samtökin koma því á framfæri að bifreiðahlunnindin reiknast af kaupverði að frádregnum styrknum, sé á annað borð sótt um og hann ákvarðaður.
Nánari umfjöllun um bifreiðahlunnindi má finna á vefslóðinni https://www.skatturinn.is/einstaklingar/tekjur-og-fradraettir/skattmat/.
Þá má einnig finna reiknivél bifreiðahlunninda á eftirfarandi vefsíðu: https://www.skatturinn.is/einstaklingar/reiknivelar/reiknivel-bifreidahlunninda/
11/06/2025 | Fréttir, Greining, Greiningar, Stjórnvöld, Þjónusta
SVÞ kallar eftir skynsamlegri skattstefnu sveitarfélaga.
Fasteignamat fyrir árið 2026 hækkar – og með því skattbyrði fyrirtækja um tvo milljarða króna. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu birta nú umfjöllun um áhrif fasteignaskatta á atvinnulífið og greiningu úr skýrslu PWC sem dregur fram hvernig atvinnulífið stendur undir stórum hluta af skatttekjum af fasteignum.
Þrátt fyrir að atvinnuhúsnæði telji aðeins 9% af öllum fasteignum bera fyrirtæki 53% af fasteignasköttum landsins. Álag fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði getur verið allt að þrefalt hærra en á íbúðarhúsnæði. Reykjavíkurborg, sem einn stærsti áhrifaaðilinn, er með hærri fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði en tíðkast að meðaltali á landsvísu.
Greining SVÞ leiðir í ljós að fasteignagjöld eru einn stærsti liður í rekstrarkostnaði atvinnuhúsnæðis eða sem nemur 40% og skýrslan PwC sýnir hvernig Ísland sker sig úr miðað við samanburðarlönd með hæstu skattbyrði fasteigna sem hlutfall af landsframleiðslu.
Við hvetjum sveitarfélög til að fylgja fordæmi þeirra sem nú þegar hafa lýst vilja til að lækka skatthlutfall fasteignaskatts og láta lækkunina ná til atvinnuhúsnæðis. Það er sérstaklega mikilvægt að sveitarfélögin taki virkan þátt í að halda niðri rekstrarkostnaði í atvinnulífinu.“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ.
Skoðaðu skýrsluna í heild:Fasteignamat 2026 og áhrif á atvinnulífið
06/06/2025 | Fréttir, Stjórnvöld, Umhverfismál
SVÞ og systursamtök á Norðurlöndum krefjast þess að árangri norrænna skilakerfum drykkjarvöruumbúða verði ekki fórnað vegna nýrrar umbúðareglugerðar ESB.
Áhrif PPWR reglugerðar á Ísland
Ákvæði nýrrar reglugerðar ESB um umbúðir (PPWR) geta haft alvarleg á íslenskt umhverfi, neytendur og fyrirtæki. Í henni eru m.a. settar kvaðir sem eiga að stuðla að endurnotkun drykkjarvöruumbúða. Við undirbúning reglugerðarinnar var ekki tekið tillit til árangurs söfnunar- og endurvinnslukerfa sem hafa skilað framúrskarandi niðurstöðu á Norðurlöndunum. Greiningar óháðra aðila á hinum Norðurlöndum hafa sýnt að í umhverfislegu tilliti geta hinar nýju kvaðir hæglega skilað lakari árangri en þegar hefur náðst.
Segja má að verið sé að boða endurnýjun lífdaga þykku gosflasknanna sem unnt var að skila í sjoppur og verslanir sem komu þeim fyrir í plastkössum og sendu til baka í gosverksmiðjur til þvottar og áfyllingar. Eins og flestir þekkja var það fyrirkomulag lagt af og langsamlega flestir skila nú flöskum og dósum til Endurvinnslunnar eða í dósagáma.
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt dagvöruverslunarsamtökum á hinum Norðurlöndunum komu nýverið á framfæri við framkvæmdastjóra umhverfismála ESB áskorun þess efnis að sérstakt tillit verði tekið til markaða þar sem skilagjaldakerfi ná yfir 90% skilahlutfalli.
„Við erum með skilakerfi sem virkar. Það skilar háu endurvinnsluhlutfalli, nýtur trausts og almennrar þátttöku almennings og fyrirtækja og dregur úr umhverfisáhrifum. Það væri skref afturábak að fara áratugi aftur í tímann til tíma fyrirkomulags sem hentar ekki okkar aðstæðum og skilar lakari árangri“ segir Benedikt S. Benediktsson hjá SVÞ, sem skrifaði undir áskorunina.
Hagsmunir almennings og fyrirtækja í húfi
Kostnaður við nýjar drykkjarumbúðir
Afleiðingar nýju umbúðareglugerðarinnar verða þær að léttum, endurvinnanlegum áldósum og plastflöskum verður að hluta skipt út fyrir þyngri umbúðir úr plasti sem er bæði kostnaðarsamt og verra fyrir umhverfið. Í viðskiptahagkerfinu verður til mikill kostnaður þar sem í auknum mæli þarf að flytja vökva í umbúðum til og frá landinu eða halda þarf úti tveimur skilakerfum. Við höfum náð góðum árangri þar sem mikill hluti kaupa á drykkjarvörum er í auðendurvinnanlegum álumbúðum en hætt er að við þeim árangri verði fórnað.
Á Íslandi hefur skilagjaldakerfið verið hluti af daglegum neysluvenjum í áratugi og tryggt að verulegur hluti drykkjarumbúða ratar í endurvinnslu aftur í nýja framleiðslu.
Sameinuð rödd Norðurlanda
Framtíð skilagjaldakerfisins á Norðurlöndum
Áskorunin er liður í samstilltri hagsmunagæslu Norðurlanda. Þar er m.a. bent á að lífsferilsgreiningar (LCA) hafi sýnt að núverandi endurvinnslukerfi á Norðurlöndunum skila betri árangri m.t.t. loftslags- og umhverfismála en þau kerfi sem reglugerðin leggur upp með.
Framtíðarsýn sem byggir á því sem virkar
SVÞ telja afar mikilvægt að regluverk framtíðarinnar taki tillit til þess sem þegar hefur sannað gildi sitt og því verði ekki fórna á altari samræmingar sem tekur mið á lakari stöðu ríkja ESB.
„Við viljum umhverfisvænar lausnir, en þær verða að grundvallast á skynsemi og staðreyndum. Það má ekki refsa fyrir árangur – við verðum að byggja á honum,“ segir Benedikt.
03/06/2025 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
„Við sjáum fyrir okkur að gríðarleg flækja geti fylgt breytingum á kílómetragjaldi“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, í samtali við Morgunblaðið í dag, 3. júní.
Í fréttinni er fjallað um hvort mögulegt verði að leggja kílómetragjald á erlend ökutæki, t.d. ökutæki í eigu ferðamanna og erlendra fyrirtækja. SVÞ telja líkur á að þegar upp verðir staðið geti reynst erfitt að leggja gjaldið á þessi ökutæki þar sem álagningin geti stangast á við regluverk EES-samningsins.
„Við veltum því fyrir okkur hvort skattlagning á erlend ökutæki verði lögmæt“ segir Benedikt.
SVÞ leggur áherslu á að vanda þurfi til verka við afgreiðslu frumvarpsins. Mikilvægt sé að tryggja að skattlagningin verði skilvirk, leggi ekki þungar kvaðir á herðar atvinnurekendum, tryggt verði að hún verði framkvæmanleg og síðast en ekki síst að auknar tekjur renni sannarlega til vegamála. Samtökin minna á mikilvægi þess að skattlagning og opinber gjöld rýri ekki samkeppnishæfni fyrirtækja á sviði verslunar og þjónustu.
