Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 – opið fyrir tilnefningar.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 – opið fyrir tilnefningar.

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök, þar á meðal SVÞ, hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025.

Við hvetjum öll aðildarfyrirtæki SVÞ til að nýta þetta tækifæri og senda inn tilnefningu.  Einstakt tækifæri til að varpa kastljósi á verkefni og starfsemi sem sýna raunveruleg umhverfisáhrif og frumkvæði til góðra verka.

Tveir verðlaunaflokkar

  • Umhverfisfyrirtæki ársins

  • Framtak ársins

Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hvorn flokk, en heimilt er að tilnefna sama fyrirtækið í báða flokka.

Frestur til tilnefninga rennur út 20.október 2025.
Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í nóvember, sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica.

➡️ Nánari upplýsingar og eyðublað til að skila inn tilnefningu má finna á vef SA — smellið HÉR! 

Erlend netverslun nálgast 36 milljarða á þessu ári

Erlend netverslun nálgast 36 milljarða á þessu ári

Nýjustu tölur Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) sýna áframhaldandi mikla aukningu erlendrar netverslunar Íslendinga.

Í júní 2025 nam umfangið rúmum 3 milljörðum króna eða sem nemur 28% aukningu miðað við sama mánuð síðasta árs. Frá maí jókst umfangið um tæp 7%.

Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur erlend netverslun Íslendinga numið 15,8 milljörðum króna, eða sem nemur 20,7% aukningu miðað við sama tímabil 2024. Haldi þessi þróun áfram má gera ráð fyrir að heildarfjárhæðin ársins 2025 verði rúmlega 36 milljarðar króna.

Hver fullorðinn Íslendingur eyðir 126 þúsund krónum á ári

Fjárhæðin 36 milljarðar króna jafngildir því að hver fullorðinn Íslendingur verji að meðaltali um 126 þúsund krónum á ári í erlenda netverslun – eða um 10 þúsund krónum á mánuði. Þessir fjármunir renna alfarið úr íslensku hagkerfi til erlendra fyrirtækja sem í ýmsu tilliti fylgja ekki sömu reglum og íslensk verslun hvað varðar t.d. skatta, gjöld og öryggiskröfur.

Leikvöllurinn er ekki jafn

SVÞ hafa ítrekað bent á að samkeppnistöðu fyrirtækja hefur verið raskað þegar íslensk fyrirtæki sæta eftirliti og viðurlögum hlíti þau ekki kröfum regluverks sem að mestu á að vera hið sama á EES-svæðinu á meðan aðrir komist upp með að gera það ekki. Þá þurfa fyrirtækin að bera kostnað við innkaup, innflutning, ýmis konar gæðaeftirlit og sölustarf, á meðan netmarkaðstorg erlendis bjóða í mörgum tilvikum vörur til sölu miðað við allt aðrar forsendur. SVÞ og Norræn systursamtök hafa bent á þess stöðu kallað eftir því að Evrópusambandið tryggi að öllum leikendum á innri markaðnum verði gert að hlíta sömu reglum og kvöðum.

„Við þekkjum fjölmörg dæmi þess hve mikið hallar á íslensk og evrópsk fyrirtæki. Ef ekkert verður að gert mun erlend netverslun, sem hugar ekki að þeim reglum sem gilda, halda áfram að vaxa m.a. á kostnað þeirrar verslunar sem fyrir er, greiðir alla skatta og gjöld og stendur undir atvinnu og þjónustu hér heima,“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ.

Mikilvægt að ræða samfélagsleg áhrif

„Það er ágætt að hafa í huga að þeir sem versla er á erlendum netmarkaðstorgum eru í raun einnig að vísa skatttekjum, störfum og þjónustu til annarra landa. Þegar við kaupum heima erum við líka að hlúa að samfélaginu okkar,“ segir Benedikt og bætir við „hið minnsta væri skynsamlegt að huga að því að beina viðskiptum að ábyrgum aðilum sem ganga úr skugga um að þær vörur sem þeir hafa á boðstólum uppfylli settar kröfur og geti staðið við þær upplýsingar sem þeir veita. Það er engin að biðja um að lokað verði á erlenda netverslun eða henni settar strangar skorður heldur þarf að tryggja að samkeppni eigi sér stað á jöfnum leikvelli.“

Haustréttir SVÞ 2025 – Leiðtogafundur verslunar og þjónustu

Haustréttir SVÞ 2025 – Leiðtogafundur verslunar og þjónustu

Við smölum saman æðstu stjórnendum í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu – í fyrsta sinn þann 7. október nk.

Haustréttir SVÞ verða haldnir í fyrsta sinn þriðjudaginn 7. október 2025 í fundarsalnum Fantasíu á Vinnustofu Kjarvals kl. 15:00–17:30. 

Rétt eins gerist í haustréttum í víða um land þar sem fólk kemur saman eftir sumarið, verða Haustréttir SVÞ árlegur vettvangur þar sem æðstu stjórnendur í verslun og þjónustu stilla saman strengi, ræða áskoranir og horfa til framtíðar. Þar verða kynnt gögn og greiningar, við fáum að heyra sterkar raddir úr atvinnulífinu og stjórnmálunum og fáum að njóta alþjóðlegrar reynslu sem kann að varpa ljósi á stöðu Íslands í breyttum heimi. 

Markmið Haustrétta er skýrt: Að kalla leiðtoga í greininni saman, rýna í stöðuna, breyta samtali í stefnu – og stefnu í aðgerðir. 

👉 Þetta er viðburður sem enginn æðsti stjórnandi innan SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, má missa af.
Taktu daginn frá – og fylgstu með þegar skráning opnar svo þú getir tryggt þér sæti. 

Opnum fyrir skráningu 1. september 2025.

Bensínverð á Íslandi: Skattar og rangtúlkuð gögn eru villandi

Bensínverð á Íslandi: Skattar og rangtúlkuð gögn eru villandi

Skattar, kvaðir og útflutningsland ráða miklu um bensínverð á Íslandi. 

Í umræðu um bensínverð hafa ASÍ o.fl. vísað til þróunar heimsmarkaðsverðs og fullyrt að íslenskir neytendur njóti ekki ávinnings af lækkun þess. Greining skrifstofu SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu leiðir annars vegar í ljós að stór hluti eldsneytisverðsins hefur lítil eða engin tengsl við þróun heimsmarkaðsverðs og hins vegar að algengt er að ekki sé miðað við raunveruleg innflutningsgögn. 

Skattar og gjöld ráða stórum hluta verðsins 

Stór hluti bensínverðs á Íslandi er fastur og ákvarðaður af Alþingi í formi skatta og gjalda – almennt og sérstakt bensíngjald, kolefnisgjald og virðisaukaskattur. Þessir liðir nema í dag 135 kr. á hvern bensínlítra. Sé miðað við að íblöndun sé um 10% af bensínlítranum þá nema skattar og gjöld 42% af dæluverði hvers lítra og breytast ekki þó heimsmarkaðsverð breytist *.  Þvert á móti eykst hlutur ríkisins í % af dæluverði ef innkaupsverð eldsneytis lækkar. 

Bensín kemur frá Noregi – ekki New York 

Nær allt innflutt bensín hefur komið frá Noregi, ekki New York höfn. Af upplýsingum frá Hagstofu Íslands má leiða að innflutningsverð á blýlausu bensíni frá Noregi í íslenskum krónum lækkaði um 3,5% frá janúar til júní á þessu ári.  Það styður lítt ályktun ASÍ um lækkun sem nemur 13,7% vegna styrkingar krónunnar. 

Stóra spurningin 

Það vekur sérstaka athygli að útreikningar ýmissa aðila, þ. á m. ASÍ, virðist ekki taka mið af gögnum sem liggja fyrir, eru birt opinberlega og endurspegla raunverulegan innlendan kostnað.  

 „Það gerist reglulega og er hluti af veruleika atvinnurekenda og neytenda að þráttað sé um verðlagningu og örugglega er slík umræða holl m.t.t. samkeppni. Eigi umræðan að vera til framdráttar hlýtur hins vegar að vera lykilatriði byggt sé á haldgóðum gögnum. Af upplýsingum sem Hagstofan birtir sést að bensín á Íslandi hefur nær alfarið verið flutt inn frá Noregi og af þeim má einnig leiða að innkaupsverð í íslenskum krónum lækkaði um 3,5% frá janúar til og með júní – sem styður ekki 13,7% lækkun vegna gengisáhrifa eins og gefið hefur verið til kynna. Ef horft er fram hjá slíkum gögnum verður niðurstaðan varla rétt. Við teljum mikilvægt fyrir umræðuna að miðað sé við haldbærar upplýsingar.“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ. 

 _____________
* Í útreikningunum er miðað við að útsöluverð á bensín sé 290 kr. á hvern lítra. Fjárhæðin inniheldur virðisaukaskatt sem lagður er á skatta og gjöld en ekki virðisaukaskatt sem lagður er á breytilegan kostnað s.s. innkaupsverð og álagningu. 

Sumarlokun SVÞ 2025

Sumarlokun SVÞ 2025

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa SVÞ lokuð dagana 14. júlí til 4. ágúst (að báðum dögum meðtöldum).
Við mætum eldhress eftir sumarfrí þriðjudaginn 5. ágúst 2024.

Starfsfólk SVÞ

Ísland gengur lengra en Evróputilskipun um peningaþvætti – Benedikt S. Benediktsson í Viðskiptablaði Morgunblaðsins

Ísland gengur lengra en Evróputilskipun um peningaþvætti – Benedikt S. Benediktsson í Viðskiptablaði Morgunblaðsins

Fyrirspurn sem Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins lagði fram á Alþingi í júní hefur vakið nokkra athygli í atvinnulífinu.  Þar er leitað svara við því hvort íslensk stjórnvöld hafi gengið lengra en tilskipun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir þegar ákveðið var hvaða fyrirtæki skuli sæta sérstöku eftirliti vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Göngum lengra en tilskipunin

Tilefni fyrirspurnarinnar er meðal annars umræða sem skapaðist eftir umfjöllun í Morgunblaðinu í maí, þar sem fjallað var um svokallaða gullhúðun íslensks regluverks á þessu sviði. Þar var því haldið fram að hér á landi væri eftirlit og tilkynningaskylda látin ná til fleiri aðila en kveðið sé á um í Evróputilskipuninni sem liggur til grundvallar lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Bent hefur verið á að fyrirspurn Bergþórs snúi meðal annars að stöðu fasteignafélaga, sem hér á landi eru tilkynningaskyld en ekki eru nefnd sérstaklega í Evróputilskipuninni. Þar kemur fram að tilkynningaskylda nái til fasteignasala og lögfræðinga þegar þeir koma að afmörkuðum þáttum fasteignaviðskipta, auk annarra tilgreindra aðila sem sinna tilteknum fjármála- og viðskiptalegum þjónustuverkefnum. Sama virðist eiga við þegar kemur að endurskoðendum og bókurum.

Fasteignafélögum bætt við

Við meðferð breytingalaga árið 2020 var ákvæði um fasteignafélög ekki hluti af frumvarpinu í upphafi, heldur var þeim bætt við að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Sú breyting var rökstudd með vísan til reynslu af framkvæmd laganna og umsagnar Skattsins, sem hefur eftirlit með þeim.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), segir í samtali við Morgunblaðið áhyggjur hafa komið fram meðal fjölmargra fyrirtækja sem hafa þurft að ráðast í viðamiklar og kostnaðarsamar aðgerðir til að mæta settum kröfum á grundvelli regluverks sem hafi verið útvíkkað hér á landi umfram það sem tilskipunin krefst.

Vald framselt til eftirlitsaðila

Hann segir óljóst hvers vegna svo langt hafi verið gengið þegar það virðist hafa verið óþarft. Benedikt nefnir jafnframt að eftirgrennslan samtakanna hafi gefið til kynna að ákvörðunarvald um hvaða starfsemi og í hvaða umfangi væri hér tilkynningaskyld og sætti ströngu eftirliti hefði í raun verið framselt til eftirlitsaðila og ríkislögreglustjóra.

Að mati Benedikts virðist sem tiltölulega almenn aðvörunarorð í áhættumati ríkislögreglustjóra hafi leitt til þess að tiltekin starfsemi eða starfsgreinar hafi í heild sinni verið felldar undir regluverkið. Gaumgæfni eða viðspyrna á vettvangi Alþingis virðist hafa verið afar takmörkuð og lítið mat hafi verið lagt á áhrifin á þá starfsemi sem var undir hverju sinni.

Skatturinn og Seðlabanki Íslands hafa hins vegar áður vísað til þess að útvíkkanir á regluverkinu hafi verið byggðar á reynslu og því markmiði að tryggja að eftirlit nái til þeirra sviða þar sem hætta á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé talin mest.

Viðskiptablað Morgunblaðsins, 8. júlí 2025.