Kjólar, borvél, dálítill biti af trjónukrabba og verkefni hins opinbera

Kjólar, borvél, dálítill biti af trjónukrabba og verkefni hins opinbera

Benedikt Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, skrifar á Vísi þann 16. ágúst: 

Hinn sérvitri ég nær klökknaði af gleði þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið birti lykiltölur um rekstur hins opinbera á vefsíðunni opinberumsvif.is. Upplýsingarnar vekja upp ýmsar spurningar um breiðu línurnar og ég sá t.d. á fésbókinni að spurt var hvort sjávarútvegurinn gæti ekki lagt meira af mörkum svo lækka mætti verð á áfengi (innskot: Mér sýnist netverslanabransinn vera að takast á við það verkefni). Þó mér finnist upplýsingarnar frábærar segja þær bara hluta af sögunni. Með því að skoða einvörðungu þessa tilteknu heimasíðu er t.d. hægt að álykta sem svo að útgjöld ríkisins séu í góðu horfi. Hver vill ekki leggja sem mest fjármagn í heilbrigðismál, öldrun, menntamál, o.s.frv.? Eins og hagsýnir heimilisrekendur þekkja skiptir hins vegar ekki síst máli hvernig fjármununum er eytt.  

Kjólar og borvél 

Þegar reikningarnir ógna fjárhag heimilisins hef ég spurt konuna hvort hún hafi hreinlega rými í fataskápnum fyrir nýja kjóla. Svör hennar felast oftlega í hvössum ábendingum, t.d. á þá leið að ég hafi nýverið keypt flottustu gerð af borvél. Slík svör virka um stund en leysa þó ekki aðsteðjandi vanda. Vísitölufjölskyldan skammast sín, segir svo upp áskriftinni af mogganum, dregur úr föndri og fatakaupum og reynir að sannfæra sjálfa sig um að það sé aðeins stigsmunur á lambahakki og lambasteik. Að ætla sér að skoða nákvæmlega hvernig ríkið eyðir fé er hins vegar ekki fyrir meðalmenni. Það þarf að snæða skepnuna bita fyrir bita. Heildarmáltíðin yrði hins vegar jafnvel svo löng að meðlimum vísitölufjölskyldu mundi ekki nægja lífaldurinn til. Undir lokin yrði verulega hætt við ofneyslu matarvíns og samfara kæruleysi, djammviskubit daginn eftir. En reynum þetta. Ég byrja smátt.  

Litli bitinn 

Á síðasta ári hafði Vinnueftirlit ríkisins 1.020,3 millj. kr. til að sinna verkefnum sínum. Unnin voru 68,6 ársverk hjá stofnuninni og kostaði því hvert þeirra tæplega 14,9 millj. kr. En í hvað fóru peningarnir? Flestir vita af vinnueftirliti og þekkja e.t.v. gagnsemi þess lauslega. Vinnueftirlitið heimsækir vinnustaði, metur aðstæður, m.a. með tilliti til heilsu starfsmanna, og passar m.a. að vinnuveitendur hafi undirbúið ýmsar öryggisráðstafanir. Nánari skoðun gefur til kynna að Vinnueftirlitið afli tekna og hvaða koma þær? Nærtækast er að átta sig á því með því að skoða verðskrá stofnunarinnar. Í fyrsta hluta verðskrárinnar er að finna gjöld fyrir skráningu og eftirlit með virkni ýmiskonar véla og tækja og fyrir þjónustu við ýmiskonar mælingar og prófanir. Í öðrum hluta er að finna gjöld fyrir námskeið, m.a. til réttinda til að nota vinnuvélar. Í þriðja þættinum er að finna gjöld fyrir fyrirlestra, mælingar og viðurkenningu á erlendum réttindum. En þá vaknar sú spurning hvort þetta sé allt nauðsynlegt?  

Trjónukrabbinn 

Eftirtektarsamur maður hélt því einu sinni fram að trjónukrabbinn, „framundan þeim veraldarútnánara sem Dalasýsla er“, væri af stjarnfræðilegri stofnstærð. Kallaði hann eftir rannsókn dýrðarmanna fyrir sunnan á dýrinu og vildi „fá plögg, með línuritum og prósentum, svo sem í eina stresstösku til að birja með“.  

Voru kjólarnir og borvélin óþarfakaup? 

Nú er ég svo heppinn að stresstaska með plöggum er fyrirliggjandi og ég get stytt mér leið að svari. Æðsti eyðslugagnrýnandi ríkisheimilisins hefur ítrekað tjáð sig og um það má t.d. lesa hér og hér: 

Ríkisendurskoðun telur að stofnunin ætti að einbeita sér að tilteknum kjarnaþáttum, þ.e. stjórnsýslu og leiðandi verkefnum á sviði vinnuverndar, en láta öðrum sem mest eftir sérhæfða þjónustu og ráðgjöf um vinnuvernd[L]eggur Ríkisendurskoðun til að kannað verði hvort flytja megi hluta vinnuvélaeftirlits stofnunarinnar til faggiltra skoðunarstofa og stjórnsýslu þess til [Samgöngustofu]. Hér er m.a. átt við eftirlit með farandvinnuvélum, tækjum sem áföst eru bifreiðum og öðrum hjólatækjum sem aka utandyra, og er um margt hliðstætt bifreiðaeftirliti. Að mati Ríkisendurskoðunar gæti slíkt fyrirkomulag orðið bæði hagkvæmara og skilvirkara en það sem nú tíðkast og auk þess hentugra fyrir þá sem notfæra sér þjónustuna. […] 

Ríkisendurskoðun telur að samþætting Vinnueftirlitsins á eftirliti, fræðslu og ráðgjöf sé óheppileg. […].  

Þarna hefur einhver verið í því hlutverki að benda á kjólana og fyllt heila stresstösku af plöggum. Ég sé ekki betur en að fagráðherrann hafi í kjölfarið bent á borvélina. Lítið virðist hins vegar hafa gerst.  

Er ég virkilega sá eini sem skammast mín undir svona kringumstæðum? 

Tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins

Tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 8. september. Verðlaunin eru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 6. október í Hörpu.

Tekið er við tilnefningum með tölvupósti á sa@sa.is merktum „Tilnefning til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins“. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.

Dómnefnd velur úr tilnefningum* og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

Umhverfisfyrirtæki ársins

  • Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
  • Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
  • Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
  • Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
  • Innra umhverfi er öruggt
  • Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
  • Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið

Framtak ársins

  • Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
  • Hefur komið fram með nýjung – vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif

*Einungis er hægt að tilnefna skráða félagsmenn Samtaka atvinnulífsins til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Dagskrá verður birt er nær dregur.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Hér má sjá Framtak ársins 2020 – Netparta:

Umhverfisframtak ársins 2020: Netpartar from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.

Um grímuskyldu

Um grímuskyldu

Nokkurrar óvissu hefur gætt um framkvæmd reglugerðar nr. 587/2021frá 25. júlí s.l. um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Óvissan hefur einkum beinst að því hversu langt skyldan til að bera andlitsgrímur nær.

SVÞ finnst því ástæða til að skýra þessi atriði frekar.

Samkvæmt skýru ákvæði reglugerðarinnar er einungis um að ræða skyldu til að bera andlitsgrímu inni í verslunum og öðrum sambærilegum stöðum, þegar ekki er hægt að tryggja a.m.k eins metra fjarlægð milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Ákvæði sem upphaflega var í reglugerðinni þess efnis að einnig bæri að bera andliltsgímur þegar loftræsting væri ófullnægjandi, hefur verið felld út.

Eftir þessu er það lagt í hendur hvers fyrirtækis fyrir sig að meta hvenær ekki er hægt að tryggja nálægðartakmörkun með fullnægjandi hætti.

Hvað með trukkana?

Hvað með trukkana?

Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur SVÞ

Trukkur, samkvæmt orðabók, er stór og kraftmikill vörubíll. Trukkar eru okkur mikilvægir þó flest okkar leiði hugann sjaldnast að þeim. Trukkar eru ekki bara öskubílar, olíubílar og mjólkurbílar heldur flutningabílar sem færa vörur milli staða. Trukkar færa t.d. matinn í verslanirnar, byggingarefnið á byggingastað og fiskinn í útflutning. Sérstakir trukkar flytja túrista en eru þá kallaðir rútur, sem væntanlega á að vísa til dálítils kassa af öli. Í þessu ljósi má t.d. ímynda sér að heiti trukksins, sem er frábær réttur á matseðli Gráa Kattarins, vísi til gagnsemi trukksins enda er hann samansettur úr fjölmörgum hráefnum og fullnægir daglegum þörfum afar vel. Það er sennilega ekki tilviljun að þegar rætt er um að taka eitthvað með trukki er gjarnan skírskotað til þess að gera eitthvað að afli, almennilega, fara alla leið.

Tökum það með trukki

Stjórnvöld hafa sett fram afar metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Í gildandi aðgerðaáætlun er m.a. fjallað um hvernig megi draga úr losun koltvísýrings í samgöngum. Ein af aðgerðunum snýr að því hvernig draga megi úr losun í þungaflutningum innanlands, m.ö.o. hvernig tökum við trukkana með trukki án þess að missa trukkið.

Trukkaland

Hér á landi eru margir trukkar í notkun miðað við höfðatölu eða a.m.k. finnst mér rökrænt að álykta á þennan hátt. Samkvæmt Wikipedíu er Ísland 16. stærsta ríki heims, miðað við höfðatölu. Ef íbúaþéttleiki á Íslandi væri hinn sami og í Mónakó byggju hér tæplega 2 milljarðar Íslendinga. Ef íbúaþéttleiki í Mónakó væri hinn sami og hér á landi byggju þar 8 manns. Ef við gefum okkur að nokkuð margir trukkar séu í notkun í okkar stóra, strjálbýla, veðurbarða og mishæðótta landi, miðað við höfðatölu, má jafnframt álykta sem svo að fjarlægðir manna á milli kalli á töluverðan trukkaakstur.

Réttu trukkarnir

Nýverið keypti ég mér rafmagnsbíl. Kaupin voru ekki sérlega frumleg enda fer hver að verða síðastur að kaupa bensín- eða dísilbíl. Bílinn losar ekki gróðurhúsalofttegundir í akstri og nú kaupi ég eingöngu innlenda orku. Umskiptin voru einföld. Fólksbílar knúnir rafmagni eru vel þróaðir, framleiddir á nokkuð hagkvæman máta og hleðsluinnviðir til staðar, bæði heima hjá mér og víða um landið. En ekki eru allir eins. Hyggist eigandi trukks kaupa nýjan trukk, sem gengur fyrir öðru en dísilolíu, vandast málið. Valkostirnir eru fáir og þeir sem eru þó til staðar kosta svo heiftarlega mikið að kaupin ganga ekki upp. Þá er drægi sumra kostanna enn takmörkuð og flutningagetan óljós. Sé trukki stungið í samband er hætt við að það verði ekki margar innstungur eftir fyrir aðra.

Við þurfum öll á trukkunum að halda. Eigendur trukkanna vilja eiga trukka til að þjónusta okkur. Helst vilja þeir aka trukkunum á innlendri orku. Þar liggur vandinn því slíkir trukkar standa enn vart til boða en eru þó á leiðinni, í framtíðinni og vonandi þeirri nánustu. Að hanna og smíða trukk tekur mörg ár, jafnvel fyrir reyndustu menn, og þegar hann hefur verið smíðaður þarf að prófa hann við ýmsar aðstæður. Þar að auki þarf að koma upp tækjum til að koma orkugjafa á trukkinn, þ.e. hliðstæðu olíudælunnar.

Trukkar í loftslagsvísi atvinnulífsins

Hinn 23. júní var Loftslagsvísir atvinnulífsins gefinn út. Eins og önnur fyrirtæki hafa flutningafyrirtæki verulegan áhuga á að taka virkan þátt í orkuskiptum í samgöngum. Þegar kemur að akstri trukka á lengri leiðum virðist vetnisvæðing helsta lausnin framundan. Nokkrir trukkaframleiðendur eru að prófa sína trukka erlendis en það er enn nokkuð í að hægt verði að kaupa þá. Það er hins vegar ljóst að trukkarnir verða ekki bara dýrir í innkaupum heldur verður það töluvert vesen að fara að nota þá. Til dæmis vantar okkur fjölda vetnisstöðva.

Púslin í nýorkuveruleika trukka eru sannarlega mörg en það er búið að taka lokið af öskjunni. Wasgij-púslið blasir við, menn eru búnir að klóra sér svolítið í hausnum en eru sannfærðir um að þetta muni klárast.

Að lokum skora ég á Gráa köttinn að breyta nafninu á trukknum í vetnistrukkinn, svona til að taka af allan vafa.

Benedikt S. Benediktsson
lögfræðingur SVÞ

Greinin birtist fyrst á Vísi.is, fimmtudaginn 24. júní 2021.