Horfðu á upptökuna! Uppfærum Ísland – stafræn umbreyting eða dauði

Horfðu á upptökuna! Uppfærum Ísland – stafræn umbreyting eða dauði

Í tilefni af aðalfundi SVÞ var frumsýndur þátturinn Uppfærum Ísland – stafræn umbreyting eða dauði, fimmtudaginn 18. mars kl. 10:00.

Stafræn þróun, ásamt þróun til aukinnar sjálfbærni, er stærsta umbreytingaverkefni sem íslenskt atvinnulíf og vinnumarkaður standa frammi fyrir. Nauðsynlegt er að íslenskt samfélag í heild taki sig saman til að styðja þá umbreytingu, þar sem samkeppnishæfni þjóðarinnar og lífsgæði okkar allra eru undir. Í þættinum var fjallað um áhrif stafrænnar umbreytingar, þau tækifæri og áskoranir sem í henni felast, stöðu íslensks atvinnulífs á því sviði og það verkefni sem við eigum fyrir höndum að uppfæra Ísland.

Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar um áhrif stafrænnar umbreytingar fyrir íslenskt atvinnulíf, vinnumarkað og samfélag, hlutverk stjórnvalda í stuðningi við atvinnulífið á þessari vegferð og hvað íslensk stjórnvöld hyggjast gera á því sviði. Einnig var rætt við Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ og forstjóra Olís um stöðu íslensks atvinnulífs í stafrænni umbreytingu og nauðsynlegar aðgerðir.

Frændfólk okkar á Norðurlöndunum eru undantekningarlaust í topp 10 sætunum í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stafrænni umbreytingu. Í þættinum skyggndumst við inn í hvernig hlutirnir eru gerðir þar og ræddum við fulltrúa Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um mikilvægi stuðnings stjórnvalda við atvinnulífið, hvað verið er að gera í viðkomandi landi o.fl. Viðmælendur okkar frá Norðurlöndunum  voru: Hanna Marttinen-Deakins, Senior Director, Digitalisation, Business Finland Jan Damsgaard, Professor við stafrænu deildina í Copenhagen Business School, fulltrúi í danska Disruption ráðinu á vegum stjórnvalda og stjórnarmaður í SMV:Digital Lena Carlsson, Deputy Director General, Regeringskansliet, Infrastrukturdepartmentet (innviðaráðuneytið), Digital Society Division í Svíþjóð. Lena fer fyrir stafrænum stefnumálum sænsku ríkisstjórnarinnar. Paul Chaffey, Statssekretær, Kommunal- og moderniseringsdepartmentet, helsti ráðgjafi ráðherra stafrænna mála í Noregi

Öflugt nýtt stjórnarfólk í SVÞ

Öflugt nýtt stjórnarfólk í SVÞ

Aðalfundur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í morgun í Hyl, Húsi atvinnulífsins. Á fundinum var kosið til fjögurra sæta meðstjórnenda en aldrei hafa jafnmargir boðið sig fram í stjórn samtakanna, eða tólf frambjóðendur.

 

Réttkjörin í stjórn SVÞ til næstu tveggja ára eru:

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1

Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Kokku

Tinna Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðsmála Regins og Smáralinda

 

Réttkjörinn í stjórn SVÞ til eins árs er Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips

 

Formaður SVÞ, Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands var endurkjörinn til næstu tveggja ára.

 

Stjórn er því skipuð eftirfarandi aðilum starfsárið 2021-2022:

 

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands, formaður

Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips

Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Kokku

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1

Kjartan Örn Sigurðsson, Verslanagreining

Tinna Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðsmála Regins og Smáralindar

 

„Það er ánægjulegt að fá svona öflugt fólk til liðs við okkur. Um leið og við bjóðum þau velkomin til starfa þökkum við fráfarandi stjórnarfólki kærlega fyrir samstarfið,” segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.

SVÞ fagnar nýrri Klasastefnu fyrir Ísland

SVÞ fagnar nýrri Klasastefnu fyrir Ísland

SVÞ fagna mjög Klasastefnu fyrir Ísland sem kynnt hefur verið af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Samtökin fagna ekki síst þeim tækifærum sem í stefnunni felast til að takast á við hið stóra verkefni sem stafræn umbreyting er í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði. Við höfum nú í talsverðan tíma talað fyrir samstarfi á vettvangi stafrænu málanna og þegar komið á samstarfi við VR og HR og erum að undirbúa víðtækara samstarf. Klasahugmyndafræðin hentar einstaklega vel fyrir slíkt samstarf þar sem hún er sveigjanleg og auðvelt er að laga hana að ólíkum aðstæðum og áherslum. Klasasamstarf er frábær leið til að styðja við hraða breytingastjórnun og aðlögun á stórum skala, sem er einmitt það sem stafræn umbreyting felur í sér.

Í myndbandinu sem sjá má hér fyrir neðan, og á Facebook síðu Atvinnuvegaráðuneytsins: Iðnaður / viðskipti / ferðaþjónusta / orka, kynna ráðherra og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans og verkefnastýra stefnunnar, klasastefnuna. Þá eru flutt þrjú örerindi, og er eitt þeirra frá Þórönnu K. Jónsdóttur, verkefnastjóra – stafræn þróun hjá SVÞ, auk erinda frá Þór Sigfússyni, stofnanda og stjórnarformanni Sjávarklasans og Sesselju Ingibjörgu Barðdal Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Eims. Að lokum er mjög áhugavert erindi frá Héðni Unnsteinssyni, stefnumótunarsérfræðingi í forsætirsráðuneytinu um stefnu, menningu og strúktúr í stjórnarráðinu.

Ef þú hefur áhuga á starfi SVÞ á sviði stafrænnar umbreytingar og samstarfsvettvangi um þau mál, smelltu hér til að fá frekari upplýsingar og skrá þig á póstlista og við munum láta þig vita þegar frekari fréttir berast af þeim málum.

Kynning á frambjóðendum til stjórnar SVÞ 2021

Kynning á frambjóðendum til stjórnar SVÞ 2021

Rafræn kosning meðstjórnenda í stjórn SVÞ 2021 hefst miðvikudaginn 3. mars nk. kl. 12:00 og stendur til kl 12:00 þann 17. mars nk. Félagsaðilar fá senda tilkynningu við upphaf kosningar en í henni munu m.a. koma fram upplýsingar um hvernig atkvæði verða greidd.

Kosið er um þrjá meðstjórnendur til tveggja ára og einn til árs. Alls bárust tólf framboð.

Hver félagsaðili fer með atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2020. Hverjum heilum 1.000 krónum í greidd félagsgjöld fylgir eitt atkvæði. Tekið skal fram að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með greiðslu vangoldinna félagsgjalda ársins 2020.

 

Í framboði til stjórnar SVÞ eru:

Ari Þórðarson
Framkvæmdastjóri Hreint ehf.
Meira um Ara
Ari er eigandi og framkvæmdastjóri Hreint ehf. sem er ein elsta og stærsta ræstingaþjónusta landsins. Hann hefur starfað í þjónustu-, verslunar- og tæknifyrirtækjum til fjölda ára og setið í mörgum stjórnum fyrirtækja og félagasamtaka. Ari leiðir starfshóp ræstingafyrirtækja innan SVÞ og hefur setið í stjórn samtakanna frá 2019. Á þeim vettvangi hefur hann beitt sér í hagsmunamálum þjónustufyrirtækja, talað fyrir auknu frelsi í viðskiptum og stemmandi aðgerðum gagnvart síauknum áhrifum ríkisvaldsins, og síðast en ekki síst fyrir aukinni áherslu atvinnulífsins í umhverfismálum.

„Ég sækist eftir áframhaldandi stjórnarsetu hjá SVÞ. Framboð mitt grundvallast á því að ég tel skynsamlegt að stjórn SVÞ endurspegli sem best samsetningu fulltrúa, bæði í verslun og þjónustu. Mér finnst miklu máli skipta að SVÞ sinni af krafti hagsmunagæslu aðildarfyrirtækja sinna og stuðli að heilbrigðu rekstrarumhverfi hér á landi. Þá eiga samtökin að sinna með öflugum hætti fræðslumálum í verslun og þjónustu og vera sterkur bakhjarl í kjaratengdum málum, í samstarfi við Samtök atvinnulífsins.“

Guðmundur Nikulásson
Framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips
Meira um Guðmund
Guðmundur hefur gegnt stjórnunarstörfum hjá Eimskip frá árinu 1997, fyrstu árin sem forstöðumaður Sundahafnar og tengdrar starfsemi, en tók við starfi framkvæmdastjóra innanlandssviðs árið 2005 og er í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Hann hefur fjölbreytta reynslu á sviði rekstrar og stjórnunar auk víðtækrar þekkingar á íslensku atvinnulífi og þeim ólíku störfum og starfsemi sem stórt fyrirtæki eins og Eimskip í verslun og þjónustu á Íslandi stundar.

Guðmundur er B.Sc. verkfræðingur frá Háskóla Íslands og með M.Sc. próf frá Danmarks Tekniske Universitet í Kaupmannahöfn. Hann hefur setið í stjórnum dótturfélaga Eimskips á Íslandi og einnig tekið þátt í fjölmörgum stórum umbreytinga-, hagræðingar- og fjárfestingaverkefnum á vegum félagsins.

Sem stjórnandi til margra ára innan flutningagreinarinnar tel ég mig búa að fjölbreyttri þekkingu og reynslu á atvinnulífinu sem myndi nýtast vel innan SVÞ. Á tímum örra breytinga er mér umhugað um mikilvægi þróunar og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í verslun og þjónustu, að þeim sé búið hvetjandi og hagfellt rekstrarumhverfi sem styrkir stöðu þeirra, bæði hér á landi og einnig í alþjóðlegu samhengi. Samhliða því tel ég mjög mikilvægt að auka framleiðni og hagkvæmni í rekstri ásamt því að efla menntun og færni atvinnulífsins til að takast á við þær hröðu breytingar sem eiga sér nú stað og eru fyrirséðar eftir því sem tækninni fleygir fram og hefur stöðugt meiri áhrif á okkar samfélag. Ég vil leggja mitt af mörkum til að efla samtökin og styðja við framfarir í verslun og þjónustu til hagsbóta fyrir fyrirtæki og almenning í landinu.

Guðrún Jóhannesdóttir
Guðrún Jóhannesdóttir
Eigandi og framkvæmdastjóri Kokku ehf.
Meira um Guðrúnu
Undanfarin 20 ár hef ég, ásamt fjölskyldu minni, rekið verslunina Kokku. Samhliða smásölunni höfum við sinnt heildsöludreifingu síðan 2005. Ég hef einnig ágæta reynslu af rekstri vefverslana en www.kokka.is hefur verið í loftinu síðan 2004 auk þess sem ég hef komið að rekstri nokkurra smærri vefverslana á þessu tímabili mikils vaxtar í þeim geira.

Ég gekk til liðs við SVÞ árið 2010, hef tekið þátt í ýmissi starfsemi samtakanna og sat í stjórn Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir þeirra hönd. Ég hef setið í stjórn SVÞ síðan 2018.

Að mínu mati er mikilvægt að raddir minni og meðalstórra fyrirtækja heyrist innan samtakanna, enda áherslurnar oft ólíkar eftir stærð.  Einnig þykir mér nauðsynlegt er að samtökin styðji áfram við stafræna þróun á sviði verslunar og þjónustu til að efla samkeppnishæfni greinarinnar. Að lokum tel ég ekki síður mikilvægt að hlúa að þeim þætti viðskipta sem felst í þjónustu maður á mann, enda fjölmargir félagsmenn sem afla meirihluta tekna sinna á þann hátt.

Herdís Pála Pálsdóttir
Herdís Pála Pálsdóttir
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte
Meira um Herdísi Pálu
Ég hef víðtæka reynslu af stjórnendastörfum, aðallega á sviði mannauðsmála en einnig almenns rekstrar, markaðsmála, þjónustu o.fl. Verkefni mín hafa lengst af verið mannauðsstjórnun, breytingastjórnun, stuðningur við stjórnendur og starfsfólk o.fl. Einnig hef ég verið með eigin rekstur á sviði ráðgjafar, kennslu og markþjálfunar og rekið netverslun.
Samhliða mínum störfum hef ég sinnt kennslu í HÍ og HR, og haldið fjölda námskeiða um stjórnun og mannauðsmál.
Ég lauk MBA-námi árið 2000, frá University of New Haven í CT, USA. Einnig hef ég lokið B.Ed námi og námi í stjórnendamarkþjálfun, auk þess að hafa verið dugleg að sækja ráðstefnur og námskeið, taka netnámskeið og lesa, til að halda mér faglega við og vel upplýstri um það sem best þykir og efst er á baugi hverju sinni.

Ég hef mikinn áhuga á að starfa fyrir SVÞ og tel að reynsla mín af stýringu mannauðs og breytingastjórnun muni koma sér vel við að finna leiðir til að styðja betur við fyrirtækin í SVÞ.
Ekki síst í kjölfar heimsfaraldurs og þeirra áhrif sem hann hefur haft á áherslur í vinnuumhverfi – og ekki síður á væntingar og hugmyndir starfsfólks um störf og starfsumhverfi.

Ég hef lengi velt fyrir mér framtíð vinnu, vinnustaða og vinnuafls, lesið, skrifað og tjáð mig um þau mál á opinberum vettvangi. Hluti af þeim áskorunum sem blasa við tel ég vera miklar áskoranir þegar kemur að því að endurnýja hæfnisett starfsfólks í verslun og þjónustu.
Sérstaklega þar sem ljóst er að framtíðin verður mun stafrænni og skilvirkari en við höfum áður þekkt.
Einnig hafa væntingar og kröfur viðskiptavina og starfsfólks um góða upplifun, aðgengi og þjónustu aukist mjög.

Ég mun leggja mitt af mörkum til þess að SVÞ nái að fylgjast vel með og bregðast við breytingum sem eru að verða á viðskiptaumhverfi fyrirtækja í verslun og þjónustu og veit að þekking mín og reynsla mun nýtast vel í þeim spennandi verkefnum sem framundan eru.

Hinrik Örn Bjarnason
Hinrik Örn Bjarnason
Framkvæmdastjóri N1
Meira um Hinrik Örn
Hinrik Örn Bjarnason er framkvæmdastjóri N1 og hefur víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi, sem og á erlendri grundu. Hinrik Örn hefur starfað hjá N1 um átta ára skeið en var áður framkvæmdastjóri Eimskips í Þýskalandi, vann við alþjóðleg sjávarútvegsverkefni hjá Landsbankanum og var stjórnandi hjá Samskipum.

Hinrik Örn er fæddur 15. september 1972 og er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Gríðarlegar breytingar eru að eiga sér stað í alþjóðlegu atvinnulífi þar sem reynsla, þekking og framsýni munu gegna lykilhlutverki. Næstu skref geta skipt sköpum hvað varðar samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og þar þarf að líta til allra þátta, ekki síst tækniþróunar, umhverfisvitundar, markaðsstöðu og aðlögunarhæfni. Ég býð fram krafta mína í stjórn SVÞ með það að markmiði að efla samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og eiga þátt í að móta framtíðina á alþjóðavettvangi.

 

Karl J. Jóhannesson
Karl J. Jóhannesson
Eigandi og framkvæmdastjóri Aurum
Meira um Karl

Menntun: MBA, M.Sc. í stjórnun og tækniskipulagning fyrirtækja frá DTU í Danmörku.

Ég vann sem stjórnunarráðgjafi frá árinu 1999 – 2005 þegar ég kom heim að námi loknu í Danmörku. Eftir það starfaði ég sem framkvæmdastjóri og forstjóri til ársins 2010 þegar ég sneri mér alfarið að eigin fyrirtæki, Aurum, sem ég stofnaði með konunni minni, Guðbjörgu skartgripahönnuði, 1999. Strax 2010 lagði ég mikla áherslu á netverslun og verslun á netinu almennt. Ég hef yfirgripsmikla þekkingu á verslun og verslun á netinu og hef passað upp á að fylgja eftir þeirri hröðu breytingum sem hefur orðið í mínu eigin fyrirtæki. Ég þekki einnig vel til sölu erlendis og hvernig því regluverki er háttað. Segja má að umhverfið í verslunarrekstri hafi breysts mikið undanfarin ár. SVÞ hefur verið sterk rödd út á við og því verður að halda á lofti ásamt því að fylgja eftir þeim breytingum sem hafa orðið og eru framundan í verslun og verslunarrekstri almennt. Ég tel mig geta lagt töluvert til svo að rödd SVÞ verði ennþá sterk og jafnvel sterkari en áður, þar sem passað verður upp á regluverk, breytingar framundan og að fylgjast vel með hvernig verslun er að breytast. Einnig að passa upp á að hlúa að félagsmönnum / fyrirtækjum samtakanna, að styðja við þau bæði á þessum krefjandi tímum og vera áfram sterkur bakhjarl fyrir félagsmennn. Ég mun stuðla að því að SVÞ verði áfram á tánum, í fremstu röð og til fyrirmyndar í að kynna fyrir félagsmenn það nýjasta sem er að gerast í verslunarrekstri, hvort sem er skattamál, sölumál, útflutningsmál o.þ.h. í gegnum fyrirlestra, ráðstefnur eða kynningarefni sem félagsmenn geta nálgast.

Kristinn Már Reynisson
Aðallögfræðingur Íslandspósts ohf.
Meira um Kristinn
Nafn: Kristinn Már Reynisson
Fæðingarár: 1983
Starfsheiti: Lögfræðingur
Aðildarfyrirtæki: Íslandspóstur
Menntun: M.A. lögfræði Háskóli Íslands, Phd lögfræði Háskólinn Árósum
Starfsreynsla: Fjeldsted og Blöndal lögmannsstofa, Samkeppniseftirlitið, Íslandspóstur

Kristinn Már Reynisson hefur starfað sem lögfræðingur Íslandspósts frá árinu 2019 og tekið þátt í umbreytingu félagsins frá þeim tíma.

Sérsvið Kristins eru hlutafélagaréttur og stjórnarhættir fyrirtækja, samkeppnisréttur og alþjóðlegur skattaréttur. Kristinn hlaut Phd gráðu frá Háskólanum í Árósum fyrir störf á sviði stjórnarhátta og ábyrgðarreglna fyrirtækjasamstæðna en hann hefur einnig starfað hjá Samkeppniseftirlitinu sem og á lögmannsstofum í Reykjavík.

Kristinn hyggst nýta bakgrunn sinn sem lögfræðingur og beita sér fyrir því að SVÞ verði áfram sterk rödd í þeirri vegferð að einfalda regluverk.

Breyting hefur orðið á neysluháttum innanlands og íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir 4. iðnbyltingunni, auk þess að kröfur neytenda til aukinnar sjálfbærni kalla á nýja nálgun. Regluverk sem aðildarfélög SVÞ starfa eftir var hins vegar byggt upp í umhverfi sem nú hefur tekið stakkaskiptum. Því er ljóst að mikið verk er fyrir höndum að gæta þess að reglur sem komnar eru fram yfir síðasta neysludag reynist ekki hindrun við uppbyggingu verslunar og þjónustu fram á veginn.

Kristín Ögmundsdóttir
Kristín Ögmundsdóttir
Framkvæmdastjóri Borgarleikhússins
Meira um Kristínu

Kristín hefur starfað sem framkvæmdastjóri Borgarleikhússins frá árinu 2018. Borgarleikhúsið er stór vinnustaður og umsvif þess mikil á fjölbreyttum sviðum. Þar starfa að jafnaði 200 starfsmenn og árlega heimsækja um 180.000 gestir leikhúsið. Áður gegndi Kristín starfi framkvæmdastjóra hjá Íslenska dansflokknum.

Kristín starfaði sem viðskiptastjóri á smásölumarkaði í London um árabil hjá Christian Dior gagnvart verslunum eins og Boots, Debenshams og John Lewis og sem sérfræðingur fyrir skartgripakeðjuna Aurum Holdings í London.

„Allan minn starfsferil hef ég unnið við verslun og þjónustu eða allt frá því að ég hóf störf hjá fyrirtæki fjölskyldunnar, Skarthúsinu á Laugavegi. Síðar fékk ég dýrmæta reynslu og innsýn inn í rekstur og starfssemi alþjóðlegra fyrirtækja. Síðustu ár hef ég unnið að markaðssetningu og rekstri menningartengdrar upplifunar. Ég tel að reynsla mín geti nýst vel á vettvangi SVÞ. Á tímum Covid-19 hefur komið í ljós hversu mikilvæg nýsköpun og innleiðing starfrænna lausna er fyrir framþróun í íslenskri verslun og þjónustu. Tel ég að stafrænar lausnir og aukin fræðsla- og menntun muni styðja við samkeppnishæfni okkar til framtíðar.“

Kristín er með hagfræðimenntun frá University of Wisconsin og M.Sc. í fjármálum frá Cass Business School London og hefur m.a. setið í stjórn Landsnefndar UN Women síðan 2017 og í stjórn Samtaka atvinnuveitenda í sviðslistum síðan 2013.

Oddur Ragnar Þórðarson
Eigandi og þjónustustjóri Eignareksturs ehf.
Meira um Odd Ragnar
Fæddur 1974 og starfa sem þjónustustjóri, og annar eigandi, Eignareksturs ehf.
Giftur Ragnhildi Guðrúnu Pálsdóttur, framkvæmdarstjóra Eignareksturs.

Eignarekstur var stofnað 2015 sem þjónustufyrirtæki við almenn húsfélög, leigufélög og sveitarfélög. Í dag þjónustar Eignarekstur hart nær 200 húsfélög víðsvegar um landið varðandi bókhald og alla almenna þjónustu.

Fyrir hef ég víðtæka reynslu af störfum í upplýsingatækni. Ég starfaði í 20 ár við ýmis störf hjá nokkrum af stærstu tæknifyrirtækjum Íslands. Samhliða upplýsingatæknistörfum var ég í 8 ár bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Vogar og á tímabili forseti bæjarstjórnar. Fyrir hönd bæjastjórnar sat ég í sex ár í stjórn Kölku, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.

Ég hef mikinn áhuga á almennum og sameiginlegum hagsmunarmálum Samtaka verslunar og þjónustu. Þess vegna býð ég mig fram sem meðstjórnenda í stjórn SVÞ á aðalfundi 18. mars næstkomandi.

 

Sigurður Ólafsson
Sigurður Ólafsson
Framkvæmdastjóri Gott og gilt ehf.
Meira um Sigurð
Sigurður hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja auk þess að hafa stýrt samningagerð og kynnst opinberri stjórnsýslu í störfum sínum. Reynsla hans nær m.a. til hugbúnaðarfyrirtækja, vátryggingafélaga og opinbers hlutafélags.

Sigurður starfar nú sjálfstætt við ráðgjöf auk þess að sitja í stjórn lífeyrissjóðs, í stjórn þriggja fyrirtækja og í ráðgjafaráði nýsköpunarfyrirtækisins Proency. Auk eigin ráðgjafar á sviði mannauðsmála þá hefur hann unnið með ráðgjafafyrirtækinu Kontra Nordic að verkefnum tengdum góðum stjórnarháttum og ábyrgð stjórnarmanna á upplýsingagjöf í útgefnum upplýsingum fyrirtækja s.s. í skýrslu stjórnar.

Í störfum sínum hefur hann borið ábyrgð á áætlanagerð, rekstri og efnahag tveggja fyrirtækja og nú síðast rekið mannauðssvið í flóknum rekstri Isavia ohf. Sigurður starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri á íslenskum vátryggingamarkaði og hefur nokkra reynslu af alþjólegum viðskiptum frá þeim tíma sem hann var framkvæmdastjóri Calidris (Sabre Ísland) sem var í harðri samkeppni við stærri aðila á markaði fyrir sérhæfða tekjustýringarþjónustu fyrir flugfélög.

Sigurður situr í dag í stjórn Lyfja og heilsu, Trésmiðjunnar Barkar, Glerverksmiðjunnar Samverks og í stjórn lífeyrissjóðsins Festu. Hann hefur því fengið viðurkenningu FME á hæfi til stjórnarsetu í lífeyrissjóði og áður lokið hæfnimatsferli FME sem framkvæmdastjóri Varðar Íslandstryggingar hf. árið 2006.

Sigurður er viðskiptafræðingur með MBA gráður frá Rotterdam School of Management frá árinu 1990.

Áherslur

Nái ég kjöri mun ég vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna auk þess að stuðla að því að:

  • efla starfræna þróun í verslun og þjónustu og bæta um leið árangur og draga úr sóun á tíma og verðmætum.
  • vinna að því að einfalda regluverk og lækka álögur á rekstur fyrirtækja.
  • draga úr opinberum rekstri þar sem einkarekstur getur nýtt sameiginlega fjármuni okkar betur.
Þór Bínó Friðriksson
Þór Bínó Friðriksson
Eigandi og framkvæmdastjóri Ís 58 ehf.
Meira um Þór Bínó
Þór Bínó er eigandi og framkvæmdastjóri Ís 58 ehf. sem rekur meðal annars Ísbúðina Háaleiti. Þór Bínó hefur fjölbreytta reynslu af rekstri smærri fyrirtækja og rekur einnig ferðaskrifstofuna BB ehf. og viðburðafyrirtækið Reddum því ehf. Hann var áður stjórnandi hjá Reykjavik Excursions – Kynnisferðum um nokkurra ára skeið.

Þór Bínó hefur mikinn áhuga á félagsstarfi og hefur setið í stjórnum félagasamtaka ss. Björgunarfélags Akraness, KFUM og KFUK á Íslandi, Sumarbúðunum í Ölveri og Káldárseli ásamt fleiri félögum, bæði sem almennur stjórnarmaður og formaður.

,,Ég tel mikilvægt að efla en frekar það góða starf sem SVÞ hefur verið að sinna undanfarin ár. Til að ná því tel ég mikilvægt að samtökin haldi áfram að vaxa og ættu að horfa meira til lítilla fyrirtækja og einyrkja innan verslunar og þjónustu geirans. Eftir að hafa starfað sem stjórnandi í stórum og litlum fyrirtækjum og séð hversu mikilvæg svona samtök eins og SVÞ eru fyrir minni fyrirtæki þar sem baklandi er lítið eða ekkert tel ég mig hafa mikið fram að færa sem gæti nýst SVÞ til frekari uppbyggingar á komandi árum og öflunar nýrra félagsmanna.
Einnig tel ég mikilvægt að minni verslanir hafi talsmann innan stjórnar SVÞ“

Tinna Jóhannsdóttir
Tinna Jóhannsdóttir
Forstöðumaður markaðsmála, Reginn og Smáralind
Meira um Tinnu

Tinna Jóhannsdóttir starfar sem forstöðumaður markaðsmála hjá fasteignafélaginu Reginn og stýrir markaðsmálum Smáralindar og Regins auk þess að sinna viðskiptaþróun og öðru. Tinna situr einnig í stjórn Miðborgarinnar okkar og Markaðsstofu Kópavogs. Tinna er 41 árs gömul.

Tinna hefur áratuga reynslu sem stjórnandi í smásölufyrirtækjum en síðustu ár hefur hún stýrt markaðsmálum í stórum félögum.
Tinna er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands, viðskiptafræðingur með áherslu á markaðssamskipti og með diploma í mannauðsstjórnun.

„Sem stjórnandi til margra ára hef ég öðlast breiða og góða þekkingu á rekstri fyrirtækja sem mun nýtast innan hagsmunasamtakanna, SVÞ. Mér er annt um íslenska verslun og þjónustu og hef mikinn áhuga á leggja mitt á vogarskálarnar til að styrkja stöðu innlendra fyrirtækja innan SVÞ og rekstrarumhverfi þeirra.
Við þurfum að auka gagnaöflun til handa fyrirtækjum í landinu, styrkja stoðir okkar í alþjóðlegri samkeppni og auka á virðingu fyrir þeim störfum sem innan málaflokksins eru og gera verslunar- og þjónustustörf í landinu enn meira aðlaðandi starfsvettvang.
Ég tel mig búa yfir þekkingu, reynslu og áhuga sem nýtist SVÞ á þeirri vegferð að gera samtökin enn öflugari og gagnlegri málsvara atvinnurekenda í verslunar- og þjónustufyrirtækjum landsins“.