Höldum áfram – samstaðan mun fleyta okkur langt

Höldum áfram – samstaðan mun fleyta okkur langt

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 4. apríl:

Eins og margoft hefur verið sagt á undanförnum vikum er það sameiginlegt viðfangsefni okkar allra að komast í gegn um þann skafl sem við blasir. Og þó að sá vetur sem brátt kveður hafi flutt til okkar fleiri óveðurslægðir en tölu verður á komið, þá var glíman við snjóskafla vetrarins barnaleikur í samanburði við þær appelsínugulu heilsufars- og efnahagslegu viðvaranir sem við nú horfumst í augu við.

Við Íslendingar höfum áður þurft að glíma við erfiðleika og oftast leyst þá með prýði. Við ætlum að gera það einnig núna, enda má segja að við séum hokin af reynslu í þeim efnum. Langflest berum við fullt traust til þess fólks sem skipar framvarðarsveitina og vísar okkur veginn, enda nálgast þau verkefni sitt af yfirvegun og hæfilegri festu. Við höfum einnig fulla ástæðu til að hafa trú á sjálfum okkur og framtíð okkar, enda höfum við aldrei verið eins vel í stakk búin til að takast á við áföll og nú.

Við þessar aðstæður skiptir miklu að allir sem eiga þess kost haldi áfram sínu daglega lífi. Þar með talið að eiga þau viðskipti við verslanir og önnur þjónustufyrirtæki sem hver og einn telur nauðsynleg. Með því móti leggjum við okkar að mörkum til að draga úr neikvæðum afleiðingum þess faraldurs sem á okkur dynur. Með því móti leggjum við einnig okkar að mörkum til að gera þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem nú glíma við mikinn vanda, auðveldara að komast í gegn um erfiðleikana. Þar er sannarlega til mikils að vinna.

Sóttkví eða aðrar ástæður sem gera fólki ómögulegt að fara út úr húsi er þarna engin hindrun. Netverslun og heimsending er mál málanna við þessar aðstæður, enda er fjöldinn allur af verslunum og öðrum þjónustuaðilum farin að bjóða upp á slíkt. Ört stækkandi hópur neytenda nýtir sér þá þjónustu og leggur þar með sitt lóð á vogaskálina við að halda hagkerfinu gangandi.

Sýnum í verki samtakamátt okkar og skiptum við íslensk fyrirtæki. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til.

Sértilboð á Google leitarvélabestunarþjónustu

Sértilboð á Google leitarvélabestunarþjónustu

Félagsmenn SVÞ í Datera bjóða Google leitarvélapakka á sérkjörum fyrir félagsmenn í SAF, SI og SVÞ.

Um er að ræða uppsetningu og utanumhald herferðar ásamt birtingakostnaði í einn mánuð, auk ráðlegginga ef breytinga er þörf á vef til að tryggja ódýrari og betri niðurstöður í leit. Datera tryggir að fyrirtækið/netverslunin sé að birtast ofarlega í leitarniðurstöðum þegar notendur leita að viðkomandi fyrirtæki og helstu vörum/þjónustu sem eru í boði.

Pakki A: 120.000 kr án vsk.
Inniheldur birtingarkostnað í mánuð, 6 leitarorð og 10 mismunandi auglýsingaskilaboð

Pakki B: 180.000 kr án vsk.
Inniheldur birtingarkostnað í mánuð, 10 leitarorð og 20 mismunandi auglýsingaskilaboð

Ath: að fjórum viknum liðnum, þegar herferð lýkur, er auðvelt að framlengja henni og er þá einungis greitt fyrir birtingakostnað hjá Google.

Tilboðið gildir út maí 2020.

Hafið samband við Hreiðar Þór Jónsson hjá Datera: hreidar(hjá)datera.is, S: 788 0707

SVÞ, SAF og SI hafa tekið höndum saman um verkefnið Höldum áfram!

SVÞ, SAF og SI hafa tekið höndum saman um verkefnið Höldum áfram!

Höldum áfram!  er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka iðnaðarins en verkefninu er ætlað að vera liður í því að vernda störf og halda hjólum atvinnulífsins gangandi eftir bestu getu á tímum COVID-19. Hugmyndin er að virkja félagsmenn sem allra mest og fá þá til þátttöku í verkefninu.

Verkefnið er unnið eftir lean-aðferðafræðinni og því er farið af stað þó ekki sé allt fullkomið þar sem alltaf má bæta og þróa. Vefurinn www.holdumafram.is hefur verið opnaður en þar eru komnar ýmsar upplýsingar sem gagnast ættu aðildarfyrirtækjum. Sett hefur verið upp Facebook-síða verkefnisins, Facebook.com/holdumaframog verkefnið er einnig á Instagram, Instagram.com/holdumafram, þar sem efni verður deilt sem snýr bæði að almenningi og fyrirtækjum. Þá hefur verið settur upp Facebook hópurinn SAF, SVÞ og SI halda áfram! sem er eingöngu ætlaður félagsmönnum.

Verkefnið snýr meðal annars að því að:

  • Hvetja almenning að versla við íslensk fyrirtæki
  • Setja fram hugmyndir fyrir almenning um hverskonar viðskipti er hægt að eiga á þessum tímum
  • Safna saman tilboðum frá félagsmönnum
  • Flytja fréttir af því sem félagsmenn eru að gera sem kann að vera áhugavert fyrir almenning og getur líka verið hvatning og innblástur fyrir önnur fyrirtæki

Við hvetjum félagsmenn til þátttöku og almenning til að taka áskoruninni og halda áfram viðskiptum eftir því sem fólk getur, til að vernda störf og halda hjólum atvinnulífsins gangandi!

Tímabundin rekstrarráðgjöf Litla Íslands fyrir SVÞ félaga

Tímabundin rekstrarráðgjöf Litla Íslands fyrir SVÞ félaga

Vegna þeirra efnahagslegu áskorana sem viðskiptalífið stendur nú frammi fyrir býður Litla Ísland upp á tímabundna rekstraráðgjöf til félagsmanna. Rekstrarsérfræðingur Litla Íslands er Ingibjörg Björnsdóttir lögmaður og viðurkenndur bókari en hún hefur áralanga reynslu af fyrirtækjarekstri og rekstrarráðgjöf.

Þeir félagsmenn sem hafa áhuga á að ræða við rekstrarsérfræðing Litla Íslands geta pantað símatíma eða rekstrarviðtal á LitlaIsland.is/rekstrarvidtal

 

Hvað felst í rekstrarráðgjöf Litla Íslands? 

 

1. Í rekstrarviðtali er farið almennt yfir helstu þætti í rekstrinum og hvar betur megi fara. Ef rekstrargrunnur er almennt góður en styrkja mætti hann enn frekar er félagsmanni bent á hvar hann getur leitað frekari aðstoðar við uppbyggingu á sterkum rekstrargrunni. Því sterkari sem rekstrargrunnur fyrirtækja er því meiri líkur eru á að yfirstíga tímabundinn rekstrarvanda.

2. Ef í rekstrarviðtali kemur í ljós að rekstrargrunnur er veikur og illa undir það búinn að takast á við áskoranir í atvinnulífinu og erfið rekstrarskilyrði getur félagsmaður fengið aðstoð við að greina veikleika í rekstri sem og leiðir til úrbóta með rekstrarúttekt. Í framhaldi er félagsmanni bent á hvar hann geti leitað frekari aðstoðar við endurskipulagningu.

2. Ef í rekstrarviðtali kemur í ljós að rekstrargrunnur er að bresta getur félagsmaður fengið neyðaraðstoð sem felst m.a. í greiningu á greiðsluerfiðleikum sem og úrræðum til að takast á við aðkallandi greiðsluvanda. Ef rekstur er lífvænlegur fær félagsmaður ráðleggingar um úrræði við greiðsluvanda sem og fyrstu hjálp við að fyrirbyggja frekari rekstrarvanda eða gjaldþrot. Í aðstoð felst m.a. samskipti við kröfuhafa og viðskiptabanka þar til mesta hættan er liðin hjá og félagsmaður á tök á að leita frekari aðstoðar við fjárhagslega uppbyggingu.

3. Ef rekstrarviðtal leiðir í ljós brostinn rekstrargrunn og gjaldþrot er óumflýjanlegt fær félagsmaður ráðleggingar á sviði skiptaréttar svo gjaldþrot fari fram í samræmi við reglur gjaldþrotaskiptalaga.

 

Þú getur bókað ýmist 15 mínútna símatíma eða klukkustundarlangt viðtal.

Athugið að rekstrarráðgjöf Litla Íslands er eingöngu í boði fyrir fyrirtæki sem eru aðilar að þeim samtökum sem að verkefninu standa, þ.e. Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Frekari upplýsingar um verkefnið og samtökin sem að því standa má finna hér.