01/03/2019 | Fréttir, Umhverfismál, Viðburðir
SVÞ stóð að morgunverðarráðstefnu þann 19. febrúar um ávinninginn af sjálfbærni og loftslagsmálum fyrir fyrirtæki í verslun og þjónustu.
Dr. Hafþór Ægir frá CIRCULAR Solutions flutti aðalerindi ráðstefnunnar þar sem fjallað var um helstu tækifæri og áskoranir fyrirtækja nú þegar aukin áhersla er á sjálfbærni frá öllum hagaðilum og víðsvegar í virðiskeðjum þeirra. Hann fór yfir sjálfbærnimengið út frá áhrifum á hina þrískiptu rekstrarafkomu (fólk, jörðina, og hagnað) og einnig út frá langtímaáhættustýringarsjónarmiðum.
Gréta María framkvæmdastjóri Krónunnar fjallaði um vegferð Krónunnar í umhverfismálum og hvaða áhrif það hefur haft. Gréta fjallaði jafnframt um hvaða tilgang fyrirtæki eins og Krónan gegna í þessum efnum. Í því samhengi var fjallað umhverfisvænni umbúðir og umhverfisvænni plast fyrir verslanir. Þá nefndi Gréta meðal annars að mikilvægt væri að meira samtal ætti sér stað milli framleiðenda og söluaðila til stuðla að aukinni sjálfbærni í ferlinu.
Ina Vikøren, yfirmaður sjálfbærnimála hjá H&M í Noregi og Íslandi fjallaði um sjálfbærnistefnu og markmið H&M. Þar á meðal hefur H&M einsett sér að fyrir árið 2030 muni öll textílefni vera úr endurunnum efnum eða efnum sem vottuð eru sem sjálfbær. Árið 2040 stefnir H&M svo á að vera 100% loftslagsjákvætt (e. climate positive) þ.e. að öll virðiskeðja H&M hafi jákvæð áhrif loftslagið.
Myndir frá viðburðinum má sjá hér á Facebook.
Glærurnar af fyrirlestrunum má sjá hér fyrir neðan:
Glærur Hafþórs
Glærur Grétu Maríu
Glærur Inu Vikøren
01/03/2019 | Fréttir, Viðburðir
Hinn 14. mars nk. klukkan 12.30 hefst aðalfundur SVÞ á Hilton Nordica.
Á fundinum verður m.a. gerð grein fyrir úrslitum í kjöri til fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins og kjöri þriggja meðstjórnenda SVÞ fyrir kjörtímabilið 2019-2021.
Sjálfkjörið er í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins en kosning í stjórn SVÞ fer fram með rafrænum hætti. Hér má sjá kynningu á frambjóðendum.
Hinn 4. mars nk. fá félagsmenn sendan tölvupóst með kjörgögnum ásamt leiðbeiningum um það hvernig kosningin fer fram.
DAGSKRÁ AÐALFUNDAR
Boðið verður upp á hádegismat.
12.30 Setning fundar
- Skýrsla stjórnar
- Reikningar samtakanna
- Lýst kosningu í stjórn
- Ákvörðun árgjalda
- Kosning löggilts endurskoðanda
- Lýst kosningu í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins
- Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál
Vinsamlegast skráið ykkur hér:
01/03/2019 | Fréttir
Meðstjórnendur í stjórn SVÞ 2019
Í samræmi við ákvæði samþykkta SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu fer fram kosning meðstjórnenda SVÞ í tengslum við aðalfund samtakanna hinn 14. mars nk. Hver félagsaðili fer með atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2018. Hverjum heilum 1.000 krónum í greidd félagsgjöld fylgir eitt atkvæði. Tekið skal fram að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með greiðslu vangoldinna félagsgjalda.
Árlega eru kosnir þrír meðstjórnendur til tveggja ára. Þar sem einn núverandi meðstjórnenda hefur boðið sig fram til formennsku samtakanna og fyrir liggur að hann er sjálfkjörinn verður til viðbótar kosið um einn meðstjórnanda í hans stað fyrir það sem eftir lifir af kjörtímabilinu 2018–2020.
Alls bárust sjö framboð.
Nánari upplýsingar og lykilorð verða send á félagsmenn mánudaginn 4. mars nk. en opnað verður fyrir kosningu þann sama dag.
Í framboði til stjórnar SVÞ eru:
Anna Katrín Halldórsdóttir, Íslandspósti
Anna Katrín er framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Íslandspósts. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu sem stjórnandi og ráðgjafi og hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja.
„Ég hef mikinn áhuga á að starfa fyrir SVÞ og tel að reynsla mín sem bæði stjórnandi og ráðgjafi ásamt víðtækri þekkingu minni á stjórnun, stefnumótun og þjónustumálum muni koma sér vel fyrir samtökin. Ég hef mikla reynslu og yfirsýn yfir starfsemi þjónustufyrirtækja og hef auk þess starfað náið með fyrirtækjum í smásölu í gegnum flutningageirann. Ég vil leggja áherslu á stafræna þróun í verslun og þjónustu, m.a. hvernig unnt er að nýta hana til að auka framleiðni og bæta þjónustu. Einnig vil ég sjá netverslun á Íslandi þróast í takt við það sem er að gerast á alþjóðavísu en með því eflist íslensk verslun. Ég legg áherslu á að SVÞ haldi áfram að styðja við bakið á og efla netverslun í landinu og tel að þekking mín á slíkri verslun og þróun hennar muni gagnast samtökunum.“
Ari Þórðarson, Hreint ehf.
Ari er framkvæmdastjóri Hreint ehf. sem er ein elsta og stærsta ræstingaþjónusta landsins.
„Ræstingaþjónusta er nokkuð stór og vaxandi þjónustugrein í íslenskum veruleika. Meðal félaga í SVÞ eru allmörg fyrirtæki sem starfa í greininni og hefur er sá hópur vaxandi. Á annað hundrað fyrirtæki eru starfsrækt sem þjónustufyrirtæki á sviði ræstinga og tengdrar þjónustu. Þessi fyrirtæki þjónusta önnur fyrirtæki og stofnanir í landinu og þau veita nokkur þúsundum manna atvinnu. Ætla má að árleg velta fyrirtækja í greininni nemi um 10 milljörðum kr. Innan SVÞ starfar faghópur ræstingarfyrirtækja. Ég hef áhuga á setu í stjórn SVÞ og býð fram krafta mína til starfa á þeim vettvangi.“
Árni Stefánsson, Húsasmiðjunni ehf.
.
Árni hefur starfað sem forstjóri Húsasmiðjunnar frá árinu 2013. Hann hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum, vörustýringu, sölu- og markaðsmálum. Árni er sitjandi varaformaður SVÞ og hefur gengt þeirri stöðu undanfarið ár.
„Ég hef víðtækan áhuga sölu- og markaðsmálum. Ég tel að íslensk verslun eigi að njóta laga- og rekstrarumhverfis sem tryggir og styður við hæfni hennar gagnvart sívaxandi erlendri samkeppni. Jafnframt mun ég beita mér fyrir því að íslenska menntakerfið bjóði ungu fólki fleiri áhugaverða valkosti til sérmenntunar á sviði verslunar og þjónustu.“
Guðjón Sigurbjartsson, HEI ehf.
Guðjón er framkvæmdastjóri HEI ehf. sem starfar í ferðatengdri heilbrigðisþjónustu. Áður rak Guðjón fyrirtækið Tanni auglýsingavörur ásamt konu sinni Guðrúnu Barböru í um 20 ár. Þar á undan var Guðjón m.a. fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur og yfirmaður fjármála og rekstrardeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar.
„Ég er viðskiptafræðingur og hef áhuga á stjórnmálum. Ég hef þekkingu á landbúnaðarmálum og styð frekari þátttöku Íslands í Evrópusamstarfinu. Ég styð umbætur í landbúnaði með hag almennings að leiðarljósi og hef með greinarskrifum í dagblöðum m.a. beitt mér fyrir sjónarmiðum neytenda. Ég tel tollvernd landbúnaðarvara rýra lífskjör íslendinga og er tilbúinn til að beita mér fyrir umbótum á því sviði.“
Guðrún Jóhannesdóttir, Kokku ehf.
Guðrún er framkvæmdastjóri Kokku ehf. Guðrún hefur verið í verslunarrekstri við Laugaveg frá árinu 2001 auk þess sem hún hefur rekið verslanir í Kringlunni og Smáralind. Hún situr í stjórn heildverslunarinnar Lifu ehf. og er stjórnarformaður Rannsóknarseturs verslunarinnar.
„Miklar breytingar eru að eiga sér stað á verslun og störfum innan verslunargeirans. Mikilvægt er að íslensk verslun hafi tækifæri til að fylgja þeirri þróun. Þörf er á bættri tölfræði, aðgangi að starfsmenntun og auknu upplýsingaflæði. Ég vil vera rödd minni fyrirtækja innan SVÞ og vinna að bættu rekstarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“
Kjartan Örn Sigurðsson, Verslanagreiningu ehf.
Kjartan Örn er framkvæmdastjóri Verslanagreiningar ehf. sem hefur starfað með mörgum af stærstu verslunar- og þjónustufyrirtækjum landsins. Kjartan Örn hefur haldgóða reynslu af stjórnun og rekstri fyrirtækja á smásölumarkaði á Íslandi og erlendis.
„Ég bý að reynslu af stjórnarsetu m.a. í SVÞ og SA. Ég er menntaður stjórnmálafræðingur með MBA próf frá Háskóla Íslands og hef haldgóða reynslu af stjórnun og rekstri fyrirtækja á smásölumarkaði á Íslandi og Bretlandi síðastliðinn aldarfjórðung. Samhliða stöfum mínum fyrir Verslanagreiningu ehf. er ég starfandi meðeigandi hjá heilsölufyrirtækinu SRX ehf. og tryggingafyrirtækinu Viss. Ég var áður forstjóri Egilsson hf., eigandi Kvosarinnar, framkvæmdastjóri hjá Strax í evrópu og markaðsstjóri hjá B&L. Ég vil standa vörð um og efla vörumerkið íslensk verslun og samstarf aðila á markaði og er tilbúinn að leggja mitt af mörkum til þessa verkefnis.“
Ómar Þorgils Pálmason, Aðalskoðun hf.
Ómar Þorgils Pálmason er eigandi Aðalskoðunar hf. og arekstur.is sem hann stofnaði fyrir 11 árum. Ómar hefur mikla reynslu af frumkvöðlavinnu, markaðssetningu og rekstri fyrirtækja.
„Ég vil hafa gott jafnvægi milli stórra og minni fyrirtækja í stjórn SVÞ. Lykillinn að skilvirku starfi samtakanna er að í stjórnin veljist sem breiðastur hópur karla og kvenna sem starfa bæði við verslun og þjónustu. Nú sem aldrei fyrr en nauðsynlegt að standa vörð um þessa tvo lykilþætti.“
01/03/2019 | Fréttir, Viðburðir
Aðalfundur SVÞ verður haldinn 14. mars nk. Í tilefni af honum verður blásið til ráðstefnu og verður aðalræðumaðurinn Greg Williams, aðalritstjóri WIRED Magazine.
Ætlar þú að vera með í að keyra framtíðina í gang eða sitja eftir?
Greg er virtur sérfræðingur þegar kemur að breytingum í tækni og viðskiptum og hvernig þær hafa áhrif á viðskiptalífið og samfélög okkar í heild. Í starfi sínu er Greg í samskiptum við frumkvöðla, hugsuði, vísindafólk, athafnafólk og skapandi fólk sem er að breyta heiminum og skrifar um fjölmörg málefni á borð við nýsköpun, tækni, viðskipti, sköpun og hugmyndir. Hann hefur einstakt lag á að setja flóknar hugmyndir fram á skemmtilegan og aðgengilegan hátt og undirbúa áheyrendur undir það sem koma skal.
Að auki munu halda erindi Margrét Sanders, fráfarandi formaður SVÞ, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Köru connect ehf.
Fundarstjóri verður Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og formaður stýrihóps um gerð nýsköpunarstefnu Íslands
Hvar: Hilton Nordica, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík
Hvenær: Fimmtudaginn 14. mars kl. 14:00-16:00
SKRÁÐU ÞIG HÉR
27/02/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kveiks hefur umræða um að átt hafi verið við kílómetramæla bílaleigubíla verið í hámæli. Að minnsta kosti tvær bílaleigur hafa viðurkennt að hafa stundað slíka háttsemi. Þegar álitsgjafar hafa verið spurðir hvað sé til ráða til að tryggja að slík háttsemi eigi sér ekki stað virðast þeir allir nefna nauðsyn þess að óháðir aðilar yfirfari kílómetrastöðu og kílómetramæla bifreiðanna með reglulegum hætti. Hins vegar hefur menn greint annars vegar á um hvort eftirlitið eigi að vera í höndum skoðunarstöðva ökutækja eða einhverra annarra óskilgreindra aðila, og hins vegar hvert umfang eftirlitsins á að vera.
Afstaða SVÞ er sú að best fari á því að eftirlitið eigi sér stað við aðalskoðun bílaleigubíla og að nauðsynlegt sé að auka tíðni hennar. Frá upphafi árs 2009 hafa fólksbílar farið fyrst í aðalskoðun á fjórða ári eftir skráningu, annað hvert ár í tvö næstu skipti, og árlega eftir það. Þetta á við um alla fólksbíla nema leigubíla, sem skoðaðir eru árlega. Sterkar vísbendingar eru hins vegar um að bílaleigubílar séu eknir álíka mikið á fyrsta einu til einu og hálfu árinu og fólksbílar í eigu einstaklinga eru eknir á fyrstu þremur til fjórum árum eftir nýskráningu. Við þetta bætist að nú stendur yfir innleiðing á Evrópugerð þar sem beinlínis er gert ráð fyrir að við aðalskoðun beri skoðunaraðilum að yfirfara kílómetramæla bifreiða. Þá er kveðið á um skyldu aðildarríkjanna til að beita þá refsingu sem eiga við kílómetramæla ökutækja. SVÞ telja því eðlilegt að bílaleigubílar fái aðalskoðun ár hvert eins og leigubílar.
Fölsun kílómetrastöðu er alvarlegt vandamál á alþjóðavísu. Hingað til hafa Íslendingar hins vegar lítt verið meðvitaðir um tíðni og útbreiðslu slíkrar fölsunar þó Evrópusambandið hafi talið tilefni til að bregðast sérstaklega við. Regluleg bifreiðaskoðun er framkvæmd til að treysta umferðaröryggi. Skilvirknirök mæla með því að brugðist verði við þeirri stöðu sem upp er komin með því að auka skoðunartíðni bílaleigubíla. Með slíkri aðgerð yrði traust á eftirmarkaði ökutækja endurreist og neytendum og fyrirtækjum sem eiga viðskipti á eftirmarkaði veitt nauðsynleg vernd gegn því að ökutækið sé í verra ástandi en aldur og staða kílómetramælis gefa til kynna.