Ráðabrugg gegn jafnræði

Ráðabrugg gegn jafnræði

Eftifarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 20. mars:

Þegar allt í kringum okkur er gengið hröðum skrefum og stórum til framtíðar, verða stuttu skrefin þannig að engu er líkara en að um kyrrstöðu eða afturför sé að ræða. Þetta má segja um frumvarp dómsmálaráðherra sem kemur til móts við umtalsverða grósku smærri brugghúsa er sprottið hafa upp um land allt. Verði það að lögum fá brugghúsin leyfi til þess að selja sitt fjölbreytta úrval af handverksbjór á framleiðslustað. Sú nýbreytni er til þess fallin að auka tilbreytingu í verslun og vera eftirsótt viðbót í ferðaþjónustu.

Jafnræði í nýjum veruleika

Veruleikinn hefur þó farið mörgum skrefum frammúr okkur með tilkomu alþjóðlegrar vefverslunar. Í vaxandi mæli fá Íslendingar vín og bjór sendan heim til sín eftir þeim leiðum. Umfang netverslunar vex með ógnarhraða og auglýsingar frá vín- og bjórframleiðendum erlendis eru áberandi á samfélagsmiðlum, þeim miðlum sem er orðin hin almenna leið til að afla sér upplýsinga og þekkingar. Í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) um það takmarkaða afnám einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er einmitt lögð höfuðáhersla á jafnræði til vefverslunar.

Óboðlegt viðskiptaumhverfi

Það hreinlega gengur ekki upp að erlendum vefverslunum sé heimilt að höndla án takmarkana með bjór og léttvín á íslenskum markaði á sama tíma og innlendar vefverslanir eru útilokaðar. Veruleikinn er einfaldlega sá að innlendir bjórframleiðendur flytja nú þegar afurðir sínar frá Íslandi í þeim eina tilgangi að senda þær aftur til landsins í gegnum erlendar vefverslanir, t.d. verslun Amazon í Bretlandi. Svona viðskiptahættir eru ekki boðlegir í dag, hvort sem litið er til jafnræðissjónarmiða eða kolefnisfótspors.

Hverjir réðu afturförinni?

Á undirbúningsstigi umrædds frumvarps voru drög að því birt í tvígang á samráðsgátt stjórnvalda, www.Island.is. Í bæði skiptin var gert ráð fyrir að heimilaður yrði rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda með vissum takmörkunum. Til grundvallar lágu þau rök að æskilegt væri að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar í ljósi þess að almenningi væri heimilt að kaupa áfengi í gegnum netverslun frá útlöndum og flytja til landsins til einkaneyslu á meðan slík verslun væri ekki heimil í vefverslun sem starfrækt væri hér á landi. Með því að heimila innlenda vefverslun með áfengi væri lagaleg staða innlendrar og erlendrar vefverslunar með áfengi jöfnuð. Vandséð er hvernig hægt er að réttlæta bann við atvinnurekstri sem snýst um sölu á vöru sem almenningur getur flutt inn að vild til einkaneyslu. Fróðlegt væri að fá upplýst hversvegna þessu sjálfsagða jafnræðissjónarmiði var kippt út úr frumvarpinu. Hverjir knúðu fram þá afturför?

Skref sem myndu bæta stöðuna

SVÞ hafa ávallt hafa lagt ríka áherslu á viðskiptafrelsi. Afstaða samtakanna er sú að stefna beri að því í markvissum skrefum að aflétta einokun ríkisins á viðskiptum með bjór og vín. Mikilvægt er að framkvæmdin sé skýr og afmörkuð þannig að engin óvissa skapist og vel sé um alla umgjörð búið. Reynsluna af hverju skrefi í afnámi einokunar á verslun með áfengi þarf að meta og hafa til hliðsjónar við töku næsta skrefs. Að sjálfsögðu þarf að gæta að lýðheilsusjónarmiðum og vönduðum vinnubrögðum í hvívetna, eins og gildir um alla þróun verslunar og þjónustu. Það er afstaða SVÞ að ekki sé hægt að styðja afgreiðslu frumvarpsins, sem hér er til umræðu, þótt það sé jákvætt í eðli sínu, nema því verði breytt á þann hátt að innlend netverslun með bjór og léttvín verði heimiluð samhliða því að innlendum framleiðendum verði heimiluð smásala á framleiðslustað. Það væru skref sem um munaði og myndu stuðla að jafnræði í verslun og jafnfætisstöðu í samkeppni, bæði íslenskra vefverslana og framleiðenda á Íslandi.

 

Leiðin út úr kófinu er stafræn

Leiðin út úr kófinu er stafræn

Eftirfarandi grein eftir Þórönnu K. Jónsdóttur birtist í Viðskiptablaðinu þann 19. nóvember, en Þóranna sér um verkefni innan SVÞ sem snúa að stafrænni þróun.

Nýr veruleiki

Fyrir flest okkar hefur heimsfaraldur COVID-19 snarbreytt sumum þáttum lífs okkar. Í stað þess að mæta á skrifstofuna vinnum við að heiman með hjálp netsins og tækninnar, í stað þess að hittast tökum við fundi á Teams, Zoom og fjölmörgum öðrum stafrænum vettvöngum. Í stað þess að fara út í búð sitjum við heima og veljum í matarkörfuna í tölvunni, fáum hlutina senda heim, eða a.m.k. sækjum bara allt heila klabbið á einn stað. Krakkar sem áður sátu í skólastofu eru flest búin að kynnast námi yfir netið, hvort sem það hefur verið vegna sóttkvíar, skiptingar nemenda í hópa eða, eins og framhalds- og háskólanemarnir okkar þekkja, vegna þess að allt nám hefur færst yfir í fjarnám. Fyrir þá sem ekki hafa hugað að þessum málum hingað til er þetta oft stærsta stafræna umbreytingin sem fólk er virkilega meðvitað um að hafa tekið þátt í.

Ímyndaðu þér ástandið núna ef við hefðum ekki þessa stafrænu tækni til að geta haldið áfram að vinna, geta haldið áfram að versla það í matinn sem við erum vön, geta haldið áfram að læra og til að geta hitt fólk í hljóði og mynd á netinu þegar við getum ekki eins auðveldlega hist í raunheimum.

Stafræn umbreyting á ógnarhraða

Stafræn tækni hefur ekki bara bjargað fjölmörgu á þessum kórónuveirutímum heldur hefur hraði stafrænnar umbreytingar einnig margfaldast. Satay Nadella, forstjóri Microsoft, sagði nýlega að hraði breytinganna væri að aukast svo mikið að fyrirtækið væri að sjá þróun sem venjulega tæki 2 ár núna taka einungis 2 mánuði.

Þessi ógnarhraða stafræna þróun er góð – eða er hún slæm? Hún er tvíeggja sverð. Það er gott að við skulum hafa tæknina til að geta haldið hlutunum gangandi, en það er ekki gott ef að við höfum ekki hæfnina til að nýta hana – eða þegar sumir hafa hana og aðrir ekki, sem veldur ójöfnuði meðal fólks, meðal fyrirtækja – og meðal þjóða. Það eru t.d. ekki allir sem geta bara farið að vinna heima með hjálp tækninnar. Mörg störf bjóða ekki upp á það, og efnahagsáhrif faraldursins verða jafnframt til þess að fjölmörg störf glatast. Hvað þá?

Lykillinn að endurreisn efnahagkerfa

Sérfræðingum ber saman um að stafræn umbreyting, þ.e. aukin notkun stafrænnar tækni til að leysa hin ýmsu verkefni, sé lykillinn að því að endurreisa efnahagskerfi heimsins. En hvernig?

Jú, ólíkt því sem margir halda, þá veldur stafræn umbreyting ekki bara því að störf hverfa, heldur skapar hún fjölmörg störf. Innan OECD hafa 4 af hverjum 10 störfum sem skapast hafa sl. áratug verið innan stafrænt væddra atvinnugreina og OECD hefur lýst því yfir að hræðslan við fækkun starfa vegna tækniþróunar hafi ekki raungerst, heldur þvert á móti stuðlað að verulegri starfasköpun.

Stafræn tækni er einnig samofin nýsköpun og frumkvöðlastarfi – og fólk er almennt sammála um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er ein öflugasta leiðin til sköpunar bæði starfa og verðmæta. Án tækni verður nýsköpun ósköp fátækleg – jafnvel bara engin. Stafræn tækni gerir okkur líka kleift að þróa vörur og þjónustur sem auðvelt er að selja og yfir netið, og geta jafnvel kallað á minni fjárfestingu og minni áhættu en t.d. hefðbundnar áþreifanlegar vörur. Að ekki sé talað um þá miklu möguleika sem felast í því að nýta netið og stafræna tækni betur til sölu og markaðssetningar á alþjóðlega markaði.

Síðast en ekki síst gerir stafræn tækni okkur kleift að vinna, læra og taka þátt í hinum ýmsu verkefnum – og samfélaginu sjálfu – óháð staðsetningu, sem er fagnaðarefni í landi þar sem fáir búa dreift á stóru landsvæði.

Til að nýta þurfum við að kunna

En til þess að geta nýtt stafræna tækni til allra þessara góðu hluta þurfum við að kunna á hana. Stafræn hæfni er lykilatriði og hún er ekki eitthvað sem við fæðumst með. Jú, við erum klár að nota tölvurnar okkar og símana sem neytendur og notendur tækninnar – en við þurfum að verða öflugri í því að nýta hana til að skapa og að hafa frumkvæði að því að nýta hana okkur til framdráttar.

Þess vegna þarf stafræna hæfni. Og þess vegna hafa SVÞ og VR lagt áherslu á það í hvatningu til íslenskra stjórnvalda að efla þurfi stafræna færni og m.a. hafið samstarf að undirbúningi Stafræns hæfniseturs, ásamt Háskólanum í Reykjavík, til að stuðla að aukinni stafrænni hæfni meðal íslenskra stjórnenda og starfsfólks. Því þannig getum við nýtt tæknina í botn til að koma okkur á sem hraðastan og öflugastan hátt út úr kófinu!

Ekkert eftirlit með eftirlitinu?

Ekkert eftirlit með eftirlitinu?

Benedikt Benediktsson, lögfræðingur SVÞ skrifar í Fréttablaðið þann 9. september sl.

Aðvörun: Í þessari grein er orðið „eftirlit“ svo margtuggið að það mætti halda að engin hafi annast eftirlit með skrifunum. Það er í stuttu máli kórrétt og sennilega ámælisvert.

Ef maður gúgglar orðin „eftirlit brást“ fást fjölmargar leitarniðurstöður. Ef tekin eru handahófskennd dæmi virðast menn t.d. telja að eftirlit hafi brugðist á sviði starfsemi vistheimila, opinberra innkaupa, umhverfismála, heilbrigðismála, fjármálastofnana, rekstrar sendiráða, dýravelferðar og matvæla, fiskeldis, landamæragæslu og mannvirkjagerðar. Ef lesið er milli línanna vaknar oft grundvallar spurningin hvort það sé virkilega svo að engin hafi eftirlit með eftirlitinu? Margar ástæður geta reynst vera fyrir því að eftirlit bregst. Til að mynda taldi ein af rannsóknarnefndum Alþingis að slíka ástæðu mætti rekja til útbreidds skeytingarleysis í umgengni við eftirlit, skilningsleysi á því hvað gerir eftirlit virkt og trúverðugt og áhrifa pólitískra ráðninga. Önnur rannsóknarnefnd taldi ekkert mikilvægara en að eftirlitsaðilar væru óháðir og eftirlitsheimildir þeirra væru ótvíræðar.

Hvað gerist þegar eftirlit bregst?

Þegar eftirlit hefur brugðist getur komið til þess að Ríkisendurskoðun eða umboðsmaður Alþingis dragi af því ályktanir. Endapunkturinn er oft sá að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ályktar um brestina. Fjölmiðlar taka við og við skrælingjarnir eigum ekki orð yfir því allsherjareftirlitsleysi sem ríkir. Sumir ganga svo langt að kalla eftir afsögn einhvers eða jafnvel refsingu. Það eru oft endalok málsins.

Af hverju gerum við þetta ekki betur?

En er ekki til skilvirkari leið til eftirlits með eftirliti en eftiráeftirlit sem skilar eftirlitsniðurstöðu sem efnislega felur í sér að einhver annar hafi brugðist við eftirlit? Svarið við spurningunni er jákvætt, bæði skilvirkara og vandaðra eftirlit með eftirliti er ekki bara til heldur er það í notkun á Íslandi. „HA!“ mundi einhver eflaust segja, „getur það verið?“

Um síðustu áramót voru 269.825 fólksbílar skráðir á Íslandi og eigendur þeirra fara með bílinn í reglulega skoðun á skoðunarstöð. Skoðunarstöðvum hefur verið falið að hafa eftirlit með því að ökutæki séu í ásættanlegu ásigkomulagi enda getur notkun þeirra verið frekar hættuleg. Til að skoðunarstöð sé heimilt að stunda bifreiðaskoðun þarf hún hafa hafa fengið svokallaða faggildingu. Í grófum dráttum er faggilding ekkert annað en vottorð um að starfsemi skoðunarstöðvarinnar sé í lagi, starfsmennirnir viti hvað þeir eru að gera og „eitthvað annað“ sé ekki að hafa áhrif á niðurstöðu skoðunar. Til að skoðunarstöð fái faggildingu og viðhaldi henni þarf hún að uppfylla ýmis skilyrði. Skilyrðin eru í grundvallaratriðum ákveðin á alþjóðlegum vettvangi og stefna þau að því að auka traust neytenda á vörum og þjónustu. Þegar ég fer með bílinn í skoðun get ég treyst því að einhver hefur eftirlit með skoðunarstöðinni. Því þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að kaupa köttinn í sekknum og haldi út á þjóðveginn á stórhættulegu tæki eða labbi ella heim eftir að skráningarnúmerið hefur að ósekju verið fjarlægt af bílnum.

Og hvað svo?

En þá kynni einhver að spyrja: „Fyrst fargsnyrpling er til (Innskot: Það getur verið erfitt að muna orðið faggilding) af hverju hafa ekki allir eftirlitsaðilar faggildingu?“. Á því eru margar skýringar og meðal þeirra eru lítil meðvitund um tilvist faggildingar, takmarkaður skilningur á faggildingu, m.a. af hálfu stjórnvalda og neytenda, og sérstakur áhugi þeirra sem hafa eftirlit á því að sæta ekki of miklu eftirliti sjálfir og þá helst aðeins eftirliti frá þeim sem þeir þekkja.

Af blómaverslunum, dyntóttum mönnum og óbreytanlegum ríkisvilja

Af blómaverslunum, dyntóttum mönnum og óbreytanlegum ríkisvilja

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ skrifar í Fréttablaðið þann 26. ágúst sl.:

Blóm gleðja

Sennilegast eru fáir sem heimsækja blómaverslanir daglega en þeim virðist þó hafa fjölgað sem kaupa blóm og plöntur í því skyni að fegra heimilið eða gleðja aðra. Ég leyfi mér að halda því fram að minningar manna um ferðir í blómaverslanir snúi fyrst og fremst að ferðum í litlar og huggulegar blómaverslanir sem eru reknar af fólki sem er annt um blóm og plöntur og hefur mikla þekkingu á hvernig ber að setja þær fram og annast þær. Flestar blómaverslanir eru litlar, oft einstaklings- eða fjölskyldufyrirtæki. Blóm gleðja og starfsfólk blómaverslana eyðir starfsorkunni í að gera einmitt það að verkum, að við gleðjumst.

Grunnrekstur blómaverslunar er ekki margbrotinn. Viðskiptavinir sækja þangað blóm og plöntur og e.t.v. gjafarvörur og tækifæriskort. Það er tilvistarforsenda blómaverslana að meginsöluvörurnar séu til staðar. Söluvörurnar eru í eðli sínu ferskvörur og eðlilega hafa blómaverslanir sóst eftir því að bjóða upp á vörur sem eru framleiddar á Íslandi.

Hvaðan koma blómin og plönturnar?

Eitt sinn gátu blómaverslanir keypt vörur beint frá bónda en það er ekki lengur hægt. Vilji blómaverslanir hafa íslenskar vörur á boðstólum þurfa þær að kaupa þær í tveimur blómaheildverslunum. Hjá þeim mæta blómaverslanir oft afgangi. Fyrir stóra viðskiptadaga eins og konudaginn hefur þeim jafnvel aðeins staðið til boða fyrirframákveðinn og mjög smár skammtur af söluvörum.

Auðvitað gerist það reglulega í viðskiptum að viðskiptavilji dvínar og við því bregðast menn oft með því að beina viðskiptunum annað. Vegna stöðunnar geta blómaverslanir aðeins snúið sér til erlendra birgja. En í innflutningnum er enn eina hindrunina að finna; þau blóm og plöntur sem blómaverslanir þurfa á að halda bera afar háa skatta.

Hlutur ríkisins í gleðinni

Ég held að fæstir geri sér grein fyrir því að þegar þeir kaupa eina rós í blómaverslun þá hefur verslunin e.t.v. þegar greitt nálega 150 kr. í tolla og virðisaukaskatt af blómi sem kostaði 80 kr. í innkaupum. Enn ýktari dæmi mætti taka, sum blóm kosta 25 kr. í innkaupum en hið opinbera hefur fengið nálega 130 kr. þegar varan er boðin til sölu.

Svona hefur þetta að meginstefnu verið í tuttugu og fimm ár hið minnsta. Ríkisvaldið ákvað að innlendir blóma- og plöntuframleiðendur skyldu njóta verndar fyrir samkeppni erlendis frá. Verndin er í formi svo hárra tolla að engin kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Á þessum tíma hefur hins vegar margt breyst. Neytendur vilja allt önnur blóm og plöntur, innlendum framleiðendum hefur fækkað verulega, blómaverslunum hefur fækkað, aðrar verslanir en blómaverslanir eru með blóm á boðstólum, blómaverslanir geta ekki lengur keypt beint af bónda og heildsölurnar ráða ferðinni.

Tvær kylfur og engin gulrót

Ekki hafa orðið teljandi breytingar á tollum af blómum og plöntum. Þegar gerðir hafa verið fríverslunarsamningar virðist þess jafnan hafa verið gætt að blómaverslanir og viðskiptavinir þeirra njóti ekki góðs af þeim. Þegar alþjóðasamfélagið felldi niður tolla af vörum sem koma frá fátækustu ríkjum heims var gengið sérstaklega úr skugga um íbúar þeirra kæmust ekki upp með að selja blómaverslunum afskorin blóm á hagstæðu verði.

Það má með sanni segja að umhverfi blómaverslana sé undarlegt. Hvorki innlendir birgjar né ríkisvaldið virðist hafa áhuga á að þær séu starfandi. Viðskiptavilji getur verið sveiflukenndur enda eru menn stundum dyntóttir. Afstaða ríkisvaldsins hefur hins vegar verið óbreytanleg og ósanngjörn.

 

Útvistun verkefna er sjálfsagður kostur

Útvistun verkefna er sjálfsagður kostur

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið, 2. júlí:

Það er almennt talið góð leið til árangurs í rekstri að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni. Þetta á við um allan rekstur hvort sem hann er á vegum hins opinbera og einkafyrirtækja. Það getur t.d. ekki talist kjarnastarfsemi sveitarfélaga að annast þrif á húsnæði í eigu viðkomandi sveitarfélags. Sama lögmál gildir um starfsemi einkafyrirtækja, enda fela þau flest sérhæfðum fyrirtækjum að annast slíkt fyrir sig, m.ö.o þau útvista þrifunum.

Þetta fyrirkomulag er eiginlega svo sjálfsagt að það ætti ekki að þurfa að nefna það. Enda gera flestir atvinnurekendur sér grein fyrir að það felst í því veruleg hagræðing að kaupa þjónustu af aðilum sem hafa sérhæft sig á tilteknum sviðum. Gildir þar einu hvort um er að ræða starfsemi á borð við þrif, bókhald,  hugbúnaðarþjónustu, vöruflutninga eða starfsmannaráðningar.

Það er nú samt einhvern veginn þannig að pólitísk umræða um þessi mál nær aldrei neinu flugi. Þeir sem aðhyllast ríkisumsvif eru vafalaus mjög sáttir við það. Á hinn bóginn hlýtur það að umhugsunarefni fyrir alla þá sem draga vilja úr umsvifum hins opinbera, hversu hægt miðar. Það virðist alls ekki eftirsóknarvert að setja þessi mál á oddinn í pólitískri umræðu, sem leiðir til þess að allar breytingar á þessu sviði gerast á hraða snigilsins.

Í þessu sambandi er ástæða til að rifja upp að árið 2006 höfðu þáverandi stjórnvöld uppi háleitar hugmyndir um útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkaaðila. Þar voru sett metnaðarfull markmið. Síðan eru liðin fjórtán ár. Á þessum árum hefur það helst gerst að umsvif hins opinbera hafa aukist verulega  og meiri tregða en nokkru sinni fyrr er á að fela einkafyrirtækjum verkefni sem eru betur komin þar en hjá hinu opinbera.

Innan Samtaka verslunar og þjónustu er fjöldinn allur af fyrirtækjum sem eru sérhæfð á þeim sviðum sem hér um ræðir. Þessi fyrirtæki eru meira en tilbúin til að taka þessi verkefni að sér, sannfærð um að í felist veruleg hagræðing og góð nýting á almannafé. Nú styttist óðum í næstu alþingiskosningar. Þá gefst þeim stjórnmálamönnum sem draga vilja úr opinberum umsvifum enn eitt tækifærið til að sýna hvað í þeim býr með því að setja raunhæf markmið um tilfærslu verkefna frá hinu opinbera til einkafyrirtækja.

 

 

Útvistun verkefna er sjálfsagður kostur

Höldum áfram – samstaðan mun fleyta okkur langt

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 4. apríl:

Eins og margoft hefur verið sagt á undanförnum vikum er það sameiginlegt viðfangsefni okkar allra að komast í gegn um þann skafl sem við blasir. Og þó að sá vetur sem brátt kveður hafi flutt til okkar fleiri óveðurslægðir en tölu verður á komið, þá var glíman við snjóskafla vetrarins barnaleikur í samanburði við þær appelsínugulu heilsufars- og efnahagslegu viðvaranir sem við nú horfumst í augu við.

Við Íslendingar höfum áður þurft að glíma við erfiðleika og oftast leyst þá með prýði. Við ætlum að gera það einnig núna, enda má segja að við séum hokin af reynslu í þeim efnum. Langflest berum við fullt traust til þess fólks sem skipar framvarðarsveitina og vísar okkur veginn, enda nálgast þau verkefni sitt af yfirvegun og hæfilegri festu. Við höfum einnig fulla ástæðu til að hafa trú á sjálfum okkur og framtíð okkar, enda höfum við aldrei verið eins vel í stakk búin til að takast á við áföll og nú.

Við þessar aðstæður skiptir miklu að allir sem eiga þess kost haldi áfram sínu daglega lífi. Þar með talið að eiga þau viðskipti við verslanir og önnur þjónustufyrirtæki sem hver og einn telur nauðsynleg. Með því móti leggjum við okkar að mörkum til að draga úr neikvæðum afleiðingum þess faraldurs sem á okkur dynur. Með því móti leggjum við einnig okkar að mörkum til að gera þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem nú glíma við mikinn vanda, auðveldara að komast í gegn um erfiðleikana. Þar er sannarlega til mikils að vinna.

Sóttkví eða aðrar ástæður sem gera fólki ómögulegt að fara út úr húsi er þarna engin hindrun. Netverslun og heimsending er mál málanna við þessar aðstæður, enda er fjöldinn allur af verslunum og öðrum þjónustuaðilum farin að bjóða upp á slíkt. Ört stækkandi hópur neytenda nýtir sér þá þjónustu og leggur þar með sitt lóð á vogaskálina við að halda hagkerfinu gangandi.

Sýnum í verki samtakamátt okkar og skiptum við íslensk fyrirtæki. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til.